Efling löggæslu
Fimmtudaginn 11. maí 1989

     Flm. (Guðmundur H. Garðarsson):
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um eflingu löggæslu, en flm. eru auk þess sem hér talar Friðjón Þórðarson, Matthías Á. Mathiesen, Matthías Bjarnason, Pálmi Jónsson, Halldór Blöndal, Egill Jónsson, Þorsteinn Pálsson og Salome Þorkelsdóttir. Tillagan hljóðar sem hér segir:
    ,,Alþingi ályktar að fela dómsmálaráðherra að grípa nú þegar til ráðstafana er fela í sér eflingu löggæslu í landinu.``
    Virðulegi forseti. Eigi þarf að fjölyrða mikið um tilgang þessarar tillögu, en vert og rétt er að vekja athygli á því að á síðustu árum hafa orðið miklar þjóðfélagsbreytingar á Íslandi sem gera aðrar og meiri kröfur til ýmiss konar þjónustu í þágu borgaranna. Meðal þess er krafan um aukna löggæslu á ýmsum sviðum, svo sem vegna umferðarmála, svo sem vegna forvarnarstarfs gagnvart aukinni útbreiðslu fíkniefna og alhliða þjónustu í þágu fólksins. Heilbrigð og öflug löggæsla er einn af hornsteinum lýðræðislegra stjórnarhátta. Þess vegna er mikilvægt að ætíð sé svo vel búið að löggæslunni að hún geti mætt þeim kröfum sem til hennar eru gerðar.
    Þörfin fyrir aukna vernd borgaranna eykst stöðugt. Í þeim efnum gegnir löggæslan veigamiklu hlutverki. Enn sem fyrr er frumskylda löggæslunnar fólgin í því að veita fólki nauðsynlega vernd og öryggi gagnvart misindis- og afbrotamönnum. Framkvæmd laga og réttar byggist einnig á öruggri og vel upp byggðri löggæslu. Án þess væri dómsvaldið óvirkt og allt réttarfar í hættu.
    Þá hefur hlutdeild löggæslunnar í útfærslu umferðarmála aukist ár frá ári. Sá þáttur hefur vaxið mikið að umfangi og er stöðugt tímafrekari í starfsemi löggæslumanna eins og ég mun víkja að hér á eftir.
    Þá hafa á síðustu árum önnur atriði komið til skjalanna sem gera eflingu löggæslu enn brýnni. Illu heilli hafa Íslendingar ekki farið varhluta af þeirri alvarlegu þróun sem fylgir mikilli útbreiðslu og neyslu fíkniefna. Vel skipulagðir glæpahringir teygja anga sína um allan heim og þar á meðal til Íslands. Þessir aðilar hafa mikinn fjölda misindismanna á sínum snærum sem dreifa og selja fíkniefni. Ágengni þeirra og ófyrirleitni teflir árlega lífi tuga eða hundraða unglinga á Íslandi í mikla hættu, því miður. Þessum aðilum verður nútímalöggæsla að mæta með öllum ráðum.
    Starfssvið löggæslunnar á Íslandi er orðið gífurlega yfirgripsmikið og krefst mikillar árvekni af hálfu þeirra sem þar bera ábyrgð. Þrátt fyrir það hefur ekki verið búið að löggæslunni sem skyldi og alls ekki í samræmi við þær kröfur sem til hennar eru gerðar. Því er stefnt að feigðarósi í þessum efnum og er ekki seinna vænna að löggæslumálin verði tekin fastari tökum í fullu samræmi við nútímakröfur og aðsteðjandi hættu. Það verður ekki gert nema til komi öflugur stuðningur af hálfu ríkis og sveitarfélaga, en eðli málsins samkvæmt heyra þessi mál undir samfélagið í heild. Hér er því ekki verið að gera tillögu um eflingu ríkisvalds sem slíks heldur þann

þátt er lýtur að nauðsynlegri vernd borgaranna.
