Ferill 198. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1988. – 1058 ár frá stofnun Alþingis.
111. löggjafarþing. – 198 . mál.


Sþ.

239. Tillaga til þingsályktunar



um eflingu löggæslu.

Flm.: Guðmundur H. Garðarsson, Friðjón Þórðarson, Matthías Á. Mathiesen,


Matthías Bjarnason, Pálmi Jónsson, Halldór Blöndal, Egill Jónsson,


Þorsteinn Pálsson, Salome Þorkelsdóttir.



    Alþingi ályktar að fela dómsmálaráðherra að grípa nú þegar til ráðstafana er fela í sér eflingu löggæslu í landinu.

Greinargerð.


    Á síðustu árum hafa orðið miklar þjóðfélagsbreytingar á Íslandi sem gera aðrar og meiri kröfur til ýmiss konar þjónustu í þágu borgaranna. Meðal þess er krafan um aukna löggæslu á ýmsum sviðum, svo sem vegna umferðarmála, forvarnarstarfs gagnvart aukinni útbreiðslu fíkniefna og vegna alhliða þjónustu í þágu fólksins.
    Heilbrigð og öflug löggæsla er einn af hornsteinum lýðræðislegra stjórnarhátta. Þess vegna er mikilvægt að ætíð sé svo vel búið að löggæslunni að hún geti mætt þeim kröfum sem til hennar eru gerðar. Þörfin fyrir aukna vernd borgaranna eykst stöðugt. Í þeim efnum gegnir löggæslan veigamiklu hlutverki. Enn sem fyrr er frumskylda löggæslunnar fólgin í því að veita fólki nauðsynlega vernd og öryggi gagnvart misindis- og afbrotamönnum. Framkvæmd laga og réttar byggist á öruggri og vel upp byggðri löggæslu. Án þess væri dómsvaldið óvirkt og allt réttarfar í hættu. Þá hefur hlutdeild löggæslunnar í útfærslu umferðarmála aukist ár frá ári. Sá þáttur hefur vaxið mikið að umfangi og er stöðugt tímafrekari í starfsemi löggæslumanna.
    Á síðustu árum hafa önnur atriði komið til skjalanna sem gera eflingu löggæslu enn brýnni. Illu heilli hafa Íslendingar ekki farið varhluta af þeirri alvarlegu þróun sem fylgir mikilli útbreiðslu og neyslu fíkniefna. Vel skipulagðir glæpahringir teygja anga sína um allan heim, þar á meðal til Íslands. Þessir aðilar hafa mikinn fjölda misindismanna á sínum snærum sem dreifa og selja hættuleg fíkniefni. Ágengni þeirra og ófyrirleitni teflir
árlega lífi tuga eða hundruða unglinga á Íslandi í mikla hættu. Þessum aðilum verður nútímalöggæsla að mæta með öllum ráðum.
    Starfssvið löggæslunnar á Íslandi er orðið gífurlega yfirgripsmikið og krefst mikillar árvekni af hálfu þeirra sem þar bera ábyrgð. Þrátt fyrir það hefur ekki verið búið að löggæslunni sem skyldi og alls ekki í samræmi við þær kröfur sem til hennar eru gerðar. Stefnt er að feigðarósi í þessum efnum og er ekki seinna vænna að löggæslumálin verði tekin fastari tökum í fullu samræmi við nútímakröfur og aðsteðjandi hættur. Það verður ekki gert nema til komi öflugur stuðningur af hálfu ríkis og sveitarfélaga, en eðli málsins samkvæmt heyra þessi mál undir samfélagið í heild. Hér er því ekki verið að gera tillögu um eflingu ríkisvalds sem slíks, heldur þann þátt er lýtur að nauðsynlegri vernd borgaranna.
    Í ljósi þess sem hér hefur verið rakið og nýútkominna upplýsinga um ófullnægjandi aðbúnað íslensku löggæslunnar er þessi þingsályktunartillaga flutt. Aðgerðarleysi af hálfu Alþingis og ríkisstjórnar til eflingar löggæslu setur öryggi borgaranna í mikla hættu og getur veikt framkvæmd laga og réttar í landinu. Við ákveðnar aðstæður gæti lýðræðislegu stjórnarfari verið ógnað ef löggæslan getur ekki veitt borgurunum nægilega vernd og tryggt öryggi þeirra gagnvart afbrotamönnum eða ofbeldisöflum. Að standa gegn eflingu löggæslu jafngildir því að vilja vísvitandi grafa undan lýðræðislegu réttarfari og þingræðislegum stjórnarháttum.
    Til enn frekari áréttingar á mikilvægi þessa máls birtist með þessari þingsályktunartillögu bráðabirgðaskýrsla um löggæsluna í Reykjavík 1988. Skýrsla þessi er fyrsti áfangi af verkefni sem Lögreglufélag Reykjavíkur hefur sett sér um stöðu og þróun þessara mála. Skýrslan er birt hér með góðfúslegu leyfi viðkomandi aðila.

Fylgiskjal.


Lögreglufélag Reykjavíkur:


LÖGGÆSLA Í REYKJAVÍK 1988


Mannafli — vinnuaðstaða — vandamál.


Bráðabirgðaskýrsla.



    Skýrsla þessi er fyrsti áfangi af verkefni sem Lögreglufélag Reykjavíkur hefur sett sér. Áformað er að halda áfram verki og reyna að skoða sjálft starfið og hlutverk lögreglunnar í samfélaginu. Eins þurfum við að skoða og endurmeta afstöðu okkar til starfsins, aðstæðna okkar og fjölskyldulífsins.
    Ekki hefur enn verið ákveðið með hverjum hætti ráðist verður í seinni áfanga verksins en þó er víst að þeir munu kosta ærna vinnu.
    Skýrsla þessi er unnin af nokkrum hópum á vegum félagsins. Hún fjallar um aðstæður við löggæslu í Reykjavík og þau vandamál sem lögreglumenn hnjóta um við framkvæmd starfa sinna. Hún er að sjálfsögðu á engan veg tæmandi og er ekki ætlað að vera það. Lengi mætti við dvelja áður en efnið er upp urið og aðstæður geta breyst dag með degi. Því er þessi skýrsla ekki nema bráðabirgðarskýrsla.
    Það liggur í hlutar eðli að svona skýrsla er fyrst og fremst aðfinnsluplagg. Hún er þó ekki ætluð sem árás á einn eða neinn. Við vonum hins vegar að hún geti hrint fram endurbót á sumu því sem hér er minnst á.
    Þá væri þetta verk til einhvers unnið.

Stjórnun og skipulag.
    Einn mikilvægasti þáttur stjórnunar er að boðleiðir fyrirmæla og ábyrgðar séu ljósar og ótvíræðar, verksvið manna vel skilgreint og ljóst til hverra eigi að leita um einstök efni. Slíkt hefur löngum verið í ólestri hjá embætti lögreglustjórans í Reykjavík.
    Ástandið í þessu efni hefur skánað að sumu leyti á síðustu missirum en versnað í öðrum efnum. Gerð hefur verið verkefnisskrá fyrir varðstjóra. Það er góðra gjalda vert. Skrána mætti að vísu endurskoða í sumum efnum og auka við hana. Verra er það að hún hefur verið laklega kynnt. Varðstjórarnir fengu hana að vísu í hendur
án umræðu um innihaldið. Almennum lögreglumönnum hefur alls ekki verið greint frá henni. Þyrftu þeir þó að sjálfsögðu að vita glöggt um efni hennar.
    Engar reglur hafa verið settar, fyrr eða síðar, um stjórnunarskyldu eða ábyrgð lögreglumanna á vettvangi. Er þó ljóst samkvæmt dómum Hæstaréttar að slíkt skiptir ærnu máli. Eins er á margan veg óljóst hver stjórnunarskylda og ábyrgð hvílir á einstökum verkstjórnarmönnum. Sumt af þessu mun þó hafa verið sett í fyrirmæli en þau hafa verið næsta illa kynnt.
    Ýmsar breytingar hafa verið gerðar á verkefnum yfirmanna og þær ekki alltaf kynntar undirmönnum þeirra. Slíkt er til vandræða í starfi þar sem stundum þarf að sækja svörin snögglega.
    Eins hafa sumum yfirmönnum hjá stofnuninni, svo sem skrifstofustjóra og yfirmanni útlendingaeftirlits, verið fengin umtalsverð völd á tíðum án formlegs eða skilgreinds stjórnunarumboðs. Þeir hafa þannig átt ákvörðunarvald í vissum efnum án þess að skilgreint væri að til þeirra ætti að leita. Boðleiðin hefur aðeins verið á annan veg.
    Það er gamall ósiður hærra settra yfirmanna að gefa iðulega fyrirmæli beint, þ.e. yfir höfuðið á þeim verkstjórnaraðilum sem að jafnaði hafa með mannafla og daglega umfjöllun mála að gera. Þá er sjaldan hirt um að láta hina síðarnefndu vita af þessum ákvörðunum. Eins hefur það lengi verið siður að í stað formlegra fyrirmæla komi munnleg tilmæli sem ekki fást staðfest skriflega og yfirboðarar hafa stundum ekki viljað kannast við ef vandræði hafa fylgt máli. Það hlýtur að vera nauðsyn að rás fyrirmæla sé skýr og ljóst hver stýrir og ber ábyrgð hverju sinni.
    Á öðrum stað verður gerð grein fyrir ástandi fjarskiptamála en ekki er úr vegi að skoða stöðu fjarskiptamiðstöðar vegna útkalla og afgreiðslu mála. Oft er staðhæft af hálfu yfirstjórnar að fjarskiptin eigi að vera bakhjarl við vettvangsstjórnun og upplýsingamiðstöð fyrir lögreglumenn á vettvangi. Það er þó lítið unnt að gera af slíku á einni slæmri og opinni línu. Því hefur stjórnun fjarskipta orðið lítil í reynd, staða þeirra og ábyrgð ekki skilgreind til hlítar og oft komið upp ágreiningur milli aðalvarðstjóra og fjarskiptavarðstjóra um stjórnun og upplýsingar. Þörf er á að endurmeta starf og stöðu fjarskiptamiðstöðvar þegar nýr búnaður verður tekinn í notkun.
    Nokkur vilji virðist til að reyna að breyta skipulagi löggæslunnar. Því miður er sjaldan leitað til þeirra starfsmanna sem eiga að vinna verkin. Hafa almennir starfsmenn oft talið sig sjá fyrir vankantana er síðan hafa
komið í ljós. Hefur reyndar oft sýnt sig að hugtökin skipulagning og skipulag eiga ekki alltaf samleið. Því miður hafa sum nýmælin sem best reyndust verið lögð af síðar, svo sem sérstök bifreið fyrir erfiðari útköll, aukið umferðareftirlit og samnýting bifreiða frá Árbæjarstöð.
    Það er áberandi hve erfitt er orðið að fá svör um eitt eða annað frá yfirstjórn lögreglunnar. Verkin virðast dreifast á marga án þess að full ábyrgð eða ákvörðunarvald fylgi. Hver vísar á annan eða telur sér skylt að bera bækur sínar saman við fleiri. Þegar gengið er eftir niðurstöðu verður fátt um svör. Er þá sumum yfirmönnum gjarnt að gefa í skyn að vandinn liggi hjá lögreglustjóra sjálfum.

Deild almennrar löggæslu.
    Nokkur samdráttur hefur orðið á mannafla og bílakosti til almennrar löggæslu á undanförnum missirum. Á sama tíma hefur löggæsluumdæmi lögreglunnar í Reykjavík stækkað að mun. Að vísu eru sérstakar bifreiðar til löggæslu á Seltjarnarnesi og í Mosfellsbæ að degi til en almenn deild lögreglunnar í Reykjavík sinnir löggæslu á þessum svæðum á nóttinni.
    Stöðugildi lögreglumanna við embætti lögreglustjórans í Reykjavík munu nú vera 238 og hefur þeim ekki fjölgað undanfarin ár. Reyndar voru fjögur stöðugildi færð frá embættinu til Lögregluskóla ríkisins en engum bætt við á móti vegna stækkunar löggæslusvæðisins.
    Nokkur hópur manna gegnir störfum sem flokka má sem skrifstofustörf á vegum embættisins. Við stofnun Rannsóknarlögreglu ríkisins var rannsóknum minni háttar mála og umferðarmála, svo og innheimtu sakeyris, bætt við verkefni lögreglunnar í Reykjavík. Utan um þessi verk hafa hlaðist önnur, ekki síst vegna boðunar og fangaflutninga. Þannig hefur jafnt og þétt verið gengið á mannaflann til útkalla, almennrar löggæslu og umferðareftirlits. Því hefur orðið verulegur samdráttur á venjulegri löggæslu í Reykjavík á sama tíma og bifreiðakostur hefur stóraukist, löggæslusvæðið stækkað að mun og stórborgarbragur færst á brotamálin. Á undangengnu ári hefur síðan almenn löggæsla í Reykjavík verið skorin rækilega niður.

