Ráðstafanir vegna kjarasamninga
Laugardaginn 06. maí 1989

     Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson):
    Herra forseti. Í tengslum við kjarasamninga á hinum almenna vinnumarkaði átti ríkisstjórnin fjölmarga og ítarlega fundi með aðilum að þeim kjarasamningum, bæði fulltrúum launþega og sömuleiðis fulltrúum vinnuveitenda. Á þeim fundi kom fram að vegna þeirrar afar þröngu stöðu sem er í íslenskum efnahagsmálum nú væri að mati þessara aðila óhjákvæmilegt að ríkisvaldið kæmi að nokkru inn í þá samninga. Lögðu báðir aðilar fram ýmsar hugmyndir um það hvernig slíkt gæti orðið.
    Ríkisstjórnin taldi sér skylt að stuðla að því að samningar gætu tekist, enda var afar góður skilningur á því hjá verkalýðshreyfingunni að í núverandi stöðu yrðu samningar að vera hóflegir. Ég vil taka það fram að það var og er skoðun mín að í þessari stöðu sé að ýmsu leyti æskilegra að hinn almenni markaður leiði samningana og síðan fylgi á eftir samningar við opinbera starfsmenn. Um tíma leit út fyrir að svo mundi verða en því miður varð það ekki og skal ég ekki rekja ástæðurnar til þess hér.
    Hins vegar eru þeir lokasamningar sem voru gerðir innan þeirra marka sem stjórnvöld höfðu gert við Bandalag starfsmanna ríkis og bæja og þó að þarna sé um samninga að ræða sem eru 2--3 hundraðshlutastigum umfram það sem þjóðhagsáætlun hefur gert ráð fyrir, þá hygg ég að því verði alls ekki á móti mælt að þeir eru mjög hógværir og varla þess að vænta að samningar á lægri nótum yrðu gerðir.
    Það er líka athyglisvert að Bandalag starfsmanna ríkis og bæja leiddi þá hugmynd að semja um krónutöluhækkun, þ.e. mesta hækkun fyrir þá lægst launuðu, og þessi hugmynd varð sömuleiðis ofan á í hinum almennu samningum. Ég vil lýsa þeirri skoðun minni að þetta er skynsamleg samningagerð í þessari stöðu. Hinu verður þó ekki neitað að þessir samningar verða erfiðari fyrir fiskvinnsluna því að hækkun hjá fiskvinnslunni þar sem mikið af láglaunafólki starfar verður því að sjálfsögðu í hundraðshlutum meiri.
    Ríkisstjórnin skrifaði aðilum vinnumarkaðarins bréf sem dags. er 30. apríl og ég ritaði fyrir hönd ríkisstjórnarinnar. Bréf þessi fylgja hér með og kemur þar fram í hverju ríkissjórnin hét að beita sér fyrir lagasetningu og öðrum aðgerðum til þess að samningar mættu takast.
    Frv. það sem ég mæli nú hér fyrir er flutt í þeim tilgangi að standa við þær skuldbindingar og fara fram á það við hið háa Alþingi að þær breytingar verði gerðar á gildandi lögum sem þarna koma fram. Í fyrsta lið í bréfi til Vinnuveitendasambands Íslands og Vinnumálasambands samvinnufélaganna er fjallað um stöðu sjávarútvegsins. Fyrst og fremst var fjallað um stöðu botnfiskveiða og vinnslu, enda er staða þessara greina hvað erfiðust. Um hana urðu miklar umræður bæði á fyrri fundum og á lokafundi með fulltrúum Vinnuveitendasambandsins og Vinnumálasambands samvinnufélaganna og niðurstaðan varð sú grein sem er 1. gr. í þessu bréfi sem ég vísa til. Í bréfinu segir m.a. að ríkisstjórnin muni beita sér fyrir því að samkeppnisstaða útflutningsgreina verði viðunandi á

samningstímanum.
