Húsnæðisstofnun ríkisins
Miðvikudaginn 10. maí 1989

     Frsm. 1. minni hl. félmn. (Geir H. Haarde):
    Herra forseti. Það er nú ánægjuefni að hæstv. forseti skuli vera kominn erlendis frá og vera hér á meðal vor við þessa umræðu því að eins og allir vita er hann kunnáttumaður mikill um þessi mál og jafnframt einn af þeim sem lagt hafa gjörva hönd á plóg við undirbúning málsins. Býður mér þó í grun að hæstv. forseti sé ekki jafnánægður með þetta mál og hann var þegar hann gekk frá því í milliþinganefnd sinni á síðasta hausti en að sama skapi mættu þeir menn vera ánægðir með frv. sem harðast hafa barist gegn því, því að þetta er ekkert húsbréfakerfi eins og málið er orðið í meðförum ríkisstjórnarinnar og stjórnarflokkanna frá því að það kom frá milliþinganefndinni. Það er búið að vinna slík skemmdarverk á frv., ef ég má leyfa mér að nota það orð, að ég efast um að hæstv. forseti þessarar deildar vilji fullkomlega gangast við því að þetta sé hans verk, þetta ,,óbermi``, eins og hv. 2. þm. Austurl. kallaði frv. í ræðu sinni, sem lagt er hér fram ,,í skötulíki``, og væri langskynsamlegast að binda sig ekki í neina lagasetningu í þessu máli eins og hann sagði sjálfur.
    Hitt er annað mál að það er út af fyrir sig rétt sem hv. 2. þm. Austurl. sagði hér orðrétt, með leyfi forseta: ,,Eitt er nú að leggja fram hluti, eitt er nú að koma einhverju til umræðu hér á Alþingi, og annað er svo með hvaða gagni sköpulagið verður þegar króginn stekkur hugsanlega hér út af þinginu eða skríður.`` --- Hæstv. forseti deildarinnar missti af þessari snjöllu ræðu hjá hv. 2. þm. Austurl. sem er einn af talsmönnum þessa máls eða réttara sagt einn af þeim sem greiða þessu máli atkvæði þó að hann tali gegn því og af meiri sannfæringu en margur annar maðurinn sem hér talar gegn málinu. En eins og ég segi, það er ólíklegt að þeir sem hugsuðu þetta mál upp í upphafi vilji nú kannast við þennan króga sem núna er um það bil að stökkva eða skríða hér út af þinginu svo að notað sé orðbragð hv. 2. þm. Austurl.
    Máski forseti sjái ástæðu til þess að blanda sér í þessar umræður á eftir og tjái sig um þessi mál og væri vissulega fengur að því því að hann hafði ekki aðstöðu til að vera hér við 2. umr. þegar hér voru fluttar aðalræðurnar um þetta mál.
    Ég lét þess getið, herra forseti, að frv. hefði nú tekið nokkrum breytingum frá því að ,,óbermið`` var fyrst hér lagt fyrir í deildinni. Í gær voru samþykktar við 2. umr. nokkrar breytingar að tillögu okkar þriggja þingmanna hér í deildinni. Þær tillögur höfðu reyndar ekkert með húsbréfakerfið að gera, eins og fram kom í máli hv. 12. þm. Reykv. hér áðan, heldur var þetta tilraun af hálfu þess sem leggur þetta frv. fram, hæstv. félmrh., til að þrengja núverandi kerfi og útiloka þaðan tiltekna einstaklinga sem ættu þá hvergi lánsrétt annars staðar og minnka lánsrétt annarra. Okkur þótti nú ýmsum að það væri ástæðulaust að blanda þessum drykkjum saman, annars vegar húsbréfakerfi í því skötulíki sem það er hér lagt fram og til meðferðar, svo að notað sé enn á ný orðbragð hv. 2. þm. Austurl., og hins vegar breytingum á núverandi

lánareglum sem sýnt hefur verið fram á af Húsnæðisstofnun sjálfri að skipta sáralitlu máli upp á það að fækka í biðröðinni en verka hins vegar til þess að þrengja að þeim örfáu einstaklingum sem þessar breytingar hefðu bitnað á en alls ekki þeim tíu þúsund og eitthvað manns sem bíða í biðröðinni. Það er nefnilega misskilningur að þessar breytingar geti virkað aftur fyrir sig og þess vegna er verið að tala hér um eitthvað sem mundi ekki koma til framkvæmda fyrr en eftir u.þ.b. þrjú ár eða hvað það nú er, þrjátíu og eitthvað mánuðir, sem það tekur að bíða í þessari biðröð.
    En því skyldi ég nú vera að fjalla um þetta? Það er búið að fella þetta út úr frv. og þetta er auðvitað ekkert mál lengur. Það er búið að fella þessi ákvæði úr frv. enda áttu þau ekkert heima í því. Því er ég þá að tala um þau núna eftir að brtt. mín og fleiri um að fella þau burtu hefur verið samþykkt? Jú, ég tel óhjákvæmilegt að gera það, herra forseti, vegna þess að virðulegt málgagn hæstv. félmrh. og virðulegt málgagn forseta deildarinnar hefur mistúlkað þetta mál með hinum herfilegasta hætti en jafnframt upplýst að hið virðulega málgagn og hinn virti ritstjóri þess hafa ekkert skilið út á hvað þau ákvæði gengu, sem verið var að fella brott, en draga hér ályktanir út og suður sem sýna það ljóslega að viðkomandi er alls ekkert ljóst hvað verið er að tala um, og má vera að það hafi gilt um fleiri stuðningsmenn virðulegs ráðherra í þessu máli að því er þessar greinar varðar, að þeir hafi ekkert vitað um hvað þær snerust eða um hvað þær fjölluðu yfirleitt.
    Vildi ég nú mega með leyfi forseta vitna til leiðara Alþýðublaðsins í morgun þar sem segir í fyrirsögn ,,Húsbréf í höfn``. Síðan segir nú reyndar seinna í greininni: ,,Örlög húsbréfakerfisins eru ekki ráðin,,, en það er önnur saga. Annaðhvort er húsbréfakerfið í höfn eða örlög þess eru ekki ráðin, en slíkar mótsagnir náttúrlega kippir leiðarahöfundur Alþýðublaðsins sér ekki upp við. Það sem ég ætla hins vegar að gera að umtalsefni, herra forseti, er eftirfarandi tilvitnun, með þínu leyfi:
    ,,Niðurgreiðsla ríkisins á lánum í núverandi kerfi er hneisa. Við afgreiðslu í neðri deild Alþingis í gær var fellt að breyta ákvæðum í núverandi kerfi.
Með breytingunni átti að hefta aðgang þeirra hópa í samfélaginu sem nú eru á hraðbraut að stórlega niðurgreiddum lánum. Gert var ráð fyrir því að húsnæðismálastjórn gæti skert lán og breytt kjörum á lánum umsækjenda sem eiga ,,fullnægjandi íbúðarhúsnæði, skuldlaust eða skuldlítið og stærra en 180 fermetrar brúttó að frádregnum bílskúr`` eins og sagði orðrétt í breytingartillögunni. Því miður eru þessi ákvæði felld út og við það rýrast tekjur Byggingarsjóðs ríkisins um 8% sem hefðu verið kærkomin uppbót til þeirra fjölmörgu sem búa við þröngan húsnæðiskost í okkar samfélagi.``
    Hér lýkur tilvitnun minni í þennan leiðara, þennan leiðara sem sýnir það að þó svo hæstv. félmrh. hreyki sér af öllu því fundahaldi sem hún hafi átt um þetta mál, allri þeirri gríðarlegu kynningu sem átt hafi sér

