Ferill 103. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1988. – 1058 ár frá stofnun Alþingis.
111. löggjafarþing. – 103 . mál.


Ed.

106. Frumvarp til lánsfjárlaga



fyrir árið 1989.

(Lagt fyrir Alþingi á 111. löggjafarþingi 1988.)



I. KAFLI

1. gr.

    Fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs er heimilt að taka allt að 4.700.000 þús. kr. lán innan lands á árinu 1989.

2. gr.

    Lánsfé skv. 1. gr. skal ráðstafað í samræmi við ákvæði fjárlaga fyrir árið 1989 og þessara laga.

3. gr.

    Landsvirkjun er heimilt að taka lán á árinu 1989 að fjárhæð allt að 1.000.000 þús. kr. eða jafnvirði þeirrar fjárhæðar í erlendri mynt til fjármögnunar á raforkuframkvæmdum fyrirtækisins. Gætt skal ákvæða 14. gr. laga nr. 42/1983 við þessar lántökur og teljast lán, sem Landsvirkjun er heimilt að taka samkvæmt þeirri grein án samþykkis eignaraðila, hluti af ofangreindri fjárhæð.

4. gr.

    Þróunarfélagi Íslands hf. er heimilt að taka lán á árinu 1989 að fjárhæð allt að 100.000 þús. kr. eða jafnvirði þeirrar fjárhæðar í erlendri mynt til að efla nýjungar í atvinnulífi.

5. gr.

    Heimilt er að taka lán vegna skuldbreytinga sveitarfélaga og fyrirtækja þeirra sem hér segir:
1.    Hitaveita Akureyrar, lán á árinu 1989 að fjárhæð allt að 144.000 þús. kr. eða jafnvirði þeirrar fjárhæðar í erlendri mynt.
2.    Hitaveita Egilsstaða og Fella, lán á árinu 1989 að fjárhæð allt að 15.000 þús. kr. eða jafnvirði þeirrar fjárhæðar í erlendri mynt.
3.    Hitaveita Eyrar, lán á árinu 1989 að fjárhæð allt að 14.000 þús. kr. eða jafnvirði þeirrar fjárhæðar í erlendri mynt.
4.    Hitaveita Siglufjarðar, lán á árinu 1989 að fjárhæð allt að 34.000 þús. kr. eða jafnvirði þeirrar fjárhæðar í erlendri mynt.
5.    Fjarhitun Vestmannaeyja, lán á árinu 1989 að fjárhæð allt að 24.000 þús. kr. eða jafnvirði þeirrar fjárhæðar í erlendri mynt.
6.    Aðrar skuldbreytingar, lán á árinu 1989 að fjárhæð allt að 24.000 þús. kr. eða jafnvirði þeirrar fjárhæðar í erlendri mynt.

6. gr.

    Byggðastofnun er heimilt að taka lán á árinu 1989 að fjárhæð allt að 550.000 þús. kr. eða jafnvirði þeirrar fjárhæðar í erlendri mynt.

7. gr.

    Framkvæmdasjóði Íslands er heimilt að taka lán á árinu 1989 að fjárhæð allt að 500.000 þús. kr. eða jafnvirði þeirrar fjárhæðar í erlendri mynt.

8. gr.

    Flóabátnum Baldri hf., Stykkishólmi, er heimilt að taka lán á árinu 1989 að fjárhæð 85.000 þús. kr. eða jafnvirði þeirrar fjárhæðar í erlendri mynt til smíði ferju.

9. gr.

    Herjólfi hf., Vestmannaeyjum, er heimilt að taka lán á árinu 1989 að fjárhæð 100.000 þús. kr. eða jafnvirði þeirrar fjárhæðar í erlendri mynt vegna nýrrar ferju.

10. gr.

    Fjármálaráðherra er heimilit fyrir hönd ríkissjóðs að ábyrgjast með sjálfskuldarábyrgð eða taka lán að hluta eða öllu leyti í stað ríkisábyrgðar og endurlána þeim aðilum, sem nefndir eru í 3.–9. gr., með þeim kjörum sem og skilmálum sem fjármálaráðherra ákveður.

II. KAFLI

11. gr.

    Þrátt fyrir ákvæði 1. og 5. tölul. 4. gr. laga nr. 45/1971, sbr. 1. gr. laga nr. 41/1982, um Stofnlánadeild landbúnaðarins, skal framlag ríkissjóðs til Stofnlánadeildar landbúnaðarins eigi nema hærri fjárhæð en 38.830 þús. kr. á árinu 1989 og er framlagið vegna Lífeyrissjóðs bænda.

12. gr.

    Þrátt fyrir ákvæði c-liðar 5. gr. laga nr. 51/1972, um Bjargráðasjóð, sbr. lög nr. 57/1980, skal framlag ríkissjóðs til Bjargráðasjóðs falla niður á árinu 1989.

13. gr.

    Þrátt fyrir ákvæði 1. tölul. 31. gr. laga nr. 69/1984, hafnalaga, skal framlag ríkissjóðs til Hafnabótasjóðs eigi fara fram úr 25.000 þús. kr. á árinu 1989.

14. gr.

    Þrátt fyrir ákvæði d-liðar 3. gr. laga nr. 44/1976, um Fiskveiðasjóð Íslands, skal framlag ríkissjóðs til Fiskveiðasjóðs falla niður á árinu 1989.

15. gr.

    Þrátt fyrir ákvæði 3. tölul. 9. gr. laga nr. 76/1987, sbr. og 31. gr. sömu laga, um Iðnlánasjóð, skal framlag ríkissjóðs til Iðnlánasjóðs falla niður á árinu 1989.

16. gr.

    Þrátt fyrir ákvæði 1. og 2. mgr. 8. gr. og 26. gr. laga nr. 79/1985, um skipulag ferðamála, skal framlag ríkissjóðs til Ferðamálasjóðs og til sérstakra verkefna Ferðamálaráðs samkvæmt fyrrnefndum lögum eigi nema hærri fjárhæð en 28.000 þús. kr. á árinu 1989.

17. gr.

    Þrátt fyrir ákvæði 1. tölul. 5. gr. laga nr. 94/1984, um kvikmyndamál, skal framlag ríkissjóðs til Kvikmyndasjóðs eigi nema hærri fjárhæð en 71.000 þús. kr. á árinu 1989.

