Húsnæðisstofnun ríkisins
Laugardaginn 06. maí 1989

     Frsm. 3. minni hl. félmn. (Alexander Stefánsson):
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti. Það kom ekki fram í tilvitnun forseta. Það var kannski af misgáningi.
    En vegna þess sem kom fram hjá frsm. 2. minni hl., hv. 5. þm. Norðurl. v., tel ég ástæðu til að minna hv. þm. á það að mér finnst vera ákaflega ótímabært og óeðlilegt að fulltrúar Alþfl. sem hér koma í ræðustól, hvort sem þeir heita hæstv. ráðherrar eða hv. þm., séu sífellt að reyna að læða því að í umræðunni að Alþfl. hafi einhverja sérstöðu í hverju málinu á fætur öðru, þeir séu frumkvöðlar þess sem vinsælt er á Íslandi og mest áhrif hafi, eins og hv. þm. kom hér inn á áðan, að reyna að koma því að að Alþfl. hefði verið fyrstur til þess að fjalla um húsnæðismál á Íslandi. Ég veit ekki betur en að það félagslega kerfi sem var sett í lög hér á Íslandi og hefur skilað miklum árangri, bæði í fortíð og nútíð, þ.e. verkamannabústaðakerfið, hafi verið sett undir forustu Framsfl. og Alþfl. á sínum tíma þegar þeir unnu saman í þá tíð að ýmsum hagsmunamálum almennings í landinu. Og mér finnst ástæðulaust að hv. þm. og ráðherrar Alþfl. séu sífellt að reyna að seilast til að eigna sér mál sem þeir halda að falli almenningi vel í geð á hverjum tíma. Fortíð þeirra er saga sem sjálfsagt er að viðurkenna á vissan hátt, en hún er ekki þess virði að hægt sé að taka svo til orða sem hér hefur verið gert.
    Herra forseti. Ég lagði hér fram nál. á þskj. 1035 í sambandi við það mál sem hér er til umræðu, þ.e. frv. til laga um breytingu á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins, 344. mál Alþingis í Nd. Ég vil segja það strax hér að umræðan um þetta mál er orðin allmikil í þjóðfélaginu og í þeirri nefnd sem ég á sæti í og hefur haft þetta mál til meðferðar hefur vissulega verið, eins og hér hefur komið fram, fjallað allmikið um málið, þó ekki á þann hátt að miklar umræður hafi verið á nefndarfundum, heldur höfum við nefndarmenn fengið mikið af álitum víðs vegar að og einnig fylgdi frv. heljarpakki af athugunum og öðru slíku, m.a. frá hinum svokölluðu sérfræðingum sem hefur komið í ljós samt sem áður að virðast annaðhvort ekki hafa skilið sitt hlutverk ellegar þá ekki komið því þannig frá sér að tæmandi upplýsingar væru um það sem mestu máli skiptir í sambandi við þetta mál.
    Ég vil taka það fram í upphafi að við 1. umr. um þetta mál hér á hv. Alþingi í Nd. sem fór fram hér 17. mars sl. lýsti ég andstöðu við þetta frv. Ég taldi að kaflinn um húsbréfin væri tímaskekkja og settur fram í þeim tilgangi sem lýst var rækilega, bæði eftir hæstv. félmrh. og í forustugrein Alþýðublaðsins, að þessi breyting sem hér er verið að leggja til feli það í sér að núverandi húsnæðiskerfi verði lagt niður og svonefnt húsbréfakerfi kæmi í staðinn. Ég sagði þá að ég teldi að með þessu móti yrði hlutverk Húsnæðisstofnunar við þessar aðstæður lamað og fasteignasalar og verðbréfamarkaðurinn, svo burðugur sem hann væri, ættu að taka við því hlutverki og

meginefni þessa væri að markaðsvextir ættu að taka við á öll lán og einstaklingar sem þyrftu á lánum að halda eða að kynna sér aðstöðu í sambandi við húsnæðismál yrðu háðir sveiflum verðbréfamarkaðarins. Og ég taldi einnig að þetta mundi valda þenslu og auka stórlega fjármagnsþörf til húsnæðiskerfisins. Ég hélt því einnig fram í þessari 1. umr. að þeir sem búa við bestu aðstöðuna, þ.e. stórar húseignir og aðra eignaaðstöðu í þjóðfélaginu, muni hafa möguleika til að ganga fyrir og græða á þessu formi eins og það er sett fram, en þeir sem núverandi húsnæðiskerfi á að vernda muni verða undir í þessum málum.
    Í raun og veru þarf ég ekki að fara nánar út í þetta hér en ég rökstuddi þetta m.a. með því að mikið af viðtölum og greinum hafði birst í fjölmiðlum og víðar og ég vitnaði þar sérstaklega til álits sem einn virtur fasteignasali og verðbréfasali hér í borg, Pétur Blöndal, hefur látið frá sér fara þar sem hann sagði umbúðalaust sannleikann í sambandi við þetta mál þegar hann lýsti því yfir að þetta mundi þýða það að húsnæðiskostnaður mundi að sjálfsögðu hækka um 30--40% og greiðslubyrði þeirra sem kæmu í þetta kerfi með markaðsvöxtum mundi að sjálfsögðu hækka á svipuðum nótum.
    Herra forseti. Ég held að ég verði að lesa nál. á þskj. 1035. Ég tel það nauðsynlegt, til að það komi inn í þingtíðindin, áður en ég hef aðra almenna umræðu um þetta mál. En nefndarálitið hljóðar svo, með leyfi forseta:
    Nefndin hefur fjallað um frv. á nokkrum fundum en frv. var til 1. umr. í neðri deild 17. mars sl.
    Um fá mál hafa komið fram jafnmiklar og víðtækar efasemdir og athugasemdir og um þetta frv. Sérkennilegt er einnig að svör um hvaða áhrif ,,húsbréf`` samkvæmt frumvarpinu kynnu að hafa t.d. á peningamarkað, húsnæðismarkað, þenslu, greiðslubyrði o.s.frv. fást ekki nema í því formi að ekki sé hægt að meta þessi áhrif miðað við núverandi aðstæður.
