Ráðstafanir vegna kjarasamninga
Laugardaginn 06. maí 1989

     Danfríður Skarphéðinsdóttir:
    Virðulegi forseti. Enn einu sinni stöndum við frammi fyrir skyndilausnum og hringlandahætti varðandi efnahags- og atvinnumálin. Nú er verið að draga til baka skatta sem voru lagðir á um áramótin með samþykki stjórnarliða. Það vekur vissan grun manns um að verið sé að leggja þessa skatta á til þess að eiga svo einhverja skiptimynt til þess að gefa til baka þegar að kjarasamningum kemur. Það vekur í raun nokkra furðu hve liðleg hæstv. ríkisstjórn er gagnvart vinnuveitendum varðandi niðurfellingu á sköttum og gjöldum, sérstaklega þegar hugsað er til þess hversu mikillar stífni gætir alltaf þegar upp koma spurningar um að minnka skattbyrðar launafólks. Nægir þar að minna t.d. á matarskattinn sem hefði í sjálfu sér getað orðið ágætis svokölluð ,,skiptimynt`` í kjarasamningum fyrst á annað borð var búið að stíga það óheillaspor að leggja hann á. Það er líka ein leið eða tæki sem stjórnvöld hafa til þess að greiða fyrir kjarasamningum að koma til móts við launþega með því að minnka þeirra skattbyrðar, en það virðist æði erfitt að láta undan í þeim efnum. Með þessum orðum er ég þó alls ekki að gera lítið úr nauðsyn þess að skapa atvinnulífinu lífvænleg skilyrði því sennilega hefur atvinnulífið sjaldan eða aldrei staðið svo höllum fæti sem nú. Ekki er að undra þó að hæstv. forsrh. endurtæki hvað eftir annað í ræðu sinni áðan að nauðsyn sé á lagfæringum til handa atvinnulífinu, eða eitthvað á þá leið.
    Ég ætla aðeins að drepa á örfá atriði varðandi frv. sem hér liggur fyrir við 1. umr. Eins og ég gat um áðan þá endurtekur það sig nú enn og aftur að verið er að breyta nýteknum ákvörðunum og það á við um nokkrar greinar í frv. Vörugjaldið t.d., sem stjórnarliðar samþykktu hér um áramótin, er klúður og mistök frá upphafi og við kvennalistakonur vöruðum reyndar við því og reyndum að afstýra því að það yrði samþykkt um áramótin. Það hefur reyndar komið fram í máli hæstv. iðnrh. að þetta mál var mistök frá upphafi. Núna fjórum mánuðum eftir að gjaldið var lagt á eru þeir sem málið snertir ekki komnir til botns í framkvæmd þess þar sem erfitt hefur reynst að móta reglur og skýra hverjir eiga að greiða þennan skatt. Nú stendur til að fella hann niður frá 1. sept. nk. Ég tel afar óheppilegt að svo langur aðdragandi skuli vera að niðurfellingu skattsins því að það er auðvitað fyrirsjáanlegt að kaupendur muni bíða og hvað eiga t.d. iðnaðarmenn að gera í sumar sem nú þegar hafa birgt sig upp. Mig langar til að spyrja hæstv. forsrh. hvort ríkisstjórnin hefði engar áhyggjur af því ástandi sem kynni að skapast í sumar vegna þess að það myndast nokkurs konar biðstaða, fólk mun fresta kaupum eins og það getur þangað til vörugjaldið hefur verið af lagt í haust.
    Ég ætla aðeins að víkja að 6. og 7. gr. frv. sem báðar fela í sér íþyngjandi verkefni fyrir Atvinnuleysistryggingasjóð. Ekki vil ég draga í efa nauðsyn þess að tryggja því launafólki atvinnuleysisbætur sem verður annaðhvort fyrir staðbundnu atvinnuleysi eða gjaldþroti fyrirtækja sem

það vinnur hjá. Ég hlýt hins vegar að hafa nokkrar áhyggjur af stöðu Atvinnuvinnuleysistryggingasjóðs. Sl. haust setti hæstv. ríkisstjórn bráðabirgðalög sem ekki einungis fólu í sér launafrystingu og samningsbann heldur einnig um 600 millj. kr. skerðingu á lögbundnum framlögum ríkisins til sjóðsins. Við kvennalistakonur töldum ekki rétt að skerða þessi framlög, ekki síst í ljósi þess ótrygga atvinnuástands sem ríkti og virðist ekki vera að skána. Þegar við fjölluðum um bráðabirgðalögin í fjh.- og viðskn. höfðu fulltrúar stjórnar Atvinnuleysistryggingasjóðs þá þegar áhyggjur af stöðu hans, bæði með tilliti til hins ótrygga atvinnuástands svo og þeirra auknu verkefna sem sjóðurinn hefur orðið að taka á sig á síðustu árum, t.d. vegna eftirlauna aldraðra og fæðingarorlofs.
    Nú vil ég spyrja hæstv. forsrh., ef hann getur svarað mér auðvitað, hver sé staða Atvinnuleysistryggingasjóðs nú og hver séu áætluð aukaútgjöld hans vegna þessara tveggja greina. Það hlýtur að liggja fyrir einhver áætlun um hvað gæti gerst í staðbundnu atvinnuleysi a.m.k. þó að alltaf sé erfitt að sjá fyrir um gjaldþrot fyrirtækja. Það er vissulega rétt, sem fram kom hvað eftir annað í máli hæstv. forsrh., að þessir kjarasamningar eru mjög hógværir. Enn er það launafólkið sem sýnir hógværð og enn er verið að semja um launataxta sem eru langt undir þeim mörkum sem einstaklingar þurfa til framfærslu.
    Ég vil taka undir þær fyrirspurnir sem fram hafa komið til hæstv. forsrh. um gengisbreytingar, gengisfellingar eða gengissig. Það er alveg sama hvað sú aðgerð heitir því hún hefur sömu áhrif á kjör fólksins. Það væri fróðlegt að fá að heyra skýrari svör við því hvað átt er við með þessu og hvenær slíkra breytinga megi vænta. Varðandi það sem hv. 14. þm. Reykv. spurði um áðan, hann er nú reyndar ekki hér, vildi ég segja að auðvitað veit hann jafnvel og ég og allir sem hér eru inni hvaðan fjármagnið kemur til byggingarsjóðanna og hver ber endanlega ábyrgð á því fjármagni.