Ferill 96. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1988. – 1058 ár frá stofnun Alþingis.
111. löggjafarþing. – 96 . mál.


Nd.

99. Frumvarp til laga



um breytingu á sveitarstjórnarlögum, nr. 8 18. apríl 1986.

Flm.: Kristín Halldórsdóttir, Árni Gunnarsson.



1. gr.

    54. gr. laganna orðast svo:
    Sveitarstjórn getur efnt til almennrar atkvæðagreiðslu um einstök mál og boðað til almennra borgarafunda um málefni sveitarfélagsins. Til almenns borgarafundar eða sveitarfundar skal boðað með opinberri auglýsingu og skal í henni koma fram hverjir hafi atkvæðisrétt á fundinum ef í ráði er að láta atkvæðagreiðslu fara þar fram.
    Í sveitarfélagi með færri en 1000 íbúa er skylt að halda almennan sveitarfund ef fjórðungur atkvæðisbærra manna í sveitarfélaginu óskar þess. Ályktanir slíkra funda eru ekki bindandi fyrir sveitarstjórn.
    Sveitarstjórn er skylt að láta fara fram atkvæðagreiðslu um einstök mál ef tíundi hluti kjósenda óskar þess eða þriðjungur sveitarstjórnar. Í sveitarfélögum með færri en 1000 íbúa skal þó miða við fjórðung kosningabærra manna. Slík atkvæðagreiðsla telst bindandi fyrir stjórn sveitarfélagsins ef tveir þriðju hlutar kjósenda taka þátt í henni og skal þá meiri hluti ráða. Atkvæðagreiðslan skal fara fram samhliða næstu almennum kosningum í sveitarfélaginu. Sveitarstjórn er skylt að fresta framkvæmdum varðandi þau mál er íbúar óska atkvæðagreiðslu um þar til úrslit atkvæðagreiðslu liggja fyrir. Sveitarstjórn getur flýtt atkvæðagreiðslunni, en þó skal hún ekki fara fram fyrr en sex vikur eru liðnar frá því að ósk um hana kemur fram. Um framkvæmd slíkrar atkvæðagreiðslu skal fara skv. III. kafla laga þessara eftir því sem við á.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Frumvarp þetta var flutt á tveimur síðustu þingum en var ekki afgreitt og er nú endurflutt óbreytt. Frumvarpinu fylgdi svohljóðandi greinargerð:
    Það stjórnarform, er við Íslendingar búum nú við, er lýðræði. Hugmyndin að baki því er að æðsta valdið sé hjá þjóðinni og að allur almenningur eigi að velja um þá kosti sem uppi eru um skipan og þróun þjóðfélagsins.
    Fyrrum þekktist það form lýðræðis að borgarar réðu ráðum sínum á opnum fundum, svo sem var í borgríkjunum grísku og hér á landi á þjóðveldisöld, og raunar eimir eftir af þessu fyrirkomulagi í sumum kantónum í Sviss þar sem málum er ráðið til lykta á almennum samkomum. Þetta lýðræðisform reyndist, er stundir liðu fram, þungt í vöfum og óhentugt.
    Í sveitarfélögum gildir nú reglan um fulltrúalýðræði. Allir íbúar í sveitarfélagi, sem kosningarrétt hafa, þ.e. eru orðnir 18 ára, eiga rétt á að kjósa menn í sveitarstjórn til fjögurra ára til að fara með stjórn sveitarfélagsins. Hér er um eins konar valdaframsal að ræða frá íbúum sveitarfélags, kjósendum, til sveitarstjórnar. Í stað þess að allir kjósendur taki ákvarðanir og ráði öllum málum fela þeir nokkrum mönnum fullt vald á tilteknu tímabili.
    Sveitarstjórnarmenn eru þó ekki bundnir af fyrirmælum umbjóðenda sinna í afstöðu sinni til einstakra mála, heldur einungis af lögum og sannfæringu sinni, sbr. 2. mgr. 40. gr. sveitarstjórnarlaganna.
