Ráðstafanir vegna kjarasamninga
Föstudaginn 19. maí 1989

     Hreggviður Jónsson:
    Hæstv. forseti. Það mál sem er til umræðu er að sjálfsögðu mjög mikilsvert og hefði þurft langan tíma til að ræða það, en ég mun reyna að vera stuttorður í þessu tilfelli því margt af því sem ég hefði viljað sagt hafa hefur þegar komið fram við umræðuna. Ég tek undir bæði það sem hv. 10. þm. Reykn. sagði áðan og hv. 1. þm. Vestf. sagði rétt áðan og ég mun ekki lengja umræðuna mjög.
    Það er hins vegar ljóst að með frv. er ríkisstjórnin að hörfa með margar af þeim ráðstöfunum sem hún lamdi í gegn með miklu offorsi í vetur og sannast það, sem við sögðum í umræðum í vetur, að þær skattaálögur sem þar voru lagðar á voru til mesta ófarnaðar. Nú er gerð lagfæring á vörugjaldi sem við gagnrýndum mjög harðlega, nú er dregið úr skatti á verslunar- og skrifstofuhúsnæði sem við gagnrýndum mjög harðlega og nú er dregið aðeins að einu leyti úr ákvæðum um eignarskatt, þ.e. hvað varðar eftirlifandi maka í óskiptu búi. Allt er þetta til bóta og ég fagna því. En það þarf miklu meira til til þess að fyrirtækin og heimilin geti staðið undir þeim klyfjum sem núverandi ríkisstjórn hefur lagt á fólkið í landinu.
    Ég mun hins vegar mæla fyrir brtt. sem við hv. þm. Ingi Björn Albertsson höfum flutt við frv. um ráðstafanir vegna kjarasamninga og hnýtt aftan við þennan bandorm um það að við lög nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, bætist ný grein er verður 85. gr. og orðist svo: ,,Þrátt fyrir ákvæði 83. gr. og 84. gr. skal íbúðarhúsnæði til eigin nota vera undanþegið álagningu eignarskatta.``
    Við frjálslyndir hægrimenn erum þeir einu sem berum heimilin að þessu leyti fyrir brjósti og leggjum til að skattar á almennt íbúðarhúsnæði verði afnumdir. Aðrir hv. þm. hafa ekki haft áhuga á því að leggja til að eignarskattar af almennu íbúðarhúsnæði verði lagðir af. Kemur það fyrst og fremst til að menn eru svo rígbundnir í þessar álögur að þeir geta ekki hugsað sér að afnema eignarskatta af íbúðarhúsnæði. Þetta mun verða stórt mál í Reykjavík og á Reykjanesi vegna þess að þessi skattur er fyrst og fremst skattur á þá íbúa. Hins vegar vil ég minna menn á að menn greiddu atkvæði án þess að gera nokkurn fyrirvara um það fyrir skömmu í þessari hv. deild að hækka fasteignagjöld á íbúðum úti á landsbyggðinni og bliknuðu ekki við það. Það getur vel verið að næst leggi menn til að eignarskattar hækki líka úti á landi og þá held ég að það færi að færast fjör í þingið. Það er eins og margir af hv. þm. hafi aðeins áhuga á því ef einhver mál snerta landsbyggðina því að þá er eins og það verði allt vitlaust í deildinni. Ég undirstrika að þessi till. um að fella niður eignarskatta af íbúðarhúsnæði er tímabær og þarf að komast í gegn.