Ferill 23. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1988. – 1058 ár frá stofnun Alþingis.
111. löggjafarþing. – 23 . mál.


Sþ.

23. Tillaga til þingsályktunar



um eflingu fiskeldis.

Flm.: Guðmundur G. Þórarinsson, Ólafur Þ. Þórðarson, Alexander Stefánsson,


Jón Kristjánsson, Guðni Ágústsson, Stefán Guðmundsson.



    Alþingi ályktar að efling fiskeldis á Íslandi skuli vera meðal forgangsverkefna í atvinnumálum og felur ríkisstjórninni að vinna að uppbyggingu og þróun þessarar atvinnugreinar í samræmi við þá stefnumörkun. Í því sambandi er sérstaklega áréttað:
1.     Að starfsskilyrði fiskeldis hérlendis verði sem líkust því sem gerist í helstu samkeppnislöndum.
    a.     Komið verði á samræmdu afurðalánakerfi er geri fiskeldisfyrirtækjum kleift að fjármagna reksturinn fram að sölu afurða.
    b.     Söluskattur og aðflutningsgjöld verði endurgreidd bæði af stofn- og rekstrarkostnaði.
    c.     Lántökuskattur verði endurgreiddur.
    d.     Stimpilgjöld verði greidd með sama hætti og í sjávarútvegi.
    e.     Raforka til fiskeldis verði seld á taxta er taki mið af nýtingartíma og orkunotkun.
    f.     Reglur um takmörkun erlendrar lántöku hindri ekki uppbyggingu arðbærra fiskeldisfyrirtækja.
    g.     Fyrirtækjum verði heimilt að taka sjálf beint lán erlendis, enda leggi þau sjálf til ábyrgðir.
2.     Komið verði á kennslu í fiskeldi á háskólastigi og menntun eldismanna efld.
3.     Rannsóknir á sviði fiskeldis verði efldar og unnið eftir markvissri áætlun.
4.     Kerfisbundin athugun verði gerð á hugsanlegum þætti fiskeldis í búháttabreytingum innan landbúnaðarins.
5.     Sjúkdómaeftirlit og sjúkdómavarnir verði efld.
6.     Komið verði á samræmdu gæðamati fiskeldisafurða.
7.     Fylgst verði grannt með þróun fiskeldis í helstu samkeppnislöndum og leitað formlegrar samvinnu við Norðmenn.
8.     Sett verði samræmd heildarlöggjöf um fiskeldi.

Greinargerð.


    Fiskeldi er tiltölulega ung atvinnugrein á Íslandi. Greinin hefur vaxið mjög hratt síðustu ár og þegar er ljóst að fiskeldi getur orðið mjög mikilvægur þáttur í þjóðarbúskapnum ef rétt er á haldið.
    Í lok ársins 1987 voru skráðar fiskeldis- og hafbeitarstöðvar alls 113 en þeim fjölgaði um 14 það sem af er árinu 1988 og eru þær því nú alls 127. Þar af hafa 109 hafið rekstur en 18 eru í byggingu eða undirbúningi.

Framleiðslugeta íslenskra eldisstöðva í árslok 1987.



    

Rými
Framleiðslu-
geta
Seiði 40.000 m3 20 milljónir
Matfiskur:
Strandeldi 50.000 m3 1.250 tonn
Sjókvíar 200.000 m3 3.000 tonn