stað í þessu máli og jafnist ekki á við neitt sem fram hefur verið lagt hér í þinginu, þá hefur það ekki verið betur kynnt en svo að hv. og virðulegur ritstjóri Alþýðublaðsins skilur ekkert út á hvað þessar greinar ganga. ( AS: Það er ekki von.) Og það er kannski ekki von, segir hv. 1. þm. Vesturl.
    Sú setning sem Alþýðublaðið, málgagn ráðherrans, kýs að gera hér að umtalsefni sem aðalatriði þeirrar tillögu sem ákveðið var að fella brott í gær er í núgildandi lögum. Hún er bara í lögunum og hefur eftir því sem ég best man verið þar að uppistöðu til frá byrjun með breytingum frá hausti 1987. Þessir 180 fermetrar hafa verið í lögunum frá byrjun og þessi bílskúr sem má draga frá hefur verið þar frá byrjun, en fyrri partur setningarinnar um ,,fullnægjandi íbúðarhúsnæði, skuldlaust eða skuldlítið`` hefur hins vegar komið hér inn 1987, ef ég man rétt, að frumkvæði núverandi ráðherra með dyggum stuðningi þeirra sem studdu þáverandi ríkisstjórn ef ég man rétt.
    Nei. Leiðarahöfundur Alþýðublaðsins hefur auðvitað gert sig beran að því að skrifa um hluti sem hann veit ekkert um og skilur greinilega ekkert í. Og ekki er það nú til marks um merka eða vel heppnaða kynningu á þessu máli meðal landsmanna þegar ekki hefur tekist að koma skilningi á einföldustu atriðum inn í höfuð þeirra sem rita leiðara í Alþýðublaðinu. Það sem auðvitað var aðalatriðið í þessari grein, sem ritstjórinn er að rembast við að fjalla um, var það að þarna átti að bæta við þau skerðingarákvæði sem fyrir eru þeim möguleika að skerða lán til þeirra sem ekki ættu íbúð en ættu hins vegar eign í öðru formi, til að mynda í formi atvinnutækis. Og eins og ég gerði hér að umtalsefni í ræðu minni við 2. umr. og eins og formaður Sjálfstfl. gerði að umtalsefni í ræðu sinni við 1. umr. getur þetta hæglega átt við um smábátaútgerðarmenn, vörubílstjóra, ýmsa smáatvinnurekendur sem hafa varið sínu sparifé eða sínum eigum í það að kosta til þess að fjárfesta í atvinnutæki en eiga þar af leiðandi ekki íbúðarhúsnæðið sem þeir búa í.
    En það sem þarna átti sem sagt að gera var að útiloka slíka aðila úr hinu almenna húsnæðislánakerfi og segja við þá: Fyrst þið eigið vörubíl og fyrst þið eigið trillu eða smábát eða sendibíl eða hvað það er sem þið eigið, þá fáið þið ekkert lán í Húsnæðisstofnun ríkisins. Og það sem meira er, vegna þess hvernig þetta húsnæðiskerfi er væri jafnframt verið að segja við þessa aðila: Þið fáið heldur ekkert lán annars staðar vegna þess að lífeyrissjóðurinn ykkar setur peningana sína inn í Húsnæðisstofnun. Þar af leiðandi fáið þið ekkert lán og þannig hefði hugsanlega verið hægt að útiloka þessa aðila algjörlega frá möguleikunum á því að fá veðskuldalán til langs tíma til að fjárfesta í íbúðarhúsnæði. Auðvitað var ekkert vit í þessu að mínum dómi, en hitt er svo annað mál að það er mat Húsnæðisstofnunar að áhrifin af þessu hefðu ekki verið mikil, hefðu raunar verið sáralítil fyrir Húsnæðisstofnun ríkisins, hefðu engu máli skipt gagnvart þeirri löngu biðröð sem þar hefur myndast

eða þeirri fjárþörf sem þar er, þannig að þetta auðvitað skipti engu máli í þessu stóra samhengi en hefði auðvitað getað skipt máli og það verulegu fyrir þá örfáu einstaklinga sem þarna hefðu hugsanlega átt hlut að máli.
    Þetta held ég að hæstv. ráðherra ætti að fræða ritstjóra sinn um og gera honum grein fyrir því að þetta eru nú þessir stóreignamenn sem fullyrt er að við sjálfstæðismenn með dyggum stuðningi hv. þm. Stefáns Valgeirssonar og þingmanna Kvennalistans höfum verið að níðast hér á. ( SV: Viltu endurtaka þetta?) Já, ég skal gjarnan endurtaka þetta. Ég var að biðja hæstv. félmrh. að fræða ritstjóra sinn um það að þessir trillukarlar og þessir vörubílstjórar og þessir menn sem geta átt atvinnutæki án þess að eiga íbúðarhúsnæði eru þessir stóreignamenn sem Alþýðublaðið er að klína á okkur í dag, mig og virðulegan fyrirspyrjanda og þingmenn Kvennalistans, að hafa komið til liðs við. Alþýðublaðið heldur því fram að með þeim breytingum sem gerðar voru á frv. í gær höfum við verið að koma í veg fyrir að stóreignamönnunum væri úthýst úr húsnæðislánakerfinu. (Gripið fram í.) Það verður stundum að leiðrétta það sem segir í Alþýðublaðinu þó að það sé nú varla tímans virði, en vegna þess hversu blaðið tekur þetta mál alvarlega og sýnir því mikinn áhuga var auðvitað óhjákvæmilegt, virðulegur 6. þm. Norðurl. e., að sýna fram á það að ekki bara hefur ritstjórinn ekki vitað hvað hann var að skrifa um, heldur er það
jafnframt til marks um það að kynningarstarfsemi félmrn. á frv. og því sem því fylgir hefur greinilega misst marks.
    Síðan er hér önnur blaðatilvitnun frá því í morgun sem ég hefði gjarnan viljað gera að umtalsefni, en það eru skrif dagblaðsins Tímans um þessa sömu atkvæðagreiðslu þar sem er verið að núa okkur því um nasir, nokkrum þingmönnum sem ekki studdum brtt. hv. þm. Ólafs Þ. Þórðarsonar, að með því að styðja hana ekki höfum við komið í veg fyrir að Alþfl. færi úr ríkisstjórninni og stjórnin færi frá, og kemur það úr hörðustu átt, að dagblaðið Tíminn sé farið að skamma okkur fyrir að hafa ekki sætt slíks færis. Ef það er hins vegar rétt sýnir það auðvitað bara hversu málefnalega Sjálfstfl. tekur á þessu frv., ef þarna hefði verið eitthvert sérstakt lag til þess. ( ÞP: Heldurðu að þeir vilji ekki bara losna?) Það má vel vera að þeir vilji losna. En ég tek þetta auðvitað alvarlega vegna þess að Tíminn er eitt af þeim blöðum hér á Íslandi sem enn skrifa fréttir með pólitískum hætti þar sem túlkanir og skoðanir eru settar fram í því sem eiga að heita fréttir í stað þess að halda eingöngu fram staðreyndum mála. Hér er sem sagt lagt út af því að sjálfstæðismenn sátu hjá í stórum stíl við brtt. Ólafs Þ. Þórðarsonar, að þar höfum við farið á mis við gott tækifæri til þess að steypa ríkisstjórninni. Ekki veit ég hvort það er rétt. Mér finnst það ekki skipta neinu máli hvort það er rétt. Það sem skiptir máli var það að við vildum ekki bera ábyrgð á þeirri tillögu færi þetta frv. í gegn. Við