    Hér er að sjálfsögðu um mjög mikilvæga yfirlýsingu að ræða, en hins vegar yfirlýsingu sem er langt frá því að vera einföld í framkvæmd og þarf vitanlega að gæta fjölmargra þátta þegar hún er metin. ( HBl: Hvernig skilur forsrh. þessa yfirlýsingu?) Ég kem að því, hv. þm., ég vona að hann fái orðið hér á eftir. Hann er vanur að taka góðan tíma í ræðustól.
    Ég vil geta þess að samkvæmt mati Seðlabanka Íslands valda þessir samningar því að raungengi hinnar íslensku krónu á grundvelli launa hækkar um tæplega 3%. Raungengi á grundvelli verðlags hækkar hins vegar um 7% og hefur þegar hækkað vegna þeirra verðhækkana sem fylgdu í kjölfar verðstöðvunar. Að mati fiskvinnslunnar sjálfrar valda þessir samningar, þegar allt er komið fram, um það bil 3% lakari samkeppnisstöðu eða afkomu fiskvinnslunnar, samningarnir sem slíkir að mati fiskvinnslumanna. Í upphafi og þær upphafshækkanir sem koma valda lakari afkomu sem nemur um 1,5% í afkomu. Hins vegar telur fiskvinnslan að afkoma fiskvinnslunnar sé ekki rétt metin í gögnum Þjóðhagsstofnunar og ber þar fyrst og fremst á milli mat á fjármagnskostnaði.
    Í gögnum Þjóðhagsstofnunar er talið að fiskvinnslan sé 1 / 2 % í mínus fyrir þessa samninga og skiptist það þannig að frystingin er talin vera 2% í mínus en söltunin 2% í plús. Veiðar eru hins vegar taldar vera 4,5% í mínus þrátt fyrir síðustu fiskverðsákvarðanir. Hér er því um það að ræða að að mati fiskvinnslunnar er þessi meðalafkoma ekki mínus 1 / 2 % heldur nær mínus 2--3% og skal ég út af fyrir sig ekki gera upp á milli þessara mælikvarða en hygg þó að rétt sé hjá fiskvinnslunni að gífurlegur fjármagnskostnaður hennar sé ekki rétt metinn eða nægilega hátt metinn hjá Þjóðhagsstofnun.
    Þegar metin er staða fiskvinnslunnar verður að taka fjölmarga hluti til greina. Í fyrsta lagi eru það að sjálfsögðu hin ytri skilyrði og þar er númer eitt verðlag á okkar afurðum erlendis. Því hefur verið spáð að verð á frystum afurðum og sjávarafurðum almennt muni hækka á Evrópumarkaði á næstu mánuðum og er allt enn sem bendir til þess þótt vera megi að sú hækkun dragist eitthvað. Sömuleiðis hefur innbyrðis hlutfall í gengi á milli dollara og annarra
gjaldmiðla töluverð áhrif á afkomu fiskvinnslunnar því að töluvert mikið og meira tiltölulega heldur en nemur útflutningnum er selt í dollurum, þ.e. fisksala til Sovétríkjanna auk Bandaríkjanna, og sömuleiðis vegur dollarinn þungt í svokallaðri SDR-mynt. Dollarinn hefur upp á síðkastið hækkað mikið eða frá því að hann var í lægð á síðasta ári um u.þ.b. 50% og hefur það tvímælalaust bætt afkomu þeirra húsa sem flytja meira út á Bandaríkjamarkað eða þau markaðssvæði þar sem greitt er í dollurum.
    Að sjálfsögðu þarf einnig að taka tillit til þess hvernig innri aðstæður eru, þ.e. í fyrsta lagi fiskverð og í öðru lagi ýmiss konar hagræðingarátak sem nú er gert innan fiskvinnslunnar, hvernig það kemur út, en það er mjög mikið um slíkt, sem betur fer, og margt

af því sem þar er verið að gera lofar góðu. Þá á ég ekki aðeins við starfsemi Atvinnutryggingarsjóðs og Hlutafjársjóðs, sem mun væntanlega afgreiða sín fyrstu mál núna alveg á næstunni og er núna í viðræðum við Landsbanka og Fiskveiðasjóð um þau mál sem eru tilbúin, heldur vil ég einnig nefna hagræðingu sem fer fram á vegum fiskvinnslufyrirtækjanna sjálfra.
