Jöfnun á raforkukostnaði
Fimmtudaginn 18. maí 1989

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson):
    Virðulegi forseti. Hv. 6. þm. Norðurl. e. hefur beint til mín þeirri fyrirspurn hvort eitthvað hafi verið unnið að undirbúningi þess að jafna verð á raforku í landinu eins og fram kom í málefnasamningi ríkisstjórnarinnar. Hið beina svar við fsp. hv. 6. þm. Norðurl. e. er að ýmislegt hefur verið unnið að undirbúningi þess að jafna orkuverð og verðlagning raforku hefur töluvert verið til umræðu í vetur og ýmsar leiðir þar kannaðar til að jafna orkukostnaðinn. Þetta eru margslungin mál, eins og hv. fyrirspyrjandi þekkir, en því fer fjarri að stjórnvöld hlusti ekki grannt eftir því sem um þetta er sagt af fulltrúum landsbyggðarinnar og annarra.
    Ég ætla að nefna nokkur atriði sem sýna hvað ríkisstjórnin hefur aðhafst í þessu máli.
    Í fyrsta lagi var kveðið á um það í málefnasamningnum að ríkisstjórnin mundi beita sér fyrir fjórðungslækkun á raforkuverði til fiskvinnslustöðva. Þetta var gert með niðurgreiðslu úr ríkissjóði. En ég vil taka fram að jafnframt var leitast við að haga niðurgreiðslum þannig að þær stuðluðu jafnframt að hagkvæmri raforkunotkun. Þetta er aðgerð sem án alls efa gagnast landsbyggðinni vel.
    Í öðru lagi standa nú yfir viðræður milli ríkisins, Rafmagnsveitna ríkisins og Orkubús Vestfjarða um yfirtöku skulda þessara fyrirtækja sem ætti að draga úr þörf fyrir hækkun gjaldskrár svo unnt verði að jafna þann mun sem annars er og yrði á verði raforku í þéttbýli og strjálbýli. Eins og þingmönnum er kunnugt var, þegar verðjöfnunargjaldið var lagt niður árið 1986, gert ráð fyrir yfirtöku skulda frá Rafmagnsveitum ríkisins og Orkubúi Vestfjarða þannig að fyrirtækin hefðu óskertan rekstrargrundvöll. Um framkvæmd þessa hefur ekki tekist fullkomlega að koma þessu í höfn, en skv. 6. gr. fjárlaga þessa árs hefur verið veitt heimild til að ganga til samninga við Rafmagnsveiturnar og Orkubúið um yfirtöku skuldar til lúkningar á þessu samkomulagi sem gert var fyrir þremur árum. Starf þeirrar nefndar sem um þetta fjallar er langt komið og mun í framhaldi af því gengið frá skuldamálum þessara fyrirtækja og þeim þannig fenginn rekstrargrundvöllur svo unnt verði að draga úr þörf fyrir hækkun gjaldskrár og það mun að sjálfsögðu jafna verðið raforku í þéttbýli og strjálbýli.
    Í þriðja lagi, og það tel ég mikils um vert, hefur iðnrn. hafið viðræður við Landsvirkjun um fjölgun sölupunkta í stofnlínukerfinu. Tilefni þessa er að á undanförnum árum hafa rafveitur sem kaupa raforku í heildsölu af Rafmagnsveitum ríkisins kvartað undan því að þurfa að greiða hærra verð fyrir raforkuna en þær rafveitur sem kaupa beint af Landsvirkjun. Að mínu áliti verður það ekki lengur dregið að bregðast við þessum kvörtunum þannig að þessar rafveitur komist í beint viðskiptasamband við Landsvirkjun. Í þessu fælist verulegt skref til jöfnunar á raforkukostnaði í landinu. Landsvirkjun hefur fallist á að hefja þessar viðræður og munu Rafmagnsveiturnar taka þátt í þeim. Hvort ástæða er til að stíga frekari skref í þessa átt þarf að skoða vandlega áður en í er

ráðist, en mín hugmynd er sú að þessi fjölgun sölupunkta, sem mun valda jöfnun raforkuverðs, verði hægum skrefum á næstu þremur til fimm árum þannig að ekki þurfi að koma til mikil vandkvæði í gjaldskrármálum.
    Í fjórða lagi vil ég svo nefna þær niðurgreiðslur úr ríkissjóði og þann afslátt sem Landsvirkjun veitir vegna húshitunarkostnaðar. Það fer auðvitað ekkert á milli mála að orkukostnaðurinn og sérstaklega húshitunarkostnaðurinn, eins og hv. fyrirspyrjandi nefndi, er afar mismunandi eftir landshlutum. En með þeim aðgerðum sem ríkið hefur beitt sér fyrir, niðurgreiðslunni og afslætti Landsvirkjunar, má segja að húshitun með rafmagni sé nú víðast hvar á landinu ámóta dýr þar sem hún er húshitunarorka. Hins vegar er hún miklum mun dýrari en húshitunarkostnaður á svæði Hitaveitu Reykjavíkur eins og hv. fyrirspyrjandi nefndi. Ég hygg að það muni ekki fjarri sanni, sem hann sagði, að hann væri tvöfalt hærri. Þetta er ákaflega mikill munur, en ég vil benda á að hann er þó langtum minni en hann var fyrir fáum árum og kannski er ástæða til að nefna það hér að húshitunarkostnaður á svæði Hitaveitu Reykjavíkur er að sjálfsögðu mjög lágur og þess vegna samanburður við hann býsna erfiður þeim sem ætla sér að vinna að orkuverðsjöfnun.
    Ég vil líka benda á að olíuverð fer nú hækkandi á heimsmarkaðnum og það er ljóst að samanburður við húshitun með olíu fer að verða rafhitun hagstæðari. Ég dreg reyndar mjög í efa að það sé hyggilegt að ganga svo langt í niðurgreiðslum á orkukostnaði að enginn munur komi fram í orkuverði eftir aðstöðu til öflunar á orku.
    Einnig tel ég reyndar ekki sýnt að niðurgreiðslurnar séu heppilegasta aðferðin til þess að jafna aðstöðumun eða lífskjör í landinu. Þar held ég að lausnir heima í héraði með sameiningu veitustofnana sé nauðsynlegt og skynsamlegt fyrsta skref. Iðnrn. styður viðleitni heimamanna til slíkra samtaka í héruðum um að gera orkuöflun og orkudreifingu sem hagkvæmasta á hverjum stað.
    Þá vil ég í fimmta lagi nefna það að jöfnun orkukostnaðar er að sjálfsögðu mjög mikilvægt markmið stefnu ríkisstjórnarinnar í orkumálum en að því þarf að stefna úr mörgum áttum. Þar dugir engin allsherjarlausn. Ég læt nú vinna að almennri athugun á áhrifum skattlagningar og niðurgreiðslna á orkuverði bæði hvað varðar innflutta og innlenda orku því auðvitað er það mjög sérkennilegt hjá okkur að mikilvægir þættir í innfluttri orku eru ekki skattlagðir en ýmis innlend orka er með sköttum. Ég mun að lokinni þessari athugun móta tillögur um endurskoðun skattlagningar og niðurgreiðslna á orku.
    Ég vona, hæstv. forseti, að með þessum orðum hafi ég í nokkru sýnt að ríkisstjórnin vinnur að undirbúningi jöfnunar orkuverðs.