    Ekki fást heldur upplýsingar um núverandi húsnæðiskerfi, hvernig hin svokallaða ,,biðröð`` er samsett. Húsnæðisstjórn er gerð óvirk sem heild um svör og rök í málinu og lætur frá sér fara stutt svar: ,,Mjög mismunandi skoðanir eru innan stjórnarinnar á framlögðu frv. til laga um Húsnæðisstofnun ríkisins. Vegna þess mun hún ekki senda nefndinni umsögn um það.`` Sem sagt, hún getur ekki komið sér saman um greinargerð um álit um málið þó að félmn. Nd. hafi
óskað sérstaklega eftir því. Hins vegar bregður svo við að fimm stjórnarmenn senda frá sér ítarlega greinargerð og mæla gegn húsbréfafrumvarpinu. Þeir fullyrða að núverandi kerfi sé smátt og smátt að ná jafnvægi.
    Þessum fulltrúum, kosnum af Alþingi í stjórn stofnunarinnar, svarar hæstv. ráðherra í fjölmiðlum með skætingi, þeir séu einstaklingar úti í bæ sem þekki ekki málið og séu með annarleg sjónarmið.
    Þetta mál er knúið fram með sérstæðum hætti.

Hæstv. ráðherra hótar afsögn ef hann fái ekki að leggja málið fram á Alþingi, þrátt fyrir minni hluta stjórnarsinna í neðri deild, og leggur málið fram sem stjórnarfrumvarp og hótar enn afsögn ef þingið samþykki það ekki.
    Allur þessi þrýstingur er algjört virðingarleysi við Alþingi og andstætt þingvenju og lýðræði. Samkomulag þvingað fram, eins og raun ber vitni, er málinu til tjóns og Alþingi til vanvirðu þar sem augljóst er að breyta verður væntanlegum lögum áður en þau taka gildi vegna formgalla og neikvæðra áhrifa á efnahagskerfið í heild.
    Það er hægt að vitna til umsagna og samþykkta Alþýðusambands Íslands og ýmissa fleiri aðila vinnumarkaðarins, álits fimm stjórnarmanna í Húsnæðisstofnun og álits Fasteignamats ríkisins, en þar segir m.a.:
    ,,Með tilkomu húsbréfa munu reglur Byggingarsjóðs um skilyrði fyrir ábyrgðum og lánafyrirgreiðslum víkka verulega frá því sem nú er. Skilyrði umsækjenda munu eingöngu miðast við veðhæfni viðkomandi íbúðar og greiðslugetu. Þá verða engin ytri mörk á heildarmagni ábyrgða á skuldabréfum og þar með því fjármagni sem trygging er gefin fyrir.
    Þessi rýmkun á reglum mun verka gagnvart fasteignamarkaði sem veruleg aukning á lánsfé. Reynslunni samkvæmt mun þetta valda verðhækkunum á eldri íbúðum og aukinni eftirspurn eftir nýbyggingum og þar með verðhækkun á þeim. Þá mun hækkun á heimildum á ábyrgðum skuldabréfa einkum auka lánshæfni stærri og dýrari íbúða og því að öllum líkindum leiða til aukinnar eftirspurnar og verðhækkunar á þeim.``
    Þjóðhagsstofnun segir m.a. að árleg greiðslubyrði af fasteignaveðláni (sem skipt er fyrir húsbréf) sé mun hærri en af núverandi húsnæðislánum.
    Þá bendir Þjóðhagsstofnun á að upplýsingar um ýmsar hliðar fjármagnsmarkaðar, og þá ekki síst hvað eignir heimilanna varðar, eru mjög takmarkaðar og telur því ákaflega erfitt að meta í tölum áhrif af húsbréfakerfi á ýmsa mikilvæga þætti fjármagnsmarkaðar.
    Frv. fylgir engin greinargerð um áhrif húsbréfanna á fjármagnsmarkaðinn og upplýst var í félmn. að Seðlabankinn hefur við undirbúning málsins aldrei verið beðinn um neina greinargerð um áhrif húsbréfakerfisins á peningamagn og peningastjórn.
    Hins vegar hefur komið fram í viðtölum við Pétur Blöndal, sem er eins og ég tók fram áðan einn af færari mönnum á fasteigna- og verðbréfamarkaði hér, að með þessu kerfi muni húsnæðiskostnaður aukast um 35--40% og þar með greiðslubyrði.
    Jóhann Rúnar Björgvinsson hagfræðingur segir svo um efnahagsleg áhrif húsbréfa:
,,1. Húsbréfin hafa flesta eiginleika peninga. Þau eru ríkistryggð, hafa mikla innbyrðis samsvörun, hafa þekkt verðgildi og ljúka viðskiptum. Þau hafa því alla burði til þess að verða peningar í hagkerfinu. Útgáfa þeirra getur því magnað verðbólguna ef ekki er rétt að málum staðið. Þá geta þau fengið víðtækara

gjaldmiðilshlutverk en á fasteignamarkaðnum.
    2. Sparnaðarhneigðin í þjóðfélaginu setur húsbréfakerfinu skorður því ekki er hægt að gefa út fleiri húsbréf en sparnaðareftirspurn bréfanna gefur tilefni til, nema það hafi áhrif á raunvirði þeirra til lækkunar. Áhrifin eru að færri lán verða afgreidd en áður, ef gert er ráð fyrir hærra lánsfjárhlutfalli til fasteignakaupenda en í fyrra kerfi.
    3. Ef um offramboð húsbréfa verður að ræða hefur það víðtæk áhrif á vaxtastigið í þjóðfélaginu. Sömuleiðis hefur það mjög verðbólguhvetjandi áhrif, bæði almennt og á fasteignamarkaðinn.
    4. Tilkoma húsbréfakerfisins mun skerða verulega getu Seðlabankans til að sinna því hlutverki í hagkerfinu sem honum er ætlað, þ.e. að stjórna peningamagni hagkerfisins og að vinna að stöðugu verðgildi krónunnar.
