Kjaradeila BHMR og ríkisins
Föstudaginn 12. maí 1989

     Danfríður Skarphéðinsdóttir:
    Virðulegi forseti. Það er hart að þurfa að standa hér enn einu sinni til þess að ræða um kjaramál háskólamenntaðra ríkisstarfsmanna án þess að nokkuð hafi gerst síðan við ræddum um það hér í síðustu viku og höfum reyndar minnst á það öðru hverju eftir því sem tilefni hafa gefist, en það hefur því miður verið lítið um svör.
    Það hefur vakið undrun mína núna síðustu dagana að fylgjast með viðbrögðum stjórnvalda eftir því sem neyðarástand ýmissa atvinnugreina hefur orðið sýnilegra. Í Tímanum í dag er að finna frétt þar sem eftirfarandi er haft orðrétt eftir hæstv. sjútvrh. sem hefur síðustu daga verið staðgengill forsrh. og les ég hér hluta þess sem eftir honum er haft, með leyfi forseta:
    ,,Atvinnugreinar ekki látnar veslast upp``. Og yfirskrift fréttarinnar er á þá leið að tilskipunar sé nú vænst frá stjórnvöldum til að ,,leysa korn- og fóðurvöru úr gíslingu náttúrufræðinga`` eins og þar er komist að orði. Það sem vekur undrun mína og annarra trúlega líka er hinn rækilegi fréttaflutningur og áhyggjur manna af þessum atvinnugreinum, en lítið sem ekkert fréttist af því neyðarástandi sem skapast hefur í heilbrigðis- og menntastofnunum landsins. Það hefur þó reyndar verið rætt töluvert um málefni skólanna síðustu daga, en það var ekki seinna vænna og í raun og veru jafnvel orðið of seint. Þetta sýnir e.t.v. verðmætamatið í þjóðfélaginu þar sem megináherslan liggur á svokallaðri arðsemi hlutanna. Umönnun, hjúkrun, uppeldi, fræðsla og menntun á greinilega ekki upp á pallborðið hjá stjórnvöldum, hvaða nafni sem þau nefnast, enda virðast stjórnvöld á öllum tímum blinduð af því að reyna að leysa efnahagsmálin en horfa ekki á hlutina í samhengi.
    Nú vil ég að sjálfsögðu ekki gera lítið úr þeim vanda sem nýjar atvinnugreinar eins og fiskeldi og kornrækt standa frammi fyrir og öll bindum við miklar vonir við þær, ekki síst með tilliti til uppbyggingar atvinnulífsins úti á landi. Nú berast þær fréttir að til standi að gefa út reglugerðir eða einhvers konar fyrirmæli af hálfu stjórnvalda til að ná úr tolli korni og fóðurvörum. Slík fyrirmæli leysa e.t.v., en ég efast þó um það, vanda þessara atvinnugreina rétt í bili en ekki leysa þau deiluna nema síður sé og ekki er víst að í framtíðinni fáist fólk til að hafa eftirlit með þessum mikilvæga varningi. Ekki verður hægt að leysa vanda sjúklinga eða nemenda með slíkum fyrirmælum eða reglugerðum.
    Ég ætla að leyfa mér að taka fyrir einn afmarkaðan þátt í þessari deilu sem er að mínu mati grundvallaratriði og sýnir þann vanda og kjarna þessarar deilu í hnotskurn, þá staðreynd að kennarar í HÍK hafa neyðst út í verkfall tveimur árum eftir síðasta verkfall og fjórum árum eftir að kennarar sáu þann kost einan að segja upp störfum sínum og ganga út úr skólunum 1. mars 1985. Á 8. og 9. áratugnum varð mikil breyting í skólakerfinu hér á landi með stofnun nýrra mennta- og fjölbrautaskóla í öllum landshlutum. Til skólanna réðust nýútskrifaðir

kennarar, fullir áhuga og eldmóðs að takast á við það fjölbreytilega og krefjandi starf sem kennslan er. Menn lögðu ómælda vinnu og oft ólaunaða í skipulagningu nýrra námsbrauta, gerð námsefnis og námsvísa. Þar kom þó að kennurum þótti umbunin fyrir þessi störf harla lítil og lái þeim hver sem vill. Það má þess vegna segja að þessi áratugur hafi einkennst af kjarabaráttu og kennarar hafa hvað eftir annað hrakist út í það að gera nauðungarsamninga sem að stærstum hluta til hafa byggst á loforðum og bókunum sem ekki hefur verið staðið við. Það var örþrifaráð kennara að ganga út úr skólunum 1. mars 1985 og það voru vissulega þung spor. En kennarar hugsuðu ekki einungis um eigin hag, ekki þá frekar en nú, heldur voru þeir ekki síður að huga að skólastarfinu og framtíðinni.