Bílakostur og skipulag eftirlits
    Á miðju ári 1987 var bílakostur til almennrar löggæslu í Reykjavík og mannafli á bílum á virkum dögum sem hér segir:

                        Morgun-    Dag-    Nætur-
                       vakt    vakt    vakt
         1. Miðborg .............         2    2    3
         2. Útkallsbifreiðar ....         3    3    4
         3. Hverfi 2–5 .........         2    2    3
         4. Hverfi 6–8 .........         2    2    3
         5. Fólksbifreið 1.......         2    2    2
         6. Fólksbifreið 2 ......         2    2    2
         7. Árbær ...............         2    2    2
         8. Breiðholt ...........         2    2    3
                       ———    ——    ——-
         Menn ...................         17    17    22
         Bílar ..................         8    8    8

    Í nóvember 1988 var ástandið á virkum dögum innan sama svæðis sem hér segir:

                        Morgun-    Dag-    Nætur-
                       vakt    vakt    vakt
         Fólksbifreið 1 .........         2    2    2
         María 1 ................         2    2    3
         Fólksbifreið 2 .........         2    2    2
         María 2 ................         2    2    3
         Fólksbifreið 3 .........         2    2    2
         Fólksbifreið 4 .........         2    2    2
         María 3–4 .............         0    0    3
                       ———    ——    ——-
         Menn ...................         12    12    17
         Bílar ..................         6    6    7

    Við þetta bættist þjónustubíll með einum manni að degi til.
    Þann 1. desember sl. var enn dregið úr. Árbæjarstöð var lokað, nema að
degi til, og jafnframt felld niður eftirlitsbifreið á því svæði, utan þess tíma sem stöðin er opin. Þar með hefur löggæslan enn verið skert:


                       Morgun-    Dag-    Nætur-
                       vakt    vakt    vakt
         Fólksbifreið 1 .........         2    2    2
         María 1—2 ............         2    2    3
         Fólksbifreið 1–2 ......         2    2    2
         María 2 ................         2    2    3
         Fólksbifreið 2 .........         0    0    2
         Fólksbifreið 3–4 ......         2    2    2
         Fólksbifreið 4 .........         0    2     0
         María 3–4 .............         0    0    3
                       ———    ——    ——-
         Menn ...................         10    12    17
         Bílar ..................         5    6    7


    Um leið var varðstjóra á Miðborgarstöð fengin bifreið til umráða en henni er ekki ætlað hlutverk til almennra útkalla.
    Bílum og mannafla til virkra útkalla og eftirlits hefur því fækkað verulega.
    Hér er eingöngu verið að ræða um löggæsluna á virkum dögum. En löggæslan um helgar hefur einnig verið dregin saman. Að vísu er bætt við bifreið á næturvakt, eins og áður var gert, en þar hefur þó bílum fækkað frá því sem fyrr var, mannafli er minni og liðið nýtist mun verr en áður þegar öll afgreiðsla mála er komin inn á aðalstöð. Síðan bætist þar við að mun færri bifreiðar eru þá frá umferðardeild en áður var.
    Bifreiðar í Mosfellsbæ og á Seltjarnarnesi eru gerðar út að degi til á virkum dögum. Löggæsla á þeim svæðum er ekki enn fullmótuð og því lítil ástæða til að fjalla um hana í þessari skýrslu.
    Á undangengnum missirum hefur fólksbifreiðum fjölgað á kostnað stærri
bíla. Erfitt er að sinna ölvunarútköllum og öðrum handtökumálum með fólksbifreiðum. Á næturvöktum eru þær bifreiðar einnig fáliðaðri en stærri bílar. Því færist það stöðugt í vöxt að senda þurfi tvær bifreiðar í útköll. Slíkt er orðið næsta algengt þegar eitthvað liggur við. Þetta er auðvitað léleg nýting á mannafla og þar með um óbeinan samdrátt á löggæslu að ræða.
    Síðan er orðin venja að leggja fremur bílum en að panta menn á aukavakt ef mannafla skortir á morgun- eða dagvöktum. Því er niðurskurðurinn í reynd meiri en taflan sýnir.
    Þegar sett er á aukavaktir um helgar eru dagvaktirnar látnar mæta afgangi. Hefur jafnvel verið gengið svo langt að á tímanum milli kl. 12.30 og 16.00 á laugardegi hafi aðeins ein bifreið verið til almennra útkalla á svæðinu frá Gróttu í Hvalfjarðarbotn. Ástandið hefur oftar verið nærri jafnslæmt. Hefur þá að vísu stundum verið upp á umferðardeild að hlaupa til almennra útkalla, en ökutæki hennar eru þó iðulega í öðrum verkefnum, enda laugardagar orðnir með helstu verslunardögum. Eins eru þá ýmsar uppákomur í gangi sem þurfa við atbeina lögreglu.
    Löggæslan er nú öll skipulögð frá aðalstöð og þannig er aukið á þann vandann sem fyrir var, þ.e. að löggæslan hverfi til aðalstöðvar á vaktaskiptum. Er því í reynd ekkert eftirlit og varla unnt að sinna öðru en stærstu málum í um þrjá stundarfjórðunga þrisvar á sólarhring. Getur þá stundum verið þungt að finna bíl til að senda í útköll fyrirvaralaust. Verst bitnar þetta auðvitað á ystu hverfunum.
    Með nýju skipulagi hefur áherslan í löggæslu færst austur á bóginn og er því allur niðurskurðurinn á virkum dögum á svæðinu vestan við Elliðaárdal.
    Fyrir nokkrum árum var einn stór bíll, mannaður þremur reyndum mönnum að degi til en fjórum á nóttu, hafður til meiri háttar útkalla. Þetta var gert eftir að réttarstaða lögreglumanna þótti skerðast að gengnum dómum og eins þar sem mönnum þótti fjöldi erfiðra útkalla vera að aukast. Að flestra dómi hefur sýnt sig að full þörf var á slíkum bíl. Nú hefur hann verið af lagður. Enginn veit þó til þess að forsendur hafi breyst til hins betra.

Mannafli.
    Fyrir nokkrum missirum varð veruleg fækkun lögreglumanna vegna slæmra launakjara. Hættu þá einkum menn á góðum aldri með nokkurra ára reynslu að baki. Síðan hafa verið ráðnir menn í allar stöður og vel það. Vandinn er hins vegar sá að þar með er liðsaflinn til útkalla á vöktunum að stórum hluta lítt vanir lögreglumenn eða afleysingarfólk sem gegnir verkum meðan verið er að
mennta hina yngri lögreglumenn til starfans. Þetta afleysingarfólk skortir bæði lágmarksstarfsmenntun og reynslu í lögreglustarfi. Samt er verið að nota það til afgreiðslu á viðkvæmustu málum.
    Nú er svo komið að skortir nægilega stóran kjarna reyndra lögreglumanna til að stýra og leiðbeina hinum óreyndari. Ástandið er slæmt á veturna en þó hálfu verra á sumrin þegar sumarafleysingarfólk kemur til. Þá er næsta algengt að tveir óreyndir lögreglumenn séu skráðir saman í bíl til útkalla. Þekking og reynsla eru auðvitað meginforsendur þess að vandasöm mál fái rétta afgreiðslu og erfið vandamál borgaranna fái farsæla úrlausn. Óreyndir lögreglumenn vita oft ekki hvernig á málum á að taka og koma oft fyrir mistök sem ekki er unnt að bæta um síðar.
    Ástandið í almennri deild er nú (í nóvember 1988) þannig að til útkalla og almenns hverfaeftirlits á fjórum vöktum er samtals 81 lögreglumaður. (Sú tala er vart marktækt stærri en var árið 1944.) Þar af eru afleysingarmenn 24, eða 29,6%. Í umferðardeild eru síðan 19 lögreglumenn til almenns eftirlits og vettvangsverkefna, þar af tveir afleysingarmenn. Þannig eru aðeins til útkalls og vettvangsverkefna 100 lögreglumenn af rösklega 260 manna liði, eða um 38%. Þá eru ekki taldir frá þeir sem eru frá sökum veikinda eru í orlofi eða að starfi við tilfallandi sérverkefni. Hópurinn er því í reynd nokkru smærri.
    Sífellt hefur stærri hópur verið settur til annarra verkefna. Þau eru að vísu nauðsynleg. Flestum býður þó í grun að ekki hafi verið tekið tillit til undirstöðunnar þegar yfirbyggingin var reist.
    Samkvæmt talningu úr fjarskiptadagbók lögreglunnar í Reykjavík var fjöldi útkalla í september 4574 en í október 4119. Þessar tölur segja ekki nema takmarkaða sögu. Að sögn starfsmanna á fjarskiptum er ekki allt hið smærra fært til bókar. Eins kemur ekki fram hvort fleiri en ein áhöfn hafa afskipti af málum. Í þessari tölu eru árekstrar og slys. Þeim er að miklu leyti sinnt af sérstakri slysarannsóknarbifreið en einnig af áhöfnum annarra bíla, og eins koma jafnan bílar og hjól til aðstoðar á vettvangi ef eitthvað er að gerast að marki.
    Þó má skoða þessar tölur nánar með nokkrum fyrirvara. Sé gert ráð fyrir 35 mínútum á hvert útkall að meðaltali, sem er hóflega áætlað, má gera ráð fyrir að samanlögð lengd útkalla hafi numið 88,94 sólarhringum í september en 77,51 sólarhringum í október. Telji einhver þetta fullhátt reiknað má benda á að samkvæmt skýrslum eru umferðarmál um 1000 fleiri í októbermánuði en fjarskiptabók segir til um og má síðan bæta við öllum þeim afskiptum af ökumönnum sem ekki leiddu til skýrslugerðar!
    Þegar bætt er við töfum vegna vaktaskipta, matar- og kaffitímum, tíma til skýrslugerðar og öðrum eðlilegum frátöfum, reynist lítill tími eftir til þess eftirlits sem á að tryggja öryggi borgaranna.
    Það ætti þó að vera fyrsta skylda lögreglunnar.

Lögreglustöðin við Hverfisgötu.
    Lögreglustöðin við Hverfisgötu var tekin í fulla notkun árið 1973. Löngu áður var ljóst að meinlegir gallar voru á niðurskipan húsnæðis. Hér var flutt í glæsilegt hús en mjög óhentugt. Einkum á þetta við lægri álmuna, Hverfisgötu 113. Ítrekað hafa starfsmenn kallað eftir úrbótum en árangur verið lítill sem enginn. Stöðin er mjög opin á alla vegu og erfitt að hefta inngöngu fólks í erindisleysu. Verður oft lítill friður til afgreiðslu mála, einkum á næturvöktum um helgar. Komið er fyrst inn í stórt opið anddyri þar sem stöðvarmaður er til svara um leið og hann sinnir öðrum skyldum sínum. Hann getur á engan veg hindrað inngöngu óviðkomandi fólks. Þannig er öllum opin leið rakleitt inn á gang þar sem aðalvarðstjóri og varðstjóri hafa skrifstofur sínar, og setustofa og aðalafdrep lögreglumanna blasa þá galopin við. Engin almennileg biðstofa er fyrir fólk sem kemur til að leita ásjár hjá varðstjórum. Enginn biðklefi er á 1. hæð svo tvístra megi grunuðum á ýmsar vistarverur meðan á fyrstu yfirheyrslu stendur. Fangar eru færðir áleiðis til fangageymslu eftir gangi sem liggur fram hjá kaffistofu lögreglumanna og fatahengi.
    Stöðvarmaður tekur á móti öllum skýrslum og hefur kæruskrár undir höndum meiri hluta sólarhrings. Þessi gögn liggja þannig á glámbekk frammi í anddyri og er hægðarleikur fyrir óvandaða menn að seilast í þau ef stöðvarmaður þarf að bregða sér inn fyrir dyrnar.
    Oft er umtalsverður fjöldi fólks að flækjast á stöðinni og ekki allir sem láta friðlega. Hins vegar er svo spart farið með mannafla að sjaldnast er lið til að koma þessu fólki af stöðinni, nema að áhöfn af útkallsbifreið komi þar við. Má heita heppni að ekki hafi hlotist alvarlegri vandi af.
    Afgreiðsla á málum ölvaðra manna og ákvörðun um vistun þeirra fer fram í kaldranalegri kompu í kjallara hússins. Þangað hefur verið hent inn aflóga húsgögnum, sem annars hefðu farið á ruslahaugana, og engan brúklegan búnað eða nothæf upplýsingargögn er þar að hafa utan ræfil af símaskrá og gamalt eintak af íbúaskrá Reykjavíkur. Þarna er einnig einn stór biðklefi (almenningur), vel
nothæfur þegar þarf að koma fyrir hóp af ólátaseggjum, en ekki til að nota sem biðstofu við nærfærnari yfirheyrslu eða viðtöl. Þarna er engin aðstaða eða búnaður til töku á framburðarskýrslum hvorki ritvél né annað sem til þyrfti. Engin hljóðeinangrun er í lofti og glymur í við hvert hljóð bæði í herberginu og úti á gangi. Þarna er aldrei næði til yfirheyrslu og umhverfið allt hið nöturlegasta. Þetta er sá vettvangur sem helst er notaður til ákvörðunar um frelsissviptingu manna. Það er e.t.v ekki gott að búa þetta húsnæði betur því það blasir opið og mannlaust við þegar góðvinum okkar er hleypt út á morgnana.