    5. Fullyrðingar um að húsbréfakerfið muni bæði auka innri fjármögnun á fasteignamarkaðnum og lækka útborgunarhlutfallið eru á misskilningi byggðar.``
    Enn er allt á huldu um áhrif vaxtabótaþáttar sem er í raun óaðskiljanlegur hluti þessa máls því að fullir markaðsvextir húsnæðislána eru það sem húsbréfakerfið byggist á samkvæmt frv. Gagnvart stórum hópum fólks fær slíkt form ekki staðist án þess að ljóst sé hvaða vaxtabætur komi á móti og hvernig þær verka í skattakerfinu sjálfu.
    Verðbréfafyrirtæki hafa blómstrað og hafa keyrt upp hættulega þróun í viðskiptum, sbr. ýmsan verslunarrekstur. Afleiðingarnar: Dæmið um Ávöxtun sem auglýsti í fjölmiðlum ágæti sitt, safnaði til sín fjármunum almennings með auglýsingum um hæstu ávöxtun, traustleika og heiðarleika. Niðurstaða: Hreinn
þjófnaður og gjaldþrot, ekki aðeins fyrirtækja heldur fjölda einstaklinga og heimila í landinu sem trúðu þessum aðilum.
    Eru þetta ekki víti til varnaðar? Menn skyldu ætla að svo verði. Ný lög voru sett og allir voru sammála hér á hv. Alþingi. En undirritaður verður að lýsa furðu sinni á því að nú skuli sumir forustumenn stjórnmálaflokka, sem telja sig verndara launþega, samþykkja að fela verðbréfafyrirtækjum og fasteignasölum að sjá um framkvæmd viðkvæmustu þátta húsnæðismála og vilji samþykkja tafarlaust markaðsvexti á útlán, húsbréf sem eiga að lúta markaðsgengi á hverjum tíma, þurrka þar með út forgang ýmissa hópa til að fá sérstaka lánafyrirgreiðslu, sérstöðu unga fólksins, fólks með sérþarfir o.s.frv. Með slíkum breytingum gildir aðeins kaupsamningur og mat á því hvort handhafi kaupsamnings getur staðið í skilum. Þeir sem nú hafa ekki möguleika til lána úr Byggingarsjóði ríkisins vegna stóreigna fá nú frjálsan aðgang gegnum markaðinn, bréf með ríkisábyrgð. Úti um land á að gilda markaðsgengi á hverju svæði sem ræður upphæð lána, ekki verður lengur viðmiðun við brunabótamat.
    Undirritaður óttast afleiðingar þess að þurrka félagslegt gildi húsnæðismála út með slíkum aðgerðum sem þýða hækkun húsnæðis- og fjármagnskostnaðar

um 35--40% og því miður verður staðreynd miðað við okkar ástand í verðbólgumálum. Ekki notum við sama fjármagn nema einu sinni í slíkum viðskiptum. Verðbréf krefjast peninga og affalla þrátt fyrir ríkisábyrgð.
    Flokksþing og miðstjórn Framsóknarflokksins samþykkti að þegar núverandi kerfi yrði endurskoðað yrði það gert m.a. í samráði og samvinnu við aðila vinnumarkaðarins. Slík heildarendurskoðun þarf að taka til allra þátta húsnæðismála og sjálfsagt er að nýta reynslu annarra þjóða.
    Við þurfum að gera okkur grein fyrir hvert við stefnum í þessum málum, hver er framtíðarþörf fyrir aukið húsnæði. Offjárfesting, án slíkrar heildarendurskoðunar, getur verkað neikvætt.
    Skynsamlegast hefði verið að skoða þessi mál vel og vandlega, í rólegheitum, með farsæla framtíðarlausn á húsnæðiskerfi þjóðarinnar að leiðarljósi.
    Fullyrðingar hæstv. félmrh. í fjölmiðlum um að frestun á þessu frv., með alla enda lausa, muni kosta þjóðfélagið 5 milljarða kr. eru fáránlega vitlausar og ráðherra til vanvirðu. Hæstv. ráðherra hefði verið nær að leita samkomulags á breiðum grundvelli til að skoða fleiri valkosti til að ná fram meiri hagkvæmni í húsnæðismálum þjóðarinnar til framtíðar í samráði við aðila vinnumarkaðarins, banka og lífeyrissjóði.
    Af framansögðu er ljóst að 3. minni hl. telur að samþykkt þessa frumvarps sé hættuleg fyrir húsnæðiskerfið í heild og muni valda þenslu og verðbólgu og jafnframt auka ójöfnuð fyrir fólkið í landinu. Undirritaður mun því styðja tillögu um að vísa málinu til ríkisstjórnarinnar. Nái hún ekki fram að ganga greiðir hann atkvæði gegn frumvarpinu.
    Undir þetta ritar Alexander Stefánsson.
    Herra forseti. Það mætti ræða margt um þetta mál, frá mörgum hliðum, svo illa er það undirbúið á vissan hátt, eða réttara sagt, það vantar allar upplýsingar um það hvernig það virkar inn í hið raunverulega ástand, bæði á peningamarkaði og fjármagnsmarkaði eins og hér hefur áður komið fram. Mig langar til í þessu sambandi --- vegna þess að sjálfsagt þykir einkennilegt að undirritaður sem hér stendur skuli vera með sérálit í þessu máli miðað við það sem komið hefur fram um að Framsfl. muni styðja samþykkt þessa frv. eins og það liggur fyrir frá meiri hl. eða þeim sem leggja hér fram nál. 2. minni hl. félmn. Þess vegna tel ég ástæðu til að koma hér inn á örfá atriði í sambandi við þann þátt málsins til þess að enginn vafi sé á því hvað þar er um að ræða.
    Ég lýsti því hér við 1. umr. málsins 17. mars sl. hver væri stefna Framsfl. í húsnæðismálum. Mér finnst ástæða til þess að rifja það aðeins upp til þess að mín afstaða komi engum á óvart. Og í stuttu máli var á síðasta flokksþingi Framsfl., sem haldið var á sl. ári, gerð ítarleg ályktun um húsnæðismálin en helstu atriðin í þeirri stefnu sem þar var mörkuð 19. nóv. 1988 var þannig, með leyfi forseta:
    ,,Flokksþing framsóknarmanna telur að með setningu gildandi laga um húsnæðismál frá árinu 1986 hafi verið tekið eitt stærsta skref í framfaraátt í

húsnæðismálum landsmanna til þessa. Með samvinnu stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins voru lánveitingar til almennra íbúðakaupa hækkaðar úr tæpum 20% í 70% af kostnaðarverði meðalíbúðar auk þess sem lánstími var lengdur og 55% af ráðstöfunarfé lífeyrissjóðanna veitt til húsnæðismálakerfisins. Flokksþingið leggur því áherslu á eftirfarandi:
    Að búið verði áfram við núverandi húsnæðislöggjöf, gerðar verði breytingar í samvinnu við aðila vinnumarkaðarins sem hefðu það markmið að stytta biðtíma að lánum. Vextir verði samræmdir almennum vöxtum á útlánum, en vaxtabætur greiddar gegnum skattakerfið til hinna tekju- og eignaminni.