    Þegar þessir hlutir og fleiri eru allir metnir verður jafnframt að taka afstöðu til greiðslu úr Verðjöfnunarsjóði og í þeirri grein sem ég vísaði til áðan er fram tekið að greiðslur úr Verðjöfnunarsjóði verði lækkaðar á næstu mánuðum þannig að þær falli niður um næstu áramót. Þetta verður að meta annars vegar um leið og verð á okkar sjávarafurðum er metið hins vegar erlendis. Þetta var ítarlega rætt við fiskvinnsluna og komu fram þar ýmsar hugmyndir um í hvaða þrepum þetta mætti lækka. Greiðsla uppsafnaðs söluskatts fellur niður frá 1. júní og það nemur 1%. Nokkurt fjármagn er eftir í Verðjöfnunarsjóði þannig að halda má áfram greiðslu 5% að öllum líkindum langleiðina út júnímánuð. Hins vegar hefur verið talað um það sem æskilegt markmið að lækka síðan greiðsluna í 4% og halda því þannig fram í september og síðan niður í 3% eða 2% eftir því hvernig verðlagsþróun verður erlendis, en fella hana síðan alveg niður um áramótin.
    Vegna þessa samkomulags er farið fram á það í 1. gr. frv. að heimild verði veitt til 400 millj. kr. lántöku sem verði látin renna til frystideildar Verðjöfnunarsjóðs, 350 millj. kr. vegna freðfisks, en 50 millj. kr. vegna hörpudisks. Ég vil um þetta segja að hér er kannski nokkuð mikið í lagt. Þetta gæti dugað til þess að halda fullum verðbótum út árið sem ríkisstjórnin vonast til að alls ekki verði þörf á vegna verðhækkana erlendis. Ef sú verður niðurstaðan í meðferð nefndar, að þetta mætti lækka, þá tel ég óhætt að lækka þessa tölu t.d. í 300 millj. kr.
    Hér spyrja menn að sjálfsögðu um það hvað verður um gengi. Gengi verður ekki haldið stöðugu í 20% verðbólgu. Ég held að það sé öllum orðið ljóst eftir að það var reynt 1987--1988 að það er að sjálfsögðu ekki framkvæmanlegt. Gengisfellingar eru hins vegar hlutur sem menn eiga ekki að rasa um ráð fram að framkvæma því að þær hafa víðtækar afleiðingar á fjölmörgum sviðum þjóðfélagsins. Ríkisstjórnin mun því meta ítarlega stöðu sjávarútvegsins með tilliti til þess sem ég nefndi hér áðan og gengi mun að sjálfsögðu síga eitthvað á næstu vikum til þess að ná þeirri samkeppnisstöðu sem heitið er. En jafnframt hefur ríkisstjórnin fallist á ýmsar aðrar lagfæringar gagnvart atvinnuvegunum sem koma fram í þessu frv. og eru, vona ég, taldar nokkuð mikils virði ekki síst af sumum hv. stjórnarandstæðingum sem hafa gagnrýnt þá skatta mjög verulega.
    Í fyrsta lagi er lagt til að skattur á erlendar lántökur verði felldur niður frá 1. júlí. Hann er núna 6%. Þetta mun kosta ríkissjóð um 100 millj. kr. í tekjutap. Þessi skattur var á lagður til þess að draga úr lántöku til fjárfestinga. Nú hefur mjög dregið úr þenslunni og ríkisstjórnin telur því skynsamlegt bæði

vegna atvinnuveganna, að létta af þeim þessari skattheimtu, og einnig vegna hins, að frekar er nú orðin hætta á samdrætti heldur en þenslu, að fella þennan skatt niður. Og er lagt til að það verði gert, eins og ég sagði, frá 1. júlí 1989.
    Í öðru lagi er það lagt til að skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði lækki úr 2,2% í 1,5% við skattlagningu í ár. Hér er um svipaðar forsendur að ræða. Það hefur orðið afar mikill samdráttur í fjárfestingu á þessu sviði. Þar er um mjög mikla offjárfestingu að ræða. Það eru miklir erfiðleikar fram undan af þeim sökum og því talið eðlilegt að lækka þessa skattheimtu.
