Ferill 181. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1988. – 1058 ár frá stofnun Alþingis.
111. löggjafarþing. – 181 . mál.


Sþ.

199. Tillaga til þingsályktunar



um könnun á afbrotaferli fanga.

Flm.: Guðmundur Ágústsson, Óli Þ. Guðbjartsson, Albert Guðmundsson,


Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir, Hreggviður Jónsson.



    Alþingi ályktar að fela dómsmálaráðherra að láta gera könnun á afbrotaferli fanga í íslenskum fangelsum þar sem einkum væri leitast við að grafast fyrir um ástæður afbrotanna.
    Könnun þessi taki einnig til aðbúnaðar og starfsaðstöðu í íslenskum fangelsum og reynt verði að varpa ljósi á áhrif fangelsisvistar á hlutaðeigandi aðila.

Greinargerð.


    Með könnun þessari á afbrotum, föngum og fangelsum og áhrifum fangelsunar á hlutaðeigendur er tilgangur flutningsmanna að skýra betur en nú liggur fyrir ýmis mikilvæg atriði fangelsismála hér á landi. Ef könnun þessi yrði gerð gæti hún veitt mjög mikilvægar upplýsingar sem aftur gætu orðið grundvöllur að nýrri stefnu í viðbrögðum við afbrotum hér á landi.
    Hver einstaklingur, sem tapast á afbrotabraut, er dýrmætur, ekki síst svo fámennri þjóð sem Íslendingar eru, og því er til mikils að vinna að framkvæmd refsivistar verði ekki afbrotamönnum til enn meiri óheilla heldur betrunar og uppbyggingar að nýju.