Ferill 93. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1988. – 1058 ár frá stofnun Alþingis.
111. löggjafarþing. – 93 . mál.


Sþ.

96. Tillaga til þingsályktunar



um að efla atvinnu fyrir konur í dreifbýli.

Flm.: Unnur Stefánsdóttir, Valgerður Sverrisdóttir, Jón Kristjánsson,


Ólafur Þ. Þórðarson, Stefán Guðmundsson, Alexander Stefánsson.



    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að gera sérstakt átak til að efla atvinnumöguleika kvenna í dreifbýli.

Greinargerð.


    Á undanförnum árum hafa orðið miklar breytingar í landbúnaði hér á landi. Þar er ekki aðeins um að ræða gjörbreytingu á atvinnuháttum heldur einnig á félagslegri stöðu sveitafólks. Stórfelldust er þó e.t.v. sú breyting, sem orðið hefur á stöðu sveitakonunnar, sem áður stýrði stóru búi, oft með fjölda manns í vinnu, en situr nú í mörgum tilvikum uppi með takmörkuð verkefni á eigin búi.
    Auk almennrar þjóðfélagsþróunar og breytinga á atvinnuháttum eru ástæður þessa m.a. eftirfarandi.
    Í fyrsta lagi varð vélvæðingin í landbúnaði þess valdandi að karlar tóku að sinna mörgum þeim störfum sem áður voru hefðbundin kvennastörf, svo sem mjöltum og ýmsu sem við kemur heyskap. Enda þótt vélvæðingin geri konum jafnframt kleift að sinna hinum erfiðustu störfum ekki síður en körlum hefur orðið mikil breyting á starfsvettvangi konunnar.
    Þá hefur fólksfækkun í sveitum haft miklar breytingar í för með sér ekki hvað síst fyrir konurnar. Þar eins og í bæjum hefur fjölskyldan minnkað og börn og unglingar eru að heiman mikinn hluta dagsins og í sumum tilvikum mikinn hluta vikunnar vegna skólagöngu. Vinnukonan, vinnumaðurinn og kaupakonan eru horfin og mjög hefur færst í vöxt að aldraðir dveljist á vistheimilum eða sjúkrastofnunum.
    Í öðru lagi hefur orðið gífurlegur samdráttur í búvöruframleiðslu á undanförnum 8–10 árum (15% í mjólkurframleiðslu og 28% í kindakjötsframleiðslu) og hefur það dregið mjög úr tekjumöguleikum þeirra sem vinna við þessa framleiðslu.
    Samkvæmt verðlagsgrundvelli landbúnaðarins er umhirða 225 ærgilda sauðfjárbús talin vera eitt ársverk. Í mjólkurframleiðslu er hliðstæð tala 246 ærgildi. Árið 1987 höfðu um 64% þeirra sem höfðu fullvirðisrétt í sauðfjárrækt (hrein sauðfjárbú) minni fullvirðisrétt en sem nam einu ársverki. Um 18% hreinna kúabúa voru undir þeirri stærð. Ef öll bú í landinu, bæði kúa- og sauðfjárbú, eru talin hafa 41% þeirra minni fullvirðisrétt en sem nemur einu ársverki. Þessar staðreyndir sýna greinilega að á um 40% allra búa í landinu er ekki vinna fyrir nema einn aðila. Aðrir verða annaðhvort að leita vinnu utan bús, sé slíka vinnu að fá, eða sætta sig við skerta atvinnumöguleika. Engar horfur eru á að svigrúm til framleiðslu mjólkur og kindakjöts aukist við núverandi aðstæður nema hluti framleiðenda hverfi að öðrum störfum. Ljóst er af þessu að mikið skortir á að næg atvinna sé fyrir allt það fólk sem nú stundar hefðbundna búvöruframleiðslu.
    Það sem gerir þessa stöðu mun alvarlegri en ella og undirstrikar aðstöðumun sveitafólks og þeirra sem í þéttbýli búa er sú staðreynd að afkoma flestra heimila í landinu byggist á vinnu tveggja einstaklinga.
