Ráðstafanir vegna kjarasamninga
Mánudaginn 08. maí 1989

     Guðmundur H. Garðarsson:
    Virðulegi forseti. Er það ekki um kjarasamningana? ( Forseti: Jú.) Það getur nú komið fyrir virðulega þingmenn að þeim liggi svo á að komast í ræðustól að þeir tali jafnvel í öðru máli en þeir ætla. En nú er komið á dagskrá hið eina og sanna og rétta mál sem þingmaðurinn vildi hafa rætt um áðan.
    Ég vil í fyrsta lagi, virðulegur forseti, fá að víkja nokkuð að ræðum hæstv. ráðherra í fyrri umræðunni. Sérstaklega vil ég víkja að ræðu hæstv. viðskrh., Jóns Sigurðssonar, þar sem hann fjallaði um vörugjald, en eins og hv. þm. minnast var mikil umræða í vetur um álagningu vörugjalds, sérstaklega í sambandi við áhrif þessa vörugjalds á iðnað í landinu. Það var mjög athyglisverð yfirlýsing sem hæstv. ráðherra Jón Sigurðsson gaf fyrr í umræðunni þegar hann sagði að álagning vörugjalds á verkstæðisiðnaðinn hefði verið mistök. Ég undirstrika að hæstv. ráðherra viðurkennir að hér hafi orðið mjög alvarleg mistök af hálfu ríkisstjórnarinnar í sambandi við álagningu vörugjalds. Þetta var einmitt það sem við sjálfstæðismenn lögðum mikla áherslu á í umræðunni í vetur, að með ráðstöfunum ríkisstjórnarinnar þá væri verið að hindra eðlilega atvinnustarfsemi og jafnvel koma miklum fjölda fyrirtækja fyrir kattarnef og átti það sérstaklega við um fyrirtæki í verkstæðisiðnaði.
    En það eitt að hæstv. ráðherra skuli viðurkenna jafnalvarleg mistök með þeim hætti sem hann gerði í umræðunni hlýtur að leiða hugann að því hvort ekki þurfi að huga að öðrum málum sem hæstv. ríkisstjórn hefur verið að fjalla um í sambandi við skattlagningu. Minnist ég þar sérstaklega á þá skattlagningu sem átti sér stað við hækkun eignarskatta. Það er ekki nokkur vafi á að sú lagasetning mun hafa mjög alvarlegar afleiðingar fyrir fjölda fólks, auk þess sem hún mun hafa mjög alvarlegar afleiðingar fyrir íslenskt atvinnulíf og draga úr framkvæmdaþreki manna til að fara út í áhættuatvinnurekstur. Niðurstaðan er sú að hæstv. ráðherra hefði getað viðurkennt einnig að í þeim efnum hefðu hæstv. ríkisstjórn orðið á mikil mistök.
    Hæstv. ráðherra Jón Sigurðsson sagði að mótuð yrði langtímastefna í atvinnulífinu. Ég varð ekki var við það í ræðu ráðherra að það kæmi fram nein jákvæð langtímastefna í sambandi við uppbyggingu atvinnulífsins eða styrkingu þess.
    Ég vildi, virðulegi forseti, einnig víkja nokkrum orðum að ræðu hæstv. forsrh. Steingríms Hermannssonar. Að vísu er hann því miður ekki viðstaddur, en í hans stað er hæstv. sjútvrh. hér og hann getur örugglega svarað því sem ég ætla að beina til ráðherra varðandi stöðu útflutningsatvinnuveganna. Mér fannst ekki koma nægilega skýrt fram hjá hæstv. forsrh. hvort hann væri sammála þeirri skoðun minni að útflutningsatvinnuvegirnir væru núna reknir með 4--5% halla. Að vísu kom fram óbein viðurkenning hjá hæstv. forsrh. á því að um halla væri að ræða þegar hann segir eitthvað á þá leið að gengið hljóti að síga á næstunni. Að vísu vildi hann ekki nálgast umræðuna út frá því að ef hallinn væri 4--5% á

útflutningsatvinnuvegunum þyrfti gengið að síga til samræmis við það, sem er allverulegt gengissig. Hann vildi ekki ræða það, en tók fram að það væri engin kollsteypa fram undan í þessum efnum. Ég vildi óska eftir því við hæstv. sjútvrh., sem situr nú fyrir hæstv. forsrh., að hann upplýsi þingheim um hvað þurfi til að koma í sambandi við gengissig til þess að útflutningsatvinnuvegirnir verði á hinu svokallaða núllstigi, þ.e. að þeim verði vikið úr þeirri tapstöðu sem þeir eru komnir í nú þegar, svo ekki sé talað um að líklegast er fiskvinnslan eða sumar greinar hennar enn verr staddar. Á ég þar sérstaklega við hraðfrystiiðnaðinn og þá einkum við hraðfrystihúsin en ekki frystitogarana.