    Að Húsnæðisstofnun verði heimilað að fjármagna hefðbundin útlán sín með almennu skuldabréfaútboði.
    Að kannað verði hvort hægt sé að fá lífeyrissjóðina til að auka skuldabréfakaup umfram samninga.
    Að ráðgjafarstöð Húsnæðisstofnunar ríkisins verði efld. Komið verði upp í landshlutum svo fljótt sem verða má ráðgjafar- og þjónustustöðvum fyrir húsbyggjendur.
    Að lögin um félagslegar íbúðir verði tekin til endurskoðunar og haft verði samráð við almenningssamtök er um þau mál fjalla.
    Að í lög um Byggingarsjóð verkamanna verði sett heimild til tímabundinnar leigu á íbúðum í verkamannabústöðum.
    Að sett verði lög um búseturéttaríbúðir í byggingarsamvinnufélögum.
    Að stofnaður verði Byggingarsjóður námsmanna sem hafi það hlutverk að fjármagna íbúðarbyggingar fyrir samtök námsmanna.
    Að leigjendum verði greiddir styrkir í samræmi við aðra húsnæðisaðstoð.
    Að heimilað verði að geyma lánsrétt ef öll upphæð lána er ekki tekin út.
    Að lögð verði áhersla á nýjungar í byggingariðnaði er gætu leitt til aukinnar hagkvæmni og lækkunar byggingarkostnaðar. Í þessu skyni verði rannsóknir efldar og stuðlað að meiri samræmingu.``
    Í framhaldi af þessu í sambandi við það frv. sem hér er til umræðu gerðu Samtök ungra framsóknarmanna ítarlegar samþykktir sem mæltu gegn því að þetta húsbréfakerfi væri tekið upp við þessar aðstæður.
    Og síðan kemur að afstöðu þingflokks framsóknarmanna sem ég tel ástæðu til að rifja hér upp, einnig til þess að rökstyðja hvernig málum er háttað nú miðað við það frv. sem hér er til afgreiðslu. Þegar þetta mál kom inn í þingflokkinn frá hæstv. ríkisstjórn fjallaði hann ítarlega um það, setti í gang nefnd okkar færustu manna í húsnæðismálum til þess að átta sig á því hver afstaðan ætti að vera og tengja það að sjálfsögðu stefnu flokksins sem ítrekuð var á flokksþingi, eins og ég hef áður sagt, í nóv. sl. Þingflokkurinn gerði svofellda samþykkt:
    ,,Þingflokkur framsóknarmanna telur óráð að hverfa frá núverandi húsnæðislánakerfi í megindráttum þar sem það stefnir í jafnvægisátt. Hins vegar telur þingflokkurinn rétt að gera tilraun með húsbréfakerfið

til hliðar við núverandi kerfi og felur þingflokkurinn ráðherrum flokksins að vinna að húsbréfakerfinu með eftirtöldum skilyrðum:
    Varði aðeins skipti á eldri íbúðum.
    Takmarkist við ákveðna upphæð á ári, t.d. 500 millj. kr.
    Vextir verði ekki hærri en á ríkisskuldabréfum.
    Þeir sem eru í biðröð gangi fyrir.
    Húsbréfadeild verði í Húsnæðisstofnun ríkisins.
    Tilraunin verði endurmetin að tveimur árum liðnum.
    Kaupskylda lífeyrissjóða verði óbreytt.``
    Með þetta veganesti fóru ráðherrar Framsfl. inn í ríkisstjórnina, með afstöðu þingflokksins. Framhald þessa máls varð það að ráðherrarnir komust að samkomulagi, sem hefur áður verið getið um, og kynntu í þingflokki framsóknarmanna þar sem gert var ráð fyrir því að þessi meginatriði yrðu tekin til greina við endursamningu þessa frv. til laga, en í staðinn fyrir upphæðina 500 millj. á ári sem útgáfa húsbréfa yrði takmörkuð við, þá var gert ráð fyrir að verja allt að 10% af ráðstöfunarfé lífeyrissjóðanna til húsnæðiskerfisins í húsbréf og það yrði endurskoðað eftir vissan tíma frá gildistöku laganna.
    Þetta þýddi í sjálfu sér það að gert var ráð fyrir því að í frv. stæði þessi takmörkun á þessu fjármagni, þ.e. í þessi húsbréf, sem væri hægt að hugsa sér eftir því hvernig lesið er út úr bókuninni. Annaðhvort yrði þar um að ræða 850 millj. á ári miðað við að lífeyrissjóðirnir komi með 8 1 / 2 milljarð inn í kerfið, t.d. á þessu ári, eða þá ef um væri að ræða 10% af ráðstöfunarfé lífeyrissjóðanna gæti þessi upphæð verið tvöfölduð eða sem svarar 1,7 eða 1,8 milljörðum.
    Þetta gaf að sjálfsögðu sumum í þingflokknum ástæðu til að leggjast ekki gegn frv. þó að það gengi að verulegu leyti gegn þeirri meginstefnu sem flokksþingið markaði og miðstjórnarfundur, en hins vegar varð niðurstaðan sú að þingflokkur framsóknarmanna heimilar framlagningu frv. í samræmi við ályktun þingflokksins frá 9. mars sl. sem ég las upp áðan og samkomulag sem viðræðunefndir flokkanna hafa komist að. Málið þarfnast rækilegrar athugunar í þingnefndum. Einstakir þingmenn hafa óbundnar hendur við afgreiðslu málsins. Þetta er sú lokaafgreiðsla sem var tekin í þingflokknum sem ber það að sjálfsögðu með sér að þingmenn Framsfl. voru ekki bundnir að samþykkja það frv. sem hér er til umfjöllunar ef ekki næðist fram það sem menn a.m.k. telja að sé í samræmi við það sem flokksþing ákvarðar og stefna flokksins er. Og út frá þessum staðreyndum hef ég sérstaklega hagað mínum störfum í sambandi við þátttöku í félmn. um að athuga þetta mál eins og það var lagt fram.