    Í ljósi þess sem hér hefur verið rakið og einnig þeirra upplýsinga sem fram hafa komið við nánari athugun þessara mála, m.a. vegna sérstakra starfa íslenskra lögreglumanna, þ.e. Lögreglufélagsins í Reykjavík, hefur verið gerð sérstök úttekt á stöðu þessara mála og á grundvelli hennar m.a. og athugana flm. er lögð mikil áhersla á að þessi þáltill. hljóti afgreiðslu á yfirstandandi þingi.
    Aðgerðarleysi af hálfu Alþingis og ríkisstjórnar til eflingar löggæslu setur öryggi borganna í mikla hættu og getur veikt framkvæmd laga og réttar í landinu. Við ákveðnar aðstæður gæti lýðræðislegu stjórnarfari verið ógnað ef löggæslan getur ekki veitt borgurunum nægjanlega vernd og tryggt öryggi þeirra gagnvart afbrotamönnum eða ofbeldisöflum. Að standa gegn eflingu löggæslu eða sýna því máli tómlæti jafngildir því að vilja vísvitandi grafa undan lýðræðislegu réttarfari og þingræðislegum stjórnarháttum auk þess sem fyrr hefur verið greint frá, að tefla lífi og öryggi borgaranna í mikla hættu.
    Ég vil, virðulegi forseti, til frekari áréttingar greina frá því eins og ég gat um áðan að Lögreglufélag Reykjavíkur gerði skýrslu um ástand og horfur í þessum málum. Sú skýrsla birtist sem fylgiskjal með þessari þáltill. og ég vil taka fram að hún er samin og gerð á ábyrgð Lögreglufélags Reykjavíkur. Flm. hafa kynnt sér þessa skýrslu ítarlega og eru sammála mörgum atriðum sem komu fram í henni án þess að þeir taki undir þau öll.
    Ég vil, virðulegi forseti, fara hér nokkrum orðum um þá þætti skýrslunnar sem máli skiptir að hv. þm. geri sér grein fyrir við umfjöllun þessa máls. Þegar litið er á helstu starfsþætti lögreglunnar eða löggæslunnar kemur í ljós að það má skipta þeim í fimm meginkafla eða meginþætti, þ.e. almenn löggæsla, umferðarmál, rannsóknarmál, ávana- og fíkniefnamál og svo er kominn nýr þáttur til skjalanna sem verður stöðugt þýðingarmeiri í starfsemi löggæslunnar sem er fjarskiptaþjónusta. Fjarskiptaþjónustan er kafli út af fyrir sig sem hefur geysilega þýðingu í sambandi við virkni og möguleika löggæslumanna til að sinna sínum störfum svo að vel sé.
    Þar sem ég hef takmarkaðan tíma í framsögu fyrir þessari þáltill. vil ég,
virðulegi forseti, fá að minnast hér á tvö, þrjú atriði áður en ég lýk máli míu sem styðja að það sé nauðsynlegt að hv. þm. taki það mál alvarlega sem hér er á ferðinni sem er að stuðlað verði að eflingu löggæslu.
    Í skýrslu Lögreglufélags Reykjavíkur sem varðar almenna löggæslu segir m.a., með leyfi forseta:
    ,,Nokkur samdráttur hefur orðið á mannafla og bílakosti til almennrar löggæslu á undanförnum missirum [þ.e. á Stór-Reykjavíkursvæðinu]. Á sama tíma hefur löggæsluumdæmi lögreglunnar í Reykjavík stækkað að mun. Að vísu eru sérstakar bifreiðar til löggæslu á Seltjarnarnesi og í Mosfellsbæ að degi til, en almenn deild lögreglunnar í Reykjavík sinnir

löggæslu á þessum svæðum á nóttunni.
    Stöðugildi lögreglumanna við embætti lögreglustjórans í Reykjavík munu nú vera 238 og hefur þeim ekki fjölgað undanfarin ár. Reyndar voru fjögur stöðugildi færð frá embættinu til Lögregluskóla ríkisins, en engum bætt við á móti vegna stækkunar löggæslusvæðisins.
