Réttur til fiskveiða í landhelgi Íslands
Miðvikudaginn 17. maí 1989

     Alexander Stefánsson:
    Herra forseti. Eins og fram kemur á þskj. 1201, nál. frá meiri hl. sjútvn., skrifaði ég undir nál. með fyrirvara. Mér þykir þess vegna rétt að koma aðeins inn á þetta mál. Ég verð að segja það alveg eins og er að mér finnst óeðlilegt þegar svona mál eru flutt á þingi að þau liggi mánuðum saman í nefnd þingsins án þess að þingheimur fái tækifæri til að fjalla um það eins og hér hefur skeð því þetta er í annað skiptið sem þetta mál er flutt á Alþingi með þessum hætti. Þess vegna tel ég raunhæft að afgreiða svona mál inn í þingið, en tel það alls ekki eðlilega afgreiðslu að vísa svona máli til ríkisstjórnarinnar. Þetta er fyrst og fremst umræðumál. Þetta er mál sem varðar þjóðina í heild og það er engin ástæða til þess að þingið komist undan því að taka afstöðu til breytinga sem hér eru fram færðar. Ég verð að segja það alveg eins og er að miðað við þau lög sem hér er vitnað í frá 1922 er alveg ljóst að allar forsendur hafa breyst í þessum málum og þess vegna er ekkert óeðlilegt að slík lög séu tekin til endurskoðunar og ætti í raun og veru að vera búið að því fyrir löngu eða a.m.k. leggja grunninn að því að slík endurskoðun fari fram um leið og verið er að efla þessi samskipti.
    En það sem ég vildi segja um þetta mál er það fyrst og fremst að mér finnst að þó að rökin sem hér koma fram, m.a. hjá hv. 5. þm. Suðurl. --- og ég harma að við skulum ekki geta fylgst að í sambandi við þetta mál --- séu þau að í samningum við aðrar þjóðir eins og nágrannaþjóðir okkar, Grænlendinga og Færeyinga, sé nauðsynlegt að hafa samningsstöðu í hverju þrepi sem þar er um rætt, og sjálfsagt geta verið rök fyrir þessu og er ekkert nema gott um þá fullyrðingu að segja, sé samt dálítill tvískinnungur í því hjá okkur Íslendingum og ekki síst þegar það kemur fram á hv. Alþingi að á sama tíma og við erum að leggja þunga áherslu á að ná sérstöku samkomulagi, sérstakri stöðu með þessum nágrannaþjóðum okkar, og teljum að það sé verðugt verkefni fyrir Ísland að efla þau samskipti á öllum sviðum, þ.e. við Grænlendinga og Færeyinga sem í raun og veru byggja á sömu lífsskilyrðum og sömu lífsbaráttu og við sjálfir, við viljum efla þetta á öllum sviðum, sé verið að setja upp einhvern varnarmúr fyrir fram um að það geti verið hættulegt fyrir okkur að stíga of langt fram í þessu vegna þess að það veiki þá stöðu sem við þurfum að hafa í samskiptum við þessar þjóðir. Mér finnst þetta vera öfugt á sama tíma og við erum að leggja okkur fram á öðrum sviðum. Ég get sagt það sem þátttakandi í þingmannanefndinni sem fjallar um þessi samskipti og sem komin er á með mjög föstu formi að það kemur fram í garð okkar Íslendinga viss tortryggni eins og t.d. á fundinum í Grænlandi í fyrra. Þá komu fram þessar spurningar: Af hverju viljið þið ekki heimila okkar skipum að landa á Íslandi eins og þið fáið t.d. í Færeyjum? Færeyingar voru mjög harðir á þessu atriði. Þeir héldu stíft fram að við værum með varnarmúr gagnvart þeim að þessu leyti til.
    Ég skal ekki segja um hvort þetta eru endilega

sterk rök frá þeim, en alla vega er alveg ljóst að ef við ætlum að vera heilir í þessum samskiptum megum við sjálfir ekki byggja upp varnarmúr hjá þessum litlu þjóðum eins og þeir eru hjá okkur eða jafnvel minni. Áhuginn hjá Grænlendingum er að mínu mati mjög einlægur fyrir því að þeir geti treyst samskiptin við okkur og þeir vilja efla þau samskipti á öllum sviðum. A.m.k. ég hef þá skoðun að við eigum mikilla hagsmuna að gæta í sambandi við einmitt þessi samskipti, ekki síst við Grænlendinga. Þetta er þjóð sem er í uppbyggingu atvinnulega séð og við höfum fengið að sjá hvernig þeir eru að byggja upp sinn atvinnurekstur, þ.e. sjávarútveginn. Við höfum fengið að sjá hvað þeir eru gífurlega háðir Dönum á öllum sviðum í sambandi við þá atvinnugrein. Við höfum líka fengið að sjá möguleikana á því að það væri hægt að koma á jákvæðari samskiptum á þessu sviði fyrir okkur Íslendinga ef við getum fengið þá til að trúa því að við séum einlægir í þessu samstarfi.
    Ég efast ekkert um að á fundinum eftir tæpan mánuð í Stykkishólmi, sem er ársfundur þessara samtaka, kemur þessi spurning strax upp, ekki aðeins hjá Færeyingum heldur einnig hjá Grænlendingum, hvað við meinum með þessu samstarfi, hvort við getum ekki útvíkkað það meira samkvæmt þeirra óskum. Ég tek þetta sérstaklega fram vegna þess að ég tel að þetta sé ekki síður hagsmunamál fyrir Ísland og kannski öllu frekar þegar við erum farnir að skoða málið í víðara samhengi því að stórþjóðirnar í kringum okkur, bæði í Efnahagsbandalaginu og svo í austurvegi, hika ekki við að smjúga inn í hverja þá smugu sem opnast í sambandi við þetta mikilvæga svæði fiskveiða sem við höfum í kringum okkur, þessi þrjú lönd. Þess vegna er það lífsspursmál að mínu mati að hér sé vel að hlutum staðið þó ég sé ekki að gera lítið úr því sem hér hefur verið gert nema síður sé því að ég tel að þeir samningar sem hafa náðst í sambandi við samskipti þessara landa séu gífurlega þýðingarmiklir og það hefur sannarlega verið vel að þeim staðið af okkar hálfu og þá ekki hvað síst sjútvrn. og hæstv. sjútvrh. Það vil ég taka fram. En ég skil ekki hræðsluna við þetta mál. Mér finnst að við eigum að átta okkur vel á því að öll viðleitni okkar til að rétta fram hendi til meiri samskipta við þessar þjóðir
er örugglega mikils virði fyrir framtíð Íslands. Ég held að við eigum alls ekki að gera lítið úr því hvað þessar þjóðir, Grænland og Færeyjar, og það sem þær hafa með höndum er mikilvægt fyrir okkur sem þjóð. Að ná tökum á þeim samningum og þeim samskiptum tel ég vera mikilvægt mál. Ég hef sannfærst betur um það eftir að ég tók meiri þátt í þessu en áður hefur verið, og ég er alveg viss um að við eigum ekki að vera að byggja upp neinn varnarmúr í sambandi við þetta mál heldur þvert á móti. Þess vegna tel ég að rétt sé að þetta mál sé tekið til umræðu í þingsölum frekar en að vísa því kalt og rólega til ríkisstjórnarinnar. Ég vænti þess að þingið gefi sér tíma til þess að átta sig vel á stöðu þessara mála í heild.