Fangageymslan.
    Aðalaðkoma í fangageymslu lögreglunnar á II. hæð hússins er um lyftu sem er það smá að ekki verður komið í hana sjúkrabörum eða öðrum burðarbúnaði. Eru ófáar ferðirnar sem sjúkralið hefur orðið að fara bakleið um stiga upp eða niður tvær hæðir. Eru þá ekki talin öll tilvikin, oftsinnis á dag, þar sem lögreglumenn hafa þurft að drösla illa sjálfbjarga fólki í lyftuna og úr henni, frekar en að geta lagt viðkomandi á börur. Lyftan er þannig gerð að hún er ekki örugg til að flytja í erfiða menn og æsta.
    Innkoma í fangageymslu er vægt sagt óheppileg. Ekki er nein aðstaða til að láta fanga bíða meðan aðrir eru afgreiddir inn. Þannig eru þeir látnir sitja úti á gangi eftirlitslausir ef sá er erfiður sem verið er að afgreiða og þá vandalaust fyrir þá að snarast í lyftuna og niður ef þeim kæmi slíkt í hug.
    Afgreiðsluborð í fangageymslu voru til skamms tíma með hvössum köntum og nóg af bríkum og brúnum til að ná handfestu á. Þetta var loksins lagfært í vor og þótti mikil bót að.
    Fangaklefarnir eru með steinbálkum og steingólfi. Settar eru svampdýnur á steinbálkana. Bálkarnir eru það háir að menn meiðast iðulega við að falla af þeim niður á steingólfið. Niðurföll eru alls staðar inni í klefunum. Það gerir þrifnað nokkru einfaldari en gefur föngum tækifæri til að losa sig við fíkniefni eða annað smátt sem þeim hefur tekist að leyna innanklæða. Gólfin eru lökkuð og geta reynst hál ölvuðum mönnum á sokkaleistum. Af þeim sökum hafa þó nokkrum sinnum orðið minni háttar slys í geymslunni.
    Sumir fangar reyna að skaða sig með því að lemja höfðinu við veggi eða hurðir. Nauðsynlegt er að hafa einhverja klefa svo búna að þeir geti ekki skaðað sig. Gott væri að hafa sérstakan eftirlitsklefa fyrir þá fanga sem verst eru á sig komnir.
    Hljóðeinangrun er mjög ábótavant og iðulega halda einn eða tveir fangar vöku fyrir hinum með öskrum og barsmíðum meiri hluta nætur. Engin hljóðeinangrun er í lofti á gangi fangageymslu og berst því hávaðinn um allt húsið.
    Ærin nauðsyn er á almennilegu eldvarnarkerfi í fangageymslu. Að vísu eru reykskynjarar á ganginum, en engir í fangaklefum. Hefur þó komið fyrir að fangar hafa kveikt í dýnum sínum og verið að köfnun komnir er fangaverðir urðu varir við reykinn. Ekki er fyrir hendi hlífðarbúnaður til meðhöndlunar fanga í mjög óþrifalegu ástandi eða hugsanlegra smitbera.
    Ekki liggur ljóst fyrir um stjórnunarskyldur og ábyrgð í fangageymslu. Enginn aðili hefur virkt eftirlit með daglegum rekstri fangageymslunnar. Ekki fer þar fram nein skipuleg fræðsla eða þjálfun starfsfólks og ekki er um að ræða neina þjálfun í notkun þess búnaðar sem þar er til staðar. Ekki er á lausu aðstaða fyrir varðstjóra til að taka framburðarskýrslur af mönnum í fangageymslu eða vinna þar að framhaldi mála á annan hátt.
    Fangageymsla lögreglunnar er að miklu leyti notuð sem móttökustaður fyrir menn illa farna sökum drykkjusýki og lyfjanotkunar og á vegum lögreglunnar er síðan unnið drjúgt starf til aðstoðar þessum hópi. Eins virðist fangageymslan vera orðin ein helsta leiðin til neyðarvistunar illa farinna geðsjúklinga. Eru sumir reyndar í höndum okkar vikum og jafnvel mánuðum saman áður en lausn fæst á þeirra málum. Því miður skortir alla aðstöðu til að veita þessum aðilum lágmarksaðhlynningu.
    Samstarfið við borgarlæknisembættið um þessi efni hefur verið prýðilegt og starfsmenn þar með eindæmum þolinmóðir við að sinna kvabbi okkar. Full ástæða er þó til að fylgjast reglulega með heilsufari og ástandi utangarðsmanna þjóðfélagsins. Eins er drjúgt að gera um helgar vegna minni áverka og blóðsýnistöku. Teppast stundum tvær til þrjár lögreglubifreiðar uppi á slysadeild í einu og verður biðin stundum drjúg ef starfsfólkið er önnum kafið eins og tíðum er á næturvöktum um helgar. Það er því ærin þörf á aukinni læknisþjónustu og sérstaklega á læknavakt að nóttu til um helgar.
    Sú breyting var gerð á síðasta vetri að starfsemi Miðborgarstöðvar og Árbæjarstöðvar var mjög skorin niður. Stöðvarnar voru að mestu slitnar úr samhengi við löggæsluna í hverfunum sem næst lágu og heimildir til afgreiðslu mála í flestu teknar af starfsmönnum þar. Ekki verður með góðu móti séð hver ávinningur var með þessarri breytingu en vankantarnir eru augljósir.
Miðborgarstöð.
    Fyrir nokkrum missirum var að jafnaði fimm manna hópur á hverri vakt á Miðborgarstöð, varðstjóri, aðstoðarvarðstjóri og þrír lögreglumenn aðrir. Auk þess voru þrír til fjórir lögreglumenn á fastri dagvakt á virkum dögum. Gerð var út eftirlitsbifreið frá stöðinni. Á annasömum dögum voru iðulega menn á aukavakt og síðan nokkur liðsauki á næturvöktum um helgar. Sá mannafli fór eftir ástandinu sem hverju sinni ríkti í miðborginni.
    Þegar mannsöfnuðurinn var sem mestur á Hallærisplaninu um árið var fjölmennur hópur lögreglumanna með sérstakan bíl þar til löggæslu. Loksins var gripið til þess ráðs að fjölga þar enn frekar nokkrar helgar og hreinsa til. Þar með var þeim vanda útrýmt á skömmum tíma. Oftar hefur það sýnt sig að auðvelt er að losna við óþægindi af slíkum ólátahópum með sérstöku átaki og koma þannig á betri almannareglu og næði en spara um leið löggæslu til lengri tíma.
    Á Miðborgarstöð voru afgreidd flest þau mál sem til féllu á miðborgarsvæðinu. Um helgar var að vísu oft farið beint á aðalstöð með þau mál sem ótvírætt stefndu til vistunar í fangageymslu. Þegar tekið var upp á að manna einn bíl sérstaklega til erfiðari útkalla tók áhöfn Miðborgarbifreiðar við eftirliti í Vesturbæ.
    Með breytingunni sl. vetur var höggvið á tengslin milli stöðvarinnar og löggæslu á miðborgarsvæðinu. Eftirlitsbifreiðin var tekin undan forræði stöðvarinnar og þar aðeins ætlaðir til verka aðstoðarvarðstjóri og einn lögreglumaður, báðir skráðir frá aðalstöð. Var þá greinilegt að engar hugmyndir voru uppi um að nýta tengsl við stofnanir, fyrirtæki eða einstaklinga í grenndinni og innimönnunum tveimur ekki ætlað annað en húsvarsla og innheimtustörf. Öll eiginleg afgreiðsla mála átti að fara fram á aðalstöð. Öll löggæsla á næturvöktum um helgar var skráð frá aðalstöð og undir verkstjórn þaðan.
    Endapunkturinn á þessu var nú í sumar er móttökutæki (scannerar) voru teknir úr Miðborgar- og Árbæjarstöðvum. Þar með var komið í veg fyrir að unnt væri að fylgjast með hvernig mál gengju fyrir sig og hindrað að menn staddir þar inni gætu brugðið skjótt við ef vanda bar að höndum. Í sumar var sérstakur varðstjóri settur til verka að degi til á virkum dögum og honum fyrst og fremst ætlað að stjórna föstu dagvaktinni. Ekki var ætlast til að hann hefði frekari stjórnun eða frumkvæði með hendi.
    Verksvið föstu dagvaktarinnar á stöðinni hefur breyst á síðustu missirum, ekki síst með tilkomu stöðuvarða Reykjavíkurborgar. Þannig hafa verkefnin
vegna stöðu bifreiða minnkað, enda ótækt að láta tvo hópa með ólíkan starfsmáta sinna viðlíka verkefni á sama svæðinu. Verstu stöðubrotin hafa síðan verið afgreidd með aðstoð kranabifreiðar og er það til stórra bóta. Bifreið þessi hefur verið mönnuð frá aðalstöð, en eðlilegra væri að gera hana út frá Miðborgarstöð.
    Helstu verkefni lögreglumanna á fastri dagvakt eru því eftirlit á verslunarsvæðinu, einkum í göngugötunni, aðstoð vegna jarðarfara og stöku sinnum liðkun fyrir umferð. Full ástæða virðist vera til að nýta þennan mannafla betur, t.d. með sambandi við fyrirtæki og stofnanir á miðborgarsvæðinu og samvinnu við þessa aðila. Á þann veg væri vafalaust unnt að vinna gott og þakklátt verk. Þá þyrfti varðstjóri á Miðborgarstöð að hafa víðtækara umboð til verka og stjórnunar.

Árbæjarstöð.
    Fyrir nokkrum missirum var gerð tilraun með breytta skipun löggæslu í Árbæjar- og Breiðholtshverfum. Breiðholtsbifreið var að miklu leyti færð undir stöðina, mannafli þar aukinn og tekið upp nýtt stjórnunarkerfi með stöðvarstjóra og þremur varðstjórum sem höfðu annað vinnukerfi en hinir starfsmennirnir. Um leið voru gerðar tilraunir með nýtt vaktakerfi fyrir hina almennu lögreglumenn sem þarna störfuðu.
    Hér var um að ræða prófun á hugmyndum úr IKO-skýrslunni norsku.
    Sumt af þessum nýjungum reyndist miður. Vaktkerfið nýja var starfsmönnunum óhægt og féll illa saman við eðli og þarfir löggæslunnar. Það var því fljótlega lagt niður. Stjórnunarkerfið reyndist misjafnlega og vera má að það hafi ekki verið framkvæmt á réttan veg. Ágætt tækifæri bauðst til forvarna, grenndarlöggæslu og frumkvæðis á stóru svæði, en því miður var það ekki nýtt. Samt fylgdu því allnokkrir kostir að einn maður væri öðrum fremur ábyrgur fyrir stöðinni og löggæslu þaðan.
    Hins vegar reyndist ótvírætt til bóta að gera tvo eftirlitsbíla út frá stöðinni. Svo hét að annar væri Árbæjarmegin en hinn Breiðholtsmegin. Í reynd störfuðu áhafnir þeirra sem teymi. Þannig fékkst mun virkari löggæsla en ella á svæðinu. Sömu mennirnir unnu saman dag eftir dag, sömu málum var fylgt eftir dögum saman þegar aðstæður kröfðu þess og þekking á málefnum, staðháttum og vandkvæðum skilaði í flestum efnum mun drýgri árangri. Áberandi var hve margir leituðu til stöðvarinnar um úrlausn mála á þessum tíma.
    Það er vafalítið að löggæsla á svæðinu var þá virkari en hún hefur verið í annan tíma.
    Ábendingum til yfirstjórnar um vankanta á stjórnunarkerfi var loksins svarað með því að hætta við öll nýmælin og hverfa til fyrra ástands. Það var augljóst að þessu fylgdi mun lakari löggæsla á svæðinu öllu.
    Á síðasta vetri var síðan hætt við alla löggæslu frá stöðinni og var þá lítið annað gagn af henni en sem afdrepi fyrir lögreglumenn sem skráðir voru til verka í austustu hverfunum. Einn maður var að vísu hafður á stöðinni til símaþjónustu og húsvörslu fyrir ÁTVR, en hann var slitinn úr öllu sambandi við það sem var að gerast í nágrenninu og hafði ekki umboð til afgreiðslu mála eða til stjórnunar. Öll afgreiðsla verkefna hefur því farið langan veg niður á aðalstöð. Af því hljótast oft verulegar frátafir eftirlitsbíla. Nú mun vera áformað að loka stöðinni að kvöldi og nóttu til. Ekki er unnt að sjá hverjum tilgangi það þjónar að hafa þarna einn mann að deginum. Meðan stöðin var rekin á virkan hátt var hún mikilvæg sem öryggis- og upplýsingarmiðstöð að vetri til vegna umferðar austur um fjall og víðar. Eins bárust þangað tilkynningar, upplýsingar og aðstoðarbeiðnir vegna útivistarsvæðanna þarna í grennd, einkum Víðidals, Heiðmerkur og Bláfjalla. Haldið var uppi reglubundnu eftirliti á Suðurlandsvegi og svæðunum í kring, sem mun nú að mestu af lagt. Staðkunnátta heimamanna gerði alla aðstoð á austursvæðunum, jafnt á vetri sem sumri, mun auðveldari og öruggari en ella. Mörg verkefnin byggðu á sérþekkingu starfsmannanna. Oft voru löggæsluverkefni leyst í samvinnu við lögreglu í nágrannabyggðum, einkum Árnessýslu.
    Eftirlits- og frumkvæðisþáttur löggæslu á þessum svæðum er nú lítill sem enginn. Útköllin eru, eðli mála samkvæmt, lakar leyst af hendi og á vaktaskiptum hverfur öll þjónusta lögreglu til aðalstöðvar. Því er löggæsla í austurhverfum borgarinnar alls engin drjúgan tíma á hverjum vaktaskiptum.
    Þegar starfsemi útstöðvanna var breytt um sl. áramót var áformað að nær öll stjórnun löggæslu og afgreiðsla mála færi fram á aðalstöð. Ekki var þá aðeins kippt verkefnum frá útstöðvunum heldur einnig aukinn erillinn hjá varðstjórum á aðalstöð. Því hrannast upp verkefni á helstu annatímum, tveir til þrír bílar eru tepptir á aðalstöð í einu af þessum sökum þegar þeirra er mest þörf á varðsvæðunum, fara verður með málin úr ytri hverfum til afgreiðslu á aðalstöð og síðan þarf að þeysa í úthverfin aftur. Þannig er bílaflotinn dreginn til aðalstöðvar og stór svæði löggæslulaus á meðan.

