Ferill 99. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1988. – 1058 ár frá stofnun Alþingis.
111. löggjafarþing. – 99 . mál.


Sþ.

102. Tillaga til þingsályktunar



um stofnun búminjasafns á Hvanneyri.

Flm.: Ingi Björn Albertsson, Skúli Alexandersson, Danfríður Skarphéðinsdóttir.



    Alþingi ályktar að fela landbúnaðarráðherra að hefja nú þegar, í samráði við menntamálaráðherra, undirbúning að stofnun búminjasafns í tengslum við bændaskólann á Hvanneyri.

Greinargerð.


    Á síðustu árum hefur öðru hvoru skotið upp þeirri hugmynd að koma á fót búminjasafni á Hvanneyri, en einhverra hluta vegna hefur aldrei komist verulegur skriður á það mál þótt engum dyljist hve þarft og nauðsynlegt það er.
    Það er skoðun flutningsmanna að það sé löngu orðið tímabært að taka ákvörðun um þetta mál og ákveða að stofna slíkt safn á Hvanneyri því að hvergi væri það betur niður komið en einmitt þar.
    Á Hvanneyri er, eins og allir vita, rekinn bændaskóli og svo hefur verið í 99 ár. Því væri það vel við hæfi að Alþingi samþykkti nú á þessu þingi ályktun um búminjasafn í tilefni af þeim tímamótum sem verða á Hvanneyri á næsta ári.
    Á Hvanneyri er m.a. kennd saga búskapar á Íslandi og því væri eðlilegt að búminjasafnið risi þar, enda er þegar kominn vísir að slíku safni við skólann. Í því sambandi ber að geta þess að forustumenn skólans eiga heiður skilið fyrir það starf sem þeir hafa innt af hendi við að koma því safni upp við þröngan kost og erfið skilyrði. Með þessu framtaki sínu hafa þeir vafalaust bjargað allnokkrum munum og tækjum frá glötun.
    Fyrstu þúsund ár Íslandsbyggðar héldust búskaparhættir landsmanna lítt breyttir. Allir landsmenn stunduðu bústörf, hver kynslóð lærði af annarri og breytingar voru litlar í tímans rás. Menning þjóðarinnar er samofin atvinnu hennar og segja má að íslensk menning sé sprottin upp úr menningu bænda. Nægir að benda á hve þekking á hefðbundnum búskaparháttum hlýtur að glæða skilning á mörgum helstu bókmenntaverkum þjóðarinnar.
    Á síðustu hundrað árum hafa tengsl við fortíðina rofnað mjög. Sá lærdómur, t.d. í vinnubrögðum, sem kynslóðir höfðu tileinkað sér mann fram af manni, er nú samtíðarfólki framandi. Hluti, sem allir höfðu á milli handanna á degi hverjum öld fram af öld, þekkir nútímafólk ekki. Á þessari öld hafa breytingar orðið það miklar og hraðar að áhöld og tæki, sem notuð voru á fyrri hluta þessarar aldar, sjást ekki lengur, nema e.t.v. sem ryðhrúgur víða um land.
    Á sama tíma og tæknin hefur aukist hafa gífurlegir búferlaflutningar átt sér stað og með þéttbýlismyndun hafa tengsl við landið og sveitastörf rofnað enn frekar. Tengsl við land sitt eru þjóðinni nauðsynleg og hefðbundin sveitastörf eru mjög til þess fallin að styrkja slík tengsl auk þess sem mörgum, ekki síst börnum, þykja þau mjög skemmtileg. Stöðugt fækkar þeim sem hafa bein fjölskyldutengsl við sveitir landsins og gefst fólki því lítill kostur á að kynnast og sýna börnum sínum inn í heim hinnar hefðbundnu bændamenningar.
    Víða um land liggja tæki með verulegt sögulegt gildi undir skemmdum og því miður hefur margur góður gripur orðið ryði og brotajárnskaupmönnum að bráð. Það er sorglegt að við skulum á þann hátt hafa glatað jafnvel heilum köflum úr menningar- og atvinnusögu landsins. Því er það skylda okkar að bregðast skjótt við og gera okkar besta til þess að stöðva þá raunalegu þróun sem orðið hefur, snúa vörn í sókn og gera myndarlegt átak til verndar þjóðminjum okkar.
    Flutningsmenn tillögunnar hafa rætt við þjóðminjavörð um efni hennar. Hann hefur lýst áhuga og stuðningi við málið og telur að sérstaklega vel fari á því að búminjasafn rísi á Hvanneyri þar sem það gæti jafnframt komið að notum við kennslu.
    Nú stendur yfir endurskoðun þjóðminjalaga. Eðlilegt væri að tillaga þessi yrði rædd í tengslum við hana.