    Í þriðja lagi er lagt til að vörugjald á timbur, járn og blikk verði fellt niður frá 1. sept. nk. og af öðru hráefni til þess iðnaðar sem á þessu byggir. Hér eru talin upp tollskrárnúmer, en ég vek athygli á því að í greinargerð fylgja með þau heiti sem fleiri skilja á þeim ýmsu hlutum sem vörugjaldið er þannig fellt niður af. Mér láðist að geta þess áðan að lækkun á skatti á verslunar- og skrifstofuhúsnæði mun þýða í tekjutap fyrir ríkissjóð um það bil 100 millj. kr. En niðurfelling þessa vörugjalds mun þýða um 350 millj. kr. tekjutap fyrir ríkissjóð --- og það er æðimikið. Hins vegar hefur sýnt sig að framkvæmd þessa vörugjalds er afar erfið. Um fjölmörg aðföng er að ræða til margra iðnfyrirtækja hér á landi og þeir útreikningar sem þessu fylgja eru
margslungnir og erfiðir fyrir lítil iðnfyrirtæki. Um þetta hafa farið fram ítarlegar viðræður við fulltrúa iðnaðarmanna og þar rætt um fleiri leiðir til að létta þessu af eða gera þetta auðveldara í framkvæmdinni, en niðurstaðan var sú sem hér segir í fullu samkomulagi við þá.
    Hins vegar telur ríkisstjórnin að með tilliti til þess að söluskattur hefur verið hækkaður hér í 25% síðan jöfnunargjald var ákveðið 3% og breikkað mjög, þá sé það vel verjanlegt að hækka jöfnunargjaldið á erlendar iðnaðarvörur úr 3% í 5% auk þess sem vitað er að í fjölmörgum löndum sem flytja hingað iðnaðarvörur tíðkast ýmiss konar aðstoð við heimaiðnað. Og að vandlega athuguðu máli er ég sannfærður um það að hér er ekki gengið of langt í þessu sambandi. Þetta mun gefa í aðra hönd 250 millj. kr. tekjuauka þannig að segja má að af niðurfellingu þessara skatta verði tekjutap ríkissjóðs um 300 millj. kr.
    Í því bréfi sem ritað var aðilum vinnumarkaðarins koma fram fjölmörg áhugamál launþega sem ríkisstjórnin hefur heitið að taka á og flest af þeim málum eru þess eðlis að þau þýða ekki útgjöld fyrir ríkissjóð heldur lagfæringar á ýmsum --- ja, við getum kallað réttinda- og velferðarmálum sem launþegar meta mikils. Það var alveg sérstaklega rætt um atvinnuástand og lögð mikil áhersla á það af þeirra hálfu að allt yrði gert til þess að koma í veg fyrir mikið atvinnuleysi. Ríkisstjórnin féllst á, og telur reyndar æskilegt, og reyndar bauð ríkisstjórnin það fyrst í þessum umræðum að sett yrði á fót samstarfsnefnd ríkisstjórnarinnar og aðila vinnumarkaðarins til að fjalla um þróun atvinnuástands

og gera tillögur um úrbætur ef þar þykir stefna í hættu.