    Áætlað er að framleiðsla ársins 1988 af laxi sé um 1100–1200 tonn.
    Enn sem komið er er laxeldi viðamest í íslensku fiskeldi og verður vafalaust í næstu framtíð. Eigi að síður er silungseldi talsvert og menn eru farnir að fikra sig áfram með tilraunaeldi fleiri tegunda.
    Hafrannsóknastofnun og Íslandslax hf. standa saman að tilraunum með lúðueldi á Stað vestan Grindavíkur og Fiskeldi Eyjafjarðar hf. er með tilraunaeldi á lúðu á Hjalteyri. Napi hf. er með eldi á kræklingum í Hvalfirði, á Stað er hafið tilraunaeldi á sæeyra og tilraunaeldi á hörpudiski er hafið á vegum Hafrannsóknastofnunar í Breiðafirði.
    Engin atvinnugrein býr yfir jafnmiklum og hröðum vaxtarmöguleikum og fiskeldi. Engin atvinnugrein getur aukið þjóðartekjur jafnmikið á næstu árum og fiskeldi. Fiskurinn er að verða húsdýr.
    Norðmenn áætla að framleiða um 100.000 tonn af eldislaxi á næsta ári. Þessi framleiðsla svarar til veiða á um 700.000 tonnum af þorski eða um það bil tvöfaldra þorskveiða Íslendinga. Þessar tölur gefa vísbendingar um hvað Íslendingar geta gert á sviði fiskeldis á næstu árum ef rétt er á haldið.
    Með skipulegri uppbyggingu gæti fiskeldi gefið helmingstekjur á við sjávarútveg innan fyrirsjáanlegrar framtíðar. Engin önnur grein býður upp á slíka möguleika.
    Nú þegar Íslendingar búa við 7000–12.000 millj. kr. viðskiptahalla árlega, þrátt fyrir gott árferði í framleiðslu, er ljóst að auka verður framleiðsluna, auka verður útflutninginn.

Framleiðsluverðmæti — fjárfesting.
    Óvæntar aðstæður bjóða upp á framleiðslubyltingu í íslensku laxeldi á árunum 1988–1990. Norski seiðamarkaðurinn lokaðist og starfsskilyrðanefnd fiskeldis áætlar að um 10 milljónir seiða verði aldar til slátrunar hér í landinu vegna þeirrar stöðu. Nefndin áætlar útflutningsverðmæti þessarar framleiðslu um 5000 millj. kr. á ári eða um 10% af útflutningsverðmætum ársins 1987. Er þá miðað við að helmingur seiðanna sé alinn í kvíum og afföll verði veruleg.
    Ekki er fráleitt að meta kíló af laxi um sjö sinnum verðmætara en kg af þorski upp úr skipi. Þessi aukna laxaframleiðsla svarar því til veiða á um 125.000 tonnum af þorski, þ.e. aukning þorskafla um 40% frá því sem Hafrannsóknastofnun leggur til að veitt verði. Þetta er ekki lítils virði þegar samdráttur er fram undan í þorskveiðum og er nokkur atvinnugrein sem getur boðið upp á slíka aukningu þjóðartekna á einu og hálfu ári?
    Fróðlegt er að bera saman fjárfestingu í fiskeldi og öðrum arðbærum greinum þjóðarbúsins og horfa þá jafnframt til framleiðsluverðmæta:

Frystitogari — strandeldisstöð fyrir lax.



             
Fjárfesting Framleiðslu-
verðmæti á ári
500 tonna frystitogari 450 m.kr. 270 m.kr.
Strandeldisstöð, framl. 1800 tonn/ári 450 m.kr. 540 m.kr.


    Frystitogarar hafa gefið betri arð en önnur útgerð að undanförnu. Strandeldisstöð skilar eigi að síður tvöfalt meiri útflutningsverðmætum miðað við fjárfestingu. Strandeldisstöðin notar meira af innlendum aðföngum en frystitogarinn og er ekki gerð út á ofnýtta fiskstofna. Stofnkostnaður frystitogarans er að mun meira leyti erlendur en strandeldisstöðvarinnar. Í fiskeldi eru stærstu kostnaðarliðir fóður, orka og laun og allt er þetta innlent.

Álver — strandeldisstöð fyrir lax.
    Nú er mikið rætt um byggingu nýs álvers í Straumsvík. Flestir munu sammála um þjóðhagslegan ávinning slíkrar framkvæmdar. Fróðlegt er því að bera saman stækkun álvers (u.þ.b. 100 000 tonn á ári) og byggingu strandeldisstöðvar með getu til að ala til slátrunar u.þ.b. 10 milljónir seiða:


             
Fjárfesting Ársframleiðsla
Stækkun álvers 14.000 m.kr. 7.000 m.kr.
Strandeldisstöð 5.000 m.kr. 6.000 m.kr.