18. gr.

    Þrátt fyrir ákvæði 3. gr. laga nr. 50/1957, um menningarsjóð og menntamálaráð, skal framlag ríkissjóðs til sjóðsins eigi fara fram úr 11.000 þús. kr. á árinu 1989.

19. gr.

    Þrátt fyrir ákvæði 2. og 3. gr. laga nr. 32/1979 um framlög ríkissjóðs til greiðslu kostnaðar af forfalla- og afleysingaþjónustu í sveitum falla þær greiðslur niður á árinu 1989 og skulu þess í stað greiðast af tekjum Stofnlánadeildar landbúnaðarins skv. 2. tölul. 4. gr. laga nr. 45/1971.

20. gr.

    Þrátt fyrir ákvæði laga nr. 64/1981, sbr. lög nr. 10/1985 og lög nr. 55/1986, um atvinnuleysistryggingar skal heildarframlag ríkissjóðs til Atvinnuleysistryggingasjóðs skv. 4. gr. fjárlaga eigi fara fram úr 277.000 þús. kr. á árinu 1989.

21. gr.

    Þrátt fyrir ákvæði 22. og 23. gr. laga nr. 68/1985, útvarpslaga, skulu tekjur á árinu 1989 vegna aðflutningsgjalda af hljóðvarps- og sjónvarpstækjum ásamt fylgihlutum renna í ríkissjóð.

22. gr.

    Þrátt fyrir ákvæði 22. og 23. gr. laga nr. 68/1985, útvarpslaga, skal einungis 120.000 þús. kr. af brúttótekjum Ríkisútvarpsins á árinu 1989 renna til Framkvæmdasjóðs Ríkisútvarpsins.

23. gr.

    Þrátt fyrir ákvæði 10. gr. laga nr. 56/1987, jarðræktarlaga, skal framlag ríkissjóðs til jarðabóta eigi fara fram úr 100.000 þús. kr. á árinu 1989.

24. gr.

    Þrátt fyrir ákvæði laga nr. 31/1973, um framlög til búfjárræktar, skal framlag ríkissjóðs vegna búfjárræktarstyrkja falla niður á árinu 1989.

25. gr.

    Þrátt fyrir ákvæði 13. gr. laga nr. 52/1957, um eyðingu refa og minka, skal framlag ríkissjóðs vegna bóta fyrir eyðingu refa og minka eigi vera hærra en 8.000 þús. kr. á árinu 1989.

26. gr.

    Þrátt fyrir ákvæði laga nr. 19/1986, um fjáröflun til vegagerðar, skulu 600.000 þús. kr. af hækkun bensíngjalds og þungaskatts renna í ríkissjóð.

27. gr.

    Þrátt fyrir ákvæði 5. tölul. 9. gr. laga nr. 30/1966, um meðferð, skoðun og mat á sláturafurðum, laga nr. 21/1976, um flokkun og mat ullar, og laga nr. 22/1976, um flokkun og mat á gærum, er landbúnaðarráðherra heimilt að innheimta gjald af sláturleyfum til greiðslu kostnaðar sem af yfirmati samkvæmt lögunum leiðir.

28. gr.

    Þrátt fyrir ákvæði 6. gr. laga nr. 58/1970, um skemmtanaskatt, skal framlag ríkissjóðs til Félagsheimilasjóðs eigi vera hærra en 15.000 þús. kr. á árinu 1989.

29. gr.

    Þrátt fyrir ákvæði 9. gr. laga nr. 73/1980, um tekjustofna sveitarfélaga, og ákvæði 2. mgr. 1. gr. laga nr. 10/1960, um söluskatt, með síðari breytingum, skulu greiðslur úr ríkissjóði til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga á árinu 1989 eigi nema hærri fjárhæð en 1.275.000 þús. kr.

III. KAFLI

30. gr.

    Fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs er heimilt að taka lán erlendis í því skyni að endurgreiða fyrir gjalddaga eftirstöðvar erlendra lána þegar hagstæðari kjör bjóðast.
    Nýti fjármálaráðherra lántökuheimildir laga þessara að hluta til töku skammtímalána og/eða veltilána er honum heimilt að nýta sömu heimildir til töku á nýju láni til endurgreiðslu veltiláns og/eða skammtímaláns að hluta eða öllu leyti án þess að lánssamningur um þau falli úr gildi, enda sé ekki dregið á slíka lánssamninga að nýju nema lagaheimild liggi fyrir.
    Jafnframt er fjármálaráðherra heimilt að selja skuldabréf að því marki sem þarf til að standa undir endurgreiðslu spariskírteina með óhagstæðum kjörum og endurgreidd eru vegna uppsagnar fyrir eindaga.
    Enn fremur er fjármálaráðherra heimilt að selja ríkisvíxla til endurgreiðslu áður útgefinna ríkisvíxla og til að bæta stöðu ríkissjóðs á aðalviðskiptareikningi í Seðlabankanum.

31. gr.

    Fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs er heimilt að stofna til skulda- og/eða vaxtaskipta þar sem mótaðili ríkissjóðs í slíkum viðskiptum tekur á sig gjaldeyriskvaðir og/eða vaxtaskilmála í lánum sem ríkissjóður tekur eða hefur tekið með heimild í þessum eða öðrum lögum. Ríkissjóður tekur á sig samsvarandi gjaldeyriskvaðir og/eða vaxtaskilmála mótaðilans í hverjum slíkum skulda- og/eða vaxtaskiptum.
    Enn fremur er fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs heimilt að samþykkja slík skulda- og/eða vaxtaskipti lána sem tryggð eru með sjálfskuldarábyrgð ríkissjóðs, enda séu að mati fjármálaráðherra nægar tryggingar fyrir ábyrgð ríkissjóðs þegar til slíkra samninga er stofnað.

32. gr.

    Landsvirkjun er heimilt að taka erlend lán í því skyni að endurgreiða fyrir gjalddaga erlend lán þegar lánstími er talinn of stuttur miðað við eðlilegan afskriftartíma mannvirkja sem fjármögnuð hafa verið með viðkomandi lánum. Gætt skal ákvæða 14. gr. laga nr. 42/1983 þannig að fari samanlögð fjárhæð lána samkvæmt þessari grein og 3. gr. laga þessara fram úr 5% af höfuðstóli skal leitað samþykkis eignaraðila.
    Jafnframt er Landsvirkjun heimilt að stofna til svokallaðra skulda- og/eða vaxtaskipta vegna erlendra lána sinna sem hún hefur tekið með viðeigandi heimildum og samþykki eignaraðila.