    Það vaknar náttúrlega margt upp í sambandi við þetta mál sem eðlilegt væri að kryfja enn til mergjar miðað við það sem ég tók fram hér í upphafi, að við höfum ekki fengið neinar tæmandi upplýsingar um það hvernig þetta kann að virka á fjármagnsmarkað og fasteignamarkað hér á landi umfram það sem kemur
fram í þeim ábendingum sem ég nefndi m.a. áðan frá

Fasteignamati ríkisins, frá hinum unga þjóðhagfræðingi sem skrifaði hér mjög ítarlega eða gaf, réttara sagt, út bók, gula bók, um ástand þessara mála og skýrði þar hlutlaust út hvernig húsbréf raunverulega eru, hvort þau eru peningar og allt sem því fylgir. Við höfum fengið ýmsar upplýsingar með því að spyrja ýmsa sérfræðinga sem á okkar fundi hafa komið hvernig raunveruleg áhrif af þessu eru og yfirleitt hafa öll slík svör endað á því að það væri ekki hægt að segja nákvæmlega um þetta. Það væri svo margt á huldu um þetta kerfi og það vantaði svo miklar upplýsingar um það hvernig þetta kæmi til með að aðlagast því peningakerfi sem við búum við.
    Og eitt vil ég taka fram af því að það hefur ekki komið fram í þeim umræðum hingað til, að t.d. virtur sérfræðingur á verðbréfamarkaðnum, Sigurður B. Stefánsson, taldi það alveg ljóst að það væri óeðlilegt annað, eins og hann orðaði það, en að taka þetta í smáskrefum ef farið væri út á þessa braut. Hann taldi að það væri of mikil áhætta samfara því að stíga hér stór skref án þess að það væri búið að tryggja það hvernig áhrifin kæmu út og að menn væru búnir að átta sig á því áður hvaða áhrif þetta gæti haft. Þar af leiðandi lagði hann áherslu á það í svörum sínum að þetta væri haft til viðmiðunar.
    Ég ætla ekki að ræða þetta sérstaklega fyrr en ég kem síðar í ræðu minni að ýmsum spurningum og ýmsum hugleiðingum sem upp hafa komið, en mér finnst ástæða til í þessum kafla ræðu minnar að fjalla nokkuð um húsnæðisstjórn ríkisins.
    Eins og fram hefur komið og fram kom hér í upphafi máls míns, þá treysti húsnæðisstjórn ríkisins sér ekki til þess að svara félmn. Nd. um hvaða álit hún hefði á þessu frv. eða hvaða áhrif hún teldi að þetta frv. hefði á húsnæðiskerfið í heild og sendi okkur aðeins stutt svar sem kom fram í bréfi frá Húsnæðisstofnun sem er dags. 10. apríl sl., en þar segir:
    ,,Erindi yðar í bréfi dags. 27. mars var lagt fram og fyrir tekið á fundi húsnæðismálastjórnar hinn 30. mars sl. Í tilefni af því var neðangreind bókun samþykkt:
    Í tilefni af bréfi félmn. Nd. Alþingis, dags. 27. mars sl., ályktar húsnæðismálastjórn eftirfarandi:
    Mjög mismunandi skoðanir eru innan stjórnarinnar á framlögðu frv. til l. um Húsnæðisstofnun ríkisins, 344. mál þingsins. Vegna þess mun hún ekki senda nefndinni umsögn um það.
    Þetta tilkynnist yður hér með.``
    Undir bréfið ritar f.h. húsnæðismálastjórnar Sigurður E. Guðmundsson.
    Að sjálfsögðu þarf enginn að vera í vafa um það hvernig stendur á því að sú ríkisstofnun, sem er með þingkjörna stjórn til að hafa yfirumsjón með húsnæðismálum þjóðarinnar, hvernig stendur á því að hún lætur frá sér fara svona lagað. Það er einfaldlega af þeirri ástæðu að þar er ekki samkomulag um málið. Meiri hluti Húsnæðisstofnunarinnar í sambandi við þetta mál, miðað við að þetta væri stjfrv., er ekki til og þar af leiðandi kemur ekkert frá stjórninni og það

sem verra er að mínu mati er það að húsnæðisstjórn og Húsnæðisstofnun í heild, sem var sá aðili í þjóðfélaginu sem best þekkir þessi mál, og í stjórn hennar eru valdir menn með reynslu á þessu sviði, menn sem eru jafnvel í forustu fyrir almannasamtökum í landinu og menn sem hafa sannað hæfni sína til að fara með ýmis slík mál sem húsnæðisstjórn þarf að fjalla um, þeir voru ekki hafðir með í ráðum um þessa kerfisbreytingu. Og það sem verra er: Húsnæðisstofnun, sem til þessa hefur verið í mjög erfiðri aðstöðu bæði húsnæðislega og jafnvel enn þá einnig í sambandi við starfsfólk, hefur ekki verið sköpuð aðstaða til þess að hafa tækifæri til þess að fjalla um breytingu á svona viðamiklu máli sem hér er verið að tala um. Þetta hlýt ég að átelja og ég get sagt það hér að ég hef í samtölum við fjölda aðila í Húsnæðisstofnun, bæði stjórnarmanna og ráðamanna þar alveg upp úr, fengið staðfest að þetta mál er knúið fram á þennan hátt sem raun ber vitni án þess að þeir séu hafðir með í ráðum. Og þetta er vissulega alvarlegt mál í sambandi við endurskoðun eða breytingar á húsnæðislöggjöf í okkar þjóðfélagi.