    Sömuleiðis leggja aðilar vinnumarkaðarins, alveg sérstaklega fulltrúar Alþýðusambands Íslands, mjög mikla áherslu á að aðhald verði í verðlagsmálum og vekja athygli á því að 1986 þegar aðhald var með m.a. samstarfi við verkalýðshreyfinguna, þá tókst að ýmsu leyti vel og hafa þeir lagt til að slíkt samstarf verði tekið upp að nýju þannig að fulltrúar verkalýðshreyfingarinnar víða um landið fái aðstöðu til að fylgjast með verðlagi og gefa skýrslur um ef úr böndum þykir fara og ríkisstjórnin telur sjálfsagt að þiggja það samstarf. Sérstaka áherslu leggur Alþýðusamband Íslands á það að verðhækkunum á landbúnaðarvörum verði haldið í skefjum. Það sama gerði Bandalag starfsmanna ríkis og bæja. Og í fullu samræmi við það loforð sem Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja var gefið hefur ríkisstjórnin ákveðið að halda áfram þeirri sérstöku niðurgreiðslu á landbúnaðarafurðum og verja til þeirra 500--600 millj. kr. út þetta ár þannig að krónutölunni verði haldið þeirri sömu. Mjög er líklegt að á haustþingi þurfi að leita heimilda Alþingis til þess að bæta við niðurgreiðslur ef þeim lyki þá um það bil í desembermánuði. En þess er ekki þörf nú. Þetta rúmast að sjálfsögðu innan þess fjármagns sem ætlað er í niðurgreiðslu á þessu stigi.
    Það er einnig athyglisvert að fulltrúar Alþýðusambandsins lýstu mjög miklum áhyggjum af þeirri þróun sem hefur orðið hér upp á síðkastið í sambandi við gjaldþrot fyrirtækja þar sem menn hafa leikið sér að því að stofna ný fyrirtæki og losa sig við skuldir við ríkissjóð, opinber gjöld og fleira sem þeir skilja eftir hjá gjaldþrota fyrirtæki, og væri satt að segja þakkarvert ef fleiri tækju sér það til fyrirmyndar sem Alþýðusamband Íslands gerir í þessu sambandi. Að sjálfsögðu hafa ýmsir launþegar orðið fyrir barðinu á þessari starfsemi og ekki fengið laun sín greidd fyrr en eftir dúk og disk þegar ríkisábyrgð hefur þar gripið inn í.
    Aðilar vinnumarkaðarins lýstu einnig miklum áhuga á því að vextir yrðu lækkaðir og má segja að hér sé fyrst og fremst um áherslupunkt í því sambandi að ræða. Þá tjáðu þeir sig hafa mikinn áhuga á því að byggðar yrðu félagslegar íbúðir eða íbúðir eftir félagslega íbúðakerfinu á þessu ári, en ekki hafði verið ætlað að hafnar yrðu byggingar á slíkum íbúðum nú. Hins vegar eru um 100 millj. kr. til taks í hinu félagslega íbúðakerfi og sömuleiðis bendir allt til þess að kaup lífeyrissjóðanna á skuldabréfum Húsnæðisstofnunar verði meiri en gert var ráð fyrir og loks er af atvinnuástæðum afar æskilegt að minni sveiflur verði í byggingum slíkra íbúða en verið hafa. Á síðasta ári voru 800 slíkar íbúðir í byggingu en í ár er ekki hafin bygging á neinni. Ríkisstjórnin telur því af þessum ástæðum öllum eðlilegt að mæla með því við Húsnæðisstofnun að hafnar verði byggingar á 200 íbúðum á þessu ári.
    Í þessu sambandi, án þess að ég fari nú að rekja, herra forseti, nákvæmlega öll atriði hér, þetta hefur nú

þegar verið rakið nokkuð m.a. í umræðum hér á hinu háa Alþingi, þá vil ég geta þess að í sambandi við þau vilyrði sem gefin hafa verið fulltrúum Alþýðusambands Íslands þarf að gera nokkrar breytingar á lögum og skal ég nú rekja það.
    Í 6. gr. þessa frv. er lagt til að við 22. gr. laga um atvinnuleysistryggingar bætist ný málsgrein sem verði 3. mgr. og hljóði svo, með leyfi forseta:
    ,,Til að bregðast við langvarandi og verulegu almennu eða staðbundnu atvinnuleysi er stjórn sjóðsins heimilt að lengja bótatímabilið skv. 2. mgr. í 260 daga.`` Hér er um mál að ræða sem að sjálfsögðu er háð samkomulagi aðila að
Atvinnuleysistryggingasjóði, þ.e. vinnuveitenda og Alþýðusambands Íslands og launþega, og er um það fullt samkomulag hjá þeim aðilum báðum að þessi heimild verði veitt þannig að lengja megi bótaskylduna.