    Ég skal ekki orðlengja þetta frekar, forseti, en ég vildi gjarnan fá að spyrja hæstv. sjútvrh. að öðru. Ég harma að hæstv. fjmrh. skuli ekki vera til staðar því að raunverulega á þessi spurning frekar við hann eða jafnvel ætti félmrh. að svara þessari spurningu. Mér láðist í fyrri ræðu minni að víkja að einu atriði í fylgiskjali II, þ.e. bréfi ríkisstjórnarinnar til Alþýðusambands Íslands, dags. 30. apríl, 7. lið. Þessi liður fjallar um lífeyrismál. Þar segir, með leyfi forseta: ,,Ríkisstjórnin mun beita sér fyrir framlengingu laga um eftirlaun til aldraðra.`` Mér er ekki alveg ljóst, virðulegur forseti, hvað hér er átt við og vildi gjarnan fá skýrt um hvaða lög er að ræða. Er verið að ræða um lög er lúta að umsjónarnefnd eftirlauna? Eins og hv. þm. vita voru á sínum tíma sett lög um umsjónarnefnd eftirlauna. Þau lög fela m.a. í sér samkomulag sem gert var á sínum tíma við verkalýðshreyfinguna á grundvelli fyrra samkomulags sem var gert á tíma ríkisstjórnar Geirs Hallgrímssonar, árið 1976 eða 1977, en þá gerði verkalýðshreyfingin með sér þannig samkomulag, m.a. fyrir frumkvæði ríkisstjórnar Geirs Hallgrímssonar, að undirgangast þá skuldbindingu af fúsum og frjálsum vilja í samningum að borga 5% af iðgjöldum til svokallaðrar umsjónarnefndar eftirlauna. Það er sjóður sem er notaður til að jafna út tryggingum þannig að þeir sjóðir sem voru vel staddir tryggingarlega séð greiddu til annarra sjóða sem voru verr staddir. Eins og hv. þm. muna var stofnað til almennra lífeyrissjóða verkalýðshreyfingarinnar 1970 og það var álit manna innan verkalýðshreyfingarinnar þá að það væri
æskilegt að þeir sjóðir sem væru eldri og stæðu betur kæmu til skjalanna á fyrstu stigum almenna lífeyrissjóðakerfisins þannig að þeir borguðu sem næmi 5% af árlegum iðgjöldum í þann sameiginlega sjóð sem umsjónarnefnd fjallaði um og þær greiðslur væru notaðar til að styrkja eftirlaun t.d. verkafólks og verkakvenna í þeim sjóðum sem voru að byrja og höfðu verið stofnaðir 1970. Síðar varð sú breyting á að það voru sett lög sem fólu í sér að þetta var ekki lengur samkomulag milli verkalýðsfélaganna og vinnuveitenda heldur var það orðin lagaskylda að svo skyldi gert.
    Mál þróast nú þannig að eftir því sem sjóðirnir urðu eldri, en nú eru 18 ár síðan þeir voru stofnaðir á hinu almenna sviði, almennu verkalýðsfélaganna, þá

var það almennt mat innan verkalýðshreyfingarinnar að nú væri eðlilegt að þessi lög rynnu úr gildi, þ.e. að greiðslur til umsjónarnefndar hyrfu í áföngum. Um þetta var sátt og samkomulag, virðulegur forseti, innan verkalýðshreyfingarinnar. Þessi lög, ef ég man rétt, renna út í árslok 1989. Eins og þau eru núna er gert ráð fyrir því að 3% af iðgjöldum lífeyrissjóðanna renni til umsjónarnefndar eftirlauna.