    Þessar tölur segja þó ekki allt. Af framleiðsluverðmætum álversins verða eftir í landinu aðallega laun og greiðslur fyrir raforku. Ef áætlað launahlutfall af rekstrartekjum í álframleiðslu er um 16,5% gætu laun numið um 1100–1200 millj. kr. Orkuverð sveiflast eftir álverðinu, en ef áætluð orkunotkun er 1450 gwst. á ári gætu greiðslur fyrir raforku numið 1100–1200 millj. kr. Með ýmiss konar þjónustu gæti því álverið skilað inn í þjóðarbúið 2500–3000 millj. kr. á ári.
    Strandeldisstöðin skilur hins vegar langmestan hluta tekna sinna eftir í landinu.
    Þetta dæmi virðist því benda til að eldi þeirra laxaseiða, sem nú eru í landinu, til sláturstærðar gæti skilað í þjóðarbúið álíka miklum tekjum og tvö álver.

Aðstæður á Íslandi.
    Aðstaða til fiskeldis á Íslandi er að mörgu leyti hin ákjósanlegasta. Í framtíðinni getur Ísland lagt enn frekari áherslu á matvælaframleiðslu. Lega landsins norður við heimskautsbaug úti í miðju Atlantshafi er ákjósanleg í heimi vaxandi mengunar.
    Íbúar jarðarinnar munu í vaxandi mæli leita eftir hollri náttúrulegri fæðu sem framleidd er við bestu aðstæður án hvers konar mengunar og geislunar. Hér er gnægð af fersku, góðu og smitfríu vatni til eldis. Sjór og loft eru hrein og ómenguð. Jarðhitinn býður upp á möguleika til að auka vaxtarhraða, möguleika sem fáir geta keppt við. Gnægð raforku er til dælingar og annarrar
orkunotkunar. Stærð landsins og lág íbúatala skipta miklu máli. Mikið landrými og löng strandlengja eru mikilvæg. Einangrun landsins minnkar áhættu af sjúkdómum. Fóður til fiskeldis má framleiða innan lands og er reyndar gert. Hráefni er mest innlent og þegar er fiskeldisfóður orðið útflutningsvara.
    Þannig gætu og munu fjölmargar hliðargreinar eflaust líka þróast í framtíðinni ef fiskeldinu vex fiskur um hrygg. Má þar nefna t.d. rafeindaiðnað vegna öryggis- og stýrikerfa, stál- og plastiðnað o.s.frv.

