Leigubifreiðar
Miðvikudaginn 17. maí 1989

     Frsm. samgn. (Hjörleifur Guttormsson):
    Virðulegi forseti. Samgn. hefur fjallað um 438. mál, frv. til l. um leigubifreiðar, og stendur sameiginlega að nál. á þskj. 1188, en það er svohljóðandi:
    ,,Nefndin hefur fjallað um frv. og fengið um það umsagnir frá Trausta, félagi sendibifreiðastjóra, Vinnuveitendasambandi Íslands, Verktakasambandi Íslands, Kristni Snæland, fulltrúa launþega í umsjónarnefnd leigubifreiða í Reykjavík, Félagi vinnuvélaeigenda, Landvara, landsfélagi vörubifreiðaeigenda á flutningaleiðum, bifreiðastjórafélaginu Frama og Landssambandi vörubifreiðastjóra. Þá barst nefndinni sameiginleg álitsgerð sem send hafði verið samgrn. frá Vinnuveitendasambandi Íslands, Vinnumálasambandi samvinnufélaganna og Félagi vinnuvélaeigenda.
    Nefndin fékk jafnframt á sinn fund til viðræðna um frv. Ólaf Steinar Valdimarsson, ráðuneytisstjóra í samgönguráðuneytinu, og Helga Jóhannesson, lögfræðing í ráðuneytinu, Helga Seljan og Arnþór Helgason frá Öryrkjabandalaginu, Ingólf Finnbjörnsson og Lárus Þór Svanlaugsson frá Trausta, félagi sendibifreiðastjóra, Þórarin V. Þórarinsson frá VSÍ, Víking Guðmundsson, Braga Sigurjónsson, Þóri Guðmundsson og Þórólf Kristján Beck frá Landssambandi vörubifreiðastjóra, Steingrím Jónasson frá Félagi vinnuvélaeigenda, Jóngeir H. Hlinason frá Vinnumálasambandi samvinnufélaganna, Sigurð Sigurjónsson frá Sendibílum hf., Ingólf M. Ingólfsson frá bifreiðastjórafélaginu Frama og Óskar H. Sigurðsson, formann nefndar sem launþegar í leigubifreiðastjórastétt skipuðu til að fjalla um frv.
    Nefndin mælir með því að frv. verði samþykkt með breytingum sem fluttar eru á sérstöku þingskjali. Verður hér gerð grein fyrir þessum breytingum í þeirri röð sem þær eru á þingskjalinu.
    1. Við 7. gr. er gerð sú breyting að á félagssvæðum með færri en 5000 íbúa megi veita mönnum atvinnuleyfi þó að þeir stundi ekki akstur fólksbifreiða sem aðalatvinnu. Nefndin telur að á félagssvæðum, sem ná yfir fámenn sveitarfélög, sé eigi alltaf grundvöllur fyrir því að menn hafi það að aðalatvinnu að stunda leiguakstur fólksbifreiðar.
    2. Við 8. gr. eru gerðar þrjár breytingar. Í fyrsta lagi er ekki talið rétt að veita atvinnuleyfi mönnum sem eldri eru en 65 ára, í stað 67 ára samkvæmt frv., í ljósi þess að atvinnuleyfi skv. 9. gr. fellur úr gildi við 70 ára aldur. Í öðru lagi er sett inn ákvæði þess efnis að heimilt sé að taka sérstakt tillit til umsókna um atvinnuleyfi frá öryrkjum, enda uppfylli þeir önnur skilyrði laganna um veitingu atvinnuleyfis og ætla megi að leiguakstur henti þeim. Gert er ráð fyrir að sett séu nánari ákvæði um þetta atriði í reglugerð og mætti þar m.a. kveða á um þann hámarksfjölda öryrkja er kæmi til greina við veitingu atvinnuleyfis ár hvert. Þriðja og síðasta breytingin er aðeins orðalagsbreyting.
    3. Við 9. gr. eru gerðar þrjár breytingar. Sú fyrsta er gerð til að taka af öll tvímæli um að atvinnuleyfi