    Það kom einhvern tíma fram hér í umræðum eða a.m.k. í viðtölum við hæstv. félmrh. þar sem hún var að halda því fram að lögin sem sett voru 1986 hefðu runnið hér í gegnum Alþingi á mettíma, verið samþykkt með atkvæðum nær því allra hv. alþm., og það hefði nú ekki verið talin ástæða til að senda slíkt frv. til skoðunar nema að mjög litlu leyti o.s.frv., sem ég þarf ekki að rekja hér. En ég vil bara minna á það að lögin sem sett voru 1986 og eru í gildi til þessa dags eru sett eftir ítarlega vinnu og athugun meðal aðila vinnumarkaðarins í landinu sem ákveða þar í sambandi við heildarsamninga að stuðla að því að fjármagn lífeyrissjóðanna kæmi með auknum krafti inn í húsnæðiskerfi þjóðarinnar og létta þar með af því mikla fjármagnshungri sem var í sambandi við húsnæðismál til þessa dags þar sem fólk þurfti að bíða upp í tvö ár eftir litlum upphæðum sem voru ekki hærri en það að þær voru á bilinu 13--17% af kostnaðarverði íbúða, lágum upphæðum sem þar að auki voru óverðtryggðar og voru oftar en ella uppétnar í verðbólgubáli þegar loksins kom
að því að fólk fékk þær út greiddar, en það gat liðið allt upp í tvö ár að bíða eftir 150--400 þús. kr.
    Þessi afstaða aðila vinnumarkaðarins og þeirra sem réðu yfir þessu vaxandi fjármagni, þ.e. fjármagni lífeyrissjóðanna, varð til þess að það var samin ítarleg löggjöf og færustu menn þjóðarinnar voru teknir til þess að gera þessa löggjöf að veruleika, og þar vil ég nefna undir forustu hagstofustjóra Hallgríms Snorrasonar sem lagði mikla vinnu í það verk. Ég er alveg handviss um það að þetta starf og þetta frv. --- sem þá var samþykkt með þessum methraða eins og hér er kallað á hv. Alþingi --- var þannig úr garði gert að það voru engin vafaatriði hvað um var rætt. Þetta frv. var skapað við aðstæður sem voru óviðunandi og ekki hægt annað en að leita úrræða til framtíðar.
    Mér finnst ástæða til --- einmitt vegna þessa sem

hér hefur komið fram að það er verið að gera frekar lítið úr þessum þætti mála og eins það að reyna að gefa í skyn að þetta frv. og þessi lög sem nú eru í gildi hafi verið flaustrað hér í gegn og það hafi ekki verið mikill undirbúningur um þetta mál --- þá finnst mér ástæða til, herra forseti, að koma hér aðeins inn á nokkur atriði sem fram komu í því nál. um almenna húsnæðislánakerfið, sem þessar breytingar sem hér er verið að fjalla um byggja á. Það er álit þeirra tveggja aðila sem lýstu andstöðu við þetta frv., þ.e. forseta Alþýðusambands Íslands, Ásmundar Stefánssonar, og Guðmundar Gylfa Guðmundssonar, sem er hagfræðingur hjá Fasteignamati ríkisins og var fulltrúi Framsfl. í þessari milliþinganefnd. Og ég vil leiðrétta það sem kom hér fram hjá hv. frsm. 2. minni hl., 5. þm. Norðurl. v., að Framsfl. átti beinan aðila í þessu áliti milliþinganefndar sem var Guðmundur Gylfi Guðmundsson hagfræðingur, en hann skilaði séráliti með Ásmundi Stefánssyni í þessu nál.
    En vegna þess sem ég sagði áðan um frv., þá tel ég nauðsynlegt í þessari stöðu að rifja hér upp nokkur meginatriði í sambandi við markmið þeirra laga sem við búum við í dag. Og þá skýrist það að nokkru hvers vegna þau voru sett. Því vil ég, með leyfi forseta, lesa hér upp örstutt í sambandi við álit þessa minni hluta, sem skilaði séráliti. Ég sé ekki ástæðu til að fara að lesa hér bréfaskipti eða annað slíkt. Ég gríp hér aðeins niður í markmiðið með breytingunum:
    ,,Hluti kjarasamninga. Núverandi húsnæðislánakerfi á uppruna sinn að rekja til kjarasamninga aðildarfélaga Alþýðusambands Íslands í febrúar 1986 og var lagt fram af þáv. félmrh. Húsnæðislánakerfið er þess vegna hluti kjarasamninga og samkomulag milli aðila vinnumarkaðar og ríkisvaldsins. Allar breytingar verður því að gera í góðu samstarfi þessara aðila.`` --- Þetta vil ég endurtaka: ,,Allar breytingar verður því að gera í góðu samstarfi við þessa aðila. Á sama hátt eru það vanefndir á kjarasamningi þegar ríkisvaldið tryggir ekki fullnægjandi fjárveitingar til kerfisins.``
    Áður en lengra er haldið er full ástæða til að rifja upp markmiðið með breytingunum sem samið var um að gera á húsnæðislánakerfinu: Tryggja meira fé til útlána og við það miðuðust breytingarnar í fyrsta lagi. Að tryggja húsnæðislánakerfinu meira fé til útlána. Í þeim efnum var einkum litið til lífeyrissjóðanna. Nokkrar ástæður voru fyrir því. Þar má einkum nefna þrennt. Í kjarasamningum ASÍ-félaganna var samið um að iðgjald til lífeyrissjóða, sem á þeim tíma var greitt af dagvinnulaunum eingöngu, skyldi greiða af öllum launum. Því markmiði verður náð í fjórum áföngum frá árinu 1987 til ársins 1990. Þetta hefur í för með sér að ráðstöfunarfé lífeyrissjóðanna eykst umtalsvert og það er nauðsynlegt að undirstrika þetta atriði því að þessi breyting 1986 hafði í raun tvöfalt gildi. Hún jók fjármagn lífeyrissjóðanna í sambandi við þessa breytingu á samningum um leið og þessu fjármagni var að verulegum hluta dælt í húsnæðislánakerfið.
