Húsnæðisstofnun ríkisins
Þriðjudaginn 16. maí 1989

     Halldór Blöndal:
    Herra forseti. Það væri mjög fróðlegt ef hæstv. ráðherra gæti nú eða við 2 umr. þessa máls gert þingdeildinni grein fyrir því hvernig hann sér næsta ár, ég tala ekki um þar næsta ár, árið 1990 og 1991 --- því mér skilst á hæstv. fjmrh. að ríkisstjórnin ætli að sitja kjörtímabilið --- þannig að við getum séð hvernig hæstv. húsnæðisráðherra sér fyrir sér ráðstöfunarfé Byggingarsjóðs verkamanna og Byggingarsjóðs ríkisins á næsta og þar næsta ári, hvernig hæstv. ráðherra sér fyrir sér hvernig því fé, sem varið verður til Byggingarsjóðs ríkisins, verði varið, hversu miklu verði varið til nýbygginga, hversu miklu til kaupa á notuðum íbúðum o.s.frv.
    Hæstv. ráðherra er alltaf að tala um félagslega kerfið og lætur eins og það sé mjög einfalt mál og að það bitni ekki á einum né neinum ef opinberu fé er varið með þeim hætti að færri njóta þess en ella mundu. Því vil ég skora á hæstv. ráðherra að gera nú þegar grein fyrir því við þessa umræðu ef hann getur. Að öðrum kosti hlýt ég að ætlast til þess, herra forseti, að ráðherrann reyni að koma því niður á blað fyrir 2. umr. hvernig hann sér fyrir sér áætlun Byggingarsjóðs ríkisins og Byggingarsjóðs verkamanna á næsta ári. Það er komið fram í maímánuð og hæstv. ráðherra á að vera búinn að senda inn til ríkisstjórnarinnar erindi um það hvaða fjármuni byggingarsjóðirnir þurfa á næsta ári. Í samræmi við það hlýtur að vera til í ráðuneytinu sundurliðun á því hvernig eigi að verja þessu fé á næsta ári samkvæmt tillögum ráðherra. Ef þessi áætlun er til yfir þessa sjóði væri ég mjög þakklátur ef hann léti stinga slíkum áætlunum í hólfið hjá þingmönnum þannig að við gætum íhugað málið fyrir 2. umr.