Ferill 24. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1988. – 1058 ár frá stofnun Alþingis.
111. löggjafarþing. – 24 . mál.


Sþ.

24. Tillaga til þingsályktunar



um setningu laga um sjálfseignarstofnanir.

Flm.: Guðrún J. Halldórsdóttir, Danfríður Skarphéðinsdóttir,


Guðrún Agnarsdóttir, Kristín Einarsdóttir, Kristín Halldórsdóttir,


Málmfríður Sigurðardóttir.



    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að setja á stofn starfsnefnd er vinni að samningu rammalöggjafar um sjálfseignarstofnanir.

Greinargerð.


    Það eignar- og rekstrarform, sem sjálfseignarstofnun nefnist, hefur alllengi verið við lýði á Íslandi, en ekki hefur verið sett nein almenn löggjöf þar að lútandi. Þó eru til lög um ýmsar einstakar sjálfseignarstofnanir, svo sem lýðháskólann í Skálholti og Verslunarskólann, en aðrar sjálfseignarstofnanir starfa eftir lögum sem ekki fjalla beint um þær eða eftir hefðum og samningum, svo sem skóli Ísaks Jónssonar og sjálfseignarstofnun St. Jósefsspítala (Landakotsspítali).
    Á síðustu árum hefur sjálfseignarstofnunum fjölgað allmikið og þróun mála virðist stefna í þá átt enn um sinn. Því er aukin þörf á almennri rammalöggjöf um starfsemi slíkra stofnana, rekstur þeirra og ábyrgð rekstraraðila, réttarstöðu stjórnenda o.s.frv.
    Ljóst er að sjálfseignarstofnanir geta verið og eru ólíkar að gerð, markmiðin mismunandi og í ýmsum tilvikum þarf að setja sérákvæði um þær, en brýnt er að almenn mörkun laga og reglna um þessa starfsemi verði gerð.