Kjaradeila BHMR og ríkisins
Föstudaginn 12. maí 1989

     Birgir Ísl. Gunnarsson:
    Hæstv. forseti. Ég hefði viljað óska eftir því að hæstv. fjmrh. yrði viðstaddur þessa umræðu og reyndar hæstv. menntmrh. líka. ( HBl: Fjmrh. er að tala við blaðamenn. Það er meira virði en að hlusta á umræður um launamál hér í þinginu.) ( Forseti: Hæstv. menntmrh. er staddur hér í salnum, en það er óskað eftir að hæstv. fjmrh. gangi til salar. --- Gengur nú hæstv. fjmrh. í salinn.)
    Hæstv. forseti. Það er núna rétt vika síðan fram fór hér í sameinuðu Alþingi umræða um þá kjaradeilu sem þá hafði staðið í rúmar fjórar vikur, við getum sagt fjórar og hálfa viku þegar við reiknum helgina með. Það var ég sem var málshefjandi á þeim fundi og varð sú utandagskrárumræða fyrir tilstilli þingflokks Sjálfstfl.
    Nú, viku síðar, fer fram umræða að nýju sem hv. 6. þm. Reykv. Guðrún Agnarsdóttir hefur fyrir tilstilli Kvennalistans og er þá komið hátt á sjöttu viku síðan það verkfall hófst sem við ræðum hér nú í dag. Eins og hv. 6. þm. Reykv. gat um stóð til að sú umræða sem við eigum hér í dag færi fram fyrr í þessari viku því að umræðunni fyrir viku síðan var slitið þar sem hálftíminn var liðinn sem ætlaður var til hennar og þá voru enn einhverjir á mælendaskrá.
    Ég rifja þetta upp vegna þess að það er fyrst þegar hátt á fimmtu viku er liðið frá því að verkfallið hófst að þetta mál er tekið til umræðu hér á hv. Alþingi. Ég held að þess séu fá dæmi í stöðu eins og þessari að nokkurri ríkisstjórn hafi verið sýnd eins mikil tillitssemi í erfiðri stöðu, í erfiðu máli, og Alþingi hefur sýnt hæstv. ríkisstjórn í þessu efni. Það er ljóst að hv. þm. hafa beðið í lengstu lög eftir því að taka þetta mál hér til umræðu. Það hafa auðvitað allir vonast til þess að þessi erfiða deila mundi leysast en svo er því miður ekki. Sjötta vika deilunnar er hafin. Þetta er lengsta og harðasta vinnudeila sem háð hefur verið hér á landi og hefur valdið ýmsum erfiðleikum eins og fram hefur komið í þessari umræðu og hv. 6. þm. Reykv. gat um og hæstv. ráðherrar hafa gert að umtalsefni hver á fætur öðrum.
    Ástæðan fyrir því að ég tók þessa umræðu upp fyrir viku var sú að ég vildi inna hæstv. menntmrh. eftir því hvernig hann hygðist bregðast við því ástandi sem skapast hefur í skólum landsins, fyrst og fremst eins og það snýr að nemendum og eins og það snýr að foreldrum. Við vitum að það eru þúsundir nemenda í algerri óvissu um lok þessa skólaárs og um hvernig verður tekið á þeirra málum. Fá nemendur að flytjast á milli bekkja? hvernig verður farið með þá nemendur sem eru að taka lokapróf eins og stúdentspróf? Þetta eru spurningar sem brenna á mönnum dag eftir dag. Um þetta er hæstv. ráðherra spurður dag eftir dag.
    Á Alþingi fyrir einni viku sagði hæstv. ráðherra: Þegar verkfalli lýkur verður leitað allra leiða. Öðru gat hann ekki svarað. Hann sagði einnig þá: Það er komið fram yfir elleftu stundu. Ég hefði þess vegna vænst þess að hæstv. ráðherra, sem á hverjum degi hefur verið spurður þessara spurninga af fjölmiðlum, af nemendum, af foreldrum, gæfi nú skýr og ítarleg

svör hér á hv. Alþingi um það hvernig verði gripið á þessum málum.
    Hæstv. ráðherra gaf út um það yfirlýsingu fyrr í þessari viku að á föstudag, eftir ríkisstjórnarfund, mundi verða gefin út yfirlýsing um það hvernig á þessum málum yrði tekið þannig að þeirri óvissu yrði eytt sem nemendur og fjölskyldur eru í að því er þetta erfiða vandamál snertir. Hann hefur hins vegar engin svör gefið hér í dag um þetta efni. Hann svarar út og suður. Hann snýst hring eftir hring, talar stundum í slagorðum, eins og útifundum, en hefur engin ráð um það hvernig hann ætli að grípa á þessu vandamáli. Yfirlýsingin, sem átti að koma í dag eftir einhvern ríkisstjórnarfund sem boðað var að yrði haldinn og yfirlýsingin mundi koma, hefur ekki komið og ekki neins að vænta af hálfu hæstv. ráðherra í þeim efnum. Skólastarfið er í óvissu og nemendur eru þegar haldnir til vinnu. Það er upplausn í skólum landsins og þeirri óvissu verður auðvitað að eyða sem fyrst. Það verður að taka á því fyrr en seinna. Það er komið fram yfir elleftu stundu, hæstv. menntmrh., í því hvernig grípa eigi á þessu vandamáli. Það er ekki hægt lengur að snúast hring eftir hring og hrekjast úr einu víginu í annað og geta engu svarað.
