Ferill 127. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1988. – 1058 ár frá stofnun Alþingis.
111. löggjafarþing. – 127 . mál.


Sþ.

134. Tillaga til þingsályktunar



um ökunám og ökukennslu.

Flm.: Kristín Halldórsdóttir, Málmfríður Sigurðardóttir, Þórhildur Þorleifsdóttir,


Danfríður Skarphéðinsdóttir, Guðrún Agnarsdóttir, Kristín Einarsdóttir.



    Alþingi ályktar að fela dómsmálaráðherra að láta endurskoða reglugerð um ökukennslu, próf ökumanna o.fl., nr. 787 13. desember 1983, sbr. reglugerð nr. 448 31. október 1983 og nr. 116 29. febrúar 1988, með það að markmiði að settar verði reglur um starfsemi ökuskóla, gerðar strangari kröfur til ökukennara og prófdómenda og að kunnátta nýliða í akstri verði aukin og bætt.

Greinargerð.


    Umferðin hefur orðið þyngri og háskalegri með hverju ári og krafist æ meiri fórna. Þrátt fyrir ný umferðarlög og margvíslegan áróður hefur sú geigvænlega þróun haldið áfram á þessu ári. Það sem af er þessu ári, þ.e. til 23. nóvember, hafa 25 manns dáið í umferðarslysum. Þar af eru 13 manns 30 ára og yngri og 7 af þeim undir 20 ára aldri. Allt árið 1987 urðu dauðaslys í umferðinni 22.
    Allir þurfa að gæta sín í umferðinni, ungir sem gamlir, en reynslan sýnir að mesta hættan er bundin við fyrstu árin eftir að ökuréttindum er náð. Samkvæmt líkindareikningi eiga 20–25 piltar af hverjum 500 á aldrinum 17–18 ára það á hættu að slasast lífshættulega í umferðinni, örkumlast eða jafnvel deyja. Á þessum aldri eiga 10–12 stúlkur af hverjum 500 hið sama á hættu.
    Fleiri tölur þarf ekki að nefna. Við hljótum að leita orsaka og úrræða.
    Ökukennslan hlýtur að ráða miklu um aksturslag unga fólksins og góð ökukennsla er það veganesti í orðsins fyllstu merkingu sem stjórnvöldum ber að tryggja. Almenningur hefur ekki verið nægilega kröfuharður í þeim efnum og stjórnvöld hafa sofið á verðinum. Þeir sem hafa knúið á um úrbætur eru fyrst og fremst ökukennarar sjálfir sem hafa ítrekað krafist endurskoðunar og endurskipulagningar bæði ökukennslu og ökukennaranáms.
    Rétt er að minna á nefndarálit allsherjarnefndar neðri deildar við afgreiðslu umferðarlaganna í apríl 1987, en þar standa m.a. þessi orð: „Nefndin telur nauðsyn á að setja nýjar reglur um ökukennslu og ökunám annaðhvort í sérstökum lögum eða reglugerð þar sem ítarlegar verði fjallað um menntun ökukennara og námsefni og lágmarksfjölda kennslustunda til ökuprófs, en mun strangari ákvæði gilda annars staðar á Norðurlöndum í þessum efnum en hér á landi.“
    Ef bornar eru saman þær kröfur sem gerðar eru til íslenskra ökukennara og starfssystkina þeirra á Norðurlöndunum kemur í ljós að þar sem fæstra námsstunda er krafist undir ökukennarapróf er þó um fjórfalt fleiri stundir að ræða en hjá íslenskum ökukennurum. Þeir síðarnefndu geta öðlast ökukennararéttindi með 80 stunda námi en Danir þurfa að stunda slíkt nám í 315–550 stundir. Norðmenn læra til ökukennaraprófs í 1174 stundir, Finnar telja sig þurfa einni stund betur og hafa áform um að fjölga þeim enn frekar og Svíar telja ekki duga minna en tuttugu og tvisvar sinnum þann stundafjölda sem íslenskir ökukennarar þurfa til réttindanámsins, eða 1800 stundir að lágmarki.
    Ótrúlegt er að það sé svona margfalt flóknara og erfiðara að kenna akstur í grannlöndunum. Kennslustundafjöldinn er vitanlega ekki fyrir öllu, en augljóslega þarf að endurskoða alla tilhögun og áherslur í ökukennaranámi hér á landi, ekki síst með tilliti til breyttra aðstæðna í umferðinni. Fáir munu fagna slíkri endurskoðun meira en ökukennarar sjálfir sem hafa ýmsar tillögur fram að færa í þeim efnum.
