Vernd barna og ungmenna
Föstudaginn 05. maí 1989

     Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson):
    Virðulegi forseti. Það var 18. nóv. 1988 sem mér barst bréf frá þeirri nefnd sem endurskoðar lög um vernd barna og ungmenna og í lok bréfs nefndarinnar segir: ,,Nefndin hefur áhuga á að ljúka störfum sem fyrst en vegna þess hve viðamikið verkefnið er þykir ekki ráðlegt að tímasetja starfslok nánar.``
    Ég hafði það þó upp úr samtölum við nefndarmenn og formann nefndarinnar á þeim tíma að gera mætti ráð fyrir því að fljótlega eftir áramót væri hægt að gera ráð fyrir því að ráðuneytið fengi frv. í hendur og reiknaði ég satt að segja með því, m.a. við framlagningu lista um hugsanleg mál á vegum menntmrn. sem tekin yrðu fyrir á yfirstandandi þingi, að þetta yrði eitt þeirra mála. Því miður hefur sú verkáætlun nefndarinnar ekki staðist. Málefni þau sem hún fjallar um eru flókin og ætla ég ekki að fara yfir það frekar hér, en vegna þess hversu mál hafa dregist lagði ég þessa spurningu fyrir formann nefndarinnar: Hvenær er þess að vænta að nefndin skili áliti? Og formaður nefndarinnar svaraði mér með bréfi sem er dags. 24. apríl 1989 og er á þessa leið, með leyfi forseta:
    ,,Endurskoðun laga um vernd barna og ungmenna, nr. 53/1966, hefur nú staðið yfir í tæp tvö ár. Verkefni þetta er viðamikið, enda var tekin sú afstaða að nauðsynlegt og skynsamlegt væri að endurskoða lögin í heild. Þegar litið er til þeirra hagsmuna sem í húfi eru varðandi öryggi og velferð barna og ungmenna er ljóst hve mikilvægt er að vanda vel lagasetningu um barnavernd. Sérstaka áherslu þarf að leggja á að skilgreina réttarstöðu barna og ungmenna sem best. Gengið hefur verið út frá því að börn þurfi að njóta sérstakrar verndar vegna þess að þau eru börn. Á hinn bóginn er vandasamt að sjá fyrir með hvaða hætti réttur þeirra verði nægjanlega vel tryggður.
    Nefnd sú sem skipuð var til að endurskoða lögin um vernd barna og ungmenna hefur athugað sérstaklega hvernig réttur barna og ungmenna er tryggður í öðrum löndum, einkum á Norðurlöndunum, en þar hefur farið fram endurskoðun á barnaverndarlögum á síðari árum. Þá hefur nefndin haldið fundi með ýmsum aðilum sem hafa reynslu og þekkingu á málefnum barna og ungmenna og einnig hefur hún haft samstarf við nefndir sem hafa haft með höndum endurskoðun á lögum sem tengjast börnum og barnavernd. Endurskoðun laganna er nú á lokastigi, en fyrirhugað er að nefndin skili tillögum að lagafrumvarpi til ráðuneytisins þann 10. maí nk.``
    Undir bréfið skrifar Sigríður Ingvarsdóttir fyrir hönd nefndarinnar.
    Ég vænti þess að þetta svari fsp. hv. þm. og greini jafnframt frá því að ég er reiðubúinn til þess að láta þessi frumvarpsdrög, þegar þau koma, ganga til þeirra þingmanna sem áhuga hafa eða sýnt hafa þessum málaflokki áhuga því að það er auðvitað nauðsynlegt að um mál af þessu tagi sé sem víðtækust samstaða hér á hv. Alþingi.