    Deilu af þessu tagi verður auðvitað að skoða í ljósi þess þjóðfélagslega umhverfis sem við búum við og maður hlýtur að spyrja sjálfan sig: Hvernig stendur á því að einmitt nú skuli vera óleyst einhver harðasta og lengsta kjaradeila sem við höfum þekkt hér á landi? Það hlýtur auðvitað að leiða hugann að því að nú eru það tveir ráðherrar Alþb. sem fara með fulla ábyrgð í þessari deilu, þ.e. hæstv. fjmrh. og hæstv. menntmrh. að því er kennarana snertir. Maður verður auðvitað að huga að forsögu Alþb. í málum eins og þessu. Þetta er ekki fyrsta kjaradeila af þessu tagi. Í öllum fyrri deilum hefur Alþb. verið í stjórnarandstöðu.
    Í öllum fyrri deilum hefur Alþb. verið í fararbroddi í kröfugerðinni. Þeir hafa verið í fararbroddi, í fremstu röð á mótmælafundum, í kröfugöngum, og hver man ekki ráðherrana, hæstv. menntmrh. eða hæstv. fjmrh., fremsta í flokki á slíkum fundum, steytandi hnefa gegn fjandsamlegu ríkisvaldi, og taka undir
allar þær kröfur sem gerðar voru? Og hver man ekki eftir þeim á kössum á útifundum til þess að leggja áherslu á slíkar kröfur? Fólkið í þessum samtökum, fólkið í samtökum opinberra starfsmanna, fólkið í samtökum háskólamenntaðra starfsmanna, taldi sig eiga hauka í horni þar sem þessir hæstv. ráðherrar Alþb. væru. Það er enginn vafi á því að það hefur átt stóran hlut í ákvörðun um verkfall sem varð mjög umdeild innan þessara samtaka og var samþykkt með litlum meiri hluta. Það átti stóran þátt því að menn töldu að nú væri lag, nú ætti launafólkið hauka í horni þar sem væru ráðherrar Alþb., þeir hæstv. ráðherrar Ólafur Ragnar Grímsson og Svavar Gestsson. Nú væri því rétt að nota tækifærið og sækja sér þær kjarabætur sem þessir hæstv. ráðherrar hafa prédikað að fólkið ætti rétt á. Það bera þess vegna engir meiri ábyrgð, það bera þess vegna engir þyngri ábyrgð á þeirri stöðu sem komin er upp í þessu

þjóðfélagi en þessir hæstv. ráðherrar Alþb. sem nú fara með þessi mál.
    Það hefur komið í ljós að þær vonir sem fólkið gerði sér um framgöngu hæstv. ráðherra voru á sandi byggðar. Það hefur komið í ljós að allt það tal --- þeir eru sérfræðingar í að tala, alþýðubandalagsmenn --- um nauðsyn kjarabóta fyrir þetta fólk var áróður einn. Það var verið að slá ryki í augu fólks.
    Við skulum aðeins ræða örlítið kjaradeiluna sjálfa. Þetta er auðvitað kjaradeila eins og hver önnur. Og þessi deila er ekkert sérstök að því leyti að hún verður ekki leyst í umræðum hér á hv. Alþingi. Það verður ekki leyst hér á hv. Alþingi hvernig semja beri í jafnflóknum og erfiðum kjarasamningum og hér um ræðir. Í slíkum deilum þurfa menn hins vegar að ganga um allar gáttir af mikilli gætni. Í slíkum deilum eru orð dýr og það er ekkert meira áríðandi í slíkum deilum en að koma á sambandi trúnaðar og trausts á milli deiluaðila, á milli forustumanna þeirra hópa sem takast á, í þessu tilfelli forustumanna hæstv. ríkisstjórnar og forustumanna samtaka háskólamanna.