    Enn mikilvægara er þó að taka ökunámið sjálft fastari tökum en þar er augljóslega pottur brotinn. Algengast er að unglingar taki ökupróf um leið og aldur leyfir. Oft hefur viðkomandi fengið að grípa í stýri hjá ættingjum og vinum og telur sig jafnvel færan í flestan sjó aðeins sé eftir að fá örfáa tíma hjá ökukennara og uppáskrift embættis. Strákum er það jafnvel metnaðarmál að þurfa sem fæsta tíma.
    Ökunám og ökupróf koma vissulega við pyngjuna og umhugsunarvert er hvort það á ekki sinn stóra þátt í því hvað nýliðar í akstri eru oft illa undirbúnir. Ökutíminn kostar nú 1401 kr., bóklegt námskeið, þar sem mynd og læknisvottorð eru innifalin, kostar 4000 kr. og prófgjaldið er 1500 kr. Heildarkostnaðurinn getur því verið á bilinu 15.000–40.000 kr. eftir fjölda ökutíma. Algengast mun vera að kostnaðurinn nemi 27.000–30.000 kr. og má nærri geta að það munar um minna hjá lágtekjufólki.
    Mikill þrýstingur er á ökukennara um að hafa ökutímana sem fæsta. Yfirvöld eru þeim lítill bakhjarl og afleiðingin er sú að unga fólkið er sent út í umferðina með heldur merglítið veganesti.
    Nýliðar í akstri hafa sjaldnast hlotið almennilega þjálfun í akstri við mismunandi aðstæður, s.s. í bleytu, hálku, lausamöl eða snjó, við lélegt skyggni, móti kvöldsól eða í svartamyrkri. Borgarbarnið kann ekki að aka utan malbiks og landsbyggðarbarnið kann ekki að aka í umferðinni á höfuðborgarsvæðinu. Ungir bílstjórar aka margir allt of nálægt næsta bíl, aksturslagið er skrykkjótt og hraðinn oftast meiri en lítt þjálfaðir ökumenn ráða við. Þeir reikna yfirleitt með bestu aðstæðum og ætla ekkert svigrúm til óvæntra atvika. Og því miður virðist ábyrgðartilfinningin í lágmarki. Þetta ástand er engan veginn sæmandi og kallar á tafarlausar úrbætur. Ökunám á ekki að vera fólgið í biturri reynslu. Setja þarf reglur um lágmarksfjölda ökutíma og búa svo um hnútana að nemendur fái þjálfun í akstri við fjölbreytilegar aðstæður, t.d. á sérhönnuðum akbrautum. Mjög er athugandi að færa hluta ökukennslunnar inn í framhaldsskólana. Þá þarf að taka til gaumgæfilegrar athugunar hvort ástæða er til að hækka ökuprófsaldur eða veita bráðabirgðaskírteini og setja skilyrði um akstur undir eftirliti reynds ökumanns fyrst eftir ökupróf.
    Fjölmargt fleira mætti að sjálfsögðu gera til þess að stuðla að bættri umferðarmenningu, t.d. er nauðsynlegt að efla rannsóknir á umferðarslysum svo að auðveldara verði að greina orsakir og bæta úr vandanum. Auka þarf og samræma kennslu í umferðarmálum bæði í grunnskólum og í framhaldsskólum. Auka þarf og bæta fræðslu í fjölmiðlum sem oft hafa reynst drjúgir í áróðri gegn umferðarslysum en því miður einnig haft áhrif á hinn veginn þar sem iðulega er ýtt undir hraðadýrkun í margvíslegu fjölmiðlaefni. Þá gætu tryggingafélög stuðlað að meiri aðgát nýliða í akstri, t.d. með því að verðlauna þá sem aka fyrstu tvö árin án þess að valda tjóni. Einnig er nauðsynlegt að hafa öfluga umferðargæslu.
    Fjölmargar ábendingar varðandi þessi mál hafa komið fram í ræðu og riti sem sjálfsagt er að hafa til hliðsjónar við framkvæmd þessarar tillögu til þingsályktunar. Skal þar sérstaklega bent á samantekt ráðstefnu um ökukennslu og umferðarmenningu sem haldin var 18. nóvember 1987, en setning á bls. 78 í því riti leggur til lokaorð þessarar greinargerðar:
    „Það er afleitt að fá lélega kennslu í mannkynssögu, en það getur verið lífshættulegt að fá lélega ökukennslu.“