    Lífeyrissjóðirnir höfðu allar götur frá því að starfsemi þeirra hófst lánað sjóðsfélögum allmikið fé. Samkvæmt könnun sem sjóðirnir gerðu fór mest af

því fé til fasteignakaupa eða byggingar sjóðfélaganna. Lífeyrissjóðalán sem sjóðsfélagar notuðu til fasteignakaupa urðu til þess að lækka fasteignakaupalán þeirra hjá Húsnæðisstofnun. Samkvæmt þágildandi lögum voru sjóðirnir skyldaðir til þess að kaupa skuldabréf af fjárfestingarlánasjóðum. Þar á meðal voru húsnæðislánasjóðirnir. Lífeyrissjóðirnir höfðu frá upphafi mótmælt þessari lögþvingun. Með framangreint atriði í huga var reynt að haga málum á þann veg að það gæti talist eftirsóknarvert fyrir lífeyrissjóðina og sjóðsfélaga að sjóðirnir keyptu skuldabréf af húsnæðislánasjóðunum fyrir meira fé en áður. Þess vegna var samið um að lög sem skylduðu lífeyrissjóðina til að kaupa skuldabréf yrðu afnumin, að lífeyrissjóðir sem það kysu gætu gert samning við Húsnæðisstofnun ríkisins til tveggja ára í senn um skuldabréfakaup á ekki lakari kjörum en þeim sem ríkissjóður bauð almennt. Á móti mundi Húsnæðisstofnun skuldbinda sig til þess að lána félögum þeirra lífeyrissjóða sem gerðu samning. Iðgjöld á nafn umsækjenda um húsnæðislán urðu að hafa borist lífeyrissjóði í ákveðinn lágmarkstíma áður en umsókn um húsnæðislán yrði tekin til greina. Sú meginregla hafði alltaf gilt um lán frá sjóðnum að fjárhæð húsnæðislána skyldi ráðast af samningum lífeyrissjóða um
skuldabréfakaup af Húsnæðisstofnun ríkisins. Félagsmenn lífeyrissjóða sem gerðu ekki samning um skuldabréfakaup fyrir a.m.k. 20% af ráðstöfunarfé gátu ekki vænst þess að fá lán. Félagsmenn lífeyrissjóða sem gerðu samning um skuldabréfakaup fyrir 55% eða meira af ráðstöfunarfé sínu skyldu eiga kost á hámarkslánum. Árið áður en kjarasamningarnir voru gerðir var talið að lífeyrissjóðirnir hefðu að meðaltali keypt skuldabréf af Húsnæðisstofnun ríkisins fyrir rúmlega 30% af ráðstöfunarfé sínu. Miklu munaði hins vegar á kaupum einstakra sjóða. Sumir höfðu keypt fyrir 80% af ráðstöfunarfé sínu, sumir fyrir minna en 10% og nokkrir keyptu alls engin skuldabréf af Húsnæðisstofnun.
    Nú þykir sýnt að ákvörðun um að láta fjárhæð húsnæðislána ráðast af skuldabréfakaupum lífeyrissjóðanna hafi leitt til þess að sjóðirnir kaupi skuldabréf fyrir 60% meira fé að raunvirði en þeir keyptu fyrir áður. Breyttur iðgjaldastofn í lífeyriskerfinu er talinn auka ráðstöfunarfé lífeyrissjóðanna árið 1990 um 40% í samanburði við það sem það var árið 1986. Umsækjendur um húsnæðislán verða að hafa greitt iðgjöld til lífeyrissjóðs í rúmlega 1 1 / 2 ár áður en þeir geta sótt um húsnæðislán. Þetta skilyrði er talið hafa bætt innheimtu iðgjalda til lífeyrissjóðanna og aukið ráðstöfunarfé þeirra í samræmi við það. Allt bendir til þess að þessar breytingar muni verða til þess að skuldabréfakaup lífeyrissjóðanna verði að raunvirði tvöfalt meiri eftir 1989 en var árið 1985 --- og þetta er eftirtektarverð setning.
    Í öðru lagi miðuðu breytingarnar að því að bæta greiðslukjör lántakenda. Það var gert með því að lengja lánstímann í 40 ár. Áður hafði hann verið 21

ár á fasteignakaupalánum en 31 ár á nýbyggingarlánum. Lenging lánstímans bætti greiðslukjörin umtalsvert. Hækkun lánanna bætti greiðslukjörin líka vegna þess að hækkunin kom í stað dýrari lána frá lífeyrissjóðum og bönkum. Þessi breyting skipti mestu máli fyrir þá tekjulágu.
    Nú liggur við að tekið hafi fyrir lán lífeyrissjóða til sjóðsfélaga, ekki vegna þess að sjóðirnir hafi ekki viljað lána heldur vegna þess að sjóðsfélagar sækja ekki um lán. Ástæðan er einkum sú að vextir og lánstími lífeyrissjóðalána eru afar óhagstæð í samanburði við lán Húsnæðismálastofnunar.
    Í þriðja lagi var kappkostað að styrkja sérstaklega stöðu yngstu kaupendanna á fasteignamarkaðnum. Það hafði komið í ljós að 20% færri fasteignakaupendur voru í yngstu aldurshópunum en mátti gera ráð fyrir. Með öðrum orðum voru komin fram ótvíræð merki þess að yngsta fólkið réði ekki við fasteignakaup.
    Árið 1985 fékk Húsnæðisstofnun Félagsmálastofnun Háskólans til þess að gera könnun meðal ungs fólks. Í könnuninni kom í ljós að flestir vildu að þau sem voru að eignast fyrstu íbúðina sína fengju hærra lán en aðrir umsækjendur og í núverandi kerfi fá þeir 30% hærra lán en þeir sem eiga íbúð fyrir. Auk þess fá þeir sem eru að komast yfir fyrstu íbúð sína húsnæðisafslátt.
    Í fjórða lagi var með breytingunni reynt að hafa áhrif á það að eldra húsnæði yrði betur nýtt en raun varð á. Munurinn á fasteignaverði og byggingarkostnaði var svo mikill á árunum 1984, 1985 og 1986 að eldra fólk gat ekki, þótt það fegið vildi, selt stóru, gömlu íbúðina sína og keypt aðra nýja og minni. Þess vegna var gripið til þess ráðs að hækka lán til kaupa á fasteignum mun meira en nýbyggingarlán. Lán til fyrstu fasteignakaupa höfðu áður verið að hámarki 50% af nýbyggingarláni. Lán til þeirra sem áttu íbúð fyrir gátu hæst orðið 25% af nýbyggingarláni. Engin fasteignakaupalán máttu vera hærri en 50% af útborgun á kaupárinu eftir að búið var að taka tillit til lána frá lífeyrissjóðunum.