Löggæsla um helgar.
    Mestur erill við lögreglustörf er að nóttu til um helgar. Þá er auðvitað mest um aðsteðjandi vandræði og útköll eða aðgerðir vegna þeirra, en jafnframt er þá einnig mest um sum þau brot sem leynt fara og því í raun mesta þörfin á eftirliti á þessum tíma.
    Ástandið í miðborg Reykjavíkur á föstudags- og laugardagskvöldum mótast mjög af þeim aðstæðum sem þar eru nú. Ekki er við því að búast að einfaldar aðgerðir lögreglu dugi til að bæta þar úr.
    Í miðborginni eru nokkrir skemmtistaðir, bæði dansstaðir og önnur öldurhús. Síðan hefur það löngum verið lenska að ungmenni hafa safnast saman á svæðinu og fylgir því ætíð nokkur drykkja og órói. Hefur gengið á ýmsu hér á árunum, en ástandið oftast verið með hæfi. Um tíma var að vísu nokkur garri kringum Hallærisplanið svonefnda en vandalaust var að halda honum niðri og að lokum var málið leyst með skipulegum aðgerðum fremur fámenns hóps lögreglumanna þrjár helgar í röð.
    Síðan hefur ástandið í miðborginni um helgar verið þolanlegt þar til fyrir þremur missirum þegar heimildir til greiðasölu að næturlagi voru rýmkaðar. Fóru þá að aukast mjög vandræði vegna mannsafnaðar að nóttu til um helgar. Fyrir ári var síðan opnaður nýr skemmtistaður þar sem áður var Nýja Bíó. Lögreglumenn vöruðu mjög eindregið við að hafa þarna stóran skemmtistað, en því var ekki sinnt. Því miður reyndumst við sannspáir um vandræðin. Dyrnar að staðnum snúa út að fjölförnum gatnamótum og teppist umferð þar mjög er líða tekur á kvöldið. Verður þessi hnútur til að draga að þá sem eru á reiki í miðborginni. Á þessu svæði er síðan greiðasala úr allmörgum vögnum og söluopum fram eftir allri nóttu. Því er ekki nema von að fólk safnist þarna saman og fari ekki brott meðan eitthvað er við að vera.
    Það er greinilegt að æsingur, spenna og ofbeldi hafa farið í vöxt á undanförnum árum. Orsakirnar verða ekki ræddar í þessum sóknum, en okkur býður í grun um þær sumar. Nú er harðnandi tíð í þjóðfélaginu og er það eftir reynslunni að búast megi þá við erfiðari tíma fyrir lögregluna.
    Árásar- og áverkamál verða sífellt fleiri en meira munar um það hve þau eru mörg orðin hrottalegri en áður. Þetta á ekki síst við um þau sem upp koma í miðborginni um helgar. Til frekara dæmis um ofstopann eru síðan hinar tíðu árásir á lögreglumenn í starfi sem þarna hafa orðið. Flestir hafa heyrt af þeim ávæning og hafa þó vart önnur tilvik komist í fjölmiðla en þau sem áverkar og meiðsli fylgdu. Gerist það um hverja helgi að fleygt er í lögreglumenn tómum flöskum eða öðru sem áverkum gæti valdið.
Það var greinilegt að ofstopi gagnvart lögreglu og árásarmál urðu fyrst áberandi eftir galdrafár í vissum fjölmiðlum á síðasta vetri og greinilegt að árásarmennirnir báru fyrir sig þá vonsku lögreglunnar sem þeir töldu sig hafa sannfrétt.
    Til löggæslu í miðborginni eru að jafnaði tólf menn gangandi, gerðir út frá aðalstöð. Hafa þeir lengst af ærinn starfa við að loka gatnamótum á þremur stöðum og reyna að beina umferð frá miðborgarsvæðinu. Engin eftirlitsbifreið er höfð föst til staðar á svæðinu, en þó er reynt að halda einni eða fleiri bifreiðum þar nærri. Það gengur þó misjafnlega þegar mest á bjátar því þá er tíðum afgreiðslubið á aðalstöð og þungt að losa bíla til verkanna.
    Ef eitthvað kemur upp á í þessum mannsöfnuði um helgar er nauðsyn að bifreið sé til staðar þannig að unnt sé að ganga beint til verks og óróaseggjunum komið rakleitt af vettvangi áður en nærstaddir reyna að ráðast á bifreiðina eða lögreglumennina. Annars hljótast aðeins verri vandræði af.
    Eins og fyrr er getið er Miðborgarstöð að mestu leyti haldið utan við löggæsluna og hún gerð óvirk til afgreiðslu mála. Væri þó hægt að afgreiða þar margt af því sem til fellur. Það er samt ljóst að nauðsyn er að breyta þannig húsnæðinu að unnt sé að hindra inngöngu óviðkomandi og ofstopafulls fólks.
    Mannaflinn til löggæslu um helgar dugar engan veginn til annars en að koma í veg fyrir stórfelld skemmdarverk og meiri háttar líkamsmeiðingar. Meiri liðsafli gæti haldið skrílslátunum betur niðri en auðvitað er ekki unnt að losna við vandann meðan hóparnir hanga utan við nætursölurnar og umferðarhnúturinn framan við skemmtistaðinn í Lækjargötu dregur að sér mannsöfnuðinn.
    Ljóst er að fyrst verður að loka þessum stöðum. Þá er loksins unnt að koma í veg fyrir skálmöldina í miðborginni og hægur vegur að koma þar á spekt aftur og gera hinum almenna borgara kleift að ganga þar öruggur um helgar.
    Óspektirnar í miðborginni draga að sér mannafla og bifreiðar lögreglunnar. Þar með dregur úr allri löggæslu annars staðar. Þannig verður stór hluti Reykjavíkursvæðisins án löggæslu og oft langan veg að fara til aðstoðar í málum þar sem mikið liggur við. Því skapast vandi og hætta um allan bæ meðan ástandið í miðborginni varir. Það verður ekki lengur við þetta unað, en hér verður atbeini borgaryfirvalda að koma til.
    Sumir fullyrða ef til vill að ólætin færist þá annað og einhverjir bæta jafnvel við að einhvers staðar verði vondir að vera. Þetta eru bábiljur. Það hefur áður sýnt sig að ólæti spretta ekki upp annars staðar þegar þeim er útrýmt á einum vettvangi, nema sérstaklega sé boðið upp á aðstöðuna til þess.

Ökutæki lögreglunnar í Reykjavík.
    Nýlega var gerð úttekt á bílaflota lögreglunnar í Reykjavík. Skoðaður var hálfur fimmti tugur bifreiða og kom í ljós að fullur tugur þeirra var þá í ónothæfu ástandi. Fleiri bílar töldust svo illa farnir að þeir væru ekki á vetur setjandi. Af þessum sökum hafa dómsmálaráðuneyti og lögreglustjóraembættið leitað eftir því við fjárveitingavaldið að fé fáist til kaupa á 14 lögreglubifreiðum umfram venjulega úthlutun svo að unnt sé að hefja reglubundna endurnýjun frá eðlilegum grunni.
    Undangengin ár hefur útgerð bílaflotans verið á þann veg að engum þurfti að koma þessi niðurstaða á óvart. Hafði lögreglufélagið ítrekað gengið eftir því við embættið að svona úttekt væri gerð. Var þannig komið að ein bifreiðin átti hálft áttunda hundrað þúsund kílómetra að baki og önnur lítið skemmri vegalengd. Þó nokkrar eftirlitsbifreiðir höfðu náð um hálfri milljón kílómetra. Þarf engum að segja stórt um ástand eða gagnsemi slíkra bíla.
    Þær tegundir bifreiða, sem helst hafa verið notaðar hér til löggæslu, hafa reynst vel í sumum greinum, einkum að því er varðar endingu og trausta útgerð.
    Volvo fóksbifreiðarnar eru e.t.v. nokkuð þunglamalegar í akstri, en verra er að ekki hafa verið keyptar þær gerðir sem ætlaðar eru til löggæslu. Því er styrkur og öryggisbúnaður þeirra lakari en skyldi og eins hafa verið keyptar gerðirnar með minnstu vélarafli. Því verður allur forgangsakstur mun hættulegri en ella.
    Stærri bifreiðarnar eru flestar af gerðinni Ford Econoline. Þær hafa reynst frábærlega traustar eins og kílómetramælirinn hefur glöggt vitnað um og gott er að vinna í þeim til flestra hluta. Hins vegar er öryggisbúnaður þeirra mun lakari en hófi gegnir. Munar þar mestu um að hemlakerfi er einfalt og þolir ekki forgangsakstur. Hitnar þá hemlabúnaðurinn og við það missir bifreiðin hemlunarhæfni. Er auðvitað ljóst að stór slys geta hlotist af þessu. Forgangsakstur lögreglu er oftast vegna aðsteðjandi neyðar á vettvangi. Er þá oft um mannheill eða jafnvel mannslíf að tefla.
    Nokkrar tilraunir hafa verið gerðar með aðrar gerðir bifreiða og þá jafnan ódýrari bifreiðar eða veigaminni. Hafa þær tilraunir allar farið illa, enda eru þeir bílar sjaldnast gerðir til að þola harða notkun. Vafalítið er unnt að finna gerðir bifreiða sem henta jafn vel til löggæslu eða betur, en þá verður að líta á aðra slóð. Því miður hefur val á bifreiðum verið í höndum annarra en þeirra sem þekkingu hafa í þessum efnum.
    Skondnasta ævintýrið í þessum málum var þó er keyptur var Volkswagen Transporter með fjórhjóladrifi. Kunnáttumenn vöruðu við því að sá bíll væri engan veginn nógu sterkbyggður til löggæslu. Fór líka svo að hann átti langa gistingu á verkstæðinu og hlaut fljótlega nafnið „einnota bíllinn“, því hann dugði sjaldnast meir en einn dag í senn eftir hverja viðgerð. Það sýndi sig líka að bíllinn var á allan hátt óhentugur til löggæslustarfa. Engu að síður voru keyptir tveir bílar í viðbót, án fjórhjóladrifs, og hefur allur ferill þeirra verið svipaður og þess bílsins sem fyrir var.
    (Enginn veit hvað olli, en aldrei fyrr eða síðar hefur nokkur bifreið verið kynnt á sama veg og fyrsta Volkswagenbifreiðin. Voru flestir lögreglumenn dregnir til að skoða auglýsingarkvikmyndir frá verksmiðjunum um ágæti bílsins. Þótti mönnum þetta tilstand hlægilegt og gengu glósur um að verið væri að réttlæta boðsför nokkurra fyrirmanna til Þýskalands skömmu áður en kaupin voru gerð.)
    Lögreglumenn eru sammála um að búnaður sá sem í bílunum er þyrfti að vera mun betri og meiri. Hitt er þó verra að ekkert skipulegt eftirlit er með búnaði þessum eða með bifreiðunum sjálfum. — Í grannlöndum okkar, og sums staðar hérlendis, tíðkast að gera krossaskýrslu um ástand og búnað bifreiðanna í byrjun hverrar vaktar eða a.m.k hvers dags.