    Nokkur hópur manna gegnir störfum sem flokka má sem skrifstofustörf á vegum embættisins. Við stofnun Rannsóknarlögreglu ríkisins var rannsóknum minni háttar mála og umferðarmála, svo og innheimtu sakeyris, bætt við verkefni lögreglunnar í Reykjavík. Utan um þessi verk hafa hlaðist önnur, ekki síst vegna boðunar og fangaflutninga. Þannig hefur jafnt og þétt verið gengið á mannaflann til útkalla, almennrar löggæslu og umferðareftirlits. Því hefur orðið verulegur samdráttur á venjulegri löggæslu í Reykjavík á sama tíma og bifreiðakostur hefur stóraukist, löggæslusvæðið stækkað að mun og stórborgarbragur færst á brotamálin.
    Á undangengnu ári [þ.e. árinu 1988] hefur síðan almenn löggæsla í Reykjavík verið skorin rækilega niður.``
    Það er mjög alvarlegt mál sem fram kemur í þessari skýrslu um stöðu mála í sambandi við löggæslu, sérstaklega á hinu svonefnda Stór-Reykjavíkursvæði. Því miður held ég, og það ber nokkurn vott um hvaða áhuga hv. þm. hafa fyrir þessum málum, að það sé ekki aðeins á hinu hv. þingi sem skilningur er alls ekki fyrir hendi á þróun og stöðu þessara mála. Þess gætir einnig víða úti í þjóðfélaginu. Því er komið sem komið er, að löggæslan getur því miður ekki sinnt þeim skyldustörfum sem henni eru ætluð. Sem dæmi um það ástand hvað áhrærir mannafla vil ég segja eftirfarandi:
    Ástandið í almennri deild var þannig í nóvember 1988 að til útkalla og almenns hverfaeftirlits á fjórum vöktum var aðeins 81 lögreglumaður. Sú tala var lítið hærri en árið 1944 sem þýðir að það eru jafnmargir um löggæslu á Stór-Reykjavíkursvæðinu og var árið 1944. Það sér hver heilvita maður að þetta getur ekki staðist og þetta hlýtur að koma niður á þeim sem síst skyldi sem er hinn almenni borgari. En það er ekki aðeins að þetta komi niður á hinum almenna borgara heldur kemur það líka niður á þeim löggæslumönnum sem eiga að sinna þessum störfum.
    Í skýrslu Lögreglufélags Reykjavíkur er fjallað m.a. og sérstaklega um löggæslu um helgar í Reykjavík og á Stór-Reykjavíkursvæðinu. Þar segir m.a., virðulegi forseti, á þessa leið: ,,Það er greinilegt að æsingur, spenna og ofbeldi hafa farið í vöxt á undanförnum árum.`` Orsakir verða ekki raktar í þessum sóknum, þ.e. Reykjavík og nágrenni, og hver sé ástæðan fyrir því. En síðan segir í skýrslunni að vegna harðnandi tíðar í þjóðfélaginu og samkvæmt fyrri reynslu megi búast við því að erfileikar muni aukast í störfum lögreglunnar og hún verði verr búin til þess að mæta þeim vandamálum sem fram undan eru í þeim efnum.
    Í kafla um umferðarmál, sem er mjög ítarlegur,

koma fram atriði sem ættu að vera nútímamanni auðskiljanleg vegna þess að þau eru tengd umferðinni og tengd því að nútímamaður ferðast mikið um á bifreiðum. Með leyfi forseta vil ég lesa eitt atriði úr þeim kafla skýrslunnar sem fjallar um umferðarmál og undirstrika það sérstaklega áður en ég greini frá því sem þar stendur að byggð í Reykjavík hefur stækkað gífurlega mikið og segja má að löggæslusvæði Reykjavíkurlögreglunnar, þó að höfuðstöðvarnar séu í Reykjavík, nái frá botni Hvalfjarðar og allt út að Seltjarnarnesi og að mörkum Reykjavíkur og Kópavogs þannig að það svæði sem löggæslan þarf að fjalla um, Reykjavíkurlögreglan, er gífurlega umfangsmikið.