    Nú bregður svo við að í því samkomulagi sem ríkisstjórnin virðist hafa gert kemur atriði fram sem heitir að ríkisstjórnin muni beita sér fyrir framlengingu laga um eftirlaun til aldraðra. Þess vegna vil ég fá upplýst, vegna þess að mér hefur ekki tekist að fá það nægilega skýrt fram, hvað hér er átt við. --- Virðulegur forseti. Ég vil gjarnan að hæstv. ráðherra hlusti á þetta. En það er kannski svo ómerkilegt þegar maður talar um málefni verkalýðshreyfingarinnar að hv. þm. hafa ekki áhuga fyrir því að fylgjast með því. Ég held að það mundi mörgum hnykkja við þegar þeir heyra um hvaða tölur hér er verið að ræða og hvað er verið að færa til. Ég hef ástæðu til að halda að það hafi ekki verið kynnt sem skyldi í samningaviðræðunum um daginn sem fram fóru milli Vinnuveitendasambandsins og Alþýðusambandsins annars vegar og ríkisstjórnarinnar hins vegar hvað þetta ákvæði áhrærir. Hér er staddur í salnum einn af forustumönnum íslenskrar verkalýðshreyfingar, hv. þm. Karl Steinar Guðnason, og ég vona að hann geti upplýst okkur um það. En ég hef rætt við verkalýðsforingja sem voru m.a. á þessum samningafundum og þeim var ekki gert ljóst hvað í þessu fælist. Hins vegar mun forseti ASÍ ásamt einhverjum tilkvöddum fulltrúa eða fulltrúum hafa farið til fundar við ríkisstjórnina og fjallað um m.a. þessi mál.
    Ég vil fá upplýst hvort samið hafi verið um það á þessum fundum án þess að það væri lagt fyrir samninganefndina í heild, án þess að samninganefndum einstakra félaga væri gerð grein fyrir því hvað hér væri raunverulega um að ræða því hér er um grundvallarstefnubreytingu að ræða sem felur í sér tilfærslur á tugum milljóna króna úr örfáum lífeyrissjóðum til að framlengja það kerfi sem verkalýðshreyfingin var búin að gera sátt um sjálf innbyrðis að ætti að afleggjast. Ég vil fá alveg hreint upplýst hvort þetta hafi orðið til í samningaviðræðum við þá fulltrúa verkalýðshreyfingarinnar sem mættu á fundum með ríkisstjórninni með þeim hætti sem fram kemur í umræddu bréfi til miðstjórnar Alþýðusambands Íslands. ( Sjútvrh.: Viltu ekki endurtaka þetta?) Já, það er hvað felist í 7. lið bréfs til Alþýðusambands Íslands frá hæstv. ríkisstj., dags. 30. apríl, þar sem segir: ,,Ríkisstjórnin mun beita sér fyrir framlengingu laga um eftirlaun til aldraðra.``
    Ef hér er um að ræða framlengingu á þeim lögum að lífeyrissjóðirnir greiði 3% af iðgjöldum sínum í eftirlaunasjóðinn, sem raunverulega var sátt um af hálfu verkalýðshreyfingarinnar og fyrri ríkisstjórna, ég tek fram að ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar m.a. var búin að gangast inn á að það yrði mál viðkomandi

ríkisstjórnar og þá ríkisstjórna sem við taka, að þessu yrði aflétt af lífeyrissjóðum verkalýðshreyfingarinnar sem þurfa á því að halda að iðgjöldin renni til þessara sjóða til þess að þeir geti betur staðið við sínar tryggingaskuldbindingar, þá vil ég fá upplýst hvort hér hefur orðið stefnubreyting því að það er svo til vonlaust fyrir heiðarlegt fólk að standa að samningamálum utan við valdakerfið. Virðulegi forseti. Ég ætlaði að segja að það virðist vera orðið vonlaust fyrir sæmilega heiðarlegt fólk í íslensku atvinnulífi og íslensku þjóðlífi að fjalla um sín eigin mál fyrir einhverjum ákveðnum samningakerfum í íslensku valdakerfi. Nú er ég ekki að tala til hæstv. sjútvrh. Ég er að tala um valdakerfið í heild. Það virðist vera orðið vonlaust fyrir sæmilega heiðarlegt fólk að gera samninga sem það geti treyst á þannig að ekki sé komið aftan að því. Ég nefni þetta tiltekna dæmi sérstaklega vegna þess að með þessari einu setningu, sem ekki hefur verið nægilega skýrð í samningunum, ekki einu sinni fyrir samningsaðilunum, og á ég þar við suma forustumenn verkalýðshreyfingarinnar sem tóku þátt í samningaviðræðunum, er ekki einu sinni skýrt frá því að þarna er verið að gera grundvallarbreytingu á fyrra samkomulagi sem gert var innan verkalýðshreyfingarinnar eins og ég gat um áðan og við ríkisvaldið.