    Lengi hefur það þekkst hér á landi í fámennari sveitarfélögum að haldnir væru svonefndir borgarafundir eða sveitarfundir til að kynna íbúum málefni sveitarfélagsins almennt, svo sem í tengslum við afgreiðslu árlegrar fjárhagsáætlunar, eða til að leita álits þeirra í einstökum málum. Hafa íbúar smærri sveitarfélaga haft lagalegan rétt til að óska eftir slíkum fundum, bæði samkvæmt eldri og núgildandi lögum. Ekkert ákvæði er hins vegar í lögum er tryggir rétt íbúa hinna stærri sveitarfélaga til að hafa áhrif á ákvarðanir sveitarstjórnar í einstökum málum nema að því er varðar áfengisútsölur og sameiningu sveitarfélaga.
    Í núgildandi sveitarstjórnarlögum, nr. 8/1986, er í 54. gr. það nýmæli að sveitarstjórn skuli heimilt að efna til almennrar atkvæðagreiðslu í sveitarfélaginu um einstök mál. Þótt ekki hafi verið um þetta ákvæði í lögum fyrr en nú hefur jafnan verið talið að sveitarstjórn væri heimilt að efna til almennrar atkvæðagreiðslu eða skoðanakönnunar meðal íbúa (kjósenda) sveitarfélags til að kanna hug og afstöðu þeirra til einstakra mála. Slíkar
skoðanakannanir hafa farið fram, m.a. um hundahald, fasteignakaup og nafnbreytingar á sveitarfélagi. Í 54. gr. er því engin nýjung á ferðinni heldur er þar kveðið nánar á um heimild sveitarstjórnar sem hún hefur haft í raun.
    Með þessu frumvarpi er leitast við að efla áhrif fólks á umhverfi sitt og daglegt líf. Í sveitarstjórnarkosningum er kosið um fjölmörg mál og því óhægt um vik fyrir almennan kjósanda að hafa áhrif á einstök málefni. Í stórum sveitarfélögum er oft löng leið frá kjósanda til fulltrúa hans og því vafasamt að fulltrúinn taki alltaf afstöðu í samræmi við óskir og vilja umbjóðenda sinna. Hér er einnig verið að jafna rétt íbúa stærri og smærri sveitarfélaga til að láta skoðanir sínar í ljósi á málefnum sveitarfélagsins.
    Í þessu frumvarpi er það nýmæli frá eldri löggjöf að íbúar sveitarfélaga með yfir 500 íbúa geti farið fram á atkvæðagreiðslu í einstaka málum sem ekki er skylda að bera undir kjósendur samkvæmt lögum. Er miðað við að tíundi hluti kjósenda geti farið fram á slíka atkvæðagreiðslu í stærri sveitarfélögum en fjórðungur þar sem íbúar eru færri en eitt þúsund. Telst þá niðurstaða atkvæðagreiðslu bindandi fyrir sveitarstjórn ef tveir þriðju hlutar kosningabærra manna taka þátt í henni.
    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að atkvæðagreiðslan fari fram við næstu almennar kosningar og er það ákvæði sett til að kostnaður, sem óhjákvæmilega hlýtur að fylgja slíkri atkvæðagreiðslu, sé í lágmarki. Sveitarstjórn er skylt að bíða með framkvæmdir í þeim málum er kjósendur óska atkvæðagreiðslu um og er henni því heimilt að flýta atkvæðagreiðslunni ef hún telur ástæðu til. Þó skulu líða a.m.k. sex vikur frá ákvörðuninni þar til atkvæðagreiðslan fer fram. Er þetta ákvæði sett til þess að eðlileg kynning geti farið fram á því málefni sem kjósa á um.
    Um framkvæmd atkvæðagreiðslu af þessu tagi skal fara eftir gildandi lagaákvæðum um kosningar til sveitarstjórna eða með þeim hætti sem áður hefur tíðkast í almennri atkvæðagreiðslu.
    Í stjórnlagafrumvarpi því, er Gunnar Thoroddsen flutti vorið 1983, og í skýrslu stjórnarskrárnefndar frá sama tíma er kveðið á um rétt íbúa sveitarfélags til að óska eftir atkvæðagreiðslu um málefni sveitarfélagsins og er það nýmæli skýrt með því að þar sé verið að tryggja lýðræðisleg réttindi íbúanna og auka þau. Þar segir enn fremur að svipaðar heimildir hafi gefið góða raun, m.a. í Bandaríkjunum og Sviss. Þær hugmyndir, sem hér koma fram, eru því ekki nýjar af nálinni. Forfeður okkar lögðu grunninn að lýðræðishefð
þjóðarinnar með stofnun þjóðþings á 10. öld. Því er eðlilegt að íbúum hér séu tryggð sem mest lýðræðisleg réttindi. Að því stefnir þetta frumvarp.