Ráðstafanir vegna kjarasamninga
Miðvikudaginn 10. maí 1989

     Sjávarútvegsráðherra (Halldór Ásgrímsson):
    Herra forseti. Aðeins til að svara nokkrum fyrirspurnum sem til mín hefur verið beint.
    Hv. þm. Halldór Blöndal spurði um það hvað sjóðir ættu að gera að því er varðar lántökuskatt sem þeir hafa þegar greitt af erlendum lánum og ekki lánað út. Það verður að sjálfsögðu að vera vandamál viðkomandi sjóða. Það er ekki óeðlilegt að þeir verði að taka það á sig eins og margir þurfa oft að gera þegar breytingar á skilyrðum verða og fjármálastofnanir eru alltaf í áhættuviðskiptum og því ekki óeðlilegt að þeir taki slíkt á sig. En að sjálfsögðu verður það að vera ákvörðun viðkomandi stjórna hvort það er gert með þeim hætti eða jafnað út á lánum til skemmri tíma eða lengri tíma. En ef litið er til reynslunnar er það venja viðkomandi sjóða að koma því einhvern veginn af sér, en ég hygg þó að staða þeirra sé almennt sú að að sé ekkert tiltökumál að taka slíkt áfall á sig.
    Í öðru lagi spurði hv. þm. um hvort ég teldi að það hefði verið brotið samkomulag gagnvart launþegahreyfingunni vegna gengisbreytinga. Svo er alls ekki og engin slík loforð gefin. Eins og hæstv. viðskrh. tók fram átti þessi breyting ekki að koma nokkrum á óvart og vísa ég til þess sem hann sagði að sérstaklega þeir sem starfa í undirstöðugreinum hafa áreiðanlega fullan skilning þar á.
    Þar að auki er rétt að benda á það að 7. apríl sl. var gengi á dollarnum 52,88 kr. en núna 54,52 kr. Ef hins vegar er tekinn svissneskur franki var hann 32,22 kr. 7. apríl þegar PCD-samkomulagið var undirritað ef ég mann rétt, 32,21 í dag. Danska krónan var þá 7,28 og er í dag 7,34. Hér hefur því orðið tiltölulega lítil breyting á Evrópugjaldmiðlunum og japanska yeninu. Breytingin kemur fyrst og fremst fram á dollarnum, en eins og kunnugt er er innflutningsverðlag fyrst og fremst háð Evrópumyntunum en útflutningsverðlag í meira lagi háð dollaragenginu þannig að sú breyting sem þegar er orðin hefur haft sáralítil eða nánast engin áhrif á innflutningsjafnvægið.
    Hitt er svo annað mál að það hefur jafnframt verið ákveðin heimild til Seðlabankans til þess að breyta gengi um 2,25%. Með þessum ákvörðunum er verið að standa við þá yfirlýsingu sem ríkisstjórnin gaf að hún muni beita sér fyrir því að samkeppnisstaða útflutningsgreina verði viðunandi á samkeppnistímanum. Ég er ekki að segja með því að með þessum eina hætti hafi það verið gert. Það þarf meira að koma til. En þetta eru fyrstu skref sem hefur verið ákveðið að stíga í því sambandi og hygg ég að þeim sem stóðu að þessari samningsgerð á sínum tíma ætti ekki að koma það á óvart miðað við þau samtöl sem áttu sér þá stað.
    Hv. þm. spurði jafnframt um hvað væri með Verðjöfnunarsjóð, hver ætti að borga. Ég vísa til þess að 1. gr. er alveg nákvæmlega eins orðuð og bráðabirgðalögin um sama efni voru og jafnframt sú löggjöf sem var í undirbúningi í tíð fyrri ríkisstjórnar. Og ég vísa til þess sem ég hef áður sagt um þetta mál og þær yfirlýsingar sem ég hef gefið margoft hér