höfum gert tillögu um að frv. verði vísað til ríkisstjórnarinnar. Verði því ekki vísað þangað er náttúrlega eðlilegt að þeir sem knýja þetta frv. hér fram og bera á því alla ábyrgð beri jafnframt ábyrgð á því hvort ákvæðið sem Ólafur Þórðarson vildi breyta verður óbreytt eða ekki og jafnframt því hvort þær athugasemdir sem hann hefur gert við þetta mál eiga við rök að styðjast og nái þá ekki fram að ganga ef þannig fara mál.
    Ég tel nefnilega að sú athugasemd sem hann flutti hér sé einmitt eitt af því sem þarf að athuga betur í sambandi við þetta mál og eigi að skoða til hlítar í tengslum við þá könnun sem við höfum lagt til að færi hér fram í sumar verði frv. vísað til ríkisstjórnarinnar. Ég tel að hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson hafi bent á atriði sem verðskuldi að sjálfsögðu vandlega skoðun, vandlega lögfræðilega athugun á því hvort það geti verið að menn væru hér að brjóta stjórnarskrána í stórum stíl, eins og hann fullyrðir, með þeirri starfsemi sem frv. gerir ráð fyrir, með útgáfu húsbréfa. Hvort --- ef þetta óbermi, frv. sem hv. þm. Hjörleifur Guttormsson kallar óbermi, nær fram að ganga --- í því felist þá einhver þau stjórnarskrárbrot í líkingu við það sem hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson hefur varað við. Þeir sem vilja knýja þetta mál hér í gegn verða þá jafnframt að bera ábyrgð á því hvort slík brot verða framin. Réttast er auðvitað að rannsaka það samhliða öðrum þáttum málsins eins og við sjálfstæðismenn leggjum til með okkar tillögu um að málinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar.
    Allt var þetta svona hálfgerður aðdragandi, herra forseti, sem ekki varðar kannski beinlínis efni frv. sjálfs eins og það lítur út núna. Ég hef gert grein fyrir þeim breytingum sem við beittum okkur fyrir á því og leiðrétt hér misskilning og vitleysur í málgagni ráðherra í þessu sambandi. En eftir standa þá hinar efnislegu athugasemdir, hinar efnislegu spurningar um þetta mál sem ég tel að sé enn ósvarað.
    Ég beindi í mínu máli sl. laugardag og sl. föstudag ýmsum athugasemdum og fyrirspurnum til hæstv. ráðherra sem ég tel að ekki séu komin svör við nema að litlu leyti. Og ég rakti reyndar í mínu máli, rakti og hrakti, fullyrðingar ráðherrans um þann kostnað sem óbreytt núverandi kerfi hefði í för með sér fyrir þjóðfélagið og því var að sjálfsögðu í engu svarað í ræðu ráðherrans vegna þess að því er ekkert hægt að svara. Ég sýndi fram á það með óhrekjandi rökum að þessar fullyrðingar voru auðvitað innantómt blaður, fullyrðingar um að núverandi kerfi kosti þjóðfélagið 500--600 milljónir á mánuði, og ráðherrann hefur ekki treyst sér til þess að endurtaka þær hér. Ég lít því auðvitað svo á að þar með sé viðurkennt að þarna hafi verið farið með rangar tölur í blekkingarskyni í ríkissjónvarpinu fyrir nokkru.
    Meðan ráðherrann er ekki hér inni get ég vikið hér að nokkrum atriðum sem kalla ekki á hennar viðveru, en ég hafði hugsað mér að spyrja hana enn út í nokkur atriði sem skipta meginmáli varðandi þetta mál og snúa annars vegar að kaupskyldu lífeyrissjóðanna,

svokallaðri, hjá Húsnæðisstofnun ríkisins og hins vegar að vaxtahlið þessara mála. Í báðum þessum tilvikum er staðfestur grundvallarágreiningur um málið og það eru kannski fyrst og fremst þessi atriði sem hafa gert það að verkum að ég mundi í sporum þeirra sem frv. hafa upphaflega samið ógjarnan vilja kannast við þetta afkvæmi sem hugsanlega mundi skríða hér út úr þingsölum svo að ég vitni enn til ummæla og orðalags hv. 2. þm. Austurl.
    Ég lét þess getið við 2. umr., herra forseti, að ég óttaðist nokkuð hver áhrif frv. gætu orðið á peningamarkaðinn í landinu, m.a. vegna þess að ekki liggur fyrir nein greinargerð um það hver þau áhrif gætu verið. Um þetta er fjallað í nál. 1. minni hl. og vakin athygli á því að Seðlabanki Íslands hefur
að því er fram kom í nefndarstarfinu aldrei verið beðinn um að skila neinni slíkri greinargerð. Það er því miður rangt sem segir í nál. 2. minni hl. að fyrir liggi umsögn Seðlabankans um frv. Hún liggur alls ekki fyrir, enda er þetta misskilningur hjá 2. minni hl. nefndarinnar. Hins vegar væri auðvitað rétt og raunar sjálfsagt að slík umsögn og ekki bara umsögn heldur ítarleg rannsókn, ,,analýsa`` á þessum áhrifum, lægi fyrir áður en menn knýja slíkt mál hér í gegnum Alþingi. Ég held að engum detti annað í hug, sem vill láta taka sig alvarlega í sambandi við þessi mál, en að eðlilegt sé að slík ,,analýsa`` liggi fyrir.
    En nú ber vel í veiði, herra forseti, og nú get ég snúið mér að því sem ég ætlaði að fara að tala um því að ekki er bara hæstv. félmrh. genginn í garð heldur er líka hæstv. samgrh., eða hæstv. landbrh. genginn hér í garð og meðan hann er hér inni vildi ég gjarnan snúa máli mínu að vaxtahlið þessara mála, að því furðulega samkomulagi sem gert hefur verið milli stjórnarflokkanna um vexti í húsbréfakerfinu. Og ég segi furðulega, og endurtek það frá því sem ég sagði hér um daginn, vegna þess að ekki er bara svo að um þetta svokallaða samkomulag séu gersamlega ólíkar skoðanir og túlkanir af hálfu þeirra sem að því stóðu, heldur mun þetta samkomulag raska grundvallarforsendu húsbréfakerfisins. Ég hef margfarið yfir það hér úr þessum ræðustól, herra forseti, að húsbréf, eins og forseti veit, verða að vera boðin á markaðskjörum á markaðnum. Þau verða að vera boðin á sambærilegum kjörum og annað sem þar er til sölu, ekki síst spariskírteini ríkissjóðs sem verða helstu keppinautar þessara bréfa. Vegna hvers? Vegna þess að annars seljast þau ekki. Annars seljast ekki húsbréfin.
    Í öðru lagi hef ég sýnt fram á það að lán í hinu almenna húsnæðislánakerfi að öðru leyti verði að bera sömu vexti og húsbréfin, sambærileg kjör vegna þess að ella tekur enginn lán í formi húsbréfa, heldur leitar fólk þá í hið almenna kerfi með hinum niðurgreiddu vöxtum sem þá yrðu þar. Hver er niðurstaðan af þessu¿ Hún er að sjálfsögðu sú að í hinu almenna lánakerfi verða að vera sömu vextir og á húsbréfum sem verða að vera sambærilegir við markaðsvextina. Þar af leiðandi verða markaðsvextir að vera við lýði í hinu almenna húsnæðislánakerfi. Þetta hafa flestir