    Hvað felst í þessu samkomulagi? Ef við gefum okkur að hér sé um að ræða að það eigi að framlengja lög um greiðslur til umsjónarnefndar eftirlauna á grundvelli gildandi laga er um að ræða 3% af iðgjöldum hvers árs. Ég hef fyrir
framan mig bráðabirgðauppgjör frá því í mars 1989 um lífeyrissjóði landsmanna sem greiða í þennan sameiginlega sjóð. Það er áætlað að iðgjöld ársins 1989 hjá þessum sjóði verkalýðshreyfingarinnar séu 5,4 milljarðar. Ef það á að framlengja lögin á þeim grundvelli sem lög mæla fyrir er um að ræða 3% af áætluðum iðgjöldum. Það er um að ræða 163 millj. kr. Þessar greiðslur koma úr almennu lífeyrissjóðunum. Þær koma ekki úr lífeyrissjóði opinberra starfsmanna. Þær koma ekki úr lífeyrissjóði borgarstarfsmanna. Þær koma úr lífeyrissjóðum á samningssviði ASÍ. Það er verið að færa þarna til ákveðna byrði sem við undirgengumst á sínum tíma sjálfir af fúsum og frjálsum vilja en vorum búnir að koma okkur saman um að ríkið ætti að yfirtaka þegar þessi lög væru útrunnin.
    Ef við lítum á breytingarnar sem hafa orðið er tvennt sem hefur meginþýðingu að gera sér grein fyrir. Það er í fyrsta lagi að þeir sjóðir sem voru stofnaðir 1970 eru þegar orðnir mjög öflugir hvað höfuðstól áhrærir þó að þeir geti ekki fullnægt tryggingaskuldbindingum sínum sem skyldi. Á sama tíma hafa þeir sjóðir sem fyrir voru eflst enn frekar. Með núverandi lögum mundi það þýða að það væru raunverulega þrír lífeyrissjóðir sem stæðu undir rúmlega helmingi þeirrar greiðslubyrði sem um er að ræða, þ.e. útstreymis til að verðbæta lífeyristryggingar hjá öðrum verkalýðsfélögum. Það eru þrír sjóðir sem standa undir rúmlega helmingnum af

nettógreiðsluflæðinu til styrktar öðrum lífeyrissjóðum. Þessir lífeyrissjóðir eru Lífeyrissjóður verslunarmanna, Lífeyrissjóður sjómanna og Lífeyrissjóður rafiðnaðarmanna. Þessir sjóðir borga samtals 57,8 millj. Þegar uppbótum hefur verið skipt fá þeir til baka nokkrar milljónir þannig að þegar búið er að skipta áætluðum uppbótum eða uppbótum sem koma til skipta standa upp úr 102 millj. Af þessum 102 millj. sem eiga að færast á milli greiða þessir þrír sjóðir 52 millj. kr.
