Launavísitala
Miðvikudaginn 03. maí 1989

     Kristín Halldórsdóttir:
    Hæstv. forseti. Þetta er eins og að hitta gamlan kunningja en reyndar ekki vin eins og sést á nefndarálitum sem dags. eru 22. febr. sl. Það er varla að maður muni hvernig umræða fór fram, þ.e. fyrri hluti þessarar umræðu, en ég vona að það sé ekki rangminni að búið hafi verið að mæla fyrir minnihlutaáliti. En ég vildi segja hér nokkur orð til áréttingar því sem stendur í því minnihlutaáliti sem undirritað er af hv. þm. Matthíasi Bjarnasyni og Hreggviði Jónssyni, auk mín.
    Þetta er hið afleitasta mál í rauninni og fæstum þóknanlegt svo sem sjá má af afgreiðslu þess þar sem aðeins tveir nefndarmanna styðja það í raun og veru. Reyndar hef ég grun um að þeir séu ekkert mjög sannfærðir í stuðningi sínum. Staðreyndin er sú að allir sem nefndin leitaði álits hjá mæltu gegn málinu. Samt ætla stjórnarþingmenn að þjónusta ráðherra sína og hjálpa málinu í höfn gegn betri vitund.
    Ég skrifaði undir þetta nál., sem er á þskj. 537, ásamt hv. þm. Matthíasi Bjarnasyni og Hreggviði Jónssyni og eins og ég sagði áðan tel ég mig muna það rétt að frsm. hafi þegar gert grein fyrir því áliti. Við leggjum þar til að frv. verði vísað aftur til ríkisstjórnarinnar og ástæðurnar koma fram í þessu nál. Það er fyrst og fremst notkun þessarar vísitölu og það hlutverk sem henni er ætlað en ekki vísitalan í sjálfu sér sem ég er andvíg. Það er alltaf verið að reikna út einhverjar vísitölur til að mæla eitt og annað og þarf engin lög í sjálfu sér þar um nema tilgangurinn sé þess eðlis sem hér um ræðir. Öll slík umfjöllun og útreikningar geta haft sín áhrif og hugsanlegur ávinningur af þeirri launavísitölu sem þetta frv. gerir ráð fyrir kann að vera sá að kjararannsóknir verði efldar og fari svo væri ástæða til að fagna því. En það eru auðvitað til aðrar leiðir til að ná þeim ávinningi svo að ekki er það endilega ástæða til þessa frv.
    Á hinn bóginn er svo ástæða til að ætla að svo mikil umfjöllun og birting þessarar vísitölu hafi miklu meiri áhrif en aðrar launavísitölur sem hafa verið reiknaðar og það álit kom fram hjá allmörgum sem nefndin ræddi við. Hér yrði sem sagt um að ræða lögformlega vísitölu sem yrði tekið miklu meira mark á og hefði meiri áhrif. Það er eiginlega hinn sálfræðilegi þáttur málsins sem ástæða er til að hafa áhyggjur af og við víkjum að í nál. minni hl., þ.e. að hér verði um að ræða ákveðinn hvata til launaskriðs sem kemur þannig fram að menn verða sífellt að meta kjör sín út frá breytingum á þessari þungavigtarvísitölu og leitast við að fylgja þeim eftir hvað sem einhverjum samningum líður.
    Aðalatriði þessa máls er tengingin við lánskjaravísitöluna eins og hún var ákveðin með reglugerð 23. janúar sl. Út af fyrir sig er það ekki slæmt að tengja saman laun og lánskjör. Það þarf ekkert að vera slæmt. En það er hins vegar mikill vandi að gera það svo að vel fari og sanngjarnt sé.
    Sú tímasetning sem valin var til þessa verks, þ.e. í janúar sl., þegar launataxtar voru í lágmarki og voru

í algerri lægð vegna launafrystingar og samningsbanns, er alröng og beinlínis ósiðleg. Slík tenging launa og lánskjara má ekki verða þegar launataxtar eru í lágmarki og kaupmáttur í lágmarki. Launafólk hefur að undanförnu verið að og er enn að leita leiðréttingar á kjörum sínum, en þessi ráðstöfun ríkisstjórnarinnar hefur sett launafólk í afar mikinn vanda og er ekki séð fyrir endann á því. Það má ætla að það hafi á vissan hátt rekið fleyg á milli þeirra sem skulda að einhverju marki og hinna sem ekki þurfa að taka tillit til áhrifa launahækkana á lánskjörin. Hins vegar munu fjármagnseigendur og lánveitendur fagna hverri kaupmáttaraukningu. Þeir fá fyrirhafnarlaust hlutdeild í kaupmáttaraukningu samtímans vegna veittra lána á fyrri tíð, allt sem sagt gulltryggt á þeim bæjum.
    Það er svo aftur enn einn angi þessa máls hvort reglugerðin frá 23. jan. styðst í reynd við lög. Um það eru miklar efasemdir eins og við vísum til í nál. minni hl. og það er ekki síst þess vegna sem okkur þykir rétt að endursenda hæstv. ríkisstjórn frv. svo að hún geti athugað sinn gang og haft svolítið fastara land undir fótum í þessu efni. Það er ekki beint fallegur svipur á því né álitsauki fyrir hv. Alþingi að ætla með lögfestingu þessa frv. að staðfesta og styðja stjórnvaldsaðgerðir sem hugsanlega stríða gegn lögum.