skilið þó svo að það væri misskilningur hjá Alþb., að því er virðist, þegar þetta mál var heimilað til framlagningar því að þá var frv. ekki svona úr garði gert. Landbrh. og félmrh. eru hér eitthvað að skjóta saman nefjum og segir landbrh. að þetta sé tóm vitleysa. En þetta er ekki vitleysa, hæstv. landbrh., vegna þess að ef þú ert ekki með markaðsvexti á almenna lánakerfinu hleypir þú inn í það kerfi þeim sem þú ert að reyna að útiloka með húsbréfunum, því fólki sem þarf ekkert á opinberri fyrirgreiðslu að halda til íbúðakaupa, hvorki í formi niðurgreiddra vaxta né í formi vaxtabóta. ( Landbrh.: Við ætluðum að takmarka það en þú fluttir brtt. sem felldi það úr frv.) Ég er nú búinn að gera grein fyrir þeirri breytingu og hef upplýst með hvaða hætti hæstv. landbrh. og aðrir stjórnarliðar vildu svipta vörubílstjóra, smábátaútgerðarmenn og fleiri lánarétti í núverandi húsnæðislánakerfi.
    Nei, það ber allt að sama brunni hér, herra forseti. Það ber allt að þeim brunni sem ég vék að hér í upphafi að það er búið að gera slíkar breytingar á þessu húsbréfakerfi frá því sem það var hugsað í upphafi að það eru engar líkur til þess að það geti virkað með þeim hætti sem að var stefnt. Það átti að stefna að því að auka markaðsviðskipti með fasteignaveðbréf. Það átti að efla verðbréfamarkaðinn með þeim hætti. Það átti að tryggja það að hin opinbera aðstoð til húsnæðismála rynni í einum farvegi til þeirra sem mest þurfa á henni að halda.
    En hver er nú niðurstaðan? Hún er alls ekkert þessi. Hún er sú að með þessu klúðurslega samkomulagi sem gert hefur verið við Alþb. er búið að falla frá því sem er svo markvisst lýst í forsendum og greinargerð frv. og álitsgerð milliþinganefndarinnar að sé óhjákvæmilegt, þ.e. því að húsbréfin beri markaðsvexti og að jafnhliða séu vextir í núgildandi húsnæðislánakerfi hækkaðir í það sama og í staðinn komi vaxtabætur til þeirra sem hafa lægstar tekjur og eiga minnstar eignir.
    Hér er verið að draga í efa þessa röksemdafærslu af þeim sem þó hafa komið að málinu á fyrri stigum eins og hæstv. landbrh. sem sat í þessari milliþinganefnd og skrifaði undir þetta mál allt með fyrirvara vegna þess að hann skildi út á hvað það gekk á þeim tíma. Það gekk auðvitað út á það að hækka vextina í almenna lánakerfinu í markaðsvexti. En hér segir í álitsgerð milliþinganefndarinnar, með leyfi forseta, þegar verið er að fjalla um vaxtabætur sem eru náttúrlega óhjákvæmilegt hliðarmál þessarar breytingar:
    ,,Vaxtabótunum er ætlað að leysa af hólmi núgildandi húsnæðisbætur og vaxtaafslátt í gildandi skattalögum, en heildarfjárhæð þeirra er ákvörðuð þannig að þær innifeli jafnframt þá niðurgreiðslu sem er á vöxtum og lánum í almenna húsnæðislánakerfinu, enda yrðu útlánsvextir slíkra lána látnir fylgja vöxtum á lántökum Byggingarsjóðs ríkisins.``
    Enda yrðu útlánsvextir slíkra lána látnir fylgja vöxtum á lántökum Byggingarsjóðs ríkisins. --- Hvað þýðir þetta? Þetta þýðir nákvæmlega það sem ég var

