Ráðstafanir vegna kjarasamninga
Föstudaginn 19. maí 1989

     Kristinn Pétursson:
    Hæstv. forseti. Ég sá einhvers staðar í hæstv. viðskrh. Mig langar til að spyrja hann einnar spurningar. Er hann einhvers staðar nálægur? ( Forseti: Það er spurt eftir viðskrh. --- Hann er genginn í salinn.) Já, hæstv. forseti, mig langaði til að spyrja hæstv. viðskrh. einnar spurningar, en ég ætla ekki að lengja þessa umræðu. Það er vegna þess að ég veit að hann er mjög fróður í öllum fjármálum. Það er varðandi þessa lántöku, 400 millj., í Verðjöfnunarsjóð fiskiðnaðarins, hvernig gangi upp bókhaldslega að ríkissjóður láni sjávarútveginum 400 millj. og ríkissjóður sé þá kröfuhafi og eigandi að þessari skuld og síðan sé þetta reiknað sem tekjur hjá frystingunni. Ég fæ ekki skilið hvernig tveir geta átt sömu eignina, bæði fiskvinnslan og ríkissjóður. Mér finnst þetta ekki nógu mikil vandvirkni og hefði verið eðlilegra að lækka álögur á atvinnulífið sem 400 millj. næmi frekar en að vera með sjónhverfingar. Viðkomandi fyrirtæki reiknar þetta sem tekjur í sínu bókhaldi þegar þetta er raunverulega lán sem skal endurgreiðast á næstu þremur árum. Hvað heitir svoleiðis bókhald? Hvers konar bókhald er það? Er þetta til að falsa reikninga frystihúsanna? Ég skil ekki svona aðferðir, alls ekki.
    En ég fagna því að skattar eru lækkaðir í frv. Það er vísbending um að eitthvað fari að rofa til. Ef t.d. frumvarp Matthíasar Bjarnasonar hefði orðið að veruleika varðandi Verðjöfnunarsjóð fiskiðnaðarins þannig að eign Verðjöfnunarsjóðs verði bókuð á hvert fyrirtæki kæmi fram skuldin líka eins og þetta er reiknað núna, þá kæmi þetta rétt fram.
    Ég ætla ekki að orðlengja frekar, en ég óska eftir að hæstv. viðskrh. útskýri svo ég geti reynt að koma því saman í kollinum á mér hvernig tveir geti átt 400 millj. kr., bæði ríkissjóður og fiskvinnslan. Þetta eru reyndar orðnar uppsafnaðar 1100 millj. kr., hvorki meira né minna. Hvernig geta tveir aðilar verið eigendur að sömu kröfunni?