Undir högg að sækja.
    Þrátt fyrir þetta á fiskeldi mjög undir högg að sækja. Samræmt afurðalánakerfi er ekki til í fiskeldi eins og í öðrum greinum útflutnings. Fiskeldisfyrirtæki, þ.e. þau sem best eru sett, hafa fram undir þetta fengið afurðalán sem nema 37,5% af tryggingaverðmætum í stöðinni, þ.e. fyrirtæki, sem framleitt hefur verðmæti fyrir 100 millj. kr., fær afurðalán að upphæð 37,5 millj. kr. og verður því með einhverjum ráðum að brúa bilið. Þetta er þeim mun tilfinnanlegra þar sem það tekur u.þ.b. þrjú ár frá klaki hrogna til slátrunar á laxinum. Tíminn er langur þar til framleiðslan er seld og rekstrardæmið því óviðráðanlegt.
    Erlend lán til stofnframkvæmda eru skattlögð og nærri liggur að eldisfyrirtækin greiði 1 millj. kr. af hverjum 10 millj. kr. sem þau taka að láni í skatta áður en þau fá lánið í hendur. Aðallega er þarna um að ræða lántökugjald, skatt í erlendar lántökur og stimpilgjald.
    Eldisfyrirtæki hafa ekki fengið uppsafnaðan söluskatt endurgreiddan af útflutningsvörum eins og aðrar útflutningsgreinar. Reyndar mun svipað ástatt um loðdýraeldi síðustu þrjú árin. Þessi afstaða stjórnvalda til fiskeldis er illskiljanleg, en nú hillir undir lausn þessa máls samkvæmt nýjum stjórnarsáttmála.
    Raforka er sérstaklega hár kostnaðurliður hér í strandeldi. Strandeldi er orkufrek framleiðsla. Ekki er óalgengt að eldisfyrirtæki noti 6–8 kwst. á kg af framleiddum laxi. Við álframleiðslu eru oft notaðar um 14 kwst. á kg af áli og er hún með orkufrekustu framleiðslu sem þekkist.
    Nýtingartími raforku í strandeldi er mjög hár. Dælurnar ganga allan sólarhringinn alla daga ársins. Fram til þessa hafa eldisfyrirtækin þó greitt sama raforkutaxta og venjuleg iðnfyrirtæki, sama gjald og trésmíðaverkstæði sem er opið frá kl. 7.30 til 17.00 og kveikir annað slagið á vélsöginni. Nú er hins vegar í gildi afsláttartaxti ef heildarnotkun í „sjódælingu“ nær 1 gwst. á ári.
    Hér á landi vantar alveg raforkutaxta þar sem gert er ráð fyrir orkunotkun í fiskeldi, taxta sem liggur á milli venjulegs iðnaðartaxta og stóriðjutaxta.
    Þannig mætti lengi telja. Starfsskilyrðanefnd hefur í áfangaskýrslu fjallað um nokkur atriði starfsskilyrða og ljóst er að fiskeldi býr við miklu betri aðstæður í helstu samkeppnislöndum okkar. Þessu verður að sjálfsögðu að breyta.

Úr niðurstöðum starfsskilyrðanefndar fiskeldis: Staðan í dag.
A. Stofnframkvæmdir.
    Eftirfarandi niðurstöður fást þegar borin eru saman skilyrði fjármögnunar til stofnframkvæmda í fiskeldi á Íslandi og í samanburðarlöndunum:
1.     Samanburðarlöndin, önnur en Færeyjar, veita verulega styrki til stofnframkvæmda, 25–30%. Á Íslandi eru engir styrkir.
2.     Krafa um eigið fjármagn er að lágmarki 33% á Íslandi en getur verið töluvert lægri í samanburðarlöndunum, frá 20% og allt niður í 5%.
3.     Lán og styrkir í samanburðarlöndunum nema þannig 80–90%. Á Íslandi nemur lánsfé 67%.
4.     Í Skotlandi er rekstrarkostnaður fram að fyrstu tekjum að jafnaði talinn til stofnkostnaðar.
5.     Í sumum samanburðarlöndunum er hluti stofnlána með niðurgreiddum vöxtum og á Írlandi að hluta vaxtalaus. Á Íslandi gilda markaðsvextir.
6.     Á vegum Evrópubandalagsins er veitt aðstoð til fiskeldis í bandalagsríkjunum samkvæmt sérstakri reglugerð, nr. 4028/86. Samkvæmt henni veitir bandalagið allt að 40% í styrki gegn mótframlögum heimalandsins sem nema 10–30%.
7.     Á Íslandi er sérstakur skattur af erlendum lánum í gildi út árið 1988, 6% af lánum til lengri tíma. Í Noregi er fiskeldi undanþegið 10–13% fjárfestingarskatti.
    Aðstaða til uppbyggingar fiskeldis verður að teljast mun betri í samanburðarlöndunum vegna styrkja, hærra lánahlutfalls, niðurgreiddra vaxta, lægri eiginfjárkröfu, auk sérstaks lántökuskatts á Íslandi.

