Ferill 150. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1988. – 1058 ár frá stofnun Alþingis.
111. löggjafarþing. – 150 . mál.


Sþ.

159. Tillaga til þingsályktunar



um umhverfisráðuneyti.

Flm.: Kristín Halldórsdóttir, Danfríður Skarphéðinsdóttir, Guðrún Agnarsdóttir,


Kristín Einarsdóttir, Málmfríður Sigurðardóttir, Þórhildur Þorleifsdóttir.



    Alþingi ályktar að stofnað verði sérstakt ráðuneyti umhverfismála sem fari með:
a.     rannsóknir og stjórn náttúruauðlinda,
b.     náttúruvernd,
c.     umhverfisfræðslu,
d.     skipulagsmál,
e.     mengunarvarnir og
f.     alþjóðleg samskipti um umhverfismál.
    Undir þetta ráðuneyti verði fluttar stofnanir eða deildir sem nú starfa á þessum sviðum undir stjórn ýmissa ráðuneyta. Stefnt skal að setningu löggjafar um yfirstjórn umhverfismála fyrir lok yfirstandandi þings.

Greinargerð.


    Umhverfismál eru stór og viðamikill málaflokkur sem nauðsynlegt er að skipi verðugan sess í stjórnkerfi landsins.
    Umhverfismál á Íslandi falla að einhverju leyti undir flest öll ráðuneytin. Afleiðingin er óstjórn og skörun. Aðkallandi er að sameina öll verkefni á sviði umhverfismála undir eitt ráðuneyti til að tryggja virka og hagkvæma stjórn og markvissa umhverfisvernd.
    Mjög mikilvægt er að aðskilja mat á og eftirlit með auðlindum landsins annars vegar og hagnýtingu auðlindanna hins vegar. Hið síðarnefnda á heima í ráðuneyti eða ráðuneytum atvinnumála, en hið fyrrnefnda í sérstöku ráðuneyti umhverfismála. Á þann hátt verður umfjöllun og ákvarðanataka um nýtingu auðlindanna opin og síður hætta á hagsmunatengslum við eftirlit.