33. gr.

    Framkvæmdasjóði Íslands er heimilt að taka lán erlendis í því skyni að endurgreiða fyrir gjalddaga eftirstöðvar erlendra lána þegar hagstæðari kjör bjóðast.
    Framkvæmdasjóði Íslands er heimilt að stofna til skulda- og/eða vaxtaskipta þar sem mótaðili Framkvæmdasjóðs í slíkum viðskiptum tekur á sig gjaldeyriskvaðir og/eða vaxtaskilmála í lánum sem Framkvæmdasjóður tekur eða hefur tekið með heimild í þessum eða öðrum lögum. Framkvæmdasjóður tekur á sig samsvarandi gjaldeyriskvaðir og/eða vaxtaskilmála mótaðilans í hverjum slíkum skulda- og/eða vaxtaskiptum.
    Nýti Framkvæmdasjóður lántökuheimildir laga þessara að hluta til töku skammtímalána og/eða veltilána er honum heimilt að nýta sömu heimildir til töku á nýju láni til endurgreiðslu veltiláns og/eða skammtímaláns að hluta eða öllu leyti án þess að lánssamningur um þau falli úr gildi, enda sé ekki dregið á slíka lánssamninga að nýju nema lagaheimild liggi fyrir.

34. gr.

    Byggðastofnun er heimilt að taka lán erlendis í því skyni að endurgreiða fyrir gjalddaga eftirstöðvar erlendra lána þegar hagstæðari kjör bjóðast.
    Byggðastofnun er heimilt að stofna til skulda- og/eða vaxtaskipta þar sem mótaðili Byggðastofnunar í slíkum viðskiptum tekur á sig gjaldeyriskvaðir og/eða vaxtaskilmála í lánum sem Byggðastofnun tekur eða hefur tekið með heimild í þessum eða öðrum lögum. Framkvæmdasjóður tekur á sig samsvarandi gjaldeyriskvaðir og/eða vaxtaskilmála mótaðilans í hverjum slíkum skulda- og/eða vaxtaskiptum.
    Nýti Byggðastofnun lántökuheimildir laga þessara að hluta til töku skammtímalána og/eða veltilána er henni heimilt að nýta sömu heimildir til töku á nýju láni til endurgreiðslu veltiláns og/eða skammtímaláns að hluta eða öllu leyti án þess að lánssamningur um þau falli úr gildi, enda sé ekki dregið á slíka lánssamninga að nýju nema lagaheimild liggi fyrir.

35. gr.

    Fjármálaráðherra er heimilt fyrir hönd ríkissjóðs að taka lán á árinu 1988 að fjárhæð allt að 3.400.000 þús. kr. eða jafnvirði þeirrar fjárhæðar í erlendri mynt til að fjármagna greiðsluhalla ríkissjóðs á árinu 1988 og greiða upp skammtímaskuld við Seðlabanka Íslands vegna greiðsluhalla ríkissjóðs á árinu 1987.

36. gr.

    Fjármálaráðherra er heimilt fyrir hönd ríkissjóðs að taka allt að 600.000 þús. kr. lán innan lands á árinu 1988 umfram það sem kveðið er á um í 1. gr. lánsfjárlaga 1988.

37. gr.

    Framkvæmdasjóði Íslands er heimilt að taka lán á árinu 1988 að fjárhæð allt að 429.000 þús. kr. eða jafnvirði þeirrar fjárhæðar í erlendri mynt og endurlána fiskeldisfyrirtækjum allt að 300.000 þús. kr. og hluthöfum Arnarflugs hf. allt að 129.000 þús. kr.

38. gr.

    Byggðastofnun er heimilt að taka lán á árinu 1988 að fjárhæð allt að 280.000 þús. kr. eða jafnvirði þeirrar fjárhæðar í erlendri mynt og endurlána atvinnufyrirtækjum til fjárhagslegrar endurskipulagningar allt að 200.000 þús. kr. og refafóðurstöðvum allt að 80.000 þús. kr.

39. gr.

    Lántökuheimildir samkvæmt I. kafla gilda á árinu 1989. Heimildir samkvæmt lögum þessum verða þó nýttar til 1. júlí 1990 standi sérstaklega á og samþykki fjármálaráðherra komi til.

40. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Samkvæmt þessu frumvarpi til lánsfjárlaga fyrir árið 1989 eru heildarlántökur opinberra aðila, opinberra lánastofnana og atvinnufyrirtækja áætlaðar um 30.085 m.kr. samanborið við 21.484 m.kr. í lánsfjárlögum 1988, með áorðnum breytingum, sbr. lög nr. 10/1988, um ráðstafanir í ríkisfjármálum og lánsfjármálum 1988. Ráðgert er að afla 15.620 m.kr. innan lands á árinu 1989 og 14.465 m.kr. með erlendum lánum. Greiðslur þjóðarbúsins af löngum erlendum lánum eru áætlaðar 17.160 m.kr. á árinu 1989, þar af eru afborganir 7.910 m.kr. og vextir 9.250 m.kr. Hreinar erlendar lántökur til langs tíma nema því 6.555 m.kr.
     Innlend lánsfjáröflun. Af innlendum lántökum eru skuldabréfakaup lífeyrissjóða veigamest eða um 9,4 milljarðar króna. Fjáröflun með sölu spariskírteina er áætluð 5,1 milljarður króna og önnur innlend lántaka er áætluð 1,5 milljarðar króna. Hlutdeild innlendrar fjármögnunar sem hlutfall af heildarlántökum á lánsfjáráætlun er um 52% samanborið við 56% í lánsfjárlögum 1988. Það hlutfall verður í reynd verulega lægra eða um 42% þar sem erlendar lántökur árið 1988 fara allnokkuð fram úr forsendum lánsfjárlaga 1988. Eftirfarandi yfirlit sýnir innlendu lánsfjáröflunina samkvæmt lánsfjárlögum 1988 og frumvarpi 1989. Jafnframt eru sýndar horfur um útkomu yfirstandandi árs að svo miklu leyti sem þær liggja fyrir.