B. Rekstrarlán.
1.     Í samanburðarlöndunum fá fiskeldisfyrirtækin lán til að fjármagna allt að 100% af rekstrarkostnaði. Á Íslandi fá fiskeldisfyrirtækin u.þ.b. 50% rekstrarkostnaðar fjármögnuð með rekstrarlánum, en verða sjálf að finna leiðir til að fjármagna afganginn. Verulega skortir á um samræmdar reglur um veitingu rekstrarlána til fiskeldis hjá lánastofnunum hérlendis til jafnræðis við aðrar atvinnugreinar.
2.     Í Noregi er veitt ríkisábyrgð fyrir rekstrarlánum, nú um 45% að jafnaði.
3.     Í Skotlandi er rekstrarkostnaður fram að fyrstu tekjum skilgreindur sem stofnkostnaður og lánað til hans til langs tíma. Á Hjaltlandseyjum er veittur sérstakur stuðningur við öflun fyrsta árgangs af seiðum.
4.     Hérlendis eru erlend lán utan afurðalána skattlögð.
5.     Samkvæmt skýrslu OECD um fiskeldi, Study on Aquaculture, frá 9. maí 1988, FI/276 (1st Rev.), eru styrkir til fjárfestingar og rekstrar veittir í allríkum mæli til fiskeldis í löndum innan samtakanna.
    Rekstur fiskeldisfyrirtækja verður að teljast mun auðveldari í samanburðarlöndunum þar eð fiskeldisstöðvar eiga kost á lánum fyrir öllum rekstrarkostnaði, sums staðar með ríkisábyrgð á rekstrarlánum. Einnig auka styrkir rekstrarlánamöguleika í samanburðarlöndunum. Þannig mæta opinberir aðilar erlendis þörfum þarlendra banka fyrir viðunandi tryggingar fyrir lánum.
    Á Íslandi ríkir hins vegar ekki samræmt fyrirkomulag og erfitt er að sjá hvernig fiskeldisfyrirtækin eigi að geta fjármagnað hluta rekstrarkostnaðarins.

Menntunarmál.
    Með tilliti til þeirrar gífurlega öru þróunar sem er í fiskeldi er eðlilegt og nauðsynlegt að þróa hér kennslu á háskólastigi í fiskeldi. Kanna þarf hvort slík kennsla væri best tengd líffræðideild Háskóla Íslands eða jafnvel hvort koma ætti á kennslu í fiskeldi við Háskólann á Akureyri. Menntun eldismanna fer nú fram í tveimur skólum, Bændaskólanum á Hólum og Kirkjubæjarskóla.
    Vegna þeirrar sprengingar sem hér er að verða í fiskeldismálum er a.m.k. nauðsynlegt að við stærri fyrirtækin starfi menn með æðri menntun og fleiri slíka menn vantar í landinu til þess að hafa hönd í bagga með þróuninni. Varðandi menntun eldismanna er rétt að vísa til nefndarálits í apríl 1988 um fiskeldisnám á framhaldsskólastigi.
    Efla þarf þá skóla sem nú kenna fiskeldi. Nemendur vantar t.d. meiri fræðslu í matfiskeldi, en einmitt þar verður mestur vöxtur á næstu árum og nauðsynlegt er að skólarnir hafi aðgang að flestum venjulegum tækjum sem notuð eru í fiskeldi, þannig að nemendur hafi kynnst notkun þeirra er þeir koma út í atvinnulífið.

Rannsóknir.
    Afar mikilvægt er að í grein eins og fiskeldi séu stundaðar víðtækar rannsóknir. Tilraunir þarf að gera um eldi á tegundum sem hentað gætu til aukningar þjóðarframleiðslu hér á landi.
    Mikilvægt er að kynbæta eldisstofna og reyndar ókleift að stunda fiskeldi án kynbóta. Að reisa kynbótastöð fyrir eldislax er orðið brýnt.
    Áhrif ýmissa umhverfisþátta á eldisfisk eru óþekkt og mikilvægt að fá vitneskju um þau. Í laxeldi má nefna áhrif umhverfisþátta, svo sem ljóslotu o.fl. á kynþroska, seltuhörðnun o.fl., áhrif hitastigs á vöxt, súrefnisþörf o.s.frv. Mikilvæg er og athugun á gæðum vatns og sjávar til eldis og á jarðfræðilegum þáttum við vatns- og sjótöku.
    Rannsóknir í fiskeldi hér á landi hófust fyrst að ráði 1985 þegar Rannsóknaráð ríkisins byrjaði að veita styrki til rannsókna. Á árunum 1985–1988 veitti Rannsóknaráð rúmlega 71 millj. kr. til rannsókna í fiskeldi miðað við verðlag í júlí 1988. Aðrir sjóðir hafa veitt minni fjárhæðir. Nauðsynlegt er að öflugt framhald verði á þessum rannsóknum og unnið verði skipulega að þeim.