    Í kjarasamningum BHMR við ríkið öll undanfarin ár hefur verið ákvæði þar sem segir orðrétt, með leyfi forseta:
    ,,Við röðun í launaflokka skal gæta innbyrðis samræmis milli starfsmanna og þess að ríkisstarfsmenn njóti sambærilegra kjara og þeir menn með svipaða menntun, sérhæfni og ábyrgð sem vinna hliðstæð störf hjá öðrum en ríkinu.``
    Það er í raun og veru þetta atriði í kjarasamningum sem nú þegar eru í gildi sem deilan snýst um og allar þær deilur sem komið hafa upp á sl. árum.
    Síðasta dag febrúarmánaðar 1985 kom út skýrsla menntmrn. um endurmat á störfum kennara. Eftir rúmlega þriggja vikna útivist sneru kennarar aftur til starfa sinna eftir að hafa fengið yfirlýsingu, bæði frá þáv. fjmrh. Albert Guðmundssyni og forsrh. Steingrími Hermannssyni, en í yfirlýsingu þessari segir m.a., með leyfi forseta, og það er ætlun ríkisstjórnarinnar sem þar kemur fram: ,,Að tryggja ríkisstarfsmönnum sömu heildarkjör og menn hafa við sambærileg störf og ábyrgð, m.a. að dagvinnulaun verði hin sömu þegar borin eru saman laun sem eru fyrir fulla dagvinnu aðeins og tekið tillit til hlunninda hvers konar.``
    Hæstv. núv. forsrh. hefur misst eitt ár úr í stóli forsrh. síðan þessi orð voru skrifuð. Hann hefur þó verið í ríkisstjórn allan tímann og hefði átt að geta unnið að þessum málum. Hann lýsti því yfir í síðasta mánuði við umræðu hér í Ed. um málefni framhaldsskóla og aftur í máli sínu fyrr í dag að þetta
væri stefna ríkisstjórnarinnar enn þann dag í dag. Það kom hins vegar fram í máli hans fádæma vanþekking á kjaramálum í þessari umræðu sem var hér fyrr í dag. Hann talaði um að nauðsynlegt væri að finna viðmiðun og það er einmitt það sem háskólamenntaðir ríkisstarfsmenn leggja mikla áherslu á núna, að fundin sé viðmiðun, við hvaða stétt úti á hinum almenna vinnumarkaði skuli miða.
    Hæstv. forsrh. nefndi hér í dag tæknifræðinga en lét þess getið að samanburður við þá væri erfiður þar sem kjör þeirra væru breytileg og þeir fengju yfirborganir af ýmsu tagi. Og ef hæstv. forsrh. væri hér, en ég veit reyndar að hann er ekki hér og ég vona að skýringin á því sé sú að hann sé að reyna að

ná einhvers konar samningaviðræðum í gang, hefði ég viljað spyrja hann hvort hann vissi ekki að hjá öllum stéttarfélögum, hvort sem er innan ríkisins eða úti á hinum almenna vinnumarkaði, eru til taxtar sem fara skal eftir burtséð frá öllum yfirborgunum eða öðrum hlunnindum. Og það sem málið snýst um í þessari deilu er að launataxtar háskólamenntaðra ríkisstarfsmanna verði miðaðir við taxta úti á hinum almenna vinnumarkaði. Það hefur aldrei verið rætt um neitt annað í þessari deilu, og þeir taxtar eru til og eru opinberir.
    Það hlýtur að sjálfsögðu um leið að vera krafa allra að taxtar ríkisins séu skýrir og þar tíðkist ekki sá háttur sem hafður er á úti á hinum almenna vinnumarkaði að um sé að ræða alls kyns yfirborganir undir borðið en því miður virðist, þrátt fyrir þessa ríkisstjórn jafnréttis og félagshyggju, ekki hafa tekist að koma því jafnrétti á því að enn tíðkast það kerfi innan ríkisins sem því miður hefur verið komið á hér á sl. árum. En sú yfirlýsing sem ég vitnaði til frá 1985 sem varð til þess að kennarar gengu aftur inn í skólana skilaði þeim ekki þeim kjarabótum sem lofað var.