SKIPAN UMHVERFISRÁÐUNEYTIS OG VERKSVIÐ


1.      Lífríkisdeild.
. a.      Lífríki hafsins. Mat á stærð auðlindar og tillögur um stjórn, t.d. stærð ákveðinna fiskistofna og mögulega veiði úr þeim. Þetta starf er nú unnið á Hafrannsóknastofnun.
. b.      Lífríki ferskvatns. Rannsóknir á og eftirlit með stofnum ferskvatnsfiska og öðrum lífverum ferskvatns, nú unnið á Veiðimálastofnun.
. c.      Spendýr, fuglar og önnur landdýr. Mat á og eftirlit með stofnstærðum dýra, svo sem rjúpu, ref og hreindýrum og tillögur um aðferðir við stjórnun stofnstærða ef talin er þörf á að fjölga t.d. æðarfugli, fækka t.d. rottum eða vernda ákveðnar dýrategundir eins og örninn. Enginn einn aðili hefur nú þetta verksvið en það er að hluta til unnið af dýrafræðideild Náttúrufræðistofnunar, Hafrannsóknastofnun, (hvalir og selir), menntamálaráðuneyti (fuglafriðunarnefnd og hreindýrafulltrúi), veiðistjóraembætti Búnaðarfélagsins og hjá meindýraeyðum sveitarfélaganna.
. d.      Gróður og jarðvegur. Flokkun og rannsóknir á gróðurlendum Íslands og mat beitarþols. Gróðurvernd og vinna að endurheimt fyrri landgæða. Þetta er starfssvið Landgræðslu ríkisins, og einnig vinna eftirtaldir aðilar að þessu verkefni að hluta: grasafræðideild Náttúrufræðistofnunar, Skógrækt ríkisins, Rannsóknastofnun landbúnaðarins og landnýtingarráðunautur Búnaðarfélagsins.
2.      Jarðefna- og orkudeild.
. a.      Berggrunnur og laus jarðefni. Mat og flokkun á námum og eftirlit með nýtingu.
. b.      Ferskvatn, heitt og kalt. Rannsóknir á magni og eftirlit með nýtingu.
. c.      Orkulindir. Rannsóknir á orkulindum, þ.e. orku á jarðhitasvæðum, í fallvötnum, vindi, sjávarföllum, sól og e.t.v. fleiru ásamt tillögum til nýtingar. Þessi störf eru nú aðallega unnin hjá Orkustofnun, en einnig hjá jarðfræðideild Náttúrufræðistofnunar, Hafrannsóknastofnun (setlög í sjó) og Náttúruverndarráði.
3.      Friðlýsinga- og fræðsludeild.
. a.      Náttúruminjar. Flokkun og skráning náttúruminja og friðlýsing þeirra til náttúrufriðunar og/eða útivistar. Þetta er nú eitt af meginverkefnum Náttúruverndarráðs.
. b.      Fornleifar. Skráning, rannsóknir, flokkun og friðlýsing fastra fornleifa. Þetta starf er nú unnið á fornleifadeild Þjóðminjasafns. Á margan hátt eru sambærileg vinnubrögð við skráningu og friðlýsingu fornleifa og náttúruminja og mikilvægt að hvorar tveggju séu skráðar og kortlagðar áður en svæðaskipulag er gert.
. c.      Friðlýst svæði. Eftirlit og rekstur friðlýstra svæða í umsjón ríkisins er nú fyrst og fremst unnið af Náttúruverndarráði, en einnig Þingvallanefnd og Geysisnefnd.
. d.      Umhverfisfræðsla. Umhverfisvernd verður ómarkviss og handahófskennd nema almenningur þekki umhverfi sitt, hafi verið fræddur um það og hafi lært að virða það. Umhverfisfræðsla er hér sett í sömu deild og umsjón með friðlýstum svæðum vegna þess að slík svæði eru góður vettvangur umhverfisfræðslu og Náttúruverndarráð er sú ríkisstofnun sem nú sinnir helst fræðslu fyrir almenning um umhverfismál og náttúruvernd.
4.      Landmælinga- og skipulagsdeild.
. a.      Landmælingar og kortagerð. Loftljósmyndun, grunn- og sérkortagerð. Góð kort eru forsenda góðs skipulags og niðurstöður þeirra náttúrufarskannana, sem unnar eru í öðrum deildum ráðuneytisins, þarf að kortleggja áður en skipulag er gert eða landnýting ákveðin. Þetta er fyrst og fremst það starf sem nú er unnið hjá Landmælingum Íslands, en kortagerð er einnig á Rannsóknastofnun landbúnaðarins, Orkustofnun og víðar.
. b.      Skipulag. Landsskipulag, svæðaskipulag og landnýtingaráætlun eru nú unnin hjá Skipulagi ríkisins.
. c.      Starfsleyfisveitingar og eftirlit með mannvirkjagerð. Nú er þetta fyrst og fremst framkvæmt hjá Hollustuvernd ríkisins og Náttúruverndarráði.
5.      Mengunarvarnadeild.
. a.      Mengunarvarnir í lofti, láði og legi. Mengun virðir ekki landamæri og berst t.d. úr lofti í jarðveg, í vatn og í haf því er eðlilegt að allar mengunarvarnir og eftirlit með starfsemi, sem hefur mengun í för með sér, séu undir einni yfirstjórn. Nú er unnið að mengunarvörnum hjá mengunarvarnadeild Hollustuverndar ríkisins, Geislavörnum ríkisins, eiturefnanefnd og Siglingamálastofnun auk utanríkisráðuneytisins sem hefur með að gera mengun frá hernum.
. b.      Endurnýting og endurvinnsla. Ekki er um að ræða neitt markvisst starf á þessum vettvangi á vegum stjórnvalda. Brýnt er að koma á endurnýtingu flestra hluta og endurvinnslu þess sem unnt er og þess vegna er hér sérstaklega tekið fram að það eigi að vera verksvið umhverfisráðuneytis að gera tillögur um fyrirkomulag á því sviði.