Umferðarmál.
Umferðarlöggæsla — mannafli — skipulag.
    Árið 1984 voru fjórar vaktir í umferðardeild lögreglunnar í Reykjavík og er það fyrirkomulag óbreytt enn í dag. Árið 1984 voru hins vegar níu til tíu menn á hverri vakt en nú eru þeir fimm til sex þegar best lætur. Nú í haust, meðan lögregluskólinn starfar, eru aðeins þrír eða fjórir menn á hverri vakt. Þrjár vaktir gegna nú verkum hvern dag og er nú mannfjöldinn á þeim öllum samtals ámóta og var á hverri vakt fyrir fimm árum. Á sama tímabili hafði umferðardeildin á að skipa fimm bifreiðum og fjórtán bifhjólum en hefur í dag fjórar bireiðar og tíu bifhjól. Tvær þessara bifreiða eru nýlegar en hinar mjög slitnar. Eitt bifhjólanna er nýlegt og sex önnur í þokkalegu átandi en þrjú eru svo léleg að þau verða vart notuð nema mikið liggi við.
    Byggð í Reykjavík hefur aukist verulega undangengin fimm ár. Á sama tíma hefur lögreglustjóraembættið tekið við löggæslu á Seltjarnarnesi, í Mosfellsbæ og Kjósarsýslu. Við þessar breytingar fylgdu tveir menn á Seltjarnarnesi en Mosfellsbæjarvaktin var tekin af höfðustól borgarlögreglunnar bótalaust. Það er vönum starfsmönnum umferðardeildarinnar ráðgáta hvernig þetta á að geta
gengið upp. Langtum fjölmennara lið hafði gengið að störfum árum saman án þess að falla verk úr hendi, svo heitið gæti, enda hafa verkefnin í umferðarmálum sífellt aukist. Skráðum ökutækjum í Reykjavík einni hefur fjölgað á annan tug þúsunda á sama tíma og umferðarlöggæslan hefur gengið saman. Árið 1984 var einn lögreglumaður í umferðardeild á hver 1000 skráð ökutæki en í dag er einn lögreglumaður á hver 1930 skráð ökutæki. Eru þá ótalin skráð ökutæki nágrannabyggðarlaganna sem óhjákvæmilega blandast borgarumferðinni mikið.

Verkefni umferðardeildar.
    Meðal skylduverka deildarinnar á undangengnum árum má telja þessi:
    Eftirlit með hraðatakmörkum, umferð um gatnamót með umferðarljósum, stöðvunarskyldu og ýmsum öðrum bannmerkjum auk þess að sinna bifreiðastöðumálum. Þá hefur deildin séð um aðstoð við húsaflutninga og önnur viðlíka verkefni og ekki síst hafa starfsmenn deildarinnar sinnt umferðarstjórn þegar á hefur þurft að halda.
    Á hverju hausti hefur það verið eitt skylduverkanna að fylgjast með umferð í nágrenni grunnskóla síðustu daganna fyrir skólasetningu og reyna þann hátt að draga úr umferðarhraða þar áður en skólahald hefst. Hefur þessu eftirliti síðan verið fylgt eftir annað veifið allan veturinn. Á þessu hausti brá svo við að þessum verkefnaþætti var ekki sinnt. Stafaði það m.a. af því að breytingar voru gerðar á umferðarljósum víða í borginni. Þurfti fleiri menn til umferðarstjórnar á meðan og lagðist þá skólaeftirlitið af með öllu. Þá má og heita að þær radarmælingar sem flestir þekkja, þegar áhafnir tveggja bifreiða stóðu saman að verkinu, hafi að mestu fallið niður að degi, enda er ekki lengur mannafli til. Stundum er þetta þó gert að kvöldlagi og þá mannað með aukavinnu.

Ölvunarakstur og ökuleyfissvipting.
    Eftirliti með umskráningu og tilkynningu eigendaskipta hefur ekki verið hægt að sinna síðustu tvö ár. Þá hefur og dregið mjög úr eftirliti með ástandi ökutækja, þar sem áður var öflugt samstarf lögreglu og bifreiðaeftirlits.
    Á þessu hausti hafa talsvert færri ökumenn verið staðnir að ætlaðri ölvun við akstur en undanfarin ár, enda er allt eftirlit mun minna en áður var. Á sama tíma hefur fjölgað þeim tjónvöldum í umferðinni sem grunaðir eru um ölvun við akstur. Hefði þó mátt búast við að fækkaði þeim tilvikum sem fram kæmu eftir að afskipti lögreglunnar af umferðarslysum drógust saman. Sú þróun vekur upp ótta við að menn hafi gengið á lagið og ölvunarakstur hafi aukist að mun með minnkuðu eftirliti.
    Umferðardeildin hefur árum saman haldið nákvæma skrá um þá sem sviptir eru ökuréttindum vegna ölvunar við akstur eða af öðrum sökum. Á undanförnum mánuðum hefur ekki verið unnt að vinna þá skrá, nema með höppum og glöppum, og því verið talsverð óvissa um hverjir hefðu hlotið sviptingu nýlega. Til skamms tíma var síðan reynt að fylgjast kerfisbundið með því að þeir héldu sviptinguna sem hlutu hana. Til þessa hefur enginn tími verið undanfarið og helst að komist upp um þá sem aka sviptir ef þeir eru stöðvaðir af öðrum sökum og krafðir um skírteini.
    Aðstaða lögreglumanna til að kanna ökuréttindi þeirra sem afskipti eru höfð af er afar bágborinn. Er til skammar að ekki sé fyrir löngu búið að tölvuvæða ökuferilsskrána og gera hana aðgengilega hvenær sólarhringsins sem er. Fyrir löngu var tilbúið gagnaskráningarkerfi í þessu skyni, en staðið hefur á afgreiðslu dómsmálaráðuneytis.
    Það hefur færst í vöxt að fólk hafi ekki ökuskírteini meðferðis og telji það ekki ofverk lögreglunnar að láta kanna réttindi þess á stöðinni gegnum talstöð. Sá böggull fylgir þó skammrifi að fólk er oft ekki með nein önnur persónuskilríki og segir rangt til nafns, hefur lært nafn og kennitölu vinar eða ættingja. Sé um umferðalagabrot að ræða fylgir oft samkomulag við viðkomandi um að hann kannist við brotið ef hann fái sektarboð og gera menn svo dæmið upp sín í milli.
    Full þörf er á að breyta afgreiðslu slíkra mála og leggja ríkari skyldur á herðar þeim sem hljóta ökuréttindi. Það verður að leggja sönnunarbyrðina á ökumanninn um að hann hafi ökuréttindi, en ekki öfugt.

Almenn löggæsla og umferðarlöggæsla.
    Vorið 1987 var tekið upp svokallað „breytt skipulag“, þar sem almenna deildin var hvött til aukinna afskipta af umferðarmálum. Var fyllilega þörf á þeirri viðbót. Hafði þá undanfarið verið skorinn rækilega niður mannaflinn í umferðardeild og því dregið úr allri starfsemi þar. Ein eftirlitsbifreið hafði verið færð frá umferðardeildinni yfir í almennu deildina og fjórum bifhjólum lagt. Var nú farið að sýna sig að skert umferðarlöggæsla hafði leitt til vandræða.
    Þetta umferðarátak almennu deildarinnar skilaði verulegum árangri en stóð stutt. Um haustið var gripið til niðurskurðar á löggæslu í almennu deildinni. Reyndist þá varla unnt að sinna fleiru en nauðsynlegustu útköllum og umferðareftirlit þar hefur síðan að mestu legið niðri.
    Þótt vel hafi verið unnið á þessum tíma urðu líka vandræði vegna ólíkra vinnubragða. Hver og einn getur ímyndað sér að löggæslan verður ómarkvissari þegar stjórnun er á margra höndum og hægri höndin veit vart hvað sú vinstri gerir. Deildaskipting þeirra sem vinna að sömu málum leiðir að sjálfsögðu oft til tvíverknaðar.
    Það er álit þeirra sem mest hafa að þessum málum unnið að skipulagri umferðarlöggæslu sé best stýrt frá einum stað. Það reynist sjaldan vel að allir séu að vinna í því sama og þá af takmarkaðri innsýn og þekkingu. Þar fer betur að fámennari hópur vinni verkið af þekkingu og geti verið í fyrirsvari þegar óprútnir náungar hyggjast reka þá á gat. Því virðist þörf á að endurskipuleggja umferðardeildina til fyrra horfs og bæta þar þá heldur við.

Almenningur og umferðarlöggæslan.
    Athyglisvert er að í umræðu undangenginna ára hefur sífellt verið um það rætt og ritað að efla þurfi umferðarlöggæsluna, herða viðurlög við brotum og beita virkari aðferðum við að ná til þeirra brotlegu. Hópar áhugafólks hafa varið miklum fjármunum til áróðursherferða, auk ómældrar sjálfboðavinnu. Eðlilegt hefði verið að virkt samstarf tækist með þessum hópum og lögreglunni en ekki hefur orðið úr neinu slíku.

Eftirlit í óauðkenndum bifreiðum.
    Það hefur lengi verið viðkvæmt mál hjá sumum ráðamönnum að lögreglumenn vinni störf sín fyrir opnum tjöldum og væru almenningi jafnan sýnilegir. Hefur vart mátt minnast á óauðkenndar bifreiðar, hvað þá óeinkennisklædda lögreglumenn með viðurkennd lögregluskilríki. Árangur hefur hins vegar reynst drjúgur þá sjaldan þetta hefur verið gert og þær aðgerðir iðulega reynst öruggari og hættuminni.
    Í nágrannalöndunum opnuðust augu manna fyrir þessu fyrir mörgum árum þó við sofum enn á verðinum. Til að lögregla verði vitni að því sem gerist á degi og vegi þarf hún að falla inn í fjöldann og berast með straumnum án þess að það veki eftirtekt. Enginn brýtur af sér í návist lögreglu. Ef til vill er rökrétt að leggja það út á þann veg að með návist sinni komi lögreglan í veg fyrir að brot sé framið. Auðvitað fara brotin fram þegar lögreglunnar nýtur ekki lengur við og þá er enginn til að ná hinum brotlegu. En óvissan um í hvaða mynd lögregluna ber niður er einmitt líkleg aðferð til forvarna. Það hefur enda komið í ljós að þegar óauðkennd bifreið er notuð reynast ásetningsbrotin vera í meiri hluta, en ekki óviljaverkin.
    Þegar svokallað umferðarátak var í gangi síðastliðinn vetur var ítrekað staðhæft í fjölmiðlum að radarmælingar stæðu yfir í ómerktum bifreiðum. Dró greinilega úr ökuhraða fyrst á eftir. Þegar enginn varð aðgerðanna var jókst hraðinn aftur til fyrra horfs.
    Engum blöðum þarf um það að fletta að frá öryggissjónarmiði er hægara að vinna sum störf óauðkenndur. Má þar nefna afskipti af unglingum á léttum bifhjólum sem aka um göngustíga íbúðarhverfa. Til þeirra er hægt að ná á þennan hátt gangandi á stígnum í stað þess að stofna til eftirfarar sem getur reynst öllum til hættu.
    Nýlega var dreift til lögreglumanna hugleiðingum um hætturnar sem felast í óslitinni eftirför lögreglubifreiðar og þar vitnað til þess að slík æsingaaugnablik heyri brátt kvikmyndatjaldinu til. Augljóst er að menn í ómerktri bifreið hafa betra svigrúm til að meta aðstæður og stýra verkum ef ná þarf til ökumanna sem líklegir eru til afstungu. Þeir eiga einnig betra með að láta til skarar skríða á réttu andartaki.

Þjóðvegalögreglan.
    Um árabil hefur vegalögregludeild embættisins haldið uppi eftirliti á þjóðvegum landsins. Hefur hún reynst drjúg viðbót við löggæslu á landsbyggðinni á þeim tímum þegar umferðin er mest og eins haldið uppi virku eftirliti og umferðarlöggæslu á helstu vegum landsins árið um kring.
    Til þessa starfa hafa verið gerðar út fjórar bifreiðar og hefur verið einn fastur starfsmaður á hverri þeirra. Honum til aðstoðar hefur verið settur einn maður úr umferðardeild að vetri til. Yfir sumartímann hefur verið bætt við tveim bifreiðum og sex bifreiðar gerðar út yfir hásumarið. Með auknum straumi erlendra ferðamanna sem hingað koma með eigin ökutæki hefur þörfin fyrir þessa löggæslu síst minnkað á liðnum árum.
    En hnífurinn hefur einnig komið við hjá þessari deild. Sumarið 1987 voru aðeins gerðar út fjórar bifreiðar, auk einnar jeppabifreiðar sem höfð var á hálendinu síðastliðið sumar var enn skorið niður og fækkað um jeppabifreiðina, þannig að aðeins fjórum bifreiðum var haldið úti. Tvo undanfarna vetur hefur tveimur bifreiðum verið lagt og áhafnir þeirra sameinaðar í tvær.
    Þrátt fyrir vaxandi slysatíðni á þjóðvegunum virðist fjárveitingavaldið ekki sjá sig knúið til að bæta stöðu löggæslunnar.