Innlend fjáröflun opinberra aðila og sjóða 1988 og 1989.




    Sjá töflu í prentuðu þingskjali.


    Áform um innlenda lánsfjáröflun á árinu 1989 eru 3.410 m.kr. hærri en gert var ráð fyrir í lánsfjárlögum 1988 eða um 28%. Að teknu tilliti til
verðbreytinga er aukningin á milli ára um 14%. Mest er hækkunin í umsömdum kaupum lífeyrissjóðanna á skuldabréfum frá byggingarsjóðunum eða 52%. Óumsamin innlend lánsfjáröflun á árinu 1989 nemur því 6.325 m.kr. Er það aðeins hærri fjárhæð en í lánsfjárlögum 1988. Af þeirri fjárhæð er stærstur hlutinn áformuð sala á spariskírteinum ríkissjóðs eða 4.700 m.kr. Önnur óumsamin lánsfjáröflun á innlendum fjármagnsmarkaði á árinu 1989 nemur 1.525 m.kr. sem er 1.515 m.kr. lægri fjárhæð en í lánsfjárlögum 1988.
     Sala spariskírteina. Gert er ráð fyrir sölu spariskírteina á árinu 1988 að fjárhæð 4.860 m.kr. og er það 1.860 m.kr. hærri fjárhæð en áformað var í lánsfjárlögum. Skýring á sölu umfram áform er samningur sem gerður var við banka, sparisjóði og verðbréfasjóði í ágústmánuði sl. um að þessir aðilar ábyrgðust sölu spariskírteina fyrir 2.970 m.kr. Samningurinn markar tímamót varðandi fyrirkomulag þeirra mála.
    Eins og áður var getið er áformað að selja spariskírteini fyrir 4.700 m.kr. á árinu 1989. Sölu spariskírteina verður ávallt að skoða í samhengi við áætlaða innlausn eldri skírteina, en mikið af því fé skilar sér aftur í nýjum bréfum. Innlausn eldri skírteina er áætluð 4.100 m.kr. á árinu 1989 og nemur hrein fjárþörf ríkissjóðs af sölu spariskírteina því einungis 600 m.kr., saman borið við 1.460 m.kr. á árinu 1988. Þessi mikla lækkun á hreinni fjárþörf ríkissjóðs af sölu spariskírteina endurspeglar mikla lækkun á heildarlánsfjárþörf ríkissjóðs og á að stuðla að lækkun vaxta. Leitað verður áframhaldandi samninga við banka, sparisjóði og verðbréfasjóði um fyrirkomulag á sölu spariskírteina á árinu 1989.
     Verðbréfakaup lífeyrissjóða. Áætlað ráðstöfunarfé lífeyrissjóðanna árið 1989 er 16,9 milljarðar króna samanborið við 12,7 milljarða króna á árinu 1988. Aukningin á milli ára, sem er um 33%, skýrist einkum af vaxandi hlutdeild verðtryggingar í eignum sjóðanna, hækkandi raunvöxtum og breiðari iðgjaldastofni. Reiknað er með að lífeyrissjóðirnir verji um 55% af ráðstöfunarfé sínu, 9,3 milljörðum króna, til kaupa á skuldabréfum húsbyggingarsjóðanna. Þá eru verðbréfakaup Lífeyrissjóðs bænda af Stofnlánadeild landbúnaðarins áætluð 100 m.kr.
     Önnur innlend fjáröflun. Ráðgert er að afla alls 1.525 m.kr. með öðrum hætti á innlendum lánsfjármarkaði á árinu 1989. Er það 1.515 m.kr. lægri fjárhæð en lánsfjáráætlun 1988 gerir ráð fyrir. Ekki er sett fram nákvæm áætlun um hvaðan eigi að afla þess fjármagns en benda má meðal annars á verulega aukið óbundið ráðstöfunarfé lífeyrissjóða.
     Erlend lán. Í lánsfjáráætlun 1988, með áorðnum breytingum, sbr. lög nr. 10/1988, um aðgerðir í ríkisfjármálum og lánsfjármálum, voru erlendar lántökur til lengri tíma en eins árs áætlaðar 9.274 m.kr. á árinu 1988. Niðurstaðan virðist hins vegar ætla að verða sú að innstreymi erlends lánsfjár verði mun meira en áformað var eða um 18.020 m.kr. Hafa ber í huga að meðalgengi gjaldmiðla hefur breyst um 22% innan ársins en í lánsfjáráætlun var gert ráð fyrir óbreyttu gengi. Auk þess má skýra þetta aukna innstreymi með þrennum hætti. Í fyrsta lagi má ætla að lántökur atvinnufyrirtækja með milligöngu viðskiptabanka verði um 3.400 m.kr. umfram það sem ráðgert var í lánsfjáráætlun. Að stærstum hluta eru það lán út á heimildir viðskiptaráðuneytisins til fjárhagslegrar endurskipulagningar fyrirtækja. Í öðru lagi stefna erlendar lántökur opinberra fjárfestingarlánasjóða í að verða um 1.500 m.kr. umfram lánsfjáráætlun. Stærstur hluti þessa var endurlánaður atvinnufyrirtækjum og um helmingur þess eru heimildir sem fyrrverandi ríkisstjórn veitti Framkvæmdasjóði Íslands og Byggðastofnun á fyrri hluta ársins fyrir erlendum lántökum sem nota átti til að endurlána fyrirtækjum. Í þriðja lagi er það væntanleg lántaka ríkissjóðs að fjárhæð 3.400 m.kr. til að fjármagna greiðsluhalla á árinu 1988 og skammtímaskuldir við Seðlabanka Íslands frá fyrra ári. Afborganir af löngum lánum eru taldar verða 6.880 m.kr. og hreint innstreymi erlends fjármagns verður því um 11.120 m.kr. Er það um 4,4% af áætlaðri landsframleiðslu 1988.
    Þjóðhagsáætlun fyrir árið 1989 gerir ráð fyrir að halli á viðskiptum við útlönd verði 12.400 m.kr. sem er um 4,5% af áætlaðri landsframleiðslu 1989. Í ár er reiknað með að viðskiptahallinn verði 11.600 m.kr. eða um 4,6% af landsframleiðslu ársins. Erlendar lántökur á árinu 1989 eru áætlaðar 14.465 m.kr. og afborganir 7.910 m.kr. Talið er að aðrar fjármagnshreyfingar verði jákvæðar um 3.300 m.kr., þannig að innstreymi erlends fjár er áætlað 9.855 m.kr. Því vantar um 2.545 m.kr. upp á fjármögnun viðskiptahallans á árinu 1989 og versnar gjaldeyrisstaðan sem því nemur. Í þessu sambandi er rétt að geta þess að útlit er fyrir að gjaldeyrisstaðan batni um tvo milljarða króna á árinu 1988 vegna mikilla erlendra lántaka, og því er borð fyrir báru hvað hana varðar. Þetta kemur meðal annars fram í fylgiskjali III sem sýnir greiðslujöfnuð við útlönd á árinu 1987 til samanburðar við áætlun 1988 og 1989.
    Eftirfarandi yfirlit sýnir fyrirhugaðar erlendar lántökur á árinu 1989 með hliðsjón af lánsfjáráætlun 1988 og nýrri spá um ráðstöfun innkominna lána á árinu 1988 í milljónum króna:


