Ferill 194. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1988. – 1058 ár frá stofnun Alþingis.
111. löggjafarþing. – 194 . mál.


Sþ.

228. Tillaga til þingsályktunar



um athugun á lágmarksframfærslukostnaði í landinu.

Flm.: Stefán Valgeirsson.



    Alþingi ályktar að fela Hagstofu Íslands að kanna, meta og gera sundurliðaða greinargerð um lágmarksframfærslukostnað í landinu. Greinargerðin sýni lágmarksframfærslukostnað manns sem ekki á aðrar eignir, sem tengjast framfærslu, en föt og venjulegt innbú. Skal greinargerðin miða við framfærslu í eitt ár á verðlagi í desember 1988. Skal miðað við að maðurinn geti veitt sér hollt og næringarríkt fæði og búi í húsnæði sem ekki spillir heilsu hans og hann þarf ekki að deila með öðrum. Einnig að hann geti unnið öll heimilisstörf sjálfur. Meta skal fæðis- og húsnæðiskostnað og hitunar- og rafmagnskostnað sérstaklega. Einnig skal meta aðra kostnaðarliði sérstaklega eftir því sem henta þykir, en við mat á kostnaði við föt, bækur, skemmtanir og annað en brýnustu lífsnauðsynjar skal miða við kostnað sem láglaunafólk hefur haft af þessum þáttum í framfærsluvísitölugrundvelli Hagstofunnar.
    Þá er Hagstofunni einnig falið að kanna og taka saman greinargerð um lágmarksframfærslukostnað barns sem sýni sundurliðaðan framfærslukostnað fyrir hvert ár frá fæðingu til fullnaðs átján ára aldurs þess. Skal miðað við sömu forsendur og fyrir fullorðinn einstakling með þeirri athugasemd að barnið sé barn einstæðrar móður sem eins er ástatt um og greinir í fyrri hluta ályktunarinnar.
    Sé umtalsverður (meira en 5%) munur á kostnaði við lágmarksframfærslu eftir kyni mannsins eða barnsins skal greina sérstaklega frá því. Einnig skal greina sérstaklega frá mismun sem kann að vera á hitunar- og rafmagnskostnaði eftir búsetu, annars vegar á höfuðborgarsvæðinu og hins vegar þar sem hann er hvað hæstur í strjálbýli. Hagstofan skal leita sérfræðiaðstoðar utan stofnunarinnar eftir því sem hún telur þörf á.
    Leitast skal við að ljúka könnuninni sem fyrst og eigi síðar en 1. júní 1989.

Greinargerð.


    Í samfélagi, sem hefur jöfnuð og velferð að meginmarkmiði, hljóta mörk og viðmiðanir í hagkerfinu að miðast við lágmarksframfærslukostnað sem grundvallarstærð. Er þar átt við lágmarkslaun, elli- og örorkulaun, barnabætur og aðrar greiðslur til framfærslu barna, einnig gengisákvarðanir, vexti, skatta á laun og óbeina skatta og gjöld á lífsnauðsynjar og fleira.
    Það er því mjög brýnt fyrir þá sem vinna að samfélagsmálum og þá sem láta sig slík mál varða að hafa upplýsingar um lágmarksframfærslukostnað í landinu. Á þetta hefur skort. Framfærsluvísitala Hagstofunnar byggist á meðaltali framfærslukostnaðar og ekki hefur verið gerð hér á landi alvarleg tilraun til að komast að því hver lágmarksframfærslukostnaður einhleypings er. Hér eru að sjálfsögðu mörg álitamálin, t.d. hvort telja eigi með kostnað við tóbaksnotkun, bifreið o.fl. Flutningsmaður tekur ekki afstöðu til þess, en gerir sér vonir um að sundurliðun í greinargerðinni upplýsi um þessa kostnaðarliði sérstaklega og löggjafarvaldið eða önnur stjórnvöld, sem áhuga hafa á þessum málum, setji með tímanum ákveðnari viðmiðanir sem seinni kannanir á lágmarksframfærslukostnaði skuli miðast við. Sama á við um stærð og búnað húsnæðis og endurgjald fyrir hann. Auðvitað er eðlilegt í framtíðinni að miða við ákveðnar grunnþarfir og einhverja nærtækustu lausnina við að uppfylla þær. Þessi og önnur atriði af sama toga skýrast betur við vinnu að verkinu og er við því að búast að Hagstofan, framkvæmdaaðilinn, greini frá matsvandamálum og öðrum atriðum sem ástæða þykir til í forsendum greinargerðarinnar.