Vernd barna og ungmenna
Föstudaginn 05. maí 1989

     Fyrirspyrjandi (Guðrún Agnarsdóttir):
    Virðulegi forseti. Í byrjun desember á þinginu 1987 flutti ég ásamt hv. þm. Danfríði Skarphéðinsdóttur frv. til laga um breytingu á lögum nr. 33/1983, um bann við ofbeldiskvikmyndum. Breytingin sem við lögðum til var gerð til að koma í veg fyrir að lögin féllu úr gildi við þau áramót og var fólgin í því að fella brott sólarlagsákvæði sem sett voru í lögin við samþykkt þeirra. Frv. okkar var samþykkt og lögin því framlengd.
    Við umræður um frv. kom fram í máli hæstv. þáv. menntmrh. að skipuð hefði verið nefnd 22. apríl 1987 til að endurskoða þessi lög. Ráðherra gat þess einnig að nefndin teldi æskilegt að fella saman ákvæði um bann við ofbeldiskvikmyndum og ákvæði um skoðun kvikmynda en slík ákvæði eru nú í lögum um vernd barna og ungmenna. Þá gat ráðherra þess enn fremur að þau lög væru einnig í heildarendurskoðun. Er það vel því að löngu er tímabært að endurskoða þau lög og færa til nútímahorfs og þá til samræmis við þarfir og hagsmuni barna og ungmenna. Þjóðfélagshættir hafa mikið breyst á þeim 23 árum síðan lögin voru sett og nægir að minnast á þá miklu breytingu sem orðin er á högum fjölskyldunnar. Árið 1960 var atvinnuþátttaka giftra kvenna utan heimilis 20% en var orðin 83% árið 1985. Þessi staðreynd, auk margra annarra, kallar á aukna ábyrgð samfélagsins til verndar börnum og ungmennum.
    Þann 8. des. 1988 gerði ég ásamt hv. þm. Danfríði Skarphéðinsdóttur fsp. til hæstv. menntmrh. varðandi þessi lög um ofbeldiskvikmyndir en einnig um heildarendurskoðun laga um vernd barna og ungmenna. Í svari ráðherra kom fram að nefnd hefði verið skipuð í ráðuneytinu 1987 sem hefði starfað óslitið að þessu verkefni. Hún hefði áhuga á að ljúka störfum sem fyrst en það hefði nokkuð tafist vegna þess hversu viðamikið verkefnið hefði verið, en mundi von bráðar skila tillögum til ráðuneytisins. Þetta var sem sé í desember sl.
    Því hef ég nú beint fsp. til hæstv. menntmrh. um þetta mál að nýju þar sem ég tel það mikilvægt og nauðsynlegt að minna á það.