Ferill 38. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1988. – 1058 ár frá stofnun Alþingis.
111. löggjafarþing. – 38 . mál.


Sþ.

40. Tillaga til þingsályktunar



um endurskoðun á hvalveiðistefnu Íslendinga.

Flm.: Árni Gunnarsson.



    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að hefja þegar í stað endurskoðun á hvalveiðistefnu Íslendinga með það fyrir augum að stöðva vísindahvalveiðar um a.m.k. þriggja ára skeið. Sá tími verði notaður til að ljúka nauðsynlegum vísindarannsóknum, án veiða, og til aukinnar kynningar á málstað Íslendinga. Fulltrúum umhverfisverndarsamtaka verði gefinn kostur á að fylgjast með og taka þátt í þessum rannsóknum.

Greinargerð.


    Með þessum tillöguflutningi er réttur Íslendinga til hvalveiða ekki vefengdur. Það er hins vegar ljóst að hinar svonefndu vísindahvalveiðar hafa þegar stórskaðað hagsmuni íslenskra útflutningsfyrirtækja og þjóðarinnar í heild vegna áróðurs umhverfisverndarmanna gegn hvalveiðum. Á því er veruleg hætta að þessi áróður eigi enn eftir að auka á erfiðleika Íslendinga við sölu fiskafurða og fleiri vörutegunda á erlendum markaði og geti haft neikvæð áhrif á ferðir útlendinga til Íslands. Þó vegur það þyngst að leiða má að því gild rök að hinn góði orðstír íslenskrar þjóðar erlendis hafi beðið hnekki.
    Hvalveiðar hafa ekki lengur neina verulega efnahagslega þýðingu fyrir Íslendinga. Tekjur af sölu hvalafurða voru á síðasta ári um 0,6 af hundraði heildarútflutnings. Tekjutap þjóðarinnar, sem má rekja beint til áróðurs gegn hvalveiðum, er hins vegar umtalsvert og mun að öllu óbreyttu fara vaxandi. Alþingi og ríkisstjórn verða að horfast í augu við þessar staðreyndir og taka ákvarðanir í samræmi við þær.