Ráðstafanir vegna kjarasamninga
Laugardaginn 20. maí 1989

     Frsm. minni hl. fjh.- og viðskn. (Halldór Blöndal) (frh.) :
    Herra forseti. Ég þarf ekki að minna á að þetta frv. er um ráðstafanir vegna kjarasamninga. Ég þarf heldur ekki að minna á að í þessu frv. er gefið fyrirheit um að sjávarútveginum verði komið á viðunandi rekstrargrundvöll á samningstímanum. Hæstv. forsrh. hefur að vísu ekki fengist til að túlka þannig að skiljanlegt sé hvað í þeim ummælum felst. Ég þarf heldur ekki að minna á að formaður Bandalags starfsmanna ríkis og bæja lítur svo á að þær ráðstafanir sem ríkisstjórnin hefur þegar gripið til séu brigð á þeim samningum sem gerðir voru við Bandalag starfsmanna ríkis og bæja. Þetta höfum við allt talað um áður, en það er annað atriði sem óhjákvæmilegt er að inna hæstv. forsrh. eftir nú við lokaafgreiðslu þessa máls og það er hvernig á því standi að hlutabréfasjóður hefur ekki afgreitt eina einustu tillögu frá sér varðandi fyrirtæki í sjávarútvegi síðan sá sjóður var myndaður. Hæstv. forsrh. hefur þrásinnis talað um það, bæði í sjónvarpi, blöðum og hér á Alþingi, að hlutabréfasjóðurinn sé einhver töfralausn sem eigi að leysa vanda atvinnulífsins. Nú liggur það á hinn bóginn fyrir að mörg fyrirtæki þurfa mjög á því að halda að fá skýrt svar um hver verði viðbrögð hlutabréfasjóðsins, hvaða dóm hlutabréfasjóðurinn muni kveða upp yfir rekstri þessara fyrirtækja. Ég get rifjað upp því við höfum oft áður, ég og hæstv. forsrh., talað um sameiningu frystihúsanna á Ólafsfirði. Það hefur komið fyrir dag eftir dag, má segja, það eru a.m.k. síendurteknar hótanir frá Rafmagnsveitum ríkisins um að loka því fyrirtæki á meðan hlutabréfasjóður hreyfir hvorki hönd né fót og horfir í að enn verði að segja upp fólki á þessum stað og eru þó engin tvímæli á því að hraðfrystiiðnaðurinn á Ólafsfirði er burðarás í atvinnuuppbyggingu þess byggðarlags.
    Ég skal ekki undir þessum kringumstæðum heldur rifja upp hvaða ástæður ollu því að formaður Atvinnutryggingarsjóðs útflutningsgreina kveður upp 20 dauðadóma yfir fyrirtækjum. Ég skal ekki fara að ræða nein slík atriði sérstaklega. Það eina sem ég spyr hæstv. forsrh. um er þetta: Hvernig stendur á því að hlutabréfasjóðurinn hefur ekki skilað tillögum um eitt einasta fyrirtæki í sjávarútvegi, ekkert? Og í öðru lagi: Hafa tekist samningar og náðst samkomulag um hvernig samvinna hlutabréfasjóðs verði við Fiskveiðasjóð og ef svo er ekki, hvenær er þess þá að vænta að stjórn Fiskveiðasjóðs og stjórn hlutabréfasjóðs nái samkomulagi í þeim málum? Og í þriðja lagi: Hvað líður viðræðum milli hlutabréfasjóðs og Landsbanka Íslands um kaup Landsbankans á aðildarbréfum hlutabréfasjóðs og hefur bankaeftirlitið gefið út álit þess efnis að Landsbankanum sé heimilt að breyta skuldbindingum sínum í aðildarbréf en eins og menn vita þýða þeir skilmálar sem eru á aðildarbréfunum að á þeim sex árum sem líða þangað til að endurgreiðslu kemur minnkar höfuðstóllinn, verður skorinn niður um helming. Það að kaupa aðildarbréf í hlutabréfasjóði

þýðir að viðkomandi banki eða viðkomandi stofnun afskrifi helming höfuðstólsins þegar tekið er tillit til þess að aðildarsjóður hlutabréfasjóðs greiðir ekki vexti.
    Þetta eru skýrar fyrirspurnir, skýrar spurningar.