Ferill 134. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1988. – 1058 ár frá stofnun Alþingis.
111. löggjafarþing. – 134 . mál.


Nd.

141. Frumvarp til laga



um breyting á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.

(Lagt fyrir Alþingi á 111. löggjafarþingi 1988.)



1. gr.

    48. gr. laganna orðast svo:
    Lög þessi öðlast þegar gildi, en skattheimta samkvæmt þeim kemur eigi til framkvæmda fyrr en 1. janúar 1990. Frá þeim tíma falla úr gildi lög nr. 10/1960, um söluskatt, með síðari breytingum. Ákvæði þeirra laga skulu þó gilda um söluskatt af sölu til og með 31. desember 1989.

2. gr.

    Eftirtaldar breytingar verða á bráðabirgðaákvæðum laganna:
a.    Í stað orðanna „30. júní 1989“ í 4. mgr. ákvæðis til bráðabirgða I kemur: 31. desember 1989.
b.    Í stað orðanna „30. apríl 1989“ í ákvæði til bráðabirgða II kemur: 31. október 1989.
c.    Í stað ártalsins „1989“ í ákvæði til bráðabirgða III kemur: 1990.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Eins og fram kemur í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar hefur verið ákveðið að fresta gildistöku virðisaukaskatts um hálft ár eða til 1. janúar 1990. Ástæður að baki tillögu þessari um frestun gildistökunnar eru einkum tvær. Annars vegar er ljóst að lengri tíma þarf til undirbúnings að kerfisbreytingunni en gert var ráð fyrir í upphafi. Hins vegar þykir fjárhagsstaða ríkissjóðs ekki leyfa að skattkerfisbreytingin nái fram að ganga hinn 1. júlí 1989 eins og að var stefnt. Þá má nefna að það er að ýmsu leyti óheppilegt að breytingin eigi sér stað á miðju ári. Má í því sambandi benda á
að breytingin krefst aukauppgjörs hjá öllum skattskyldum aðilum. Að auki er ljóst að á fyrri hluta næsta árs mun starfslið á skattstofum verða upptekið við undirbúning fyrstu álagningarinnar og uppgjör samkvæmt hinu nýja staðgreiðslukerfi. Vafasamt er að ætla að skattkerfið ráði við bæði þessi verkefni í einu sem eru mjög viðamikil og flókin hvort um sig.