Efling löggæslu
Fimmtudaginn 11. maí 1989

     Friðrik Sophusson:
    Virðulegur forseti. Ég þarf ekki að hafa mörg orð um þessa þáltill. Hv. 1. flm. málsins hefur þegar lýst í sínu máli nauðsyninni á því að efla löggæsluna og með honum á þessari tillögu eru ýmsir af þingmönnum Sjálfstfl., þó ekki sá sem hér talar. Ég vil þess vegna nota tækifærið til að lýsa yfir eindregnum stuðningi við tillöguna og vænti þess að sú nefnd sem fær tillöguna til meðferðar geti á þeim stutta tíma sem eftir lifir þingsins kannað með hvaða hætti sé unnt að grípa til nauðsynlegra aðgerða til að koma til móts við þau sjónarmið sem lýst er í tillögunni og greinargerðinni en þó einkum og sér í lagi í athyglisverðri bráðabirgðaskýrslu sem er fylgiskjal með tillögunni sjálfri.
    Sem þingmaður Reykvíkinga hlýt ég að hafa áhyggjur af þessum málum á höfuðborgarsvæðinu og tel það vera skyldu stjórnvalda að gera tillögur og fylgja þeim eftir um það efni sem bent er á bæði í bráðabirgðaskýrslunni og eins í greinargerðinni með tillögunni.
    Ég held, virðulegur forseti, að það sé óþarfi að bæta mörgum orðum við það sem þegar hefur verið sagt í þessu máli, en vildi ekki láta þetta tækifæri fram hjá mér fara til að ítreka það, sem fram hefur komið af hálfu frsm., að það er bráðnauðsynlegt, ekki síst hér á suðvesturhorni landsins, að huga rækilega að því á næstunni hvernig efla megi löggæsluna, en í þeim málum stefnir í óefni eins og fram kom í máli flm. og fram kemur skýrlega í greinargerð með tillögunni.