Erlendar lántökur 1988 og 1989.




    Sjá töflu í þingskjali.


    Erlendar skuldir þjóðarinnar til langs tíma eru taldar aukast um 12% á árinu 1988. Á sama tíma dregst landsframleiðsla saman um eitt prósent. Þrátt fyrir þetta hækkar hlutfall langra erlendra lána af landsframleiðslu aðeins um 1,5 prósentustig eða úr 40,6% 1987 í 42,1% á árinu 1988. Lítil hækkun hlutfallsins milli ára skýrist af hækkandi raungengi íslensku krónunnar á yfirstandandi ári. Forsendur lánsfjáráætlunar 1989 gera ráð fyrir 7% hækkun á meðalgengi erlendra gjaldmiðla og 5,3% aukningu erlendra lána. Skuldahlutfallið í árslok 1989 er áætlað 44% af vergri landsframleiðslu ársins. Er þar tekið tillit til 1,6% samdráttar í vergri landsframleiðslu næsta árs, en á móti vegur nokkur hækkun raungengis íslensku krónunnar.
    Hreinar skuldir þjóðarbúsins námu 41,3% af vergri landsframleiðslu á árinu 1987 og eru taldar verða um 43,1% í árslok 1988. Forsendur áætlunarinnar fyrir árið 1989 gera ráð fyrir að þetta hlutfall hækki verulega á árinu 1989 og nemi 47,7% af vergri landsframleiðslu. Er það mun óhagstæðari þróun en hlutfall langra erlendra lána sýndi hér að framan. Frávikin skýrast af því að löngu lánin sýna aðeins hluta af fjármögnun viðskiptahallans. Hrein staða þjóðarbúsins tekur til allra þátta til að mæta viðskiptahallanum, þ.e. langra lána, skammtímalántöku og rýrnandi gjaldeyrisstöðu. Í fylgiskjali IV er yfirlit um stöðu þjóðarbúsins út á við á árunum 1979–1989.
    Þá er í fylgiskjali V sýnd greiðslubyrði af erlendum lánum í hlutfalli við útflutningstekjur af vörum og þjónustu á árunum 1979–1989. Áætlað er að greiðslubyrði erlendra lána verði um 16,5% útflutningstekna á árinu 1988 og aukist í 18% á árinu 1989. Greiðslubyrði erlendra lána var hæst á árinu 1984, 24,3%, en hefur lækkað síðan bæði vegna aukins útflutnings og vaxtalækkunar á erlendum lánamörkuðum. Meðalvextir erlendra lána, sem voru 10–12% á árunum 1980 til 1984, lækkuðu síðan og eru nú áætlaðir um 7,7% á árinu 1988 og 8% á árinu 1989. Vaxtabyrði erlendra lána er áætluð um 8,6% af útflutningstekjum á árinu 1988 og um 9,7% á árinu 1989.