    Ég hef því miður, virðulegi forseti, ástæðu til að halda, og ég vona að hv. þm. Karl Steinar geti leiðrétt það, að svona hafi málið aldrei verið lagt fyrir forustumenn Verslunarmannafélags Reykjavíkur. ( KSG: Jú, jú.) Nei, það er ekki rétt vegna þess að ég spurði formann Verslunarmannafélags Reykjavíkur einmitt að þessu atriði. Það var aldrei lagt þannig fyrir hann að það væri verið að framlengja lög sem fælu í sér greiðsluskuldbindingu fyrir Lífeyrissjóð verslunarmanna upp á 31,5 millj. nettó. Það var aldrei lagt þannig fyrir formann Verslunarmannafélags Reykjavíkur. Þetta get ég staðfest.
    Nú er hv. þm. Karl Steinar horfinn úr salnum og þykir mér það lakara vegna þess að við erum að tala um mjög þýðingarmikið atriði í þessum samningum sem ekki hefur farið hátt. Ég segi bara sem dæmi og varpa fram hér í þingsal: Ég efast um að nokkur hv. þm. sem hér er inni hafi áttað sig á því hvað felist í þessari einu setningu sem lætur lítið yfir sér. Það eru ákveðnar þarna tilfærslur á peningum sem fela í sér hundruð milljóna ef litið er t.d. til þriggja ára tímabils. Þetta er ekki lítil skattlagning á lífeyrissjóðunum. Það er ekki lítil skattlagning á Lífeyrissjóð verslunarmanna þar sem gerðar eru kröfur um það m.a. af hæstv. fjmrh. að lífeyrissjóðirnir skuli semja við ríkissjóð og skuli semja við húsnæðismálakerfið um ákveðna vexti sem við viljum reyna að nálgast. En á sama tíma sem verið er að reyna að framfylgja því markmiði að lækka vexti er verið að skattleggja hina sömu lífeyrissjóði svo hundruðum milljóna skiptir. Ég segi eins og er. Ef það væri ekki einn þingmaður eða tveir eða þrír á hinu háa Alþingi sem kynnu eitthvað til talna í þessu dæmi væri þetta mál ekki rætt í þingsölunum. Þá gæti þessi ,,ágæta`` ríkisstjórn fært til peninga lífeyrissjóðanna sem nemur hundruðum milljóna án þess að nokkur maður tæki eftir því. Viðkomandi aðili er ekki einu sinni spurður að því. A.m.k. hefur farið lítið fyrir því á síðum stjórnarblaðanna, ég nefni sem dæmi á síðum Þjóðviljans. Það hefur lítið farið fyrir því á síðum Alþýðublaðsins og ég tala ekki um á síðum Tímans að skýra frá því að nú hafi verið gert samkomulag við sjálfan sig því að forseti ASÍ er stjórnarstuðningsmaður. Þessir herrar gera samninga við sjálfa sig um að færa til peninga með þessum hætti án þess að greina skýrt og skorinort frá því hvað þeir eru að gera. Þetta eru ekki góðir stjórnarhættir. Þetta hlýtur að vekja upp margar efasemdir hjá heiðarlegu fólki úti í atvinnulífinu sem á þessa sjóði og þarf að byggja framtíð sína og

tryggingar í ellinni á þessum sjóðum. Á sama tíma sem verið er að draga úr ávöxtun sjóðanna er verið að skattleggja þá áfram þrátt fyrir að hér hafi verið gert samkomulag á sínum tíma um að þessu skuli linna og þessar greiðslur færu þá í gegnum ríkissjóð með eðlilegum hætti eins og aðrar tryggingaskuldbindingar í þjóðfélaginu.
