Launavísitala
Föstudaginn 19. maí 1989

     Danfríður Skarphéðinsdóttir:
    Virðulegi forseti. Ég á aðeins aðild að fjh.- og viðskn. þessarar deildar sem áheyrnaraðili en hef þó lýst mig samþykka því nál. sem mælt var fyrir rétt í þessu og langaði til að fara aðeins um þetta örfáum orðum. Hv. síðasti ræðumaður vitnaði til nál. frá minni hl. í fjh.- og viðskn. Nd. og þar komu í raun og veru fram haldbær rök fyrir því að vísa þessu til nánari skoðunar til ríkisstjórnarinnar.
    23. janúar sl. kom út reglugerð um nýja lánskjaravísitölu. Í grg. með þessu frv. kemur fram að markmiðið með því er að skapa lagalegan grundvöll fyrir útreikningum á greiddum launum svo hægt sé að nota þá vísitölu sem þannig fæst sem 1 / 3 í hinni nýju lánskjaravísitölu.
    Þeir gestir sem nefndinni vannst tími til að fá á sinn fund sáu flestir ef ekki allir ýmsa annmarka á þessu frv. Hagstofustjóri benti m.a. á að í öðrum löndum hefðu alls kyns vísitölur verið reiknaðar fyrir tiltekna tegund launa og tilteknar stéttir en nú væri hvergi til lögformlegur launakvarði sem jaðraði við að vera stjórntæki sem gengi inn í aðra þætti eins og gert er ráð fyrir að launavísitalan verði. Þá bentu bæði hagstofustjóri og Gunnar Hall frá Hagstofu Íslands á að útreikningar launavísitölu sköpuðu mikla örðugleika þar eð ekki væri hægt að fá nema takmarkaðar upplýsingar hverju sinni. Sú tímatöf sem af því hlýst gerði það að verkum að leiðrétta þyrfti vísitöluna aftur á bak í tímann og útskýra jafnóðum í hverju þær leiðréttingar væru fólgnar. Það kom fram að atriði eins og t.d. orlofsuppbótin í júní sem nýlega hefur verið samið um við ríkisstarfsmenn og desemberuppbót mun orsaka sveiflur í launum og að skekkjumörk geti því orðið mjög misjöfn.
    Í morgun var einn af gestum fundarins Ásmundur Stefánsson, forseti ASÍ, og benti hann á ýmsa svokallaða praktíska galla á þessu frv. Hann benti á að laun gangi með meiri skrykkjum en t.d. verðlagsvísitölur og þessi vísitala taki aðeins til breytinga á launum miðað við fastan vinnutíma. Þannig komi yfirborganir til hækkunar á vísitölunni og ef þær færast í vöxt hjá ákveðnum hópum muni þeir setja upp launavísitöluna og það kemur að sjálfsögðu niður á þeim sem hjakka í taxtakaupi. T.d. kemur það fram í hækkun lána. Þá taldi Ásmundur Stefánsson allar viðmiðanir ótraustar og aðeins liggja fyrir fyrir takmarkaðan hluta vinnumarkaðarins. Oft koma upplýsingar eftir á og taldi forseti ASÍ jafnvel mögulegt í ljósi þess að launavísitala geti hreinlega orðið geðþóttaákvörðun hagstofustjóra. Þá eru bæði hagstofustjóri og fulltrúi kjararannsóknarnefndar, Hannes G. Sigurðsson, sammála um að útreikningar á launavísitölu mundu kosta mikla vinnu á báðum stöðum.
    Ég minntist áðan á reglugerð um nýja lánskjaravísitölu sem leit dagsins ljós í janúar sl., en alla tíð síðan hafa verið uppi efasemdir um lögmæti breytingarinnar eins og reyndar kom fram í máli hv. síðasta ræðumanns. Ég tel að það hefði verið viturlegra að hlusta á rök þeirra manna sem komu til

fundar við fjh.- og viðskn., svo og að líta á málið í ljósi þess að það þarf að athuga betur lagalegar hliðar á þeirri nýju lánskjaravísitölu sem ákveðin var með reglugerð í janúar sl. Ég tel nauðsynlegt að fá slíkt álit áður en hægt er að taka efnislega afstöðu til málsins og tel því ekki tilefni til viðamikillar umfjöllunar um efnisákvæði frv.
    Ég vildi aðeins að þetta kæmist að hér, virðulegi forseti, og tek undir álit minni hl. um að málið verði skoðað betur og því vísað til ríkisstjórnarinnar.