     Stjórn peningamála. Gengisfesta, jöfnuður í rekstri ríkissjóðs og aðhald að erlendum lántökum var kjarninn í efnahagsstefnunni sem lögð var til grundvallar lánsfjáráætlun ársins 1988. Gert var ráð fyrir mikilli innlendri fjáröflun ríkissjóðs og þótti sýnt að raunvextir yrðu tiltölulega háir um sinn. Þessi stefna fól í sér verulegt aðhald að peningaframboði.
    Aðhald að erlendum lánum reyndist hins vegar mun minna en áformað var og hefur framvinda peningamála borið með sér þenslumerki af þeim ástæðum. Á seinni hluta yfirstandandi árs má þó greina að loks hafi dregið úr þeirri þenslu sem einkennt hefur efnahagslíf þjóðarinnar síðustu ár.
    Lög um viðskiptabanka og sparisjóði frá 1985 svo og lög um Seðlabanka frá 1986 gera ráð fyrir að innlánsstofnanir hafi ákveðið lausafé í sjóði og öðrum skammtímaeignum. Seðlabankinn setur reglur um hvert hlutfall lausafjáreignar skuli vera af heildareignum hverrar innlánsstofnunar. Auk þess leggur hann ákveðnar kvaðir á innlánsstofnanir um að eigin skuldir erlendis fari ekki fram úr gjaldeyriseignum. Aðgerðir í peningamálum á fyrri hluta árs 1988 miðuðu að því að styrkja það aðhald sem reglur um lausafjárhlutfall innlánsstofnana og gjaldeyrisjöfnuð veita. Á miðju ári var gerð breyting á skilgreiningu lausafjárhlutfalls sem hafði í för með nokkra þyngingu á lausafjárreglunum. Í ágúst var hins vegar bindiskyldan lækkuð úr 13% í 12% og lausafjárhlutfall hækkað úr 8% í 9%. Var þetta gert til að greiða fyrir samkomulagi ríkissjóðs og banka og sparisjóða um sölu spariskírteina. Samkomulagið heimilaði bönkum og sparisjóðum að telja helming spariskírteinaeignar til lauss fjár.
    Helstu einkenni þróunar peningamála á árinu 1988 er mikil aukning útlána bæði af innlendum og erlendum uppruna. Þannig er áætlað að innlendir liðir aukist um 39% á árinu og erlend lán til endurlána aukist um 53%. Hluti af þessum vexti er endurmat vegna verðlags- og gengisbreytinga en ætla má að verðlag og gengi hafi breyst um 20–22% innan ársins. Þessi mikla lánsfjáreftirspurn virðist eiga sér tvær rætur. Annars vegar í rekstrarhalla og fjármögnunarvanda atvinnuveganna og hins vegar í tekjuhalla ríkissjóðs.
    Horfur fyrir 1989 mótast af þremur þáttum. Í fyrsta lagi er áfram gert ráð fyrir verulegum viðskiptahalla og í öðru lagi er stefnt að samdrætti í erlendum lántökum. Í þriðja lagi er áætlað að peningamagn og sparifé vaxi um 14% frá ársbyrjun til ársloka og er þá miðað við niðurstöður þjóðhagsáætlunar um landsframleiðslu (-1,6%) og verðlag (6%) og reiknað með að raunvextir innlána verði jákvæðir um 2%. Er það mun minni vöxtur en 1988 og þýðir að peningastærðir laga sig að samdrætti í innlendri eftirspurn og lægri verðbólgu. Við þessar aðstæður mun gjaldeyrisstaða Seðlabankans rýrna og þrengja að ráðstöfunarfé innlánsstofnana.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Heildarlántökur ríkissjóðs verða 4.700 m.kr. á árinu 1988 og er stefnt að því að afla þess fjármagns innan lands með sölu á spariskírteinum ríkissjóðs. Leitað verður eftir samningi við banka, sparisjóði og verðbréfasjóði um að þessir aðilar ábyrgist og annist sölu á spariskírteinum ríkissjóðs líkt og samið var um við þá í ágústmánuði sl. Ekki er gert ráð fyrir neinni erlendri lántöku ríkissjóðs á árinu 1989 en afborganir erlendra lána eru áætlaðar 1.525 m.kr.
    Ráðgert er að af lánsfé ríkissjóðs verði veitt lán til B-hluta fyrirtækja og sjóða að fjárhæð 1.265 m.kr. Lán þessi eru 915 m.kr. vegna Lánasjóðs íslenskra námsmanna og 350 m.kr. til Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar til að ljúka framkvæmdum þar.

Um 2. gr.


    Þarfnast ekki skýringar.

Um 3. gr.


    Gert er ráð fyrir að framkvæmdaáform Landsvirkjunar fyrir næsta ár dreifist á 20 mánaða tímabil. Í stað áforma um fjárhæð að upphæð 1.950 m.kr. verða framkvæmdir á vegum Landsvirkjunar á árinu 1989 samtals fyrir um 1.420 m.kr. Fjárfestingin skiptist þannig að um 900 m.kr. renna til Blönduvirkjunar og um 520 m.kr. til annarra framkvæmda, svo sem til að ljúka við byggingu stjórnstöðvar og uppsetningar á kerfisráði. Af framkvæmdakostnaði Blönduvirkjunar á árinu 1989 eru um 250 m.kr. vegna vaxta á byggingartíma. Miðað við að Blönduvirkjun verði gangsett á árinu 1991 áætlar Landsvirkjun framkvæmdakostnað vegna Blöndu um 2.500 m.kr. á árinu 1990 og um 1.800 m.kr. á árinu 1991 á núverandi verðlagi.
    Ráðgert er að fjármagna framkvæmdir Landsvirkjunar með 1.000 m.kr. erlendri lántöku, en það sem upp á vantar með fé úr rekstri, skuldbreytingu og innlendri lánsfjáröflun. Að lokum miðast áætlanir fyrirtækisins við greiðslu afborgana að fjárhæð 1.235 m.kr., þar af eru 1.190 m.kr. af erlendum lánum og um 45 m.kr. renna til ríkissjóðs. Þá eru vaxtagreiðslur áætlaðar 1.885 m.kr. á árinu 1989, þar af eru 1.785 m.kr. til útlanda og 100 m.kr. til ríkissjóðs.
    Hér er ekki áætlað fyrir neinni fjármögnun vegna hugsanlegrar stóriðju enda liggur engin niðurstaða fyrir í því efni.

Um 4. gr.


    Þróunarfélagi Íslands er heimiluð 100 m.kr. erlend lántaka. Áætlunin miðast við að félagið hafi til ráðstöfunar 170 m.kr. á árinu og að óráðstafaður sjóður nemi um 75 m.kr. í árslok 1989.
    Samkvæmt 3. tölul. 4. gr. laga nr. 69/1985, um þátttöku ríkisins í hlutafélagi til að örva nýsköpun í atvinnulífi og um heimildir annarra aðila til þátttöku í félaginu, var veitt heimild til ríkisábyrgða á næstu árum að fjárhæð alls 500 m.kr. Miðað við framangreinda heimild verður búið að nýta 415 m.kr. af þeirri heimild í árslok 1989.

Um 5. gr.


    Sú stefna er mörkuð í frumvarpi til fjárlaga og lánsfjárlaga 1989 að ekki skuli veita ríkisábyrgðir fyrir nýjum fjárfestingarlánum til hitaveitna. Á undanförnum árum hafa lántökur sveitarfélaga nær eingöngu verið tengdar fjármögnun framkvæmda og skuldbreytingum hjá hitaveitum. Endurgreiðslutími fjárfestingarlána hitaveitna hefur verið mun skemmri en sem nemur afskriftartíma mannvirkjanna. Af þeirri ástæðu hafa margar þeirra lent í miklum erfiðleikum bæði vegna þungrar greiðslubyrði af áhvílandi skuldum og byrjunarörðugleikum í rekstri. Ríkissjóður hefur á síðustu árum létt á erfiðleikum margra af þessum veitum með því að yfirtaka hluta af skuldum þeirra og skuldbreyta öðrum lánum til lengri tíma með það að markmiði að tryggja rekstrargrundvöll þeirra til frambúðar.
     Hitaveita Akureyrar. Lántaka veitunnar á árinu 1989 að fjárhæð 3 milljónir bandarískra dala eða um 144 m.kr. er vegna afborgana af eldra erlendu láni.
     Hitaveita Egilsstaða og Fella. Veitunni er heimiluð 15 m.kr. lántaka á árinu 1989 vegna þungrar greiðslubyrði af áhvílandi lánum. Heildarlánagreiðslur fyrirtækisins eru áætlaðar um 42 m.kr. á árinu 1989, þar af eru afborganir um 30 m.kr. og vextir um 12 m.kr.
     Hitaveita Eyrar. Veitunni er heimiluð 14 m.kr. lántaka á árinu 1989 til að standa straum af greiðslum af áhvílandi skuldum.
     Hitaveita Siglufjarðar. Veitunni er heimiluð 34 m.kr. lántaka á árinu 1989 til að standa straum af áhvílandi skuldum.
     Fjarhitun Vestmannaeyja. Veitunni er heimiluð 24 m.kr. lántaka á árinu 1989 til að standa straum af greiðslum af áhvílandi skuldum.
     Annað. Þá eru áætlaðar á safnlið alls 24 m.kr. vegna lántöku ýmissa sveitarfélaga. Ætla má að einhverjar lántökubeiðnir sveitarfélaga komi á síðari stigum fram við afgreiðslu lánsfjárlaga.