skuli falla úr gildi við lok 70 ára aldurs leyfishafa. Önnur breytingin gerir ráð fyrir að felld sé niður heimild til að framlengja atvinnuleyfi allt til 75 ára aldurs. Þetta þykir of hár aldur. Í staðinn kemur bráðabirgðaákvæði í 14. gr. er kemur til móts við þá er náð hafa 67 ára aldri við gildistöku laganna. [Og að betur athuguðu máli flytur nefndin brtt. við brtt. á þskj. 1210 um að miða við 66 ára aldursmörk varðandi þetta atriði.] Þriðja breytingin felur í sér að eftirlifandi maki leyfishafa haldi leyfinu í allt að þrjú ár. Í frv. var gert ráð fyrir einu ári en nefndin telur það ákvæði of stíft.
    4. Við 10. gr. er gerð sú breyting að í stað þess að Samband ísl. sveitarfélaga tilnefni einn mann í umsjónarnefnd fólksbifreiða verði það viðkomandi sveitarfélag eða sveitarfélög sameiginlega í því tilviki þegar félagssvæðið nær yfir fleiri en eitt sveitarfélag. Nefndin telur eðlilegt að fulltrúar heimamanna sitji í umsjónarnefndinni.
    5. Við 14. gr. er bætt tveimur bráðabirgðaákvæðum. Hið seinna hefur verið nefnt hér á undan en það fyrra felur í sér að launþegar í leigubifreiðastjórastétt skuli hafa forgang við veitingu atvinnuleyfis næstu þrjú ár eftir gildistöku laganna. Þykir þetta ekki óeðlilegt þar sem þeir eru yfirleitt búnir að aka í 2--3 ár með það í huga að fá atvinnuleyfi en er nú skylt að keppa við aðra, svo sem rútubílstjóra og strætisvagnastjóra sem samkvæmt frv. geta nú sótt um atvinnuleyfi til leigubifreiðaaksturs.
    Vegna athugasemda, sem fram hafa komið um að í 2. mgr. 5. gr. kynni að felast almennur einkaréttur til vöruflutninga án tillits til þess hvers konar tæki er notað til flutninganna, telur nefndin rétt að fram komi að hún álítur að í ákvæðinu felist ekki breyting frá gildandi lögum. Leiguakstur vörubifreiða er skilgreindur í 3. mgr. 1. gr. og er sú skilgreining efnislega sú sama og er í 2. mgr. 5. gr. núgildandi laga, nr. 36/1970. Með frv. er á engan hátt þrengt að starfsemi verktaka og vinnuvélaeigenda frá því sem nú er og sú starfsvernd, er fram kemur í 2. mgr. 5. gr., er því aðeins bundin við leiguakstur á vörubílum af hefðbundinni gerð og lýtur ekki að
verktakastarfsemi á sviði flutninga.
    Þá vill nefndin lýsa þeirri skoðun sinni að hún telur að í 3. gr. frv. felist að bifreiðastöðvum fyrir leigubifreiðar sé skylt að skipuleggja starfsemi sína með þeim hætti að sem næst sé fullnægt eftirspurn eftir þjónustu leigubifreiða á álagstíma.``
    Undir þetta skrifa allir nefndarmenn í samgn. deildarinnar.
    Á þskj. 1189 er síðan, virðulegur forseti, að finna brtt. við frv. Ég hef gert hér með upplestri á nál. grein fyrir þessum brtt., en vil aðeins ítreka að á þskj. 1210 flytur samgn. brtt. við fyrri brtt. á þskj. 1189 þar sem lagt er til að í stað aldursmarkanna 67 ár komi 66 ár. Það er gert til samræmis og af sanngirnissjónarmiðum. Hér er um að ræða það markmið, sem lagt er til að lögfest verði, að leigubifreiðastjórar ljúki sínu starfi við lok 70.

aldursárs í framtíðinni að liðnum þeim aðlögunartíma sem felst í bráðabirgðaákvæði og þessari brtt. á þskj. 1210.