    Í fimmta lagi var áhugi fyrir að jafna skattafyrirgreiðslu vegna öflunar húsnæðis. Í eldra kerfinu var heimilt að draga vexti af lánum til íbúðakaupa eða -byggingar frá tekjum á skattframtali. Athugun á skattframtölum leiddi í ljós að af þeim sem notuðu sér heimildir til vaxtafrádráttar var meðalvaxtafrádráttur hjóna í hópi þeirra tekjuhæstu nærri sjö sinnum meiri en hjóna í tekjulægstu hópunum. Af skiljanlegum ástæðum gátu þeir tekjuhærri staðið undir afborgunum af hærri lánum en þeir tekjulágu. Vegna reynslunnar af vaxtafrádrættinum var lagt til að húsnæðisafsláttur, sama krónutala, kæmi til þeirra sem byggðu eða keyptu fyrstu íbúð sína en engra annarra. Í hópi þeirra tekjulægstu er húsnæðisafsláttur meira virði en vaxtafrádráttur en minna virði en vaxtafrádráttur fyrir þá tekjuhæstu. Hvað ríkissjóð varðaði var stefnt að því að húsnæðisafslátturinn yrði ekki útgjaldameiri fyrir ríkissjóð en tekjutap hans var af vaxtafrádrætti. Fyrir þá sem fengu húsnæðisafslátt skyldi hann nema sömu

upphæð og vaxtafrádrátturinn var að meðaltali yfir æviskeiðið hjá lánþegum samkvæmt eldra kerfinu.
    Í sjötta lagi vakti það fyrir þeim sem unnu að þessum breytingum á húsnæðislánakerfinu að lán sem lofað var hækkuðu til jafns við hækkun byggingarvísitölunnar. Í því kerfi sem þá var unnið eftir voru umsóknir um húsnæðislán ekki teknar til greina nema umsækjendur hefðu gert bindandi samning um húsakaup eða byggingu. Síðan fengu þeir tilkynningu um lánsfjárhæðina sem breyttist ekki í takt við verðbólguna. Þau sem höfðu fengið lánsloforð fengu ekkert að gert þegar lánsloforðið varð sífellt verðminna í
verðbólgunni sem geisaði á meðan þau biðu eftir afgreiðslu þess. Stundum máttu þau jafnvel bíða í 18--20 verðbólgumánuði eftir því að fá lánið í hendur og engar greiðsluáætlanir gátu staðist vegna þess óöryggis og óvissu sem umsækjendur urðu að búa við.
    Reynslan af biðtímanum í eldra kerfinu var bitur fyrir marga umsækjendur. Það var því talsvert upp úr því lagt að umsækjendur sæktu um lán áður en þeir fyrirhuguðu kaup eða byggingu. Með því móti gafst þeim tækifæri til að gera greiðsluáætlun áður en þeir steyptu sér í skuldir. Ef einhver von átti að vera til þess að greiðsluáætlunin stæðist sæmilega varð að vera hægt að treysta því að húsnæðislánin héldu verðgildi sínu á meðan beðið var eftir afgreiðslu þeirra. Sú varð og raunin á.
    Í sjöunda lagi þurfti að taka til einhverra þeirra ráða sem tryggðu jafnvægi í kerfinu ef mikil eftirspurn yrði eftir lánum og fimm leiðir komu þar til greina.
    1. Hækka vexti til að draga úr eftirspurn.
    2. Lækka lánin ef margir sóttu um.
    3. Lengja biðtímann.
    4. Hækka ríkisframlagið ef biðröðin væri lengri en svo að það gæti talist ásættanlegt.
    5. Hindra aðgang einhverra tiltekinna hópa að lánunum.
    Hækkun vaxta og lækkun lána komu augljóslega harðast niður á þeim tekjulægstu í hópi umsækjenda. Fólk með takmarkaðan efnahag mundi verða að hætta við fyrirhuguð kaup eða byggingu og fyrir þá er lenging biðtímans og aukið ríkisframlag betri kostur. Þess vegna voru þeir valdir. Í eldra kerfinu var jafnvægi hins vegar náð með því að láta verðbólguna sjá um að lækka lánin á biðtímanum.``
    Herra forseti. Ég taldi rétt að vekja athygli á þessum þætti í greinargerð þeirra sem voru andvígir frv. í því nefndaráliti sem fram kom, þ.e. Ásmundar Stefánssonar og fulltrúa Framsfl., Guðmundar Gylfa Guðmundssonar. Auðvitað er margt fleira í þessari greinargerð sem væri ástæða til að nefna en ég mun ekki gera það í þessum þætti ræðu minnar heldur hef ég hugsað mér það að í næsta þætti sem ég mun taka hér fyrir og tel nauðsynlegt, miðað við allar þær umræður og alla þá útúrsnúninga sem fram hafa komið í sambandi við framlagningu frv. sem hér er til umræðu, gefist tækifæri til þess að láta það koma fram hér í þingtíðindum.

    Virðulegi forseti. Ég vil spyrja að því hvort það standi ekki að þessum fundi eigi að ljúka kl. 4. Ég get ímyndað mér að ég sé svona um það bil hálfnaður með þá ræðu sem ég ætla mér að flytja við 2. umr. þessa máls og tel nauðsynlegt fyrir mig sérstaklega að gera, ekki síst vegna þeirrar afstöðu sem meiri hluti þingflokksins í mínum flokki hefur tekið sem stríðir raunar á móti stefnu flokksins og ýmsu fleiru, og ekki síst, herra forseti, þar sem ég las núna nýlega haft eftir okkar virðulega hæstv. forsrh. í viðtali við fjölmiðla, við eitthvert ágætt blað hér, að eitt af veigamestu og þýðingarmestu málum þessa þings sem yrði að fá afgreitt væri þetta húsnæðisfrumvarp og þá tel ég einmitt ástæðu til þess að fjalla ítarlega um þetta mál.