Húsnæðisstofnun ríkisins
Föstudaginn 19. maí 1989

     Frsm. meiri hl. félmn. (Margrét Frímannsdóttir):
    Virðulegi forseti. Félmn. Ed. hefur haft til umfjöllunar frv. til l. um breytingu á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins eða frv. um húsbréf eins og það er oftast nefnt. Nefndin fékk á sinn fund fulltrúa þeirra sem sömdu frv. og einnig þeirra sem munu hafa bein og óbein afskipti af málinu ef frv. verður samþykkt.
    Því er ekki að leyna að töluverður ágreiningur er um innihald frv. Það kom fram bæði hjá þeim sem nefndin kallaði á sinn fund og eins í þeim umsögnum sem hv. félmn. Nd. bárust þegar nefndin hafði málið til umfjöllunar. Í hv. Nd. voru gerðar nokkrar breytingar á frv. frá því sem var þegar það var lagt fram. Meiri hl. félmn. Ed. gerir ekki athugasemdir við þær breytingar og leggur til að frv. verði samþykkt óbreytt eins og fram kemur í áliti meiri hl. nefndarinnar á þskj. 1234, en þar segir:
    ,,Nefndin hefur fjallað um frumvarpið á fundum sínum og fékk til viðræðna eftirtalda: Yngva Örn Kristinsson og Eirík Guðnason frá Seðlabanka Íslands, Ásmund Stefánsson, Ásmund Hilmarsson, Grétar Þorsteinsson og Björn Þórhallsson frá ASÍ, Inga Val Jóhannsson frá félagsmálaráðuneytinu, Guðmund J. Guðmundsson frá Verkamannasambandinu, Þórólf Halldórsson frá Félagi fasteignasala, Sigurð Snævar og Jóhann Rúnar Björgvinsson frá Þjóðhagsstofnun, Sigurð E. Guðmundsson, Hilmar Þórisson, Hauk Sigurðsson, Percy B. Stefánsson og Grétar J. Guðmundsson frá Húsnæðisstofnun ríkisins, Ríkarð Steinbergsson frá stjórn Verkamannabústaða í Reykjavík, Guðmund Gylfa Guðmundsson frá Fasteignamati ríkisins og Gunnar Helga Hálfdánarson frá Fjárfestingarfélaginu.
    Meiri hl. nefndarinnar leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt eins og neðri deild afgreiddi það.``
    Undir þetta rita auk mín Karl Steinar Guðnason, Valgerður Sverrisdóttir og Jóhann Einvarðsson.