    Ég verð að segja eins og er að mér finnst að hæstv. ráðherrar hafi algjörlega brugðist í þeim efnum og ég hef oft kippst við í stofunni heima hjá mér, þegar ég hef verið að hlusta á fréttir, þegar ég hef heyrt yfirlýsingar hæstv. ráðherra í þessum efnum. Það er enginn vafi á því að hroki og steigurlæti hefur átt stóran þátt í því að hleypa illu blóði í þetta mál og gera það illleysanlegt. Ég nefni t.d. fundinn sem við sáum í sjónvarpinu sem haldinn var inni í Sóknarsalnum þar sem hæstv. ráðherra mætti með Hinu íslenska kennarafélagi. Slíkur fundur hefði auðvitað betur verið óhaldinn. Það hjálpaði hæstv. fjmrh. að vísu í því máli að sjónvarpið birti eingöngu þann þátt úr fundinum þegar hann var að komast í upplausn og kennarar voru farnir að hrópa fram í fyrir honum þannig að það virkaði ekki vel á fólkið í landinu að horfa á það, en fundurinn var orðinn langur og hæstv. ráðherra hafði með hroka og steigurlæti hleypt illu blóði í fundarmenn. Og ég segi aftur: Þessi fundur hefði betur verið óhaldinn, en ég skil vel að kennararnir skyldu hafa óskað eftir þessum fundi vegna þess að hæstv. fjmrh. egndi þá sjálfur yfir sig með hrokafullri yfirlýsingu í Helgarblaði Þjóðviljans helgina áður þar sem hann lét birta í fyrirsögn: ,,Ég fæ ekki að tala við kennara.`` Hvað áttu kennarar annað að gera en að bjóða honum til slíks fundar? Framkoma af þessu tagi er ekki líkleg til þess að leysa kjaradeilur. Hæstv. fjmrh. virðist nefnilega mjög oft nálgast lífið eins og það sé einn allsherjar málfundur og það sem mestu máli skipti sé að standa í fjölmiðlaljósi og halda miklar ræður og það virðist oft vera mikilvægara í hans huga en raunhæfar viðræður og lausnir í kyrrþey og að skapa trúnaðartraust á milli aðila. Framkoma hæstv. ráðherra hefur hleypt illu blóði í kennara og aðra viðsemjendur.
    Það hefur komið í ljós að hæstv. ráðherrar ráða ekki við þetta mál. Þeir hafa hvað eftir annað metið stöðuna rangt. Ég harma það að hæstv. forsrh. skuli

ekki hafa setið undir þessari umræðu allri, svo mikilvægt sem þetta mál er. Ég ætla ekki að óska eftir því að hann verði kallaður hér í salinn því að mér er kunnugt um að hann er farinn úr húsinu. Hann átti fyrir löngu að vera búinn að grípa inn í þetta mál. Það er auðvitað mjög ámælisvert og gagnrýnisvert að hæstv. forsrh. skuli hafa kosið að eyða þessari dýrmætu viku í þessari kjaradeilu í Ungverjalandi, í einhverri heimsókn þar, frekar en vera hér heima og grípa inn í þetta mál. Ég er hins vegar sannfærður um að það þarf mikið til að koma til að byggja aftur þá brú trausts og trúnaðar sem þarf að byggja milli hæstv. fjmrh. og kennarasamtakanna og BHMR og þess vegna er það nauðsynlegt að hæstv. forsrh. grípi af fullri alvöru inn í þetta mál og reyni allt sem í hans valdi stendur til að leysa þessa deilu.
    Hæstv. fjmrh. beindi því áðan til málshefjanda, hv. 6. þm. Reykv. Guðrúnar Agnarsdóttur, að hún setti hér fram sínar hugmyndir og sínar tillögur um það hvernig ætti að leysa þessa deilu. Og hæstv. fjmrh. sagði einnig að hann teldi að aðrir ræðumenn sem tækju þátt í þessari umræðu og vildu leysa deiluna yrðu að svara ákveðnum spurningum eins og þeim hversu mikla launahækkun þingmenn teldu að veita ætti BHMR umfram BSRB og jafnframt hver ætti að vera hin sérstaka árlega launahækkun sem semja ætti um. Auðvitað veit hæstv. fjmrh. að svona spurninga er ekki hægt að spyrja og svör af þessu tagi er ekki hægt að veita. Lífið er ekkki málfundur og kjaradeila er ekki einn allsherjar
málfundur og lausn á kjaradeilum gerist ekki og verður ekki veitt í umræðu eins og þessari. Þess vegna er alveg út í hött og fullkomið ábyrgðarleysi og sýnir raunar uppgjöf hæstv. fjmrh. að hann skuli ætlast til þess að spurningum af þessu tagi sé svarað.
    Þau ráð sem ég vil hins vegar gefa hæstv. fjmrh. að lokum í þessari deilu, og ég er sannfærður um að það verður hans besta veganesti, er að láta af hrokanum, láta af steigurlætinu í framkomu við kennara og í framkomu við BHMR, reyna að byggja að nýju traust trúnaðar á milli þessara aðila og fá hæstv. forsrh. til þess að ganga til liðs við sig í að leysa þessa deilu því að þessi deila er orðin það alvarleg að lausn hennar getur ekki beðið öllu lengur.