Rannsóknardeild.
    Verkefni almennrar rannsóknardeildar snúast að mestu leyti um umferðarmál. Þrír málaflokkar eru þar fyrirferðarmestir:
    1. Ölvunarakstur.
    2. Of hraður akstur.
    3. Réttindaleysi við akstur.
    Frumskýrslur í þessum málaflokkum eru þess eðlis að senda mætti öll einföld og ágreiningslaus mál beint til dómsstóla. Ekkert ætti að vera til fyrirstöðu að bjóða dómsátt á gundvelli fyrrnefndra gagna, eins og reyndar er gert víða um land, og senda aðeins ágreiningsmál og ítrekunartilvik áfram til frekari lögreglurannsóknar og ákvörðunar saksóknara. Þar með gæfist rannsóknarlögreglumönnum betri tími til rannsóknar áverkamála og annara þeirra mála er meira þurfa við.
    Allt frá þeim tíma er framhaldsrannsóknir mála fluttust undan sakadómi hefur það verið kappsmál rannsóknarlögreglumanna í Reykjavík að komið verði á bakvöktum þar, enda iðulega full þörf á að geta kvatt til menn til framhaldsrannsóknar mála utan almenns dagvinnutíma. Hingað til hafa menn ekki átt útkallsskyldu, en engu að síður þolað það að vera kallaðir til starfa þegar mikið liggur við. Þó er skirrst við að grípa til þess þegar ekki liggur ljós nauðsyn fyrir og því hefur rannsókn mála oft beðið skaða af. Eins hafa nýir málaflokkar bæst við, svo sem rannsóknir sjóslysa og erilllinn vegna útkalla aukist.
    Um síðustu áramót breytist meðferð árekstrarmála á þann vega að nú áttu aðilar sjálfir að gera sína skýrslu á vettvangi og senda til tryggingafélags. Reyndin hefur orðið sú að flestir hafa talið ofverkið sitt að útfylla þessi blöð og því kallað til lögreglu.
    Vegna þessarar breytingar var starfsemi slysarannsóknardeildar breytt og annar útkallsbíllinn lagður af. Hinum var ætlað að sinna slysum og öðrum meiri háttar málum. Hann hefur hins vegar verið notaður áfram í smærri málin og þar með fyrst og fremst verið í þjónustu fyrir tryggingafélögin. Það ætti að vera nærtækt verk að reyna að koma starfi slysarannsóknardeildar í það horf sem það átti að vera. Sé tryggingafélögunum akkur í að hafa þjónustubifreið til aðstoðar við skýrslugerð ætti sú starfsemi að vera á þeirra kostnað. Um leið mætti hætta rekstri útkallsbifreiðar að nóttu til og nýta fjármagnið til að kosta virkar bakvaktir rannsóknardeildarmanna.
    Virkar bakvaktir rannsóknardeildar myndu leiða til þess að rannsóknarlögreglumenn yrðu frekar tiltækir á annatímum um helgar þegar mest liggur á um afgreiðslu mála. Eins og málum er háttað í dag er mest áhersla lögð á að hraða afgreiðslu umferðarmála, en eðli mála samkvæmt hafa menn oft þegar á rannsóknarstigi þeirra mála tapað atvinnu sinni, svo sem þar sem
framkvæmd hefur verið bráðabirgðasvipting. Af þessu leiðir að hinn svokallaði A-málaflokkur fær seinni afgreiðslu, enda þau mál oft umfangsmeiri og tímafrekari. Hér er um að ræða mál svo sem minni háttar líkamsmeiðingar, nytjastuld, skemmdarverk og ýmis ágreiningsmál um hagsmuni. Sökum anna hafa mörg þessara mála orðið að sitja á hakanum meira en góðu hófi gegnir, enda starfseminni þannig háttað að rannsóknarlögreglumenn komast lítið frá borðum sínum til nauðsynlegra vettvangsrannsókna.

Ávana- og fíkniefnadeild.
    Starf í fíkniefnadeild lögreglunnar í Reykjavík er ólíkt öðrum lögreglustörfum að því leyti að enginn kemur á lögreglustöð og kærir fíkniefnabrot. Fíkniefnalögreglumaður þarf því að fara af stað og leita uppi brotið. Enn fremur er það mjög sjaldgæft að vitni séu að fíkniefnabroti, því öll meðhöndlun fíkniefna er refsiverð. Síðan er mjög erfitt að finna stað og stund brotsins eða það stutta tímabil sem sölumaður, innflytjandi eða neytandi hefur efnið undir höndum og hægt er að standa hann að verki. Eftir að sú stund er liðin eru sönnunargögn í flestum tilfellum horfin.
    Það reynir og mjög á þolinmæði og þrautseigju lögreglumannsins að gefast ekki upp þótt ekkert standist af upplýsingum um það sem fíkniefnasalinn eða innflytjandinn ætluðust fyrir. Síðan þarf að sannfæra yfirmenn um að nú þurfi mannafla, bílakost í svona langan tíma, þetta marga bíla og fleira sem kostar peninga, til að brot upplýsist. Svo þegar sá tími er liðinn berast oft upplýsingar um að innflytjandinn hafi frestað að flytja inn efnið, sem hann á í geymslu erlendis, eða sölumaðurinn hafi orðið hræddur og grafið efnið sitt í jörðu. Þá þarf að sannfæra yfirmenn um að tíminn og peningarnir sem fóru í málið hafi ekki glatast þrátt fyrir allt, heldur hafi safnast við rannsóknina upplýsingar sem komi að notum síðar. Það er yfirleitt reyndin að þeir sem byrja á fíkniefnaviðskiptum halda þeim áfram þar til þeir reka sig á.
    Snemma á árinu 1988 var tekið í notkun nýtt húsnæði fyrir starfsemi fíkniefnadeildar í kjallara lögreglustöðvarinnar við Hverfisgötu. Hefur starfsaðstaðan öll batnað til muna. Ekki er að vísu hægt að segja að húsnæðið fullnægi öllum nútímakröfum um hollustuhætti á vinnustöðum, en látum það vera. Verra er að ekki er nema eitt yfirheyrsluherbergi og því ekki unnt að taka skýrslu af fleirum en einum í senn, nema fengin séu að láni herbergi hjá öðrum deildum.
    Niðurskurður peninga til löggæslu hefur bitnað illa á starfi við rannsóknir fíkniefnamála. Dregið hefur verið úr aukavinnu, og þótt mönnum hafi
verið fjölgað kemur það auðvitað niður á rannsókn þegar sá sem stjórnar henni og heldur utan um allar upplýsingar er sendur heim er dagvinnu lýkur vegna þess að hann er búinn með aukavinnukótann sinn og annar sem veit minna um málið látinn taka við.
    Örvandi efnin, amfetamín og kókaín, hafa þau áhrif á neytendur að þeir fá alls kyns ranghugmyndir og ofsóknarbrjálæði. Lýsandi er dæmið um amfetamínneytandann sem flestar nætur sat undir eldhúsborðinu með stóran hníf í hendi, tilbúinn að taka á móti ímynduðum óvini.
    Vegna aukinnar notkunar á þessum efnum og afleiðinga þeirra, hefur stóraukist hættan á að lögreglumenn verði fyrir árásum af verra tagi en áður. Því fara fíkniefnalögreglumenn nú jafnan fleiri saman til verka en fyrir tveimur til þremur árum.
    Þrátt fyrir fjölgun starfsmanna hefur bifreiðakostur dregist saman og bifreiðaskortur hefur orðið til þess að mannafli nýtist ekki sem vera skyldi.
    Í sumar er leið fór annar af tveimur umsjónarmönnum fíkniefnaleitarhunda í ársleyfi. Sá sem eftir er er aðeins með einn gamlan hund sem getur orðið ónýtur til verka hvenær sem er.
    Leitarhundur getur að jafnaði farið í fimm til sex leitir á dag eða í tvær til þrjár erfiðar. Þessi eini maður á að sinna fíkiefnaleit um land allt. Hann hefur ekki bakvaktargreiðslur. Síðan á hann auðvitað sín frí og getur þá neitað að koma í leit. Þær leitir sem farið er í án fíkniefnahunds verða því sífellt fleiri og fleiri. Það er mjög slæmt því hundurinn vísar okkur gjarnan á fíkniefni þar sem við hefðum litla eða enga möguleika á að finna þau sjálfir. Hundurinn finnur einnig lykt á stöðum þar sem fíkniefni hafa verið geymd stuttu fyrir leit. Ætíð er handleitað þótt hundur komi til aðstoðar. En án hunds verður leitin tímafrekari og erfiðari og leitarmenn fara af leitarstað óvissari um hvort allt hafi fundist.
    Á þessu ári hafa tveir lögreglumenn hætt störfum í fíkniefnadeild og virðist sem ekki eigi að fylla í þau skörð.
    Áberandi er að lögreglumenn ílendast ekki í fíkniefnadeild. Einn maður hefur að vísu verið þar í tíu ár, en hann er algjör undantekning. Reglan virðist sú að menn gefast upp og færa sig í önnur lögreglustörf innan þriggja ára. Ekki er gott að segja hvað veldur og sennilega verður ekki bent á neitt eitt atriði. Mestu veldur þó vafalaust álagið sem fylgir starfinu og það að geta ekki stjórnað vinnutíma sínum. Þetta kemur mjög illa við allt fjölskyldulíf.
    Lögreglumenn í fíkniefnadeild hafa heldur ekki frið heima fyrir. Hringt er
í þá í tíma og ótíma og þeir þurfa að fara til verkefna á öllum tímum sólarhrings, oft án mikils fyrirvara. Ekki hefur enn orðið af því að þeir fái greitt fyrir bakvaktir á kvöldin og um helgar, þrátt fyrir jákvæðar undirtektir og loforð góðra manna.
    Ekki bætir það úr skák, eins og hefur gerst þó nokkrum sinnum, þegar menn vinna fram yfir aukavinnukótann og fá ekki greidd laun fyrir þá vinnu sína. Það er erfitt fyrir fjölskylduna að skilja slíkt.

Fylgiskjal I.

