Ferill 58. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1988. – 1058 ár frá stofnun Alþingis.
111. löggjafarþing. – 58 . mál.


Sþ.

60. Tillaga til þingsályktunar



um samgöngur á Austurlandi.

Flm.: Jónas Hallgrímsson, Jón Kristjánsson, Kristinn Pétursson,


Egill Jónsson, Hjörleifur Guttormsson.




    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að láta fara fram rannsóknir á möguleikum til að koma á vegasambandi milli byggða á Austurlandi og gera áætlun um framkvæmdir, einkum við þá fjallvegi um miðbik Austurlands sem erfiðastir eru yfirferðar á vetrum, m.a. með því að beita nútímatækni í jarðgangagerð. Við rannsóknina skal haft samstarf við Samband sveitarfélaga á Austurlandi, Byggðastofnun, Vegagerð ríkisins og aðra þá sem hafa þekkingu á þessum málum. Við mat framkvæmda verði tekið fullt tillit til ávinnings atvinnulífs og félagslegrar þjónustu af bættum samgöngum.

Greinargerð.


    Tillaga þessi var flutt á síðasta þingi og hlaut ekki afgreiðslu og er nú endurflutt. Hún er fram komin vegna ríkjandi aðstæðna í samgöngumálum Austurlands og þess mikilvægis sem þau hafa í hugum manna þar um slóðir. Er hér einkum átt við þá fjallvegi um miðbik Austurlands sem erfiðastir eru yfirferðar á vetrum, en ætla má að með nútímatækni í jarðgangagerð megi ryðja slíkum samgönguhindrunum úr vegi án þess að kostnaður fari fram úr hófi. Miðhluti Austurlands ásamt Vopnafirði er, sem kunnugt er, mjög afskiptur með samgöngur á landi bæði milli fjarða og frá fjörðum til Fljótsdalshéraðs. Fjallvegir eru í um og yfir 600 metra hæð og því næsta erfitt og jafnvel ófært um lengri eða skemmri tíma að halda uppi eðlilegum samgöngum í miklum snjóavetrum svo sem dæmin sanna.
    Á undanförnum árum hafa þær raddir orðið æ háværari meðal íbúa þessa landshluta, jafnt kjörinna fulltrúa sveitarstjórna, samtaka sveitarfélaga á Austurlandi sem og hins almenna borgara, að þennan vanda eigi og beri að
leysa með þeim hætti sem tillagan gerir ráð fyrir, könnun á möguleikum jarðgangagerðar og í framhaldi af því samræmdri framkvæmdaáætlun.
    Sjónarmið byggðastefnu hafa undanfarin ár skipað nokkurt öndvegi í umfjöllun og stefnumörkun stjórnvalda. Þar á meðal gerir vegáætlun ráð fyrir uppbyggingu og umbótum í samgöngum um landið.
    Í þessum áætlunum hefur samt þótt á það skorta að tekið sé á þeim þáttum sem snerta nauðsynlegar rannsóknir og í framhaldi af þeim heildstæða áætlun um jarðgangagerð þar sem slíkt er talið hagkvæmt, framkvæmanlegt og umfram allt nauðsynlegt til þess að viðhalda byggð og heilbrigðu mannlífi.
    Það ætti að vera undirstöðuatriði í mörkun framtíðarbyggðastefnu að þessa þáttar verði gætt og um hann mótuð langtímastefna svo að fólkið, sem byggir þessa staði, megi vita hvers sé að vænta í þessum efnum.
    Skilyrðum til uppbyggingar blómlegs atvinnulífs, vaxandi þjónustu, ræktunar menningar og mennta verður ekki fullnægt í nútímaþjóðfélagi án þess að íbúum viðkomandi landsvæðis sé gert kleift að komast næsta óhindrað á milli byggðarlaga. Samgönguþáttinn ber því að rækta og taka sérstakt tillit til líkt og þessi tillaga gerir ráð fyrir. Slíkt væri byggðastefna í reynd.
    Lagt er til að auk samgönguráðuneytis og Vegagerðar ríkisins, sem eðlilega munu fjalla um og skila tillögum um þetta mál, komi hér einnig til fulltrúar heimamanna — Sambands sveitarfélaga á Austurlandi — og Byggðastofnunar og myndi þessir aðilar samstarfshóp sem hafi forgöngu um nauðsynlegar rannsóknir á svæðinu og um gerð framkvæmdaáætlunar. Byggðastofnun er að vísu ekki tæknileg sérfræðistofnun á sviði vegamála. En vegna þess að byggðamál og byggðaþróun spanna yfir alla þætti efnahags- og félagsmála mætti ætla að þessi stofnun hefði meiri yfirsýn en aðrar ríkisstofnanir yfir vandamál og möguleika Austurlands og fjölþætta þekkingu á aðstæðum þar. Ýmsir starfsmenn stofnunarinnar hafa einnig mikla reynslu í margs konar áætlanagerð, ekki síst á sviði samgöngumála. Um þátttöku heimamanna þarf ekki að fjölyrða, enda áhugi þeirra og eftirrekstur mikill, einkum nú í seinni tíð þegar ljóst virðist að tæknilegar eða jarðfræðilegar hindranir standa ekki lengur í vegi fyrir þessu lífshagsmunamáli Austfirðinga.