Réttur til fiskveiða í landhelgi Íslands
Miðvikudaginn 17. maí 1989

     Ólafur Þ. Þórðarson:
    Herra forseti. Ég færi þakkir mínar meiri hl. sjútvn. Alþingis sem hefur afgreitt þetta mál til þingsins með miklum meiri hluta og sýnt í því víðsýni sína í þessum efnum. Ég játa að það voru mér vonbrigði að hlusta á hv. 5. þm. Suðurl., en mér er ljóst að þar er drengur góður þó að hann hafi glapist til þess að láta hrekja sig af leið. En sú gamla kempa Halldór Snorrason stóð einu sinni frammi fyrir því, eins og segir í Hemingsflokki Áslákssonar, að þurfa að gera það upp við sig hvort hann yrði umræddum Hemingi að bana eða tapaði konungshylli. Og Grímur Thomsen orðaði það svo:
Með konungshundum hvassast sem að bíta,
Halldór svarar, var ég aldrei fundinn.
    Og hvað sem konungshyllinni leið lét hann ekki hafa sig til óhæfuverka.
    En það er ekkert skrýtið þó að frá Vestfjörðum komi sá andi að viðskiptafrelsi eigi að ríkja í þessu landi því að hver og einn sem hefur kynnt sér sögu þessarar þjóðar og baráttu Jóns Sigurðssonar áttar sig á því að hann undirstrikaði það meira en flest annað hversu mikils virði væri að hafa viðskiptafrelsi í þessu landi og hversu mikils virði það væri Íslendingum að geta haft eðlileg samskipti við aðrar þjóðir.
    Ég verð að segja það eins og er að það er athyglisvert þegar við horfum á atvinnuþróun þessa lands að fyrir hvert eitt starf sem myndast í frumatvinnugrein verða til níu í þjónustugreinum. Fyrir hvert eitt starf sjómanns, hvort heldur hann er íslenskur, færeyskur eða grænlenskur, sem landar afla á íslenskri strönd, fást níu önnur atvinnutækifæri. Og ég spyr: Er það verjandi að ýta þeim frá okkur?
    Það er hægt að tala um það með nokkurri kokhreysti að við viljum selja mönnum aðganginn að íslenskum höfnum í gegnum milliríkjasamninga. En minnir þetta ekki dálítið á kúrekamyndirnar gömlu þegar einn aðili lagði á það allt kapp að ná undir sig vatnsbólinu og koma þannig í veg fyrir að stór svæði í kring yrðu byggileg nema viðkomandi aðilar keyptu af honum réttinn til þess að komast að vatninu? Mér er ljóst að austurströnd Grænlands er hafnlaus strönd. Ef við neitum þeim um aðgang að íslenskum höfnum munu þeir þurfa að selja veiðiréttinn í sinni landhelgi verksmiðjuskipum stórþjóðanna. Og erum við þá búnir að tryggja að sjónarmið fiskifræðinga og eftirlits séu fullnægjandi í þeim afla sem slík verksmiðjuskip taka? Er það það sem við viljum neyða Grænlendinga til? Ég segi nei.
    Við eigum að koma fram við þessa nágranna okkar af hógværð og skilningi á þeirra kjörum í þeirra harðbýla landi og við eigum að gera okkur grein fyrir því að með því að opna þeim á þennan hátt leiðina að íslenskum höfnum erum við að leggja grunninn að því að þeir í framtíðinni halli sér til vinsamlegra samskipta á sem flestum sviðum við þetta land sem hlýtur að vera beggja hagur að eigi sér stað. Þeir eiga að sjálfsögðu vinsamleg samskipti við Kanada og Ameríku, ekkert nema gott um það að segja.
    Ég skil ekki þá þingmenn sem tala á Alþingi um

að þeir vilji efla íslenskan skipasmíðaiðnað og þá þjónustu sem honum er tengd ef þeir vilja ýta þessum möguleikum frá sér. Ég skil þá ekki.
    Hér er látið að því liggja að það séu hagsmunir Ísafjarðar og Hafnarfjarðar sem fyrst og fremst liggi á bak við flutning frv. Það er gjörsamlega vonlaust að sýna fram á það með nokkrum rökum að frv. beini viðskiptum Grænlendinga eitthvað sérstaklega til þessara hafna. Þeir munu að sjálfsögðu velja þær hafnir sem þeir kjósa að ná sem vinsamlegustum samskiptum við.
    Það er talað um að við séum að bjóða þeim betri kjör en Íslendingum. Ég fullyrði hér og nú að hafnagjöld lækki á Íslandi við það að fleiri skip landi vörum sínum hér en nú gera. Ég vil bæta því við í þessu sambandi að ég er sannfærður um að það skiptir verulegu máli að menn geri sér grein fyrir því að það er fylgst með störfum Alþingis Íslendinga, bæði í Færeyjum og á Grænlandi, hvað þennan málatilbúnað snertir og það gengur ekki að standa hér upp og lýsa því yfir að menn séu stuðningsmenn vinsamlegra samskipta við Grænlendinga en telja aftur á móti nauðsynlegt að hafa á þeim traust haustak þegar eigi að fara að semja við þá. Það er hæpinn kærleikur að tarna!
    Það var fróðlegt á sínum tíma þegar Færeyingar fylgdust með þorskastríði Íslendinga við Breta. Þá vissu þeir að það skipti verulegu máli fyrir Breta hvort þeir hefðu þjónustuaðstöðu í Færeyjum fyrir þann flota sem var við Ísland. Þeir vissu að það gæti skaðað þá að hafna bón þess stórveldis í þeim efnum, en þeir stóðu með Íslendingum. Þeir stóðu með Íslendingum án þess að telja kostnaðinn af því hvað þeir sköðuðust með tiltækinu. Er það stórmannlegt fyrir íslenska þjóð og stækkar það þingmenn hennar og ráðamenn og ráðherra ef menn núna telja í efnahagserfiðleikum Færeyinga að það þurfi alveg sérstaklega að sjá til þess, þó að þeir hafi færeyskar hafnir opnar, að hér gildi leyfisbréfin og bænaskjölin aftan úr grárri forneskju? Ég vil halda því fram að þetta séu leifar gamallar nýlendustefnu, stefnu sem hefur m.a. kostað tvær heimsstyrjaldir á þessari öld vegna verslunar- og samskiptafjötra á milli þjóða.
    Ég undirstrika alveg sérstaklega að þetta þing hefur samþykkt að það skuli stofna sjóð, hann er stofnaður og hann er starfræktur í sama húsnæði og Byggðastofnun, sem hefur það verkefni að lána Íslendingum og Grænlendingum eða Grænlendingum og Færeyingum eða Íslendingum og Færeyingum eða öllum þessum aðilum saman fjármuni standi þeir að sameiginlegum verkefnum, vilji þeir standa að einhverju sem eyði óhagræði vegna landamæra. Og eitt af því stærsta, ef menn vilja frið í þessum heimi, er að eyða óhagræði vegna landamæra.
    Ég vænti þess vegna að þeir sem hafa fest í þeirri skoðun að það sé hæpið að samþykkja þetta frv. skoði það opnum augum og sofi á því í nótt hvort þeim geti ekki hafa skjátlast í þeim efnum.