Þáttur fiskeldis í búháttabreytingum landbúnaðar.
    Enginn vafi er á að víða í sveitum er aðstaða til fiskeldis. Víða er gnægð góðs, fersks vatns og jafnvel jarðhiti og margar jarðir hafa aðgang að sjó, þannig að þar má hefja eldi sjávarfiska. Nauðsynlegt er að framkvæma skipulega athugun á möguleikum til fiskeldis til sveita. Víða er eldi reyndar hafið.
    Sem stendur er ekki þörf á að auka framleiðslu laxaseiða þannig að inn til sveita þarf að ala ferskvatnsfiska. Silungseldi getur víða orðið arðbært. Bleikjueldi virðist vænlegt en bleikjan þrífst vel við tiltölulega lágt hitastig. Norðmenn beina athyglinni t.d. mjög að bleikjueldi. Ýmsar aðrar tegundir má nefna, svo sem ferskvatnshumar.
    Skipulagt fiskeldi til sveita þarf að tengjast öflugum sölusamtökum. Markaður fyrir silung er t.d. mikill í Evrópu. Norðmenn framleiða 5000 tonn af silungi á þessu ári og Danir hafa lengi flutt út þúsundir tonna af silungi
árlega. Brýnt er að taka fiskeldi til sveita föstum tökum og því fyrr því betra.

Þróunin í nágrannalöndunum.
    Íslendingar þurfa að fylgjast vel með þróuninni í helstu samkeppnislöndum. Sérstaklega er í þessari þingsályktunartillögu lagt til að leitað verði formlegrar samvinnu við Norðmenn. Þeir hafa nú þegar mikla reynslu og af þeim getum við mikið lært. Í Noregi eru nú starfræktar yfir 600 seiðastöðvar og yfir 700 matfisksstöðvar með eldisrými er nemur rúmlega 5 milljónum rúmmetra.
    Helstu markaðssvæði Norðmanna fyrir lax eru Frakkland, Bandaríkin, V-Þýskaland, Danmörk og Svíþjóð. Áætlanir Norðmanna á sviði fiskeldis eru sem hér segir (framleiðsla í tonnum):

Tegund 1990 1995
Lax 100.000 130.000
Silungur 6.000 8.000
Þorskur 8.000 20.000
Sandhverfa 2.000 20.000
Lúða 500 10.000
Steinbítur 1.000 10.000
Ostrur 1.000 10.000
Hörpudiskur 1.000 5.000
119.500 213.000



    Að baki þessu eldi liggja miklar rannsóknir. Norðmenn eru mörgum árum ef ekki áratug á undan okkur. Formleg samvinna væri því ómetanleg. Þá er ekki bara um að ræða eldið sjálft og rannsóknir þar að lútandi, heldur einnig vöruþróun og markaðsþekkingu.

Sjúkdómaeftirlit — sjúkdómavarnir.
    Við sjúkdómaeftirlit og sjúkdómavarnir í íslensku fiskeldi starfa Rannsóknadeild fisksjúkdóma að Keldum, embætti dýralæknis fisksjúkdóma, auk almennra dýralækna og sérstakrar fisksjúkdómanefndar.
    Brýnt er að skýrar línur verði dregnar er afmarki starfssvið einstakra aðila.
    Bæta þarf aðstöðu til eftirlits með fisksjúkdómum og efla þarf rannsóknir á þeim.

Heildarlöggjöf.
    Þar sem fiskeldi er í mjög örum vexti og skipulagsmál greinarinnar að miklu leyti óleyst og í mótun er nauðsynlegt að setja starfsgreininni heildarlöggjöf.