Um fjarskiptabúnað.
    Um miðjan áttunda áratuginn var ráðist í kaup á nýjum fjarskiptabúnaði fyrir lögregluna í Reykjavík. Fyrri búnaður var að stofni til frá stríðslokum með einhverjum síðari viðbótum. Lítið fjármagn mun hafa verið til ráðstöfunar til þessara kaupa. Vitað var um fjarskiptabúnað, sem til sölu væri frá Bretlandi, frá fyrirtækinu PYE. Á þessum tíma mun aðeins hafa verið um eina gerð af heildarbúnaði frá því fyrirtæki að ræða á því verði sem menn sættu sig við hérlendis. Yfirvöld munu hafa dregið ansi lengi við sig að gefa svör um hvort þau gengju að tilboði þessu frá PYE og aðeins munað hársbreidd að lögregluyfirvöld misstu af þessum búnaði. Telja verður að sérfræðingar hafi verið fengnir til þess að segja til um ágæti þessi búnaðar. Mun m.a. hafa verið stuðst við sérfræðiálit Haralds Sigurðssonar, verkfræðings hjá Pósti og síma.
    PYE fjarskiptabúnaðurinn var með tíðni á sviðinu frá 155mhz til 164mhz. Um aðrar tíðni var ekki að ræða frá PYE í þá daga og hefur þetta tíðnisvið verið notað hér síðan.
    Fljótlega fór að bera á bilunum í þessum fjarskiptabúnaði, einkum í sendum og handtalstöðvum. Hefur svo verið alla tíð að búnaður þessi hefur reynst til vandræða og öryggi lögreglumanna og borgara beðið stóran hnekki af. Ef til vill má ætla að ekki hafi verið völ á betri fjarskiptabúnaði á sínum tíma, þegar horft var svo mjög í peninginn sem reyndin var. Fer þá stundum svo að menn reynast naumir sér til skaða.
    Miklar tilraunir voru gerðar á sínum tíma til að rugla útsendingu fjarskipta löreglunnar fyrir hinum almenna borgara. Starfsmenn Pósts og síma voru fleiri mánuði við tilraunir í þessu efni. Munu þær hafa kostað embættið háar upphæðir án þess að nokkur árangur fengist. Þá hefur miklum fjármunum verið fleygt í viðgerðir og endurbætur á þessum fjarskiptabúnaði.
    Sagt hefur verið að leitað hafi verið að ruglarabúnaði erlendis en hann ekki fundist. Trúlega er hér verið að afsaka fyrrgreindar tilraunir, kunnugt er um fyrirtæki í Þýskalandi, Bretlandi og Bandaríkjunum sem þróað hafa slíkan búnað og og er okkur kunnugt að hann hafi reynst með ágætum hin seinni ár. Framleiðendur á slíkum búnaði hafa sent yfirstjórn lögreglu í Reykjavík upplýsingar um þessi efni en engar fyrirspurnir fengið að því er okkur er tjáð.
    Ávana- og fíkiefnadeild lögreglunnar í Reykjavík fékk sérstakan fjarskiptabúnað fyrir sig að gjöf frá góðgerðarfélagi. Tryggir þessi búnaður deildinni mun meira öryggi og virkni í starfi en áður.
    Nú er verið að kaupa nýjan fjarskiptabúnað fyrir embættið og er það vel. Þó virðist eins og kastað sé til þess höndum í annað sinn. Ekki virðist nóg að brenna sig einu sinni heldur þarf sagan að endurtaka sig að sumu leyti. Frést hefur að gengið hafi verið til samninga við umboðsmann sænska fyrirtækisins Ericsson, Georg Ámundason hf., um kaup á nýjum fjarskiptabúnaði sem mun vera saman settur af Ericsson. Ekki var leitað eftir tilboðum í nýtt fjarskiptakerfi, en sagt að einungis hafi verið látin ráða umsögn Haralds Sigurðssonar, verkfræðings hjá Pósti og síma.
    Í fyrstu var staðhæft að útboð hefði farið fram hérlendis, en þau orð síðan tekin til baka og sagt að útboð hefði verið gert á erlendum vettvangi. Þetta mun ekki vera rétt og þegar þekktur framleiðandi fjarskiptatækja gerði fyrirspurn um þetta atriði var sú fullyrðing einnig tekin til baka. Tæki þessi frá Ericsson munu kosta röskan tug milljóna króna. Komið hefur í ljós að í þessu verði, 10–12.000.000 kr., fylgir ekki umgjörð um tækin og jafnframt að söluskattur sé þar ekki innifalinn.
    Tækin átti fyrst að afhenda haustið 1987, en síðan var afhendingu frestað fram í desember sama ár. Þá kom enn ein frestunin og var rætt um afhendingu í mars 1988. Það stóðst ekki og var sagt að verkföll væru hjá framleiðanda. Þá kom enn ný dagsetning og átti afhending að fara fram um haustið 1988. Tækin munu nú vera komin en þá stóð á nægu fé til að leysa þau út eða öllu heldur til að ná að greiða söluskattinn af þessum búnaði. Það mál er þó loksins að komast í höfn, en eftir er að byggja utan um tækin áður en þau verða sett upp. Í búnaði þessum er tölvustýrð móðurstöð, handstöðvar og bílstöðvar. Nokkrar handstöðvarnar eru þegar komnar í notkun.
    Leitað var eftir áliti sænsku lögreglunnar á þessum búnaði, en þar mun sams konar búnaður hafa verið í notkun um árabil. Leitað var svara hjá einni deild óeinkennisklæddrar lögreglu þar sem menn nota mikið handstöðvar í
störfum sínum. Töldu þeir að búnaður þessi hentaði engan veginn þar sem ýmsir meinlegir gallar hefðu komið fram og væri nú leitað logandi ljósi að búnaði frá öðrum framleiðanda sem gæti fallið inn í þennan sænska búnað. Þeir sögðust hafa verið nauðbeygðir á sínum tíma að taka Ericsson-kerfið upp, þar sem um það hefði komið krafa frá viðkomandi stjórnvöldum. Hefði verið eftir kaupunum gengið til að Ericsson verskmiðjurnar gætu haldið starfsemi sinni áfram, og jafnframt var samið um að sænska lögreglan fengi ýmsan annan búnað með í kaupunum.
    Ericsson-búnaðurinn mun t.d. henta mjög illa við skyggingar, þar sem kerfið er bæði seinvirkt og ótraust. Oft þurfa lögreglumenn að geta treyst fullkomlega á fjarskiptasamband í störfum sínum og þá má þar ekkert út af bregða. Okkur var tjáð að Ericsson-kerfið hafi iðulega brugðist á þegar mest á reyndi. Samband hafi ekki náðst vel á milli handstöðva og erfiðlega gengið að ná því gegnum móðurstöð. Í stuttu máli er móðurstöðin þannig útbúin að tölvubúnaðurinn tekur við sendingum frá stöðvum og deilir þeim út. Þetta er fremur seinvirkt og ótraust. Ef tölvubúnaðurinn bilar eru mjög fáar hliðarrásir til að taka við og á annatíma er hætta á að kerfið verði hreinlega óvirkt. Þá má geta þess að tölvubúnaður þessi frá Ericsson mun vera mjög viðkvæmur og þarf að breyta ýmsu í fjarskiptaherbergjum lögreglunnar áður en búnaðurinn verður tekinn í notkun.
    Því ber að sjálfsögðu að fagna að nýr fjarskiptabúnaður sé á leiðinni. Full þörf var á fyrir löngu. Hitt er verra að menn virðast hafa hrapað að vali nýs búnaðar. Okkur er kunnugt að nokkrir aðilar aðrir telja sig geta útvegað vandaðri búnað fyrir talsvert lægra verð.
    Á vegum Lögreglufélags Reykjavíkur var leitað nánari upplýsinga hjá einum þessarra aðila, umboðsmanni Motorola. Ástæðan var sú að við þekktum nokkuð til þess búnaðar fyrir. Vitað er að Motorola framleiðir fjarskiptabúnað, sem er talinn mjög fullkominn og munar miklu hve verð hans er lægra, án þess þó að það rýri gæði búnaðarins. Motorola-búnaðurinn er tölvustýrður en vinnur öfugt á við Ericsson-búnaðinn og er það kerfi talið gefa mun meiri öryggi í fjarskiptum. Þá munu handstöðvar frá Ericsson kosta til embættisins rúmlega 190.000 kr., en fullkomnustu stöðvar frá Motorola kosta í kringum 110.000 kr. Motorola-handstöðvarnar eru mun meðfærilegri en Ericsson-handstöðvarnar og ólíkt betri mótun í þeim en Ericsson-stöðvunum. Þá framleiðir Motorola mjög fullkomnar handstöðvar sem kosta um 50.000 kr. Slíkar stöðvar hafa t.d. verið í notkun hjá ávana- og fíkniefnadeild með mjög góðum árangri.
    Aðrir umboðsaðilar fjarskiptabúnaðar fullyrða eindregið að Ericsson-búnaðurinn sé langtum dýrari en það sem þeir geti boðið upp á.


Fylgiskjal II.

Þungatakmarkanir — eftirlit.
    Um áratugaskeið hefur eftirlit með öxulþunga, umframbreidd og umframhæð ökutækja verið í molum hér á landi. Vegagerð ríkisins hefur gert út eina eftirlitsbifreið vegna þessa, mannaða starfsmanni Vegagerðarinnar og lögreglumanni úr Reykjavík.
    Eftirlit þetta fer aðeins fram á vegum vegamálastjóra, þ.e. þjóðvegum utan þéttbýliskjarna. Innan borgarmarka Reykjavíkur hafa fáir lagt í þessi verk aðrir en þeir sem hafa reynslu af verkunum með þeim Vegagerðarmönnum, en þeim er þó verkið illvinnanlegt. Þeir verða að færa bifreiðarnar á bílvogir borgarinnar við Elliðaár eða á hafnarvogina á Grandagarði og þá oft um langan veg. Er þá eins gott að vera viss í sinni sök. Er því ofhlöðnum ökutækjum ekið afskiptalítið um götur borgarinnar.
    Við breytingu umferðarlaga 1. mars sl. var skýrar kveðið á um öxulþunga en í eldri lögum. Var því kjörið tækifæri að taka þennan málaflokk fastari tökum. Til þess þarf vogir sem ekki eru fyrir hendi hjá embættinu og situr því í sama fari. Umframþungi mun vera einn helsti orsakavaldur vegaskemmda og skaða á ýmsum leiðslum sem grafnar eru í jörð.


Fylgiskjal III.

Vinnuvélar í umferð.
    Vinnuvélaakstur er mikil plága í okkar umferð. Flestar þessar vélar eru ekki skráningarskyldar og því nær ógjörningur að fylgjast með skoðun þeirra og ástandi. Þá er eigendum einnig í sjálfsvald sett hvort þeir kaupa tryggingu fyrir þessi ökutæki eða ekki. Vegfarendur eiga því oft undir fjárhag eiganda vinnuvélarinnar komið hvort þeir fá bætt tjón sem verða í umferðaróhöppum þar sem þessi tæki eiga hlut að máli.
    Það var von margra að við endurskoðun umferðarlaganna yrði eigendum gert skylt að flytja þessi tæki á dráttarbifreiðum eða að umferð þeirra yrði bönnuð á annatímum, svo var þó ekki. Sú spurning er því áleitin hvort eðlilegt geti
talist að vera á eftir hjólaskóflu, jafnvel með færibandshörpu í eftirdragi, á Suðurlandsvegi, þar sem hámarkshraði er 90 km á klst. Slík vagnlest er oft um 25 m löng og auðsæ hættan sem af slíkum flutningum hlýst.


Fylgiskjal IV.

Umferðarmál — nefndaskipanir.
    Það er athyglisvert að skoða hverjir eru skipaðir í nefndir á vegum ríkisins, t.d. til undirbúnings og tillagna í umferðarmálum. Flestir þeir, sem skipaðir eru í nefndirnar, eiga sameiginlegt að vinna á vernduðum vinnustað, þ.e. skrifstofumenn úr vernduðu umhverfi steinkastalanna. Gatan er þeirra samgönguæð og kastalinn vinnustaður. Sjaldan sést meðal nefndarmanna einhver sem hefur götuna að daglegum vinnustað, lögreglumaður, ökukennari eða atvinnubifreiðastjóri, menn sem eyða mestum hluta dagsins við akstur, kennslu og eftirlit með akstri.
    Sama er upp á teningnum þegar ályktað er hvernig skuli standa að löggæslu í hinum ýmsu flokkum umferðarmála. Hver gæðingurinn af öðrum ferðast til útlandsins, skoðar umferðarmannvirki og skipulag löggæslu. Þegar heim er komið streyma tillögurnar fram frá þessum aðilum, en oftast kemur í ljós að gleymst hefur að kynna sér málið frá hlið þess sem á að vinna úr því. Þar eru margar spurningar sem reyndur lögreglumaður hefði séð fyrir og kannað af langri og biturri reynslu.
    Við samanburð að starfsemi umferðardeildanna í Reykjavík og Stokkhólmi kemur glögglega í ljós að það er ýmislegt sem hér þarf að stokka upp, bæði hvað varðar stjórnun og framkvæmd.
    Hér þarf hugarfarsbreyting að eiga sér stað. Það þarf að gefa vinnandi mönnum kost á að kynnast starfsemi stéttarbræðra í nágrannalöndum svo að áhugi þeirra á starfinu aukist og þeir geti miðlað áfram til þeirra yngri. Eigi að nást markvisst átak í umferðarmálum þarf að virkja þá sem þekkja hvar skórinn að kreppir. Það veit sá best sem í honum gengur. Reynsluheimur lögreglumanna er stór og gagnabankinn drjúgur.


Fylgiskjal V.

Tækjabúnaður lögreglunnar í Reykjavík.
    Lögreglumönnum er ætlað að leysa margvísleg verkefni við hinar ólíklegustu aðstæður. Sum þeirra má leysa með fortölunum einum, reynslu eða brjóstviti, en til annarra þarf að hafa góðan útbúnað. Flestir lögreglumenn leggja metnað sinn í að leysa öll verkefni sem best af hendi. En alltof oft verður að virða viljann fyrir verkin. Lögreglan í Reykjavík er laklega búin tækjum og búnaðurinn sem til er oft gamall eða lélegur. Gildir það jafnt hvort sem átt er við búnað til björgunar- og aðstoðarstarfa eða til löggæslu.
    Öryggi lögreglumanna og borgara er oft stefnt í óþarfa hættu sökum lélegs tækjakosts lögreglunnar. Flestum ætti að vera ljós þörfin á góðum lögreglubúnaði og kunnáttu í notkun hans. Tækjakostur lögreglu er iðulega sá öryggis- og björgunarbúnaður sem fyrst er unnt að grípa til þegar vá ber að höndum og lögregla og slökkvilið einu aðilarnir sem hafa mannafla á öryggisvakt allan sólarhringinn.
    Verður hér fjallað lauslega um nokkuð af búnaði lögreglunnar í Reykjavík, um kosti hans og galla og um það sem á vantar. Er hér ekki um nákvæma úttekt að ræða né tæmandi skrá um það sem betur má fara heldur einugis umfjöllun og/eða ábendingar um sumt það sem mætti bæta. Ekki er hér fjallað um bifreiðar eða vinnuaðstöðu innanhús, heldur einungis um búnað til löggæslu og björgunarstarfa.
    Það skal tekið fram áður en lengra er haldið að ekki er hér um neina sérfræðilega úttekt að ræða, heldur notið reynslu af starfi við björgun og löggæslu.