    Sömuleiðis kom fram, eins og ég sagði áðan, hjá fulltrúum Alþýðusambandsins mikil áhersla á að Atvinnuleysistryggingasjóður gæti tímabundið greitt atvinnuleysisbætur til þeirra sem atvinnuna missa við gjaldþrot og eru bótalausir, a.m.k. þangað til ríkissjóður getur gripið inn í með sínum ábyrgðum, en það er ekki fyrr en gjaldþrot er orðið staðfest. Til þess að stuðla að því að svo geti orðið er 7. gr. þessa frv. sem heimilar Atvinnuleysistryggingasjóði að annast slíkar greiðslur. Jafnframt vil ég geta þess að hér fyrir Alþingi liggur frv. þingmanna um endurkröfurétt Atvinnuleysistryggingasjóðs á ríkissjóð í slíkum tilfellum og mjög nauðsynlegt er að það frv. verði að lögum um leið og þetta frv. er afgreitt frá hinu háa Alþingi. Það þarf í raun að haldast í hendur til að þessi framkvæmd geti orðið. Hins vegar er það í raun ýmsum erfiðleikum háð að framkvæma þetta mál. Þetta er nokkuð flókið þegar um gjaldþrot er að ræða, en þeir sem kunnugastir eru slíkri framkvæmd telja að úr því megi leysa með þeirri heimild sem er í lögum til að setja reglugerð um þessi mál.
    Í þessu sambandi vil ég geta þess fyrir nefndina að athuga að mörgum finnst afar óeðlilegt að ekkert hámark er á þeim launum sem ríkissjóði ber að greiða starfsmönnum við gjaldþrot. Það finnst mér persónulega afar óeðlilegt, að menn geti skráð sig þar í háum launum og síðan falli þær launagreiðslur á ríkissjóð. Ég vil koma því hér á framfæri við hv. nefnd að það verði skoðað og mætti þá setja takmarkanir í það frv. sem er til meðferðar.
    Herra forseti. Að sjálfsögðu mætti margt fleira um þetta mál segja. Ég skal þó stytta mjög mál mitt. Ég held að því verði alls ekki á móti mælt að hér er um mjög hógværa samninga að ræða og þó að launahækkun hjá fiskvinnslunni sé um 10,6% að mati Þjóðhagsstofnunar, þá verðum við að minnast þess að fiskvinnslan hafði samið um 8,5% fiskverðshækkun og þetta er ekki mjög úr takt við það. Einnig verðum við að gæta þess að það er fyrst og fremst krónutöluhækkunin sem þessu veldur að hundraðshlutahækkunin verður meiri hjá fiskvinnslunni. Að mati Þjóðhagsstofnunar hins vegar

er meðallaunahækkunin um 8,5--9% sem er í raun nákvæmlega sú tala sem Bandalag starfsmanna ríkis og bæja samdi um svo að þessir samningar eru í fullu samræmi við þá samninga sem Bandalag starfsmanna ríkis og bæja samþykkti. Því verður svo heldur alls ekki neitað að þessir samningar út af fyrir sig eru ekki þannig að þeir fyrst og fremst íþyngi fiskvinnslunni. Eins og ég sagði áðan, þá íþyngja þeir þegar allt er komið fram á haustmánuðum fiskvinnslunni um u.þ.b. 3%. Þarna valda aðrir hlutir jafnvel meiri erfiðleikum og fyrst og fremst gífurlegur fjármagnskostnaður sem gerir fiskvinnslunni nánast ókleift að standa undir nokkurri hækkun og afar miklir erfiðleikar, því miður fjölmargra fyrirtækja í fiskvinnslunni. Ég get upplýst það að Atvinnutryggingarsjóður er nú búinn að afgreiða um 80 fyrirtæki, en hefur neitað um 40 og mörg þeirra fyrirtækja eru í þeirri stöðu að alls ekki er séð hvernig þeirra erfiðleikar verða leystir. Hlutafjársjóður er með 16 fyrirtæki til meðferðar nú og miðar þar vel mati á þeim.
    Herra forseti. Ég vil að lokinni þessari umræðu leggja til að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.