í þinginu um Verðjöfnunarsjóðinn eiga jafnt við um þetta mál.
    Það var jafnframt spurst fyrir um hvort hægt væri að gefa frekari upplýsingar um lækkun bóta úr Verðjöfnunarsjóði. Það er ekki hægt að gera það á þessu stigi. Það hafa ekki verið teknar endanlegar ákvarðanir um það. Það verður m.a. tekið mið af þeim verðbreytingum sem kunna að verða á útflutningsverðlagi, en við það miðað að fella þessar bætur niður um nk. áramót en reynt að gera það í nokkrum áföngum, m.a. með hliðsjón af þróun á útflutningsverðlagi, og gæta þess jafnframt, eins og segir í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar, að samkeppnisstaða útflutningsgreina verði viðunandi á samningstímanum.
    Að því er varðar spurningu um Hlutabréfasjóð, þá er það rétt hjá hv. þm. að þar hefur ekkert mál verið afgreitt og endanleg afstaða hefur ekki verið tekin hjá viðkomandi sjóðum. Þó hygg ég að það sé nokkuð ljóst að það þjóni almennt hagsmunum Byggðasjóðs að taka þátt í slíkum aðgerðum með hagsmuni sjóðsins í huga. Í mörgum tilvikum á hann ekki mjög trygg veð í eignum þótt það sé að sjálfsögðu misjafnt. Ég held að það sé það sama að því er varðar bankana í allmörgum tilvikum. Ég hef átt ítarlegar viðræður við Fiskveiðasjóð Íslands um þetta mál og Fiskveiðasjóður mun meta hvað er hagsmunum sjóðsins fyrir bestu í tilfellum sem þessum og mun væntanlega taka afstöðu til málsins á stjórnarfundi Fiskveiðasjóðs í upphafi næstu viku.
    Að því er varðar spurningu hv. þm. um gengismál hafa engar aðrar ákvarðanir verið teknar en þær sem felast í tillögu Seðlabanka Íslands sem kom fram í gær eftir bankaráðsfund og var framkvæmd í morgun og það svigrúm sem þar hefur verið gefið.
    Hv. þm. Júlíus Sólnes spurði um athugun á stimpilgjöldum. Ég get aðeins vitnað til þess sem stendur í þessari yfirlýsingu. Það mun fara fram sérstök athugun á ákvæðum laga um stimpilgjöld fyrir næstu áramót. Það er rétt sem hv. þm. sagði að hér er um allt of flókið mál að ræða og óþarflega margbrotin gjaldskrá sem er í mjög mörgum tilvikum óréttmæt og full ástæða til breytinga,
en þær breytingar þurfa undirbúning eins og fram kemur í þessari yfirlýsingu. En það er rétt hjá hv. þm. að þeim undirbúningi hefði mátt vera lokið. Hér er í sjálfu sér ekkert nýtt undir sólinni.
    Hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson spurði um fund ríkisstjórnar í kvöld, en ráðherrar í ríkisstjórninni hittust óformlega í matarhléi hér í þinginu til að ræða stöðu mála. Það gefst nú ekki allt of mikill tími til þess að hittast þessa síðustu daga nú þegar svo miklar annir eru í þinginu, en full ástæða var til að fara yfir m.a. stöðu mála vegna þeirra kjaradeilna sem nú eru. Einstakir ráðherrar lýstu því hvernig staðan væri í stofnunum sem tilheyra þeirra ráðuneytum og er alveg ljóst að hún er mjög víða hin alvarlegasta, bæði að því er varðar skóla landsins og ýmsar stofnanir tilheyrandi sjútvrn., iðnrn. og þá ekki síst landbrn. og jafnframt hefur deilan komið við stofnanir heilbrmrn.

Í sumum tilvikum er það svo að það má gera ýmsar ráðstafanir til að draga úr þeim miklu óþægindum sem þjóðfélagsþegnar hafa orðið fyrir og er verið að gera ýmsar ráðstafanir í því skyni. Hins vegar er alveg ljóst að engin fullnægjandi lausn þeirra mála mun fást nema með lausn þessa verkfalls. En það verður að segjast alveg eins og er að það horfir afar þunglega og ekki miklar líkur á því að samningar takist alveg á næstunni. Það er að sjálfsögðu afar alvarlegt mál og er ekki óeðlilegt að slíkt sé rætt í ríkisstjórninni og hún mun að sjálfsögðu halda áfram að fjalla um það mál, en engar frekari ákvarðanir hafa þar verið teknar. Það er alveg ljóst að ríkisstjórnin getur ekki stuðlað að lausn þessarar kjaradeilu með þeim hætti að sú lausn setji í hættu þá samninga sem þegar hafa verið gerðir á almennum vinnumarkaði. Það ætti ekki að koma neinum á óvart að það verður að vera samræmi í launabreytingum í landinu, ekki síst á erfiðleikatímum sem þessum þegar þjóðartekjur dragast saman. Þá er að sjálfsögðu miklu minna svigrúm til leiðréttinga á milli hópa þótt vel kunni að vera að sumir hafi dregist meira aftur úr en aðrir. Ég skal ekki leggja neitt endanlegt mat á það. En þá er svigrúm til slíks lítið sem ekkert og ríkisstjórnin getur ekki sett í hættu þá kjarasamninga sem þegar hafa verið gerðir því að allar breytingar sem færu verulega fram úr því sem þegar hefur verið gert mundu að sjálfsögðu gera samningsstöðuna almennt miklum mun verri þegar núgildandi samningar renna út að fáum mánuðum liðnum því að það hefur reynst afar erfitt að fá nokkra samninga til lengri tíma hér á landi svo árum skiptir. Það er oftast verið að semja til nokkurra mánaða í senn og samningar til eins árs þykja afar langir samningar í hinni daglegu umræðu.
    Ég vænti þess að ég hafi að mestu leyti svarað þeim spurningum sem til mín hefur verið beint.