    Árið 1987 neyddust kennarar í HÍK út í sitt fyrsta verkfall. Aftur gengu kennarar inn í skólana nestaðir loforðasúpum. Skýrslan sem fylgdi í kjölfarið í nóvember 1987 var unnin af fulltrúum kennara og fjmrn. og menntmrn. og eins og fram kom í máli hv. 6. þm. Reykv. hér fyrr í dag var enginn ágreiningur þessara fulltrúa um niðurstöður hennar. Ekki miðaði þó starfinu í kjölfar þeirrar skýrslu betur en svo að á síðasta ári boðuðu kennarar aftur til verkfalls en eins og menn eflaust muna var fæti fyrir þá brugðið í það skiptið. Þetta verkfall nú er því aðeins afleiðing af stefnunni í menntamálum þjóðarinnar á undanförnum árum. Hvergi birtist menntastefnan betur en einmitt í launastefnunni. Ég nefni þetta dæmi um kennarana, en það á auðvitað við um hinar stéttirnar líka, til þess að sýna fram á að deila þessi er ekki síst til komin vegna vanefnda kjarasamninga og loforða sem gefin hafa verið og líka aðgerðarleysis stjórnvalda í því að bæta kjör þessa fólks og endurmeta störfin í raun og greiða samkvæmt því endurmati. Það væri því full ástæða til þess að spyrja hæstv. forsrh., sem því miður er ekki hér þessa stundina, hvort hann líti ekki svo á að slíkar skuldbindingar sem ríkisstjórnir gera í kjarasamningum haldi gildi sínu þó svo að við taki nýjar ríkisstjórnir. Og ég ítreka enn og aftur að auðvitað hefði hann getað unnið að þessu máli ef vilji hefði verið fyrir hendi því að hann hefur átt aðild að ríkisstjórnum alveg frá því að fyrstu skýrslurnar fóru að koma út.
    Það hefur verið fróðlegt að fylgjast með þætti hæstv. fjmrh. í þessari kjaradeilu sem nú stendur yfir. Ég hirði þó ekki um að fara út í smáatriði en get tekið undir orð fyrri ræðumanna hér í dag um fádæma hroka hans og vanmat á því fólki sem honum er ætlað að semja við. Honum hefur orðið tíðrætt um frelsi manna til að vera í verkfalli svo lengi sem þeim sýnist og þykir þurfa. Frelsið var ekki eins sjálfsagt

og jafnmikil mannréttindi í haust þegar hann settist í ríkisstjórnina sem nú situr og hóf þar feril sinn með launafrystingu og samningsbanni. Það hefði verið fróðlegt að vita hvernig hann túlkar það ,,frelsi`` sem þá ríkti á vinnumarkaðnum. En ég get ekki séð að hann sé hér til staðar til þess að hlusta á þessi orð mín og geri svo sem ekki kröfu um það þar sem ég hef ekki beinar spurningar til hans. Hins vegar væri auðvitað mjög fróðlegt að vita um skoðun hans á frelsinu eftir því á hvaða tíma orðið er notað og við hvaða aðstæður.
    Hæstv. menntmrh. hefur sagt að skólarnir séu sviðin jörð og ég get verið honum sammála í því. Og ef ekki tekst að ná samningum sem við verður unað, þá er allt menntakerfið og þar með framtíð okkar öll sviðin jörð. Ég vil benda á að ég held að mörg vandamál eigi eftir að fylgja í kjölfarið sem við sjáum ekki fyrir enn þá og dettur mér í hug eitt atriði sem varðar þá kennara sem nú þegar hafa ákveðið að hætta kennslu. Ef skólar byrja ekki starf sitt aftur fyrr en í ágúst, eins og jafnvel hefur verið látið liggja að, verða trúlega margir kennarar horfnir sem eru kannski einu kennararnir í sinni grein í viðkomandi skólum. Hver sér þá um námsmatið? Ber þeim skylda til að skila þeim verkefnum sem þeir að sjálfsögðu eru ekki að leggja vinnu í að fara yfir núna og gefa einkunnir fyrir sem eru þó hluti af námsefninu? En þar sem ég sé að hæstv. fjmrh. er kominn hér í gættina vil ég enda þessi orð mín á því að spyrja hann um túlkun hans á frelsinu, frelsinu núna til þess að vera í
verkfalli annars vegar og því ,,frelsi`` sem viðhaft var í haust þegar laun voru fryst og samningsbann sett á.