    Mér finnst við hæfi að það sé upplýst nokkuð hvaða sjóðir það eru sem eru með útstreymi og hvaða sjóðir það eru sem styrkja þetta tryggingakerfi þannig að þeir sjóðir sem enn lakar eru staddir fái þessa peninga til að styrkja ellilífeyrisgreiðslur sinna tryggingataka. Ég nefni dæmi: Þeir sjóðir sem leggja mest til þessa tryggingakerfis eru, eins og ég gat um áðan, Lífeyrissjóður sjómanna, sem mun koma til með að greiða á þessu ári samkvæmt gildandi lögum 22,6 millj., Lífeyrissjóður verslunarmanna 31,5 og Lífeyrissjóður rafiðnaðarmanna 3,7 millj. Einnig mun Lífeyrissjóður
samvinnustarfsmanna greiða 1,8 millj. og Lífeyrissjóður Austurlands mun greiða 2,3 millj. Þetta eru helstu sjóðirnir sem greiða í þennan sameiginlega sjóð sem styrkir síðan tryggingagreiðslur hjá öðrum sjóðum. Og hverjir eru þá helstu viðtakendur? Hverjir eru það sem fá þessa peninga? Ég vil að það komi fram vegna þess að það fólk á það skilið sem hefur tekið þátt í þessum greiðslum samkvæmt góðu samkomulagi á sínum tíma innan verkalýðshreyfingarinnar að það sé vakin athygli á því að á sama tíma sem það er að reyna að styrkja sína sjóði er það jafnframt að styrkja stöðu annarra sjóða sem eru verr staddir. Þeir sjóðir sem helst njóta þessara greiðslna úr sjóði umsjónarnefndar eftirlauna eru: Lífeyrissjóður Dagsbrúnar og Framsóknar hér í Reykjavík. Greiðslur til styrktar ellilífeyrisgreiðslum í þeim sjóði eru upp á 26,2 millj. Þá er það Lífeyrissjóður verksmiðjufólks sem fær 9,4 millj. Lífeyrissjóður verkafólks á Suðurnesjum fær 3,8 millj. umfram það sem hann greiðir sjálfur og umfram það sem skipt er upp.
    Yfirleitt eru það lífeyrissjóðir hinna almennu verkalýðsfélaga sem fá þessar greiðslur í sína sjóði til að styrkja ellilífeyrisgreiðslur. Um það er allt gott að segja. Ég hef m.a. tekið þátt í því og tók þátt í því að þetta kerfi var tekið upp á sínum tíma innan verkalýðshreyfingarinnar í góðu samkomulagi að frumkvæði ríkisstjórnar Geirs Hallgrímssonar, sem hófst árið 1976, að byggja upp samfellt og sterkt lífeyrissjóðakerfi fyrir alla landsmenn. Þetta er liður í því. En það var aldrei ætlast til þess að það yrði alfarið lagt á örfáa sjóði að standa undir meginþunga þessara greiðslna. Þess vegna var gert samkomulag um að þetta kerfi skyldi hverfa út um leið og gildandi lög rynnu út í árslok 1989 frekar en 1990. Þetta er staðreynd. Þess vegna óska ég eftir því við hæstv. ráðherra að hann kynni sér það eða skýri okkur frá því, ef hann hefur upplýsingar þar að lútandi, ég gæti skilið ef hæstv. sjútvrh. hefði þær ekki alveg á reiðum höndum núna, en mér þætti mjög gott ef það gæti komið fram síðar í umræðunni, hvort þetta er

meiningin. Ég geri mér grein fyrir því að ég er stjórnarandstæðingur. Það þýðir ekki að ég sé efnislega á móti því að ríkissjóður eða tryggingakerfið komi inn í þetta mál með sama hætti og lífeyrissjóðirnir hafa gert hingað til. Ég er því fylgjandi. En ég tel mikið ranglæti fólgið í því að leggja þessa greiðslubyrði á örfáa sjóði með þessum hætti án þess að það hafi verið gengið betur frá þessum málum. Ég vildi gjarnan fá að vita hjá hæstv. ráðherra, ef hann hefur ekki upplýsingar á reiðum höndum núna, þá síðar, áður en þetta mál verður endanlega afgreitt í deildinni, hver sé hugsunin á bak við þetta atriði í umræddu bréfi ríkisstjórnarinnar til Alþýðusambandsins þar sem segir, svo að ég endurtaki það í þriðja skipti, að ríkisstjórnin muni beita sér fyrir framlengingu laga um eftirlaun til aldraðra. Ég vil fá upplýst hvað felist í þessari setningu. Er þar um að ræða að framlengja lögin óbreytt með þessu 3% álagi á iðgjöldin og til hve langs tíma? Ég vil gjarnan fá þetta nánar upplýst.