að segja. Það þýðir það að yfirlýsing hæstv. landbrh. í DV fyrir nokkrum dögum, sem ég ræddi um fyrir helgi, þar sem segir í fyrirsögn ,,Enga markaðsvexti``, þýðir: ekkert húsbréfakerfi. Það getur vel verið að það hafi verið það sem vakti fyrir mönnum sem hér voru að ganga til samkomulags við ráðherra að hér ætti ekki að koma neitt húsbréfakerfi, enda er ræða hv. 2. þm. Austurl. Hjörleifs Guttormssonar um þetta mál með slíkum endemum að þessu leyti til að það er ljóst að þar talar enginn stuðningsmaður húsbréfa eða aukinnar markaðsmiðlunar og verðbréfaviðskipta í sambandi við fasteignir. Enda hvernig á annað að vera, herra forseti? Dettur einhverjum í hug að það sé hægt að ná samkomulagi um slíkt mál við Alþb. sem hatast við allt sem kennt er við frjálsan markað og viðskipti á slíkum mörkuðum? Hér er auðvitað búið að vera að tala við aðila, eyða tíma og sóa tíma í að reyna að ná samkomulagi við aðila sem eru bara á móti slíku. Og hvernig dettur fólki þá í hug að út úr slíku geti komið eitthvert samkomulag um markaðsvexti eða markaðsviðskipti með fasteignaveðbréf í formi húsbréfa? Auðvitað er það borin von frá upphafi að við þennan flokk og þá afturhaldsaðila sem þar ráða ríkjum sé hægt að gera eitthvert slíkt samkomulag. Það liggur bara í eðli málsins. Það má segja að það sé bara samkvæmt skilgreiningu á Alþb. ekki hægt að gera samkomulag um þá hluti við þann virðulega flokk sem hefur um stundarsakir tyllt sér á fremsta bekk í ráðherrastólana þrjá hér í hv. deild. ( Landbrh.: Fer það í taugarnar á ræðumanni?) Nei, nei, það fer ekkert í taugarnar á ræðumanni, síður en svo.
    Herra forseti. Ég vil í þessu sambandi vekja athygli á því að hv. 2. þm. Austurl. Hjörleifur Guttormsson, sem flutti hér mjög langa og ítarlega ræðu við 2. umr. sem ég hef hér undir höndum, fór ekki bara hinum háðulegustu orðum um þetta mál allt og vék að ráðherra þessara mála með þeim hætti að halda hefði mátt að þar væri hinn argasti stjórnarandstæðingur á ferð. Hann gerði ekki aðeins það, heldur spurði hann mjög ákaft eftir því hvort sinn skilningur á þessu vaxtamáli væri réttur. Hann vitnaði til samkomulags stjórnarflokkanna og sagði: Vextir á almennum lánum hjá Byggingarsjóði ríkisins eftir að húsbréfakerfið er komið til framkvæmda mega aldrei verða hærri en 4,5%. Og hann vitnaði í þetta samkomulag og hann vitnaði í álit meiri hl. fjh.- og viðskn. Og hann spurði ráðherrann: Er það ekki þannig að þetta sé örugglega rétt hjá mér? Og hæstv. ráðherra kom upp og vitnaði í sama samkomulagið, las bara aðra setningu úr því, ekki þá sömu og hv. þm. Hjörleifur Guttormsson. Og sagði: Um þetta þarf ekkert að deila.
    Staðreyndin er þá sú að túlkanir þessara tveggja aðila á þessu grundvallaratriði eru gjörsamlega út og suður og það er auðvitað alveg stórbrotið að í framhaldi af þessum orðaskiptum hér skuli hv. þm. Hjörleifur Guttormsson hafa gert grein fyrir sínu atkvæði og atkvæðum alþýðubandalagsmanna hér við 2. umr. í gær með þeim hætti að vitna í þetta samkomulag. Og ég vil leyfa mér að vitna í ræðu hv.

þm. Hjörleifs Guttormssonar um þetta mál. Hann segir hér, með leyfi forseta:
    ,,Ég vil að það sé alveg ljóst og skýrt af minni hálfu, og ég tel mig þar mæla fyrir minn þingflokk, Alþb., sem hefur ítrekað fjallað um þessi efni og gert um þau samþykktir, að við erum að tala um það að vextir af lánum Byggingarsjóðs ríkisins verði að hámarki 4,5% og sú tenging við þá vexti sem kunna að verða á lánum Byggingarsjóðsins eða réttara sagt þá vexti sem Byggingarsjóðurinn þarf að greiða vegna lífeyrissjóðslána koma þessari samþykkt ekki við. Þeir koma þessari samþykkt ekki við eftir þá túlkun sem fyrir liggur frá meiri hl. fjh.- og viðskn. og samkvæmt þeim samþykktum sem þingflokkur Alþb. hefur gert og tengjast þessu máli.`` Og lýk ég hér tilvitnun í hv. þm. Hjörleif Guttormsson.
    Hér var ekkert verið að skafa utan af því, herra forseti, því að hv. þm. bætir við, með leyfi forseta: ,,Ég vil að það liggi alveg skýrt fyrir hér við þessa umræðu að þannig er þetta mál vaxið að ég treysti mér að sjálfsögðu ekki til þess að styðja framgang þessa máls í því skötulíki sem það er hér fram borið nema það sé alveg ljóst og viðurkennt af þeim sem að þessu máli standa að þetta er grundvöllurinn sem við fjöllum um þetta mál á að því er Alþb. varðar og raunar að því er hv. meiri hl. fjh.- og viðskn. varðar einnig.``
    Hér er nú ekkert verið að skafa utan af hlutunum frekar en venjulega þegar hv. þm. Hjörleifur Guttormsson á hlut að máli. Það er ekkert verið að skafa utan af þessu. Vextirnir á þeim lánum sem Byggingarsjóður ríkisins tekur hjá lífeyrissjóðunum koma þessu máli bara ekkert við. Það er það sem er yfirlýst af hálfu Alþb. --- koma þessu máli bara ekkert við. En hv. þm. fékk það svar við sinni spurningu um þetta mál hjá hæstv. ráðherra að hér væri ekkert um neina 4 1 / 2 % vexti að tefla, heldur sagði ráðherra orðrétt:
    ,,Um það hvort vextir af útlánum Húsnæðisstofnunar í núverandi kerfi eigi svo að haldast óbreyttir um einhvern tiltekinn tíma er auðvitað ríkisstjórnarinnar að ákveða, en sú stefna sem hún hefur markað í þessu efni er það sem máli skiptir, að vaxtamismunurinn af teknum lánum og veittum hjá Byggingarsjóði
ríkisins verði ekki nema 0,5--1%.`` Með öðrum orðum, þessi vaxtamismunur sem hv. þm. Hjörleifur Guttormsson segir að komi málinu ekkert við er náttúrlega aðalatriðið í svari ráðherra og í þeirri túlkun sem ráðherrann hefur gert að sinni og ég vil leyfa mér að taka undir að því marki sem mér kemur þessi ágreiningur milli stjórnarliðanna um þetta mál við. En það er auðvitað alveg ljóst að túlkun ráðherra á þessu atriði er miklu nær því sem upphaflega var gert ráð fyrir í nefndinni. Þar munar þó ekki nema 0,5--1% á því sem að var stefnt, markaðsvöxtum, en í framsetningu alþýðubandalagsmanna getur munað þarna mun meiru því að hæstv. fjmrh. er enn að auglýsa spariskírteinin á 7% vöxtum og munurinn á þeim vöxtum og 4,5% er eins og mönnum er kunnugt