    Í skýrslu Lögreglufélags Reykjavíkur segir m.a. að árið 1984, fyrir um það bil fimm árum, hafi verið einn lögreglumaður í umferðardeild á hver 1000 skráð ökutæki en í dag sé einn lögreglumaður á hver 1930 skráð ökutæki. Eru þá ótalin skráð ökutæki nágrannabyggðarlaganna sem óhjákvæmilega blandast borgarumferðinni mikið.
    Af því geta hv. þm. markað nokkuð hvernig ástatt er að lögreglumenn til vettvangslöggæslu og útkalla í Reykjavík í apríl 1989, en þessar tölur sem ég las upp áðan voru frá því í nóvember, voru sem hér segir: Almenn deild: A-vakt 19 manns, B-vakt 17, C-vakt 17, D-vakt 21, samtals 74. Umferðardeild á fjórum vöktum: Aðeins 15 löggæslumenn. Samtals eru þetta 89 menn á fjórum vöktum sem eiga að gæta öryggis og verndar borgaranna jafnframt því sem þeir bera ábyrgð
á þeirri miklu umferð sem er á Stór-Reykjavíkursvæðinu.
    Það þarf ekki að hafa mörg orð um það, virðulegi forseti, hvernig þessi mál hafa þróast. Þau eru að komast í óefni og hef ég þá ekki fjallað um þann þátt er lýtur að rannsóknarverkefnum eða ávana- og fíkniefnadeild.
    Þar sem tíma mínum er að verða lokið í þessari framsögu vil ég segja það eitt út af fyrir sig: Umfjöllun lögreglunnar og aðstaða í sambandi við rannsóknarmál og einnig í sambandi við ávana- og fíkniefnamál, þ.e. ávana- og fíkniefnadeild, er mál út af fyrir sig sem krefst mikillar og langrar umræðu.
    Ég vænti þess að hv. þm. taki þetta mál föstum tökum og afgreiði þessa þáltill. um eflingu löggæslu á þessu þingi þrátt fyrir að málið kemur svo seint til meðferðar sem raun ber vitni um.
    Að lokum, virðulegi forseti, vil ég segja að ég kalla þá þingmenn til ábyrgðar sem ekki vilja sinna þeirri skyldu sinni að þessi þáltill. verði samþykkt þannig að hæstv. ríkisstjórn geti fjallað um þessi mál þegar á þessu sumri með það í huga að tillögur liggi fyrir þegar þing kemur saman í haust. Ég sá að hæstv. dómsmrh. var í gættinni. Að mínu mati hefði hann betur verið hér inni til að hlýða á frsm. og það efni sem hér er til meðferðar, en það er kannski í samræmi við það í hvílíkri vanrækslu þessi mál eru að enginn sem hefur þessi mál á sínu ábyrgðarsviði af hálfu ríkisstjórnarinnar skuli vera mættur í þingsal

þegar þetta mál er til meðferðar. Það er svo annar þáttur sem ég hefði gjarnan viljað ræða, virðulegi forseti, hvernig sú þróun mála hefur orðið innan löggæslunnar að svo virðist sem hinir æðri menn er bera stjórnunarlega ábyrgð á þessu sviði hafi fjarlægst þá sem eiga að framkvæma þetta verk frá degi til dags. Það er mjög alvarlegt mál.
    En ég vil að lokum segja það, virðulegi forseti, að við flm. höfum kynnt okkur mjög vel allar hliðar þessa máls og m.a. átt viðræður við fjölda manns sem starfa að þessum málum úti á vettvangi.
    Ég vil svo, virðulegi forseti, gera að tillögu minni að að lokinni fyrri umræðu verði þessari tillögu vísað til allsherjarnefndar.