Um 6. gr.


    Í frumvarpi til lánsfjárlaga 1989 er gert ráð fyrir að Byggðastofnun hafi til ráðstöfunar á árinu 1989 samtals 1.530 m.kr. eða sem svarar til um 0,6% af áætlaðri þjóðarframleiðslu þess árs. Sú viðmiðun er hin sama og var í frumvarpi til lánsfjárlaga 1988 og er í samræmi við 16. gr. laga nr. 64/1985 um ráðstöfunarfé Byggðastofnunar. Eigið ráðstöfunarfé stofnunar er áætlað 580 m.kr. Framlag ríkissjóðs samkvæmt frumvarpi til fjárlaga 1989 er 125 m.kr. Auk þess er gert ráð fyrir að stofnunin afli lánsfjár erlendis að fjárhæð 550 m.kr. og 275 m.kr. innan lands.
    Í lánsfjárlögum 1988 og lánsfjáráætlun 1988 er heimild til Byggðastofnunar fyrir erlendri lántöku að fjárhæð 750 m.kr., þar af 200 m.kr. vegna innlendrar skipasmíði. Að auki hafði stofnunin heimild til 200 m.kr. innlendrar lántöku.

Um 7. gr.


    Í framhaldi af setningu bráðabirgðalaga hinn 20. maí 1988, um aðgerðir í efnahagsmálum, heimilaði þáverandi ríkisstjórn Framkvæmdasjóði Íslands að taka erlent lán að fjárhæð allt að 300 m.kr. á árinu 1988 og allt að 500 m.kr. á árinu 1989 og endurlána fyrirtækjum í fiskeldi.

Um 8. gr.


    Áætlað er að ljúka smíði ferju fyrir Flóabátinn Baldur hf. á næsta ári. Til að standa skil á greiðslum til verktakans þarf fyrirtækið að afla lánsfjár að fjárhæð 85 m.kr. á næsta ári.

Um 9. gr.


    Í lánsfjárlögum 1988 er heimild fyrir Herjólf hf. í Vestmannaeyjum til að taka erlent lán á árinu 1988 að fjárhæð 100 m.kr. Sú heimild hefur enn ekki verið nýtt þar sem ákvarðanir um nýja ferju hafa enn ekki verið teknar. Heimildin er því tekin upp að nýju í frumvarpi að lánsfjárlögum 1989 með sömu skilyrðum og á síðasta ári, þ.e. að heimildin sé háð samþykki fjármálaráðherra, samgönguráðherra og fjárveitinganefnd Alþingis.

Um 10. gr.


    Þarfnast ekki skýringar.

Um 11.–29. gr.


    Í samræmi við markaða stefnu í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 1989, um
skerðingu lögboðinna framlaga, er með þessu frumvarpi mælt fyrir breytingum ákvæða viðkomandi laga. Hér er um að ræða skerðingu á sjálfvirkum framlögum til ýmissa aðila sem eru bundin í sérlögum.

Um 15. gr.


    Í áætlun vöruþróunar- og markaðsdeildar Iðnlánasjóðs er gert ráð fyrir að tekjur sjóðsins af álögðu iðnlánasjóðsgjaldi verði um 160 m.kr. á árinu 1989. Jafnframt gerir deildin ráð fyrir að veitt lán og styrkir nemi alls um 135 m.kr.

Um 26. gr.


    Vegna stöðu ríkissjóðs hefur verið ákveðið að á næsta ári renni af sérstakri hækkun bensíngjalds og þungaskatts allt að 600 m.kr. í ríkissjóð. Batni afkoma ríkissjóðs á árinu umfram það sem gert er ráð fyrir í fjárlagafrumvarpi 1989 verður tekið tillit til þess þannig að minna af hækkun bensíngjalds og þungaskatts renni í ríkissjóð og meira fari til vegamála.

Um 29. gr.


    Jöfnunarsjóði sveitarfélaga ber samkvæmt lögum hluti af tekjum af söluskatti og aðflutningsgjöldum. Um nokkurra ára skeið hefur framlag þetta verið ákveðið sem föst fjárhæð í fjárlögum ár hvert í stað þess að láta það fylgja þessum tekjustofnum. Vegna breytinga á þessum stofni söluskatts og aðflutningsgjalda er fyrri viðmiðun í þessu efni ekki nothæf.
    Við afgreiðslu lánsfjárlaga fyrir árið 1988 var framlag til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga við það miðað að frumvarp um tilflutning verkefna frá ríki til sveitarfélaga yrði samþykkt. Hins vegar var í byrjun árs 1988 ákveðið að fresta málinu og með lögum nr. 10/1988, um ráðstafanir í ríkisfjármálum og lánsfjármálum 1988, var framlag í Jöfnunarsjóð lækkað í 1.142 m.kr. Í þessu frumvarpi er að svo komnu máli miðað við að fjárhæð þessi verði 1.275 m.kr. á árinu 1989. Sú ákvörðun kemur til endurskoðunar við afgreiðslu frumvarps um tekjustofna sveitarfélaga og breytta verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga.

Um 30. gr.


