Réttur til fiskveiða í landhelgi Íslands
Miðvikudaginn 17. maí 1989

     Frsm. meiri hl. sjútvn. (Matthías Bjarnason):
    Herra forseti. Ég hleyp í skarðið fyrir formann nefndarinnar sem er fjarverandi en var ákveðið að væri frsm. þessa máls.
    Þetta frv. er um breytingu á lögum nr. 33/1922, um rétt til fiskveiða í landhelgi Íslands, og eru flm. þess Ólafur Þ. Þórðarson og Kjartan Jóhannsson og það er þess efnis að við 3. gr. laganna bætist ný málsgrein:
    ,,Fiskiskip frá Færeyjum og Grænlandi eru undanþegin ákvæðum síðari málsl. 1. mgr. og ákvæðum 2. mgr. þessarar greinar.``
    Nefndin hefur rætt frv. og það felur sem sagt í sér, eins og ég las upp áðan, að færeysk og grænlensk fiskiskip verði undanþegin ákvæðum laga er banna erlendum fiskiskipum að landa afla sínum í íslenskum höfnum nema með sérstöku leyfi ráðherra. Til viðræðna við nefndina komu skrifstofustjóri sjútvrn. Jón B. Jónasson, og aðstoðarmaður utanrrh., Stefán Friðfinnsson. Þá lágu einnig fyrir umsagnir um frv. frá síðasta þingi frá Sjómannasambandi Íslands, Farmanna- og fiskimannasambandinu, Félagi fiskimjölsframleiðenda, Landssambandi ísl. útvegsmanna og Fiskifélagi Íslands.
    Meiri hl. nefndarinnar mælir með að frv. verði samþykkt óbreytt, en minni hl. skilar séráliti.
    Undir álit meiri hl. rita, auk formanns nefndarinnar, Árna Gunnarssonar, Kristinn Pétursson, Kolbrún Jónsdóttir, Geir Gunnarsson, Matthías Bjarnason og Alexander Stefánsson með fyrirvara.
    Ég tel ekki ástæðu til að ræða þetta mál meira. Ég tel sjálfsagt og eðlilegt að undanþiggja fiskiskip frá okkar nágrannalöndum þannig að þau geti landað hér. Við siglum með aflann á íslenskum skipum til Færeyja t.d. og þurfum þar engin leyfi, seljum þar. Ég tel að aðalhagnaðurinn í því að samþykkja þetta frv. sé sá að möguleiki sé á því að ef fiskiskip þessara tveggja þjóða landa hér í auknum mæli auki það útflutningstekjur þjóðarinnar sem því nemur og það eitt er af því góða og sannarlega veitir okkur ekki af því. Því sé ég einnig ástæðu til að undanskilja þessar tvær þjóðir sem eru okkar nágrannaþjóðir. Þar af leiðandi er ég samþykkur því sem flm. leggja til og þeim þakklátur fyrir að hafa hreyft þessu máli.
    Ég vil einnig geta þess að þetta frv. var flutt á síðasta þingi og náði þá ekki fram að ganga. Það var gengið seint til afgreiðslu eins og nú. En með öðrum orðum, meiri hl. nefndarinnar mælir með því að frv. verði samþykkt.