2,5% þannig að þarna munar ansi miklu. Auðvitað er þetta grundvallarágreiningur og ég skil ekki hvernig menn geta svo komið hér upp og sagt: Við styðjum frv. á þessum forsendum, þegar þessum forsendum er svo algerlega hafnað af þeim ráðherra sem með málið fer og á að framkvæma þetta. Þá er nú Bleik brugðið, verð ég að segja, ef hv. þm. Hjörleifur Guttormsson hefur látið beygja sig svo í þessu máli sem hann auðvitað sér alveg í gegnum.
    En hv. þm. Hjörleifur Guttormsson talaði einnig um gyllingar og hillingar sem hafðar væru í frammi í sambandi við þetta mál. Og hann sagði ýmislegt fleira um þetta mál, t.d. það að hér væri málflutningur með þeim hætti af hálfu þeirra sem styðja þetta mál að menn væru hér eins og þeir væru komnir með eitthvert allsherjarfagnaðarerindi í sambandi við húsnæðismál, hina endanlegu lausn. Og hann sagði meira, virðulegur þm. Hjörleifur Guttormsson. Hann frábað sér þetta trúboð sem hann kallaði svo. Hann frábað sér þetta trúboð sem hér er rekið svo fast í þessu máli að því er hann sagði. ,,Menn ganga hér fram í nafni þessa húsbréfakerfis nánast með trúboðshugarfari með slíkum skaphita og yfirlýsingum að það minnir á trúboð,,, sagði hv. þm., með leyfi forseta. Samt er þetta einn af þeim þingmönnum sem í nafni Alþb. ætla að styðja þetta mál út á það að hafa gert fyrirvara um 1. gr. frv. við 2. umr., um það að skilningur Alþb. í sambandi við vexti væri bara allt annar en sá sem hæstv. félmrh. hefði lýst yfir.
    Hvers konar mynd er nú á þessu og hvers konar svipur er á því að afgreiða mál hér á Alþingi með þessum hætti? Og hvernig ætlar formaður Alþb. að útskýra það að afstaða flokksins skuli byggjast á því sem ég hef hér rakið, þessu furðulega samkomulagi stjórnarflokkanna um vexti í húsnæðislánakerfinu og túlkun Alþb. á því sem gengur auðvitað þvert gegn því sem ráðherra hefur sagt og auðvitað þar fyrir utan þvert gegn því sem að var stefnt með þessu frv. frá byrjun og þessu máli frá byrjun þegar verið var að undirbúa það? Það er alveg með endemum hvernig að málatilbúnaði er staðið og afgreiðslu. Eins og ég segi er kannski ekki við öðru að búast þegar verið er að reyna að ná samkomulagi um svona mál við stjórnmálaafl sem er í eðli sínu og samkvæmt eðli málsins á móti því, en hefur hins vegar samið um það að því er virðist til þess að geta setið eitthvað áfram í ríkisstjórn og glímt við þau vandamál sem þar er við að fást.
    Þetta er nú annar veigamesti efnisþátturinn sem ég hef kosið að gera hér að umtalsefni í kvöld. Það eru þessir vextir og það er þessi ágreiningur um vaxtasamkomulagið sem upp er kominn, sem upplýstur er, sem kom hér fram í 2. umr. í fyrrinótt og ég hef hér rakið og vitnað til, bæði núna með því að vitna í hæstv. ráðherra og hv. þm. og um daginn þegar ég las upp úr útvarpsviðtölum við sömu aðila um sama mál. Þá kom fram gersamlega ólík túlkun og ólíkur skilningur á þessu samkomulagi, túlkun sem auðvitað getur ekki staðist hjá báðum samtímis nema í þann stutta tíma sem 0,5--1% undir vöxtum lífeyrissjóðanna

væru 4--4,5%. Sá tími er ekki runninn upp og ef hæstv. fjmrh. heldur áfram að selja spariskírteinin sín á 7% vöxtum er heldur ólíklegt að sá tími renni upp í bráð. Það er líka ólíklegt og það er rangt að búið sé að semja um það við lífeyrissjóðina að vextirnir á síðari hluta ársins verði 5% eins og gefið er í skyn í þessu margumrædda samkomulagi. Það er búið að semja um það að þeir verði a.m.k. 5%, en það á eftir að reikna það út. Það verður gert eftir á. Þess vegna er auðvitað fjarstæða að byggja eitthvert samkomulag um afgreiðslu frv. á Alþingi á þeirri forsendu að slíkir vextir verði 5%. Hér auðvitað rekst hvað á annars horn eins og vænta má.
    Hitt atriðið, herra forseti, sem ég vildi gera hér efnislega að umræðuefni er það sem hv. þm. Alexander Stefánsson var að spyrja hér um vegna þess að þar er líka staðfest djúp í túlkun og skilningi milli tveggja stjórnarflokka um þetta mál. Þar liggur að baki eitthvert samkomulag sem gert mun hafa verið milli Alþfl. og Framsfl. til þess að koma til móts við óskir Framsfl. Það samkomulag er hins vegar ekki opinbert skjal og hefur hvergi verið birt, er ekki partur af frv. eða greinargerð þess, en í því samkomulagi mun, að því er best verður vitað, falið að sett sé einhvers konar þak upp á 10% gagnvart því hvað lífeyrissjóðirnir megi kaupa mikið af húsbréfum. Og þetta er orðað þannig í frv. að lífeyrissjóðirnir geti fullnægt hluta af sinni kaupskyldu eða fullnægt ákvæðum 12. gr. laga um Húsnæðisstofnun að hluta til með því að kaupa húsbréf í stað hinna almennu skuldabréfa Byggingarsjóðs.
    Það verður auðvitað að liggja fyrir hér við afgreiðslu þessa máls hvað þetta nákvæmlega þýðir. Ég tel mig vita það að sá er skilningur framsóknarmanna, velflestra, eins og hv. þm. Alexander Stefánsson sagði, að með þessu samkomulagi og þessu ákvæði í frv. sé verið að setja hámark, sé verið að setja þak sem samsvari 10% af ráðstöfunarfé lífeyrissjóðanna á það hvað þessir sjóðir mega kaupa mikið af húsbréfum. Hæstv. ráðherra upplýsti það hins vegar í svari við fyrirspurnum mínum um þetta efni, í ræðu sinni hér í fyrrinótt við 2. umr., að þetta væri alls ekki þannig. Þetta væri nefnilega þannig að lífeyrissjóðirnir þyrftu ekki að kaupa nema fyrir 45% af ráðstöfunarfé hin gömlu hefðbundnu bréf en væru svo frjálsir að því að kaupa það sem þeim sýndist af húsbréfum fyrir sitt ráðstöfunarfé eða eins og ráðherra sagði, og ég vil nú leyfa mér að vitna til hennar ræðu hér, herra forseti, því að hún svaraði þessu atriði skilmerkilega. Hæstv. ráðherra sagði:
    ,,Í því frv. sem nefndin skilaði af sér [milliþinganefndin] var gert ráð fyrir að það skref yrði stigið að kaupskyldan yrði lækkuð niður í 47%. Í því samkomulagi sem gert var milli stjórnarflokkanna í þessu máli og fram kemur í 1. gr. frv., þar sem lífeyrissjóðunum er heimilað að uppfylla hluta af kaupskyldu sinni með húsbréfum, tel ég að í raun hafi verið gengið lengra í þessa átt en fram kom hjá nefndinni vegna þess að í því samkomulagi er gert ráð