    Með samþykkt búvörulaganna svonefndu, laga nr. 46/1985, var ákveðið að um helmingi þess fjár, sem áður rann til útflutningsbóta á kjöt og mjólk, skyldi varið til „eflingar nýrra búgreina, markaðsöflunar og til fjárhagslegrar endurskipulagningar búreksturs á lögbýlum“.
    Reyndin hefur orðið sú að meiri hluta af árlegu ráðstöfunarfé sjóðsins hefur fram að þessu verið varið til útflutningsbóta eða til þess að kaupa upp eða leigja framleiðslurétt. Á síðustu þremur árum (1986–1988) hefur verið varið um 380–400 millj. kr. af fé sjóðsins til uppbyggingar nýrrar atvinnustarfsemi í sveitum og skyldra verkefna. Útlit er fyrir að sjóðurinn eigi um 1000 millj. kr. óráðstafað til slíkra verkefna fram til ársins 1992. Ýmislegt hefur áunnist í eflingu atvinnulífs í sveitum svo sem tilkoma loðdýraræktar, ferðaþjónustu og kanínuræktar og enda þótt uppbygging atvinnu fyrir konur hafi ekki verið sérstaklega á verkefnaskrá Framleiðnisjóðs munu það ekki hvað síst vera konur sem að þessum störfum vinna. En þótt nokkuð hafi hér áunnist er hvergi nærri fyllt það mikla skarð sem höggvið hefur verið í atvinnulíf sveitanna með samdrætti í framleiðslu mjólkur og kindakjöts. Þar að auki virðist prjónaiðnaðurinn, sem víða var kominn vel á veg í sveitum og skapaði mörgum konum atvinnu, vera að lognast út af.
    Atvinnumál kvenna í dreifbýli hafa fengið ótrúlega litla umfjöllun og bendir það til þess að mörgum sé alls ekki ljóst það erfiða ástand sem þar ríkir.
    Vegna hefðbundinnar verkaskiptingar kynjanna er það í flestum tilfellum konan sem verður að sætta sig við skerta atvinnumöguleika á búinu eða leita sér vinnu utan heimilis. Við uppbyggingu nýrrar atvinnustarfsemi í sveitum þarf því öðru fremur að leggja áherslu á störf sem henta konum.
    Árið 1979 var samþykkt þingsályktun á Alþingi um eflingu úrvinnslu og þjónustuiðnaðar í sveitum. Framkvæmdastofnun ríkisins var falið að gera úttekt á stöðu mála og leggja fram tillögur til úrbóta á árinu 1980. Ekkert hefur enn orðið úr framkvæmdum. Þó hafa ýmsir aðilar áttað sig á stöðu mála varðandi atvinnu fyrir konur í dreifbýli.
    Að tilhlutan Kvenfélagasambands Íslands hefur starfað hópur sem fjallar um möguleika á uppbyggingu heimilisiðnaðar í sveitum. Í hópnum vinna konur frá Kvenfélagasambandinu, Heimilisiðnaðarfélaginu, Þjóðminjasafninu, Ferðamálaráði, Byggðastofnun, ferðaþjónustu bænda og Heimilisiðnaðarskólanum.
    Á sl. sumri skipaði landbúnaðarráðherra nefnd sem ætlað er að gera tillögur um atvinnuuppbyggingu fyrir konur í sveitum og til athugunar er að setja upp við Bændaskólann á Hvanneyri sérstaka heimilisiðnaðarbraut og braut um nýsköpun og endurnýjun starfsgreina í sveitum.
    Á nokkrum stöðum á landinu hafa konur bundist samtökum um að stofna til atvinnurekstrar. Má þar m.a. nefna að konur á Seyðisfirði hafa stofnað hlutafélag og fengið aðstöðu til heimilisiðnaðar. Svipað átak mun í undirbúningi á Egilsstöðum og á Vopnafirði hafa konur fengið afnot af Torfastaðaskóla fyrir heimilisiðnað og skyldan atvinnurekstur.
