Óli Þ. Guðbjartsson:
    Hæstv. forseti. Ég þakka hv. félmn. fyrir þá vinnu sem hún hefur lagt í þetta mál, fyrir nál. og jákvæða umfjöllun sem málið hefur fengið. Það er rétt, sem fram kemur í nál., að frumvarp það um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga sem nú er til umfjöllunar í Nd. Alþingis kemur þessu máli við og er athygli vert að tillögunni í því frumvarpi sem upphaflega var lögð fram í Ed. fyrr á þessum vetri hefur nú verið breytt til þess horfs sem nú er í lögum. En með tilliti til þess og raunar margs sem kemur fram í nál. og ekki síst þeirrar vinnu sem þegar mun hafin í heilbr.- og trmrn. um þessi efni get ég út af fyrir mig alveg fallist á þá niðurstöðu að till. verði vísað til ríkisstjórnarinnar og vænti þá þess að málið fái þar farsælan framgang.