Björgunarbúnaður.
    Deila má um hve mikinn björgunarbúnað lögreglan eigi að hafa úr því margar vel búnar björgunarsveitir eru í Reykjavík og nágrenni. Oft skiptir þó tíminn svo miklu máli að of tafsamt reynist að bíða eftir björgunarsveit. Er því nauðsynlegt að lögreglan hafi yfir nokkrum lágmarksbúnaði að ráða til að sinna bráðatilfellum eða undirbúa komu björgunarsveita þegar um stærri aðgerðir er að ræða.
    Björgunarvesti er í flestum lögreglubifreiðum í Reykjavík. Eru þetta gömul, reimuð vesti og þarf að þræða snæri í kósa til að festa þau á sig. Er það bæði tímafrekt og erfitt, einkum ef mönnum er kalt á höndum eins og oft
vill verða þegar staðið er að verkum í vosbúð. Ekki er heldur útbúnaður á vestunum til að tryggja að menn fljóti með höfuðið upp úr eða fyrirbyggja að menn renni niður úr þeim ef þeir missa meðvitund. Til eru vesti sem smellt er saman á auðveldan hátt, með reim er kemur í veg fyrir að meðvitundarlaus maður renni úr þeim og tryggir að hann fljóti með höfuðið upp úr.
    Flotgallar þeir er lögreglumenn hafa til afnota til að sinna björgunarstörfum í eru úr þunnu gúmmíi og hafa ekki flotmagn eða einangrun. Þeir sem nota þessa galla þurfa að setja á sig björgunarvesti og klæðast hlýjum fatnaði undir. Yfirleitt er gripið til gallanna í miklum flýti við vond veðurskilyrði. Gefst þá lögreglumönnum sjaldnast tækifæri á að klæða sig sérstaklega og vill brenna við að þeir láti ekki á sig björgunarvesti, heldur treysti um of á gallann. Engin hetta er á göllunum né sérstakir vettlingar.
    Björgunarskólinn og landhelgisgæslan hafa mikla reynslu í notkun flotgalla. Nota þeir níðsterka galla með miklu flotmagni og einangrun, búna hettu og vettlingum. Væri vandalaust í samráði við þessa aðila að kaupa nothæfa galla fyrir lögreglumenn.
    Kastlínur þær sem eru í lögreglubifreiðunum eru heimatilbúnar úr snæri og flothring. Þarf mikið lag og góða þjálfun til að geta hent þeim út svo að dugi. Línan flýtur ekki svo að sá er verið er að bjarga getur ekki synt að línunni hafi hún ekki lent nákvæmlega hjá honum.
    Til eru línur í þar til gerðum pokum og þannig útbúnar að ekki er hætta á að þær fari í flækju. Auðvelt er að henda þeim nákvæmlega og nokkuð langt. Einnig má benda á björgunarbúnað sem von er á og var verið að hanna í Vestmannaeyjum. Virðist hann geta þjónað lögreglunni mjög vel til björgunar manna úr snjó.
    Gúmmíbátar eru mikið notaðir við björgunarstörf. Lögreglan á tvo slíka báta. Annar bátanna var gefinn lögreglunni af Slysavarnafélagi Íslands fyrir vænum tveimur áratugum. Var hann þá ætlaður sérstaklega til björgunar manna úr höfninni. Sá bátur er nú geymdur hangandi upp á hlið í frystigámi við Árbæjarstöð, orðinn mjög lúinn og mikið bættur. Lekur þó mikið úr honum þrátt fyrir allar bæturnar. Bátur þessi er þar ætlaður til björgunar á fólki á vötnunum fyrir ofan bæinn. Báturinn er mjög lítill og þröngt um þrjá menn í honum. Ef tveir fara til hjálpar er því erfitt að innbyrða þann sem verið er að bjarga og illmögulegt að veita hjartahnoð eða aðra lífsnauðsynlega skyndihjálp. Ekki er unnt að notast við bátinn til köfunarstarfa sökum smæðar hans þar sem búnaður kafara er fyrirferðamikill. Helsti kostur þessa báts
hefur hins vegar verið sá að auðvelt er að skorða hann aftur í stórum lögreglubíl án frekari tilfæringa.
    Hinn báturinn er geymdur í óupphituðu skýli við aðalstöðina en er þó enn í mjög góðu ástandi. Kostir þess báts eru margir því að hann er meðfærilegur, léttur og gott að lenda honum við erfiðar aðstæður, en gallar hans eru líka drjúgir. Þegar verið er að leita á bátnum situr stjórnandi hans mjög lágt og sér því skammt, mikil hætta er á að hann velti í hvassviðri sökum þess hve léttur hann er, hann er hægfara og ekki eins auðveldur í meðförum þegar hann er kominn á flot eins og þeir bátar sem verið er að kaupa í dag til björgunarstarfa á grunnsævi. Bát þennan má vel nota í öllum veðrum á stöðuvötnum, þar sem öldur eru minni en á sjó.
    Verður því að segja um bátinn að hann hentar vel við sum skilyrði en gæti reynst of seinn í kapphlaupi við dauðann eða annars þegar mikið liggur við. Eins getur hreinlega verið hættulegt að fara á honum út á sjó í miklu roki.
    Björgunarsveitir landsins hafa verið að kaupa litla handhæga báta undanfarið til björgunarstarfa. Hafa þeir reynst mjög vel og væri hægt í samráði við þær að finna bát sem gæti hentað lögreglunni. Hjá lögreglunni eru menn á vakt allan sólahringinn og því skjótast unnt að bregðast við af hálfu lögreglu ef hún hefur traustan bát til umráða og þjálfaða menn í meðferð hans.
    Gamla bátnum í Árbæjarstöð ætti að henda, enda verður hann vart til gagns úr þessu. Hentast væri svo að koma nýrri bátnum í verð og kaupa annan, stærri og hentugri, sem geymdur væri í góðu skýli við aðalstöð.
    Snjósleði lögreglunnar er orðinn gamall og of veikburða til þeirra verka sem honum eru ætluð. Honum fylgir síðan stór og þungur vagnsleði fyrir sjúkrabörur. Sá sleði er þyngri en svo að snjósleðinn fái dregið hann með góðu móti um torleiði. Vinna á snjósleðum fer yfirleitt fram í vondum veðrum og við erfiðar aðstæður þar sem lítið má út af bera. Því er nauðsynlegt að hafa tvo góða sleða, svo að tveir menn geti farið saman til verka og verið færir um að hjálpa hvor öðrum ef eitthvað ber upp á. Þeir sleðar þyrftu að vera vel búnir. Telja verður brýna þörf á að kaupa tvo nýja sleða í stað þess gamla og láta þá í hendur takmarkaðs hóps lögreglumanna sem kynntu sér vel meðferð þeirra.
    Því miður hafa orðið slys og óhöpp í nágrenni Reykjavíkur þar sem skjót viðbrögð skipta lífi og dauða. Skjót geta viðbrögð til björgunar aldrei orðið nema góð tæki séu til reiðu. Björgunarsveitir hafa undanfarið keypt marga vélsleða, sem reynst hafa mjög vel, og má nýta sér reynslu þeirra í þessu efni.
    Snjóflóð hafa valdið dauða fleiri Íslendinga en nokkrar aðrar náttúruhamfarir. Ekki eru mörg ár síðan tveir ungir menn týndu lífi í snjóflóði í Esjunni. Fjallgöngur og skíðaiðkun verða æ vinsælli og því fer hætta á slysum af völdum snjóflóða vaxandi. Ef fólk lendir í snjóflóði er brýnt að björgun berist sem allra fyrst. Unnt er að flýta fyrir verkum með því að afmarka útlínur flóðsins, hefja yfirborðsleit, undirbúa komu björgunarsveita, o.fl. Þetta geta tveir vel búnir lögreglumenn gert, því þar eru menn ávallt á vakt og geta því brugðist skjótar við en björgunarsveitir. Er þörf á að kaupa búnað til þessara hluta en innan lögreglunnar eru nú menn með þekkingu á slíkum búnaði og hvernig eigi að nota hann.
    Súrefnistæki eru nauðsynleg, bæði til að hafa í bát þegar verið er að reyna að bjarga fólki frá drukknun og við slys þar sem öndunarörðuleikar eru. Í Reykjavík búum við við mjög góða sjúkrabifreiðaþjónustu og því ekki þörf á súrefnistækjum í lögreglubifreiðar. Hins vegar er brýnt að hafa slík tæki í bátum og væntanlega einnig í þeim farartækjum sem fara til löggæslu út á land. Við köfunarstörf er nauðsynlegt að hafa tiltæk súrefnistæki. Lögreglan þyrfti að eiga a.m.k. tvo fyrirferðalítil tæki sem fljótlegt væri að grípa til.
    Sjúkrabúnaður lögreglunnar í Reykjavík er vægast sagt til skammar. Í flestum sjúkrakössum í lögreglubifreiðunum er lélegur sáraböggull og plástur. Þar eru engar grisjur til að breiða yfir stærri sár, enginn búnaður til að loka í skyndi slagæðablæðingum eða loftþéttar umbúðir til að loka sárum með sogi, t.d. lungnagötum vegna hnífstungna eða skotsára.
    Kössunum er yfirleit komið fyrir í farangursgeymslu lögreglubifreiðanna eða í læstum skáp þar sem erfitt er að ná til þeirra. Oft vill svo til að vantar réttan lykil að skápnum og verða menn þá að sprengja hann upp. Þarf vart að eyða fleiri orðum um þetta mál.
    Landsamband hjálparsveita skáta selur hentuga sjúkrakassa og þeim fylgja festingar til að tylla þeim á góðum stað í bifreiðunum. Í þessum kössum er vandaður sjúkrabúnaður.
    Handluktir eru yfirleitt ekki í lögreglubifreiðunum, þótt til þess sé ætlast, og kostar oft mikið þras að reyna að fá þær. Luktirnar sem um er að ræða eru af ódýrustu og ómerkilegustu gerð og oft til lítils gagns. Það er augljóst öllum að lögreglumenn þurfa að hafa góð handljós bæði við björgunar- og lögreglustörf.
    Handtalstöðvar eru hérlendis mun sjaldgæfari en gerist hjá lögreglu annars staðar. Með notkun þeirram marfaldast öryggi lögreglumanna. Þær geta þeir
tekið með sér inn í hús og kallað þaðan á aðstoð, en þurfa ekki að hlaupa út í bíl eða í síma, en þess gefst ekki alltaf kostur. Væri æskilegt að sem flestir lögreglumenn hefðu eigin stöðvar til afnota. Í hverri eftirlitsbifreið sem sinnir útköllum þyrfti að vera minnst ein handstöð og í hverjum hópi lögreglumanna á eftirlitsferð þyrfti einn að vera með talstöð.

Sérhæfður lögreglubúnaður.
    Lögreglumenn hafa stundum í starfi sínu afskipti af hættulegum mönnum sem margir er búnir ýmsum vopnum, jafnvel skotvopnum. Lögreglumenn eru almennt illa búnir og oft lítt þjálfaðir til að fást við slíka menn. Hafa menn oft orðið að krafsa sig fram úr slíkum vanda með brjóstvitið eitt að vopni. Ljóst er að fyrr en síðar verður hér voði af. Því er mjög brýnt að þjálfa lögreglumenn betur til slíkra verka og láta þá fá betri búnað til að fást við hættulega menn.
    Óeirðir verða sjaldan hér á landi. Þó kemur slíkt fyrir og sums staðar árvisst. Slík ólæti eru sjaldan alvarleg, en alvaran stundum laundrjúg og komið hefur fyrir að menn hafi talið rétt að halda upp á þrettándann með því að birgja sig upp af bareflum og Mólotoffkokkteilum.
    Það er nú einu sinni ein meginskylda lögreglu að setja niður ofbeldisaðgerðir og koma á almannafriði. Þegar hallar á friðinn reynir fyrst á sumar tegundir lögreglubúnaðar. Slíkur búnaður er hér því miður lakari en góðu hófi gegnir. Eins er sumt af þessum búnaði geymt bak við lás og slá á vegum birgðavarðar og ekki aðgengilegt þegar vanda ber að höndum.

Ýmis lögreglutæki.
    Mikið vantar af ýmsum búnaði sem gagnast við að leysa smærri mál og annað, sem til er, lélegt. Þó er sumt af útbúnaði prýðilegt.
    Líkpoka þurfa lögreglumenn oft að nota. Pokarnir sem til eru halda ekki vökva og vill því blóð og annað renna úr þeim þegar þeir eru bornir. Þarf ekki að fjalla um sóðaskapinn sem af þessu verður. Eins reynast þeir oft of litlir þegar taka á útblásið lík af stórum manni. Hlífðarföt til nota við að taka upp rotin lík þyrftu að vera til.
    Einnota hanskar eiga að vera í hverjum bíl, en á því hefur verið misbrestur. Í hverri lögreglubifreið þyrfti að vera kassi með hönskum og sérstakur poki til að henda þeim í eftir notkun.
    Tækjavagnar eru víðast til hjá lögreglu erlendis. Í þeim er búnaður til að loka af svæðum, lýsa upp vettvang, meðfærileg umferðarmerki, áhöld af ýmsum gerðum og margt annað sem lögreglumönnum gagnast á vettvangi.


Lokaorð.
    Lögreglumenn verða oft fyrir því að hafa mistekist við verkefni sín, en átta sig síðan á því að með betri þjálfun og betri tækjum hefði þeim tekist betur til. Stundum er verkefnið aðeins að opna bifreið fyrir borgarann. Stundum snýst það um líf og dauða. Fyrir hvert líf sem tekst að bjarga má kaupa mikinn búnað.
    Þjálfun er þó meira verð en tæki. Sú þjálfun, sem menn hljóta, er veitt í námi í Lögregluskóla ríkisins. Um frekari verkþjálfun er síðan vart að ræða. Auðvitað er það fáránlegt að það lið, sem ætlað er til öryggis- og hjálparstarfs, skuli ekki vera í sífelldri þjálfun. Því miður virðast þeir aðilar sem eru til fyrirsvars