FRAMKVÆMD


    Eins og fram kemur í ofanskráðu yfirliti er flest af því sem kæmi til kasta umhverfisráðuneytis nú þegar unnið á vegum íslenska ríkisins og því er ekki gert ráð fyrir „nýju bákni“, heldur fyrst og fremst tilflutningi og samræmingu. Því er þó ekki að leyna að þörf er á átaki til úrbóta á mörgum sviðum umhverfismála. Það er trú flutningsmanna að með þeirri skipan mála sem hér er stungið upp á verði slíkt átak frekar gert en við núverandi aðstæður þar sem þessi mikilvægi málaflokkur er sem hornreka í flestum ráðuneytum. Einnig ætti það að vera mun hagkvæmara að sambærileg störf séu unnin undir einni stjórn en ekki dreifð um allt stjórnkerfið eins og nú á sér stað t.d. hvað varðar mengunarvarnir.
    Sú skipulagsbreyting, sem hér um ræðir, er eftirfarandi:
    Hafrannsóknastofnun flyst úr sjávarútvegsráðuneyti en skiptist á milli deilda númer 1a, 1b og 2a í ráðuneyti umhverfismála, sbr. hér að ofan.
    Veiðimálastofnun flyst frá landbúnaðarráðuneyti.
    Rannsóknastarfsemi Náttúrufræðistofnunar flyst öll undir umhverfisráðuneyti (safnið yrði áfram undir menntamálaráðuneyti) en skiptist þar á milli deilda 1c, 1d og 2a.
    Deild sjávarspendýra hjá Hafrannsóknastofnun og veiðistjóraembættið sameinast dýrafræðideild Náttúrufræðistofnunar undir deild 1c í hinu nýja ráðuneyti og þangað fara líka hreindýraeftirlit og starfsemi fuglafriðunarnefndar.
    Landgræðsla ríkisins flyst öll undir ráðuneyti umhverfismála, þá deild þess sem hefur með að gera gróður og jarðvegseftirlit og hefur númerið 1d hér að ofan. Þar sameinast Landgræðslunni grasafræðideild Náttúrufræðistofnunar, mestur hluti Skógræktar ríkisins, nokkuð af starfsemi Rannsóknastofnunar landbúnaðarins, t.d. gróðurkortagerðin, og landnýtingarráðunautur Búnaðarfélagsins.
    Orkustofnun flyst frá iðnaðarráðuneyti og er meginuppistaða í jarðefna- og orkudeild hins nýja ráðuneytis.
    Náttúruverndarráð flyst frá menntamálaráðuneyti en starfsemi þess skiptist á milli deilda númer 2a, 3a, 3c, 3d og 4c.
    Umsjón með rannsóknum og skráningu fastra fornleifa flyst undir umhverfisráðuneyti en önnur starfsemi Þjóðminjasafns er áfram undir menntamálaráðuneyti.
    Þingvallanefnd og Geysisnefnd eru lagðar niður en stjórnun þessara svæða sem og annarra friðlýstra svæða fellur undir deild 3c.
    Landmælingar Íslands flytjast frá samgönguráðuneyti og skipulagsstjórn ríkisins frá félagsmálaráðuneyti.
    Eiturefnanefnd er lögð niður en starfsemi hennar sett undir mengunarvarnadeild, þ.e. deild með númerið 5a hér að ofan, en þangað flytjast líka mengunarvarnadeildir Hollustuverndar ríkisins og Siglingamálastofnunar og Geislavarna ríkisins. Þessi deild umhverfisráðuneytis tekur líka að sér samskipti við erlenda aðila varðandi mengun en utanríkisráðuneytið hefur haft með það að gera.
    Augljóst er að slíkar breytingar á stjórnkerfinu, sem stefnt er að með þessari tillögu til þingsályktunar, verða ekki gerðar í einu vetfangi. Á undanförnum árum hefur verið unnið að tillögum um breytingar á íslenska stjórnkerfinu og einnig hefur verið keypt meira húsnæði fyrir Stjórnarráðið og ríkisstofnanir. Sú starfsemi og þær stofnanir og deildir, sem hér hafa verið upp taldar, má flytja í umhverfisráðuneyti á sama hátt og Hagstofunni er skákað á milli ráðuneyta við stjórnarmyndun. Ef einnig væri leitast við að koma þeim undir sama þak eða a.m.k. nálægt hver annarri ætti samnýting aðstöðu og samvinna á milli þeirra að aukast af sjálfu sér og sameining stofnana sem nú heyra undir mörg ráðuneyti að þykja sjálfsögð þegar fram líða stundir.
    Virðingarleysi manna fyrir náttúrunni birtist m.a. í ofnýtingu auðlinda, eyðingu gróðurs, útrýmingu dýrategunda, mengun og öðrum náttúruspjöllum og ógnar nú tilvist okkar. Núlifandi kynslóðir hafa bæði getu og þekkingu til þess að snúa vörn í sókn til betra mannlífs í sátt við umhverfið. Slík sókn verður að vera markviss og skipulögð til þess að skila árangri. Að því miðar þessi tillaga.