Ferill 20. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1988. – 1058 ár frá stofnun Alþingis.
111. löggjafarþing. – 20 . mál.


Ed.

20. Frumvarp til laga



um aðgerðir í efnahagsmálum.

(Lagt fyrir Alþingi á 111. löggjafarþingi 1988.)



1. gr.

    Laun, þ.e. launataxtar og kjaratengdir liðir, þar á meðal kauptrygging sjómanna í síðastgildandi kjarasamningum, skulu hinn 1. júní 1988 hækka um það sem kann að vanta á 10% hækkun frá 31. desember 1987 að telja. Hinn 1. september 1988 skulu laun hækka um það sem kann að vanta á 12,75% hækkun á tímabilinu frá 31. desember 1987 að telja. Hinn 1. desember 1988 skulu laun hækka um það sem kann að vanta á 14,45% hækkun á tímabilinu frá 31. desember 1987 að telja. Hinn 1. mars 1989 skulu laun hækka um það sem kann að vanta á 15,9% hækkun á tímabilinu frá 31. desember 1987 að telja.
    Gildandi kjarasamningar, sem ákveða minni hækkun launa en felst í 1. mgr. þessarar greinar, breytast í samræmi við hana.
    Ákvæði þessarar greinar raska þó ekki þeim ákvæðum gildandi kjarasamninga sem fela í sér meiri hækkun launa en kveðið er á um í 1. mgr.

2. gr.

    Fjárhæðir launaliða í verðlagsgrundvelli búvöru skulu taka þeim hækkunum sem mælt er fyrir um í 1. og 2. mgr. 1. gr.

3. gr.

    Fjárhæðir launaliða í gjaldskrám sjálfstætt starfandi sérfræðinga skulu ekki hækka meira en greinir í 1. og 2. mgr. 1. gr. Sama gildir um hvers kyns útselda vinnu og þjónustu.

4. gr.

    Með þeim breytingum á kaupgjaldsákvæðum kjarasamninga, sem kveðið er á um í lögum þessum, framlengjast allir gildandi og síðastgildandi kjarasamningar til 10. apríl 1989.
    Verkbönn, verkföll, þar með taldar samúðarvinnustöðvanir eða aðrar aðgerðir sem ætlað er að knýja fram aðra skipan kjaramála en lög þessi mæla fyrir um, eru óheimil.

5. gr.

    Atvinnurekendum er óheimilt að hækka laun, þóknanir og hvers konar hlunnindagreiðslur umfram það sem samið hefur verið um í kjarasamningum eða kveðið er á um í lögum þessum.

6. gr.

    Rísi ágreiningur um túlkun á ákvæðum laga þessara við framkvæmd kjarasamninga einstakra starfsgreina geta verkalýðsfélög eða vinnuveitendafélög vísað honum til úrskurðar sérstaks gerðardóms. Gerðardómur skal skipaður þremur mönnum. Skal hvor aðila kjarasamnings tilnefna einn mann og Hæstiréttur hinn þriðja og er hann formaður dómsins. Úrskurður gerðardóms er fullnaðarúrskurður. Kostnaður við gerðardóm greiðist úr ríkissjóði.

7. gr.

    Frá gildistöku laga þessara skulu hækkanir á gjaldskrám ríkisfyrirtækja háðar samþykki ríkisstjórnarinnar.

8. gr.

    Verðtrygging nýrra fjárskuldbindinga til skemmri tíma en tveggja ára er óheimil frá 1. júlí 1988.

9. gr.

    Seðlabanka Íslands er heimilt að ákveða að verðbréfasjóðir skuli verja allt að 20% af aukningu ráðstöfunarfjár frá 1. júlí 1988 til kaupa á markaðshæfum skuldabréfum ríkissjóðs.

10. gr.

    Þrátt fyrir ákvæði 121. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. lög nr. 49/1987, skal hækkun persónuafsláttar flýtt þannig að hún komi til framkvæmda 1. júní 1988 í stað 1. júlí 1988.

11. gr.

    Forsætisráðherra getur með reglugerð kveðið nánar á um framkvæmd laga þessara.

12. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi og gilda til 10. apríl 1989.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Um frumvarp þetta, sem lagt er fyrir Alþingi skv. 28. gr. stjórnarskrárinnar, vísast að öðru leyti til meðfylgjandi fylgiskjals.



Fylgiskjal.


BRÁÐABIRGÐALÖG


um aðgerðir í efnahagsmálum.