    Iðntæknistofnun Íslands hefur um skeið starfrækt námskeið fyrir konur í atvinnurekstri. Þessi námskeið hafa fram til þessa einvörðungu verið haldin í Reykjavík, en nú í haust var loks farið með þau út á land og var byrjað á Suðurlandi. Á námskeiðunum er fjallað um stjórnandann, stofnun fyrirtækja, markaðssetningu, fjármál, skipulagningu og framtíðarsýn fyrirtækja. Markmið þessara námskeiða er m.a. að efla sjálfstraust kvenna og aðstoða þær við að komast í tengsl við konur með svipuð framtíðaráform.
    Í fréttatilkynningu frá Iðntæknistofnun segir að það sé reynsla stofnunarinnar og annarra námskeiðshaldara á Norðurlöndum að konur komi miklu frekar á námskeið sem eru sérstaklega ætluð þeim. Helstu ástæðurnar fyrir þessari afstöðu kvenna eru þær að mati Iðntæknistofnunar að konur eiga erfitt með að tjá sig í blönduðum hópi, einkum þó ef karlmenn eru í meiri hluta. Umræður eru nokkuð á annan veg á kvennanámskeiðum, m.a. er lögð meiri áhersla á fjölskyldutengsl og börn. Konur eru vandvirkari og ræða á opinskárri hátt um viðskiptahugmyndir en meiri leynd ríkir í umræðum karla.
    Það vandamál, sem hér er lýst, er engan veginn séríslenskt heldur er við svipað vandamál að fást í flestum löndum Evrópu. Samfara aukinni vélvæðingu landbúnaðarins og samdrætti í framleiðslu skortir atvinnu fyrir konur sem þær geta stundað með bústörfum. Víða er það einnig vandamál hve margar ungar konur yfirgefa sveitirnar. Vegna hinna hefðbundnu viðhorfa í flestum fjölskyldum, að sonurinn skuli taka við búinu, eru stúlkurnar ekki jafn bundnar heimaslóðum og leita sér því fremur menntunar og atvinnu í þéttbýli. Skortur á kvenfólki er orðið áberandi vandamál í dreifbýli í mörgum löndum, t.d. í Svíþjóð, en um 20% sænskra bænda eru ókvæntir. Afleiðingin er margs konar félagsleg vandamál, uppgjöf og vonleysi.
    Í samvinnu við sænsku bændasamtökin hafa stjórnvöld þar í landi hrundið af stað sérstöku átaki til þess að auka atvinnu fyrir konur í sveitum. Ætlunin er að verja 5 milljónum sænskra króna til þessa verkefnis. Svipað átak er í gangi í Noregi.
    Ekki hefur verið gerð úttekt á stöðu þessara mála hér á landi, en samkvæmt upplýsingum frá Byggðastofnun eru konur á landsbyggðinni 1770 færri en karlar. Þessi tala gæti gefið vísbendingu um hvert stefnir í þessum efnum.
    Það mál, sem hér er flutt, er því mjög brýnt.
    Hér er ekki verið að tala um að konur eigi eða ætli að hlaupa frá skyldum sínum. Hér er einfaldlega um að ræða þann grundvallarrétt hvers einstaklings að fá vinnu við sitt hæfi, hafa tækifæri til að þroska hæfileika sína og afla sér tekna.
    Enginn efi er á því að konur vilja áfram sinna hlutverki sínu í íslenskum landbúnaði, en þegar þeim störfum sleppir eiga þær að hafa hliðstæð tækifæri og kynsystur þeirra í þéttbýli til þess að leita sér viðbótarstarfa. Ef sveitir landsins eiga áfram að vera lifandi samfélög verður því að skapa þar fjölbreytta atvinnu fyrir konur á öllum aldri.
    Í málefnasamningi núverandi ríkisstjórnar segir að „sérstakt átak verði gert til að auka fjölbreytni í atvinnu kvenna á landsbyggðinni“.
    Tilgangurinn með flutningi þessarar þingsályktunartillögu er að hvetja til umræðu um þetta mikilsverða mál. Gera þarf áætlun um samræmt átak á þessu sviði þar sem sameinaðir verði kraftar þeirra stofnana, félaga og einstaklinga sem þessum málum eiga og vilja sinna.