fyrir að lífeyrissjóðunum verði heimilað að kaupa húsbréf fyrir 10% af ráðstöfunarfé sínu, þannig að kaupskyldan í núverandi kerfi yrði þar af leiðandi 45%. Hér er því stigið skrefinu lengra í að afnema kaupskylduna en var í frv. Auðvitað er svo ekkert sem kemur í veg fyrir það, ef lífeyrissjóðirnir svo kjósa, að keypt séu húsbréf fyrir meira af ráðstöfunarfénu en hér kemur fram.``
    Þetta getur ekki verið skýrara, herra forseti. Það getur bara ekki verið skýrara að það er verið að lækka kaupskylduna niður í 45% og gefa lífeyrissjóðunum algert svigrúm til þess að kaupa húsbréf fyrir jafnvel afganginn af sínu ráðstöfunarfé ef þeir svo kjósa. Þetta gæti þýtt það að lífeyrissjóðirnir keyptu venjuleg skuldabréf af Byggingarsjóði fyrir 45% en húsbréf fyrir 55% samkvæmt þessu, samkvæmt þeirri túlkun sem ráðherra veitti sem sinn skilning á þessu samkomulagi. Ég held að það sé engin rangtúlkun að lesa upp úr hennar eigin svörum. Þau eru þannig að kaupskyldan fer í raun og veru úr 55% niður í 45% og lífeyrissjóðirnir hafa frítt spil með afganginn, eins og hæstv. ráðherra sagði hér, með leyfi forseta: ,,Auðvitað er svo ekkert sem kemur í veg fyrir það, ef lífeyrissjóðirnir svo kjósa, að keypt séu húsbréf fyrir meira af ráðstöfunarfénu en hér kemur fram.`` Auðvitað kaupa þeir ekki fyrir 55% af sínu ráðstöfunarfé, en þeir mundu kannski kaupa fyrir eitthvað meira en 10%, jafnvel 20%, jafnvel 15%, ef húsbréfin verða með þeim kjörum að geta keppt við önnur skuldabréf eða þeim afföllum að þau verði eftirsóknarverð og veit ég að þá leggur hv. þm. Stefán Valgeirsson við hlustir því að hann er mikill áhugamaður um verðbréf sem seld eru með afföllum. En vera má að eitthvað af þessum húsbréfum verði seld með þeim hætti eins og ég reyndar gat um í ræðu minni við 2. umr.
    Ég held hins vegar að við verðum gera þá kröfu, og það væri nú gott ef einhver ráðherra Framsfl. heyrði mál mitt því að ég vil fá það alveg skýrt fram hvor skilningurinn er réttur og hvort það er rétt að lífeyrissjóðirnir geti keypt húsbréf eins og þá lystir þrátt fyrir samkomulagið við Framsfl. Þetta er sama spurningin og hv. þm. Alexander Stefánsson beindi til ráðherra áðan. Auðvitað verður þetta að liggja fyrir og auðvitað er þetta partur af því skötulíki sem hv. þm. Hjörleifur Guttormsson gerði að umtalsefni við 2. umr., að þetta óbermi, sem hann kallaði frv., er til meðferðar með þeim hætti að um tvö mikilsverðustu atriði málsins er staðfestur hyldjúpur ágreiningur. Ég er að tala hér um kaupskylduákvæðið í 1. gr. sem ráðherra túlkar svo að kaupskylda lækki í 45% og lífeyrissjóðirnir hafi síðan frítt spil en sem framsóknarmenn og ekki bara hv. þm. Alexander Stefánsson túlka sem 10% þak á kaupmöguleika lífeyrissjóðanna á húsbréfum. Ég er búinn að víkja að ágreiningnum um vaxtamál og er að vísu freistandi að endurtaka það fyrst hv. þm. Hjörleifur Guttormsson er kominn í salinn, en ég skal þó ekki gera það. Ég veit að hann treystir mér til að hafa farið rétt með hans mál upp úr þeirri ræðu sem hann flutti við 2. umr.

þar sem hann varaði mjög við ófarnaði sem upp kynni að vera kominn í sambandi við frv., varaði við því trúboði og því fagnaðarerindi sem menn væru hér að boða, varaði við því skötulíki og við þeim gyllingum og þeim hillingum sem uppi væru hafðar í sambandi við þetta mál og fordæmdi alla málsmeðferð hæstv. ráðherra og annarra sem að þessu máli hafa komið, auk þess sem hann minnti með eftirminnilegum hætti á þann draug yfirboðanna sem elt hefði hæstv. núv. félmrh. í starfi. Því eins og hv. þm. sagði, með leyfi forseta, ,,það er þessi draugur yfirboðanna, innihaldslítillar gagnrýni sem hæstv. núv. félmrh., bæði í fyrrv. og núv. ríkisstjórn, hefur verið að kljást við.``
    Þannig var margt sem fram kom í ræðu hv. 2. þm. Austurl. fyrir utan þann staðfesta ágreining sem er um vaxtamálin sem ég er búinn að eyða nokkrum tíma í að fjalla um og skal ekki endurtaka þó svo að hann sé hér kominn.
    Ég lét þess getið áðan að hæstv. ráðherra hefði í raun og veru aðeins svarað tveimur atriðum í minni ræðu við 2. umr. Hann svaraði þessu um kaupskylduna skýrt og skilmerkilega. Ráðherrann svaraði því og með því var staðfest að um þann þátt málsins er mikill ágreiningur. Og ráðherrann svaraði líka fyrirspurn minni og hv. 2. þm. Austurl. um vextina með ótvíræðum hætti að mínum dómi. En sú skýring, eins og hv. 2. þm. Austurl. vék að í sinni seinni ræðu, fór auðvitað þvert á hans skilning, þvert gegn því sem hann hafði lesið upp og lýst sem skilyrði fyrir stuðningi sínum við málið þó svo að hann hafi hér í mikilli mildi í gær staðið upp við 2. umr. og lýst því að Alþb. mundi styðja þetta mál á grundvelli þess samkomulags sem gert hefði verið um vexti og það jafnvel þó svo að túlkun Alþb. og túlkun hæstv. félmrh. á efni þessa samkomulags sé alls ekki samrýmanleg eins og ég hef margbent á og eins og hv. 2. þm. Austurl. benti hér mjög rækilega á í síðari ræðu sinni við 2. umr.
    Ráðherrann svaraði tveimur atriðum í minni ræðu við 2. umr., en svaraði ekki ýmsu öðru sem ég vék hér að eins og t.d. spurningum varðandi fullyrðingar um kostnað þjóðfélagsins af núverandi kerfi sem ég gerði nokkuð að umtalsefni og tel mig hafa hrakið. Því var heldur ekkert svarað. Það verður kannski gert við 2. umr. um skattafrv. það sem þessu fylgir, hvort búið sé að reikna út vaxtabæturnar á nýjan leik úr því að búið er að flytja hluta af þessari opinberu aðstoð til baka yfir í vexti, yfir í niðurgreidda vexti. Það átti að taka kostnaðinn sem fylgdi niðurgreiddu vöxtunum og kostnaðinn af vaxtaafslætti og setja þetta allt á einn stað, í vaxtabótunum. En það kom ekkert svar við því, hvort búið væri að reikna það dæmi upp á nýtt eða hvort ætti yfirleitt að gera það, hvort ætti ekki bara að þjösna þessu öllu í gegn og sjá svo til, láta skeika að sköpuðu.
    En það komu sem sagt svör við þessu með kaupskylduna. Ég lagði fram ýmsar spurningar um framkvæmd þeirra mála og svarið var mjög einfalt og skýrt: Lífeyrissjóðirnir þurfa ekki að kaupa almenn