HANDHAFAR VALDS FORSETA ÍSLANDS
    skv. 8. gr. stjórnarskrárinnar
forsætisráðherra, forseti sameinaðs Alþingis og forseti Hæstaréttar
gjöra kunnugt: Forsætisráðherra hefir tjáð oss að ríkisstjórnin hafi ákveðið aðgerðir í efnahagsmálum er hafi að markmiði að tryggja að gengisbreyting krónunnar 16. maí sl. beri tilætlaðan árangur við að skapa undirstöðugreinum atvinnulífsins viðunandi rekstrarskilyrði, koma í veg fyrir sjálfvirkt víxlgengi verðlags, gengis, launa og fjármagnskostnaðar og leggja grunn að jafnvægi í efnahagslífinu. Til að þessu markmiði verði náð beri brýna nauðsyn til að tryggja samræmi í launaþróun, verja kaupmátt lægstu launa og draga úr verðbólguáhrifum gengisbreytingarinnar.
    Fyrir því eru hér með sett svofelld bráðabirgðalög skv. 28. gr. stjórnarskrárinnar:

1. gr.


    Laun, þ.e. launataxtar og kjaratengdir liðir, þar á meðal kauptrygging sjómanna í síðastgildandi kjarasamningum, skulu hinn 1. júní 1988 hækka um það sem kann að vanta á 10% hækkun frá 31. desember 1987 að telja. Hinn 1. september 1988 skulu laun hækka um það sem kann að vanta á 12,75% hækkun á tímabilinu frá 31. desember 1987 að telja. Hinn 1. desember 1988 skulu laun hækka um það sem kann að vanta á 14,45% hækkun á tímabilinu frá 31. desember 1987 að telja. Hinn 1. mars 1989 skulu laun hækka um það sem kann að vanta á 15,9% hækkun á tímabilinu frá 31. desember 1987 að telja.
    Gildandi kjarasamningar, sem ákveða minni hækkun launa en felst í 1. mgr. þessarar greinar, breytast í samræmi við hana.
    Ákvæði þessarar greinar raska þó ekki þeim ákvæðum gildandi kjarasamninga sem fela í sér meiri hækkun launa en kveðið er á um í 1. mgr.

2. gr.

    Fjárhæðir launaliða í verðlagsgrundvelli búvöru skulu taka þeim hækkunum sem mælt er fyrir um í 1. og 2. mgr. 1. gr.

3. gr.

    Fjárhæðir launaliða í gjaldskrám sjálfstætt starfandi sérfræðinga skulu ekki hækka meira en greinir í 1. og 2. mgr. 1. gr. Sama gildir um hvers kyns útselda vinnu og þjónustu.

4. gr.

    Með þeim breytingum á kaupgjaldsákvæðum kjarasamninga, sem kveðið er á um í lögum þessum, framlengjast allir gildandi og síðastgildandi kjarasamningar til 10. apríl 1989.
    Verkbönn, verkföll, þar með taldar samúðarvinnustöðvanir eða aðrar aðgerðir sem ætlað er að knýja fram aðra skipan kjaramála en lög þessi mæla fyrir um, eru óheimil.

5. gr.

    Atvinnurekendum er óheimilt að hækka laun, þóknanir og hvers konar hlunnindagreiðslur umfram það sem samið hefur verið um í kjarasamningum eða kveðið er á um í lögum þessum.

6. gr.

    Rísi ágreiningur um túlkun á ákvæðum laga þessara við framkvæmd kjarasamninga einstakra starfsgreina geta verkalýðsfélög eða vinnuveitendafélög vísað honum til úrskurðar sérstaks gerðardóms. Gerðardómur skal skipaður þremur mönnum. Skal hvor aðila kjarasamnings tilnefna einn mann og Hæstiréttur hinn þriðja og er hann formaður dómsins. Úrskurður gerðardóms er fullnaðarúrskurður. Kostnaður við gerðardóm greiðist úr ríkissjóði.

7. gr.

    Frá gildistöku laga þessara skulu hækkanir á gjaldskrám ríkisfyrirtækja háðar samþykki ríkisstjórnarinnar.

8. gr.

    Verðtrygging nýrra fjárskuldbindinga til skemmri tíma en tveggja ára er óheimil frá 1. júlí 1988.

9. gr.

    Seðlabanka Íslands er heimilt að ákveða að verðbréfasjóðir skuli verja allt að 20% af aukningu ráðstöfunarfjár frá 1. júlí 1988 til kaupa á markaðshæfum skuldabréfum ríkissjóðs.

10. gr.

    Þrátt fyrir ákvæði 121. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. lög nr. 49/1987, skal hækkun persónuafsláttar flýtt þannig að hún komi til framkvæmda 1. júní 1988 í stað 1. júlí 1988.

11. gr.

    Forsætisráðherra getur með reglugerð kveðið nánar á um framkvæmd laga þessara.

12. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi og gilda til 10. apríl 1989.

Gjört í Reykjavík, 20. maí 1988.



Þorsteinn Pálsson.


Þorvaldur Garðar Kristjánsson.


Magnús Thoroddsen.


(L. S.)



Þorsteinn Pálsson.