Launavísitala
Miðvikudaginn 03. maí 1989

     Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson):
    Herra forseti. Ég sagði einhvern tímann um frv. sem hv. síðasti ræðumaður flutti um afnám lánskjaravísitölu að það hefði verið besta mál sem lagt var fyrir síðasta þing og ég tek undir það sem hann hefur sagt um afnám lánskjaravísitölunnar. Hins vegar þótti mér leitt að hlusta á hv. þm. rugla saman launavísitölu og lánskjaravísitölu. Launavísitala er reiknuð í dag og allir hafa aðgang að henni sem vilja. Hún er reiknuð án þess að stoð sé í lögum. Ég tek undir það með hv. þm. að höfuðmálið er vitanlega afnám lánskjaravísitölu og í stjórnarsáttmála er gert ráð fyrir að það verði gert þegar jafnvægi er fengið í efnahagsmálum sem allt bendir til að muni verða fram undan.
    En út af orðum hv. 1. þm. Suðurl. vil ég segja að þar til dómstólar ákveða annað gildir í viðskiptum lífeyrissjóðanna og ríkissjóðs sú vísitala sem Seðlabankinn hefur síðast auglýst og það er sú vísitala sem tekur inn launavísitölu að einum þriðja.