skuldabréf nema fyrir 45% og hafa að öðru leyti frítt spil. Allar spurningar mínar um aðra framkvæmd á þessu voru því auðvitað óþarfar því að þær gerðu ráð fyrir að það ætti að framkvæma samkomulagið eins og Framsfl. heldur að eigi að gera það, eins og Framsfl. telur að hann sé búinn að semja um.
    Ég vakti líka athygli á því að Kvennalistinn hefði samið hér um nýjar upphæðir í sambandi við hið félagslega húsnæðiskerfi sem raunar koma þessu frv. ekkert við, en það hafa ekki komið nein svör við því hvaðan þeir peningar eiga að koma. Kannski hæstv. fjmrh. viti um það. Það er hins vegar athyglisvert að þegar verið er að reyna að semja eitt frv. í gegnum Alþingi með því að semja við einn af stjórnarandstöðuflokkunum um að skáskjóta því svona í gegnum þingið, þá munar menn ekkert um það að galdra einhverjar 600 millj. upp úr hattinum hjá sér. ( Fjmrh.: Nei, nei.) Nei, segir ráðherra. Þá munar menn ekkert um það og sjálfsagt verða hann og Kvennalistinn sameiginlega ekki í neinum vandræðum með að búa til nýja skatta til þess að standa undir þessu.
    En væri ekki ráð að við fengjum eitthvað að vita um þau skattheimtuáform eða hvernig á að bera þennan kostnað þegar þetta mál er afgreitt eða á bara svona að galdra þetta með hókus pókus-aðferðum eins og hv. þm. Hjörleifur Guttormsson sagði við 2. umr.? Hefði kannski verið hugsanlegt að semja við hv. þm. Alexander Stefánsson um að hann fengi einhverja aura í vegáætlun gegn því að styðja þetta frv.? Hefði það verið möguleiki að greiða honum slíkt lausnargjald fyrir stuðning? ( Fjmrh.: Hann fékk peninga.) Hann fékk peninga, segir hæstv. fjmrh., en þeir hafa þá ekki verið til þess að greiða fyrir stuðningi hans við þetta mál því að hann hefur ekki stutt það eins og fram hefur komið.
    Ég sagði hér hókus pókus, já, en hv. 2. þm. Austurl. sagði í ræðu sinni: ,,Ég held t.d. að klisjur eins og þær sem hæstv. félmrh. hefur látið frá sér fara og Alþfl. í 80 þúsund eintökum hér, um biðröðina löngu, mánuðina 34 sem menn þurfi að bíða, og nú er bara hægt með hókus pókus að afnema þessa biðröð, hún er komin niður í 2--3 vikur.``
    Ég var nú bara að lesa þetta til þess að láta þess getið að hókus pókus-hugtakið í sambandi við þetta mál er komið úr ræðu hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar. En það eru auðvitað ekkert annað en töfrabrögð og blekkingar að setja þetta á blað: Við skulum auka fjárframlög um 600 millj. að raungildi til hins félagslega íbúðakerfis, og segja síðan ekkert meir hvar eigi að taka þessa peninga. Hvað segja nú gamlir fjárveitinganefndarmenn eins og hæstv. heilbr.- og trmrh.? Eða hvað segja núv. fjárveitinganefndarmenn? Hvar á að taka þessa peninga? Hvernig væri nú að fá svar við því? (Gripið fram í.) Þetta er eitt af því sem spurt var um og ekki komu svör við.
    Þannig mætti lengi telja um það sem ég gerði hér að umtalsefni. Það var ekkert vikið að 57. gr. frv. í ræðu ráðherra. Samt liggja fyrir rökstuddar
athugasemdir við það lottó, sem kallað hefur verið,

sem þar á að fara fram í sambandi við endurgreiðslu á húsbréfum. Tíminn hæddist að því í fréttum um daginn sem hann kallaði lottó í sambandi við endurgreiðslu þessara lána en ráðherra sá ekki ástæðu til þess að víkja neitt að því eða öðrum athugasemdum sem komið hafa fram og þeim sem ég hef gert eða gert að mínum sem aðrir hafa flutt.
    Ég hafði ekki hugsað mér að tala mikið lengur, herra forseti. Ég tel að það sé búið að afhjúpa það í þessu máli að bæði þau samkomulög sem gerð hafa verið, annars vegar við Framsfl., hins vegar við Alþb., séu á sandi byggð. Þau séu annaðhvort misskilin af einhverjum sem að þeim standa eða þá að það hafi bara aldrei staðið til að standa neitt við þau. Ef það er rétt á náttúrlega félmrh. heiður skilið fyrir að koma þá með það hér fram, fyrir fram, að það standi hvorki til að framkvæma samkomulagið sem gert var við Framsfl. um þessa 10% kaupskyldu né samkomulagið við Alþb. um vextina sem þeir túlka svo að vextir á lánum Byggingarsjóðsins megi ekki fara yfir 4,5% en ráðherra túlkar svo að eigi að vera 0,5--1% undir vöxtum þeim sem Byggingarsjóðurinn greiðir. Annaðhvort er einhvers konar misskilningur hér á ferðinni eða það stendur ekki til að standa við þessa samninga og þá er manni spurn hvers konar meðferð það er eiginlega á málum hér í þinginu þó að heiðarleiki ráðherrans að segja frá þessu sé auðvitað vissulega lofsverður. Að sama skapi fer ekki mikið fyrir stærð þeirra aðila sem gert hafa þetta samkomulag en ætla síðan að láta það yfir sig ganga að því sé bara lýst hér yfir af ráðherranum að það standi ekki til að framkvæma þetta samkomulag, hvorugt þeirra, eins og aðstandendur þeirra telja sig hafa samið um. Þannig er nú þetta allt hið undarlegasta.
    En ég skal ekki fara fleiri orðum um þetta. Ég vil bara að endingu segja það að þeir menn sem upphaflega sömdu frv. og komu með þessa hugmynd eru sjálfsagt ekkert ánægðir með það að þessu skuli líkt við óbermi. En það er auðvitað alveg rétt að það er búið að gera mjög veigamiklar og furðulegar breytingar á þessu máli þannig að ef menn væru sjálfum sér samkvæmir ættu þeir sem mest töluðu fyrir þessu í upphafi, þeir sem hafa talað fyrir þessu hver á sínum vettvangi að tala gegn því nú. Ég hef t.d. leyft mér að tala fyrir húsbréfakerfi í einhverri mynd innan míns flokks, en ég tala ekki fyrir þessu frv. eins og það er orðið og það ættu þeir heldur ekki að gera sem fyrir þessu hafa talað hæst, eða gerðu í upphafi, ef menn vilja vera sjálfum sér samkvæmir því að búið er að gera á því slíkar breytingar. En það er kannski ekki við því að búast eins og þetta mál er allt í pottinn búið.