    Þessi grein miðar að því að heimila ríkissjóði að nýta hagstæð kjör á erlendum lánamörkuðum, þegar þau bjóðast, til að greiða upp eftirstöðvar erlendra lána fyrir lok lánstíma þeirra.
    Jafnframt kemur fram í þessari grein ákvæði sem varðar heimild til að nýta þann sveigjanleika sem veltilána- og skammtímalánasamningar (Euro Commercial Paper) bjóða upp á, þ.e. að haga notkuninni í samræmi við markaðsaðstæður hverju sinni og þarfir tengdar lánsfjáráætlun og framkvæmd annarra lánssamninga.
    Árið 1984 var tekin upp sú nýbreytni á kjörum spariskírteina ríkissjóðs að í þeim var ákvæði um gagnkvæman uppsagnarrétt beggja aðila að binditíma liðnum. Fyrsti flokkur þessara skírteina varð innleysanlegur frá og með árinu 1987.

Um 31. gr.


    Þessi grein felur í sér heimild fyrir ríkissjóð til að nýta þá möguleika sem erlendir fjármagnsmarkaðir bjóða upp á og byggjast á samningum um skulda- og vaxtaskipti. Viðskipti af þessu tagi hafa mjög færst í vöxt á allra síðustu árum enda getur það í mörgum tilfellum reynst heppilegt fyrir skuldara að breyta samsetningu skulda sinna, bæði hvað snertir gjaldmiðla og vaxtakjör.

Um 32. gr.


    Þessi grein heimilar Landsvirkjun að skuldbreyta erlendum lánum sínum í því augnamiði að tengja betur endurgreiðslur af lánum líftíma raforkumannvirkja fyrirtækisins og að nýta þá möguleika sem erlendir fjármagnsmarkaðir bjóða upp á og byggjast á samningum um skulda- og vaxtaskipti. Vegna ástands á erlendum fjármagnsmörkuðum hefur yfirleitt ekki verið völ á erlendum lánum til nægjanlega langs tíma miðað við eðlilegan afskriftartíma þeirra framkvæmda sem með þeim hafa verið fjármagnaðar. Veldur þetta örum afborgunum og þungri greiðslubyrði á tiltölulega fáum árum. Sérstaklega hefur þetta komið hart niður á ýmsum orkufyrirtækjum með langan afskriftartíma.

Um 33. og 34. gr.


    Um er að ræða sams konar heimildir fyrir Framkvæmdasjóð Íslands og Byggðastofnun og kveður á um í 30. gr. fyrir Landsvirkjun.

Um 35. gr.


    Fjárlög 1988 gerðu ráð fyrir tekjujöfnuði. Síðari breytingar, sem fólust í lögum nr. 10/1988, um ráðstafanir í ríkisfjármálum og lánsfjármálum 1988, gerðu einnig ráð fyrir að jöfnuður næðist í ríkisfjármálum. Af ýmsum ástæðum, sem
tíundaðar eru í greinargerð með frumvarpi til fjárlaga 1989, hafa útgjöld A-hluta ríkissjóðs vaxið allnokkuð umfram það sem áðurnefnd lög gerðu ráð fyrir án þess að tekjur hafi hækkað að sama skapi. Stefnir nú í tekjuhalla á árinu 1988 sem nemur um a.m.k. 3.000 m.kr. Þessi munur hefur verið fjármagnaður innan ársins með yfirdrætti hjá Seðlabanka Íslands og er áætlað að greiðsluhalli ríkissjóðs í árslok verði um 2.600 m.kr. Samkvæmt 10. gr. laga nr. 36/1986, um Seðlabanka Íslands, skal yfirdráttarskuld ríkissjóðs við Seðlabankann greidd upp innan þriggja mánaða frá lokum hvers fjárhagsárs. Ríkissjóður á einnig óuppgerða skammtímaskuld við Seðlabankann frá fyrra ári að fjárhæð um 800 m.kr. sem ráðgert var að greiða á þessu ári þegar ýmis B-hluta fyrirtæki endurgreiddu yfirdrátt sinn hjá ríkissjóði. Lítið sem ekkert af þeim yfirdrætti kemur í ríkissjóð á þessu ári.
    Með þessari grein er sótt um heimild fyrir fjármálaráðherra að taka erlent lán að fjárhæð 3.400 m.kr. til að greiða áðurnefndar skammtímaskuldir við Seðlabanka Íslands fyrir árslok 1988.

Um 36. gr.


    Í lánsfjárlögum 1988 er fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs heimilt að taka allt að 4.260 m.kr. lán innan lands. Af þeirri fjárhæð var ráðgert að afla 3.000 m.kr. með sölu á spariskírteinum ríkissjóðs og 1.200 m.kr. með sölu verðbréfa til bankakerfissins. Um mitt ár var ljóst að erfiðlega mundi ganga að semja við innlánsstofnanir um kaup á verðbréfum. Í þess stað lögðu þær fram tillögur um að taka alfarið að sér sölu á spariskírteinum ríkissjóðs. Í ágústmánuði var gengið frá samningi við banka, sparisjóði og verðbréfasjóði um að ábyrgjast sölu spariskírteina fyrir 2.970 m.kr. Fyrr á árinu var búið að selja spariskírteini fyrir 1.890 m.kr. Fjáröflun ríkissjóðs með sölu spariskírteina verður því 4.860 m.kr. á árinu 1988 eða 600 m.kr. umfram það sem gert er ráð fyrir í lánsfjárlögum 1988.

Um 37. og 38. gr.


    Í framhaldi af setningu bráðabirgðalaga hinn 20. maí 1988, um aðgerðir í efnahagsmálum, heimilaði ríkisstjórnin Framkvæmdasjóði Íslands að taka erlent lán að fjárhæð allt að 300 m.kr. og endurlána fyrirtækjum í fiskeldi og Byggðastofnun að taka erlent lán að fjárhæð allt að 280 m.kr. og endurlána refafóðurstöðvum allt að 80 m.kr. og atvinnufyrirtækjum til fjárhaglegrar endurskipulagningar allt að 200 m.kr.
    Enn fremur veitti ríkisstjórnin 21. mars 1988 Framkvæmdasjóði heimild til að annast milligöngu um 129 m.kr. lán til hluthafa Arnarflugs hf. til að standa skil á hlutafjárloforðum.

Um 39. og 40. gr.


    Þarfnast ekki skýringa.