Ráðstafanir vegna kjarasamninga
Laugardaginn 20. maí 1989

     Frsm. minni hl. fjh.- og viðskn. (Halldór Blöndal):
    Herra forseti. Ég veit ekki hvernig einstakir þingmenn meta svar hæstv. sjútvrh., hvort þeir telja að það mat hæstv. forsrh. sé rétt að það hafi staðið upp á Fiskveiðasjóð. Má vel vera að mönnum finnist það. Þeir hafa nú báðir gert grein fyrir sínum málum, hæstv. sjútvrh. og hæstv. forsrh., og nú geta menn metið hvernig staðan er, hvort það sé rétt eða ekki að störf hlutabréfasjóðs hafi dregist vegna þess að Fiskveiðasjóður hafi ekki verið nógu snar í vendingum. Ég skal ekki leggja dóm á það. Ég hygg að það hljóti að verða rætt á öðrum vettvangi og væri kannski rétt að þeir reyndu að ræða það í ríkisstjórninni eða þá þingflokksherbergi Framsfl. ef það verður þá einhvers staðar rætt, ég skal ekki um það segja.
    Hitt held ég að liggi ljóst fyrir að svar hæstv. forsrh. sýnir að töfralausnin ,,hlutabréfasjóður`` var ekki sú lausn sem hann bjóst við. Það er t.d. algerlega rangt hjá hæstv. forsrh. að staða þeirra fyrirtækja sem hlutabréfasjóðurinn er að fást við sé verri en búist hafði verið við. Staða þessara fyrirtækja lá öll sömul ljós fyrir miklu fyrr. Mörg þessara fyrirtækja eru í viðskiptum við Landsbankann og það er einmitt fyrrv. aðalbankastjóri Landsbankans sem er formaður hlutabréfasjóðsins og í stjórn hlutabréfasjóðsins er Guðmundur Malmquist sem hefur á undanförnum árum stjórnað þeirri vinnu sem unnin hefur verið í Byggðastofnun í sambandi við erfiðleika þeirra fiskvinnslufyrirtækja sem verst standa þannig að staða þessara fyrirtækja er auðvitað ekki verri en maður gat búist við. Þetta er útúrsnúningur. En ef menn voru í glerhúsi og vissu ekki hvað var að gerast gátu þeir verið á hvaða hæð sem var mín vegna og ekki gert sér grein fyrir ástandinu. En það kom skýrt fram hjá formanni Atvinnutryggingarsjóðs útflutningsgreina þegar hann ræddi við fjh.- og viðskn. að það hefði hallað miklu meir undan síðustu þrjá mánuði ársins en hann hafði gert sér grein fyrir. Það er deginum ljósara að ein af kröfunum í síðustu kjarasamningum var að sjávarútvegurinn fengi viðunandi rekstrarstöðu, ekki var nú farið fram á meira, og sú viðunandi rekstrarstaða er ekki komin enn. Þess vegna hallar undan fæti. Svo kemur að því að brattinn verður meiri og síðan kemur hengiflugið sem heitir gjaldþrot. Nú er búið að hrinda, segir Tíminn, 20 fyrirtækjum í sjávarútvegi fram af hengifluginu.
    Ég er alveg sammála hæstv. forsrh. um að það er ekki töfralausn að tala um sameiningu. En það var þannig á þessu þingi til að byrja með að hæstv. forsrh. opnaði aldrei munninn án þess að tala um sameiningu. Sameining, sameining, sameining, sameining. Fyrirtæki gætu ekki komið til fundar við t.d. stjórn Atvinnutryggingarsjóðs útflutningsgreina nema vera búin að sameina. Sama sagði hæstv. fjmrh. Þetta orð átti að leysa allan vanda. Sameining---hlutabréfasjóður, sameining---hlutabréfasjóður. Hvað hefur svo komið í ljós? Forsrh. viðurkenndi áðan að sameining hefur

auðvitað ekkert að segja nema hægt sé að selja eignir til að létta á skuldum og koma þannig við hagræðingu eða þá með því að nýta fjárfestinguna betur og þannig draga úr vinnuaflskostnaði o.s.frv. Auðvitað hefur t.d. sameiningin í því fyrirtæki sem ég nefndi þegar í stað skilað miklum rekstrarlegum ávinningi. Það vitum við sem fylgjumst með og höfum séð síðustu tölur borið saman við það sem áður var. Hins vegar veit ég að t.d. hæstv. forsrh. hefur ekki hugmynd um hvernig það stendur í hlutabréfasjóði vegna þess að hlutabréfasjóður hefur ekki afgreitt málið og það verður ekki afgreitt fyrr en eftir helgi. A.m.k. er eigendum þess fyrirtækis ekki kunnugt um að það hafi verið afgreitt og a.m.k. er það ljóst að til Byggðastofnunar hefur málið ekki komið.
    Ég vildi þess vegna aðeins segja það og ég skal ekki hafa þetta mikið lengra: Við vitum hvernig þetta stendur. Það er kennt einu um og öðru eftir hvernig á liggur, skotið inn orði og orði til þess að reyna að komast hjá því að tala í alvöru, verið bara uppi í Stjórnarráði og talað ekki um neitt sem tekið er eftir annað en hálfkveðin vísa. Maðurinn sem ætlaði að vera í varðstöðu um þvert og endilangt landið, maðurinn sem ætlaði að passa upp á hvert einasta fyrirtæki í landinu. Ætli það hafi ekki fjölgað atvinnulausum á hverjum einasta degi síðan hann varð forsrh., raunverulega atvinnulausum. Ég er ekki að tala um það þegar við vitum að reglubundið atvinnuleysi er á sumum stöðum. En í nýjum greinum hefur verið að koma inn atvinnuleysi, mjög víða.
    Ég skal svo ekki hafa þessi orð fleiri, herra forseti. Það er svo sem verðugur endir umræðu í deildinni að aðeins sé minnst á atvinnumál dreifbýlisins. Hæstv. forsrh. hefur sýnt þeim málum tómlæti. Það sem hann hefur gert hefur aðallega verið að tala í blöðum og í fjölmiðla og þeir menn sem hafa verið að vinna í þessu hafa fengið svör seint og illa. Og fólkið sem hefur verið atvinnulaust veit ekki hvort það heldur atvinnunni fram að þjóðhátíðardeginum í sínum plássum og ekkert svar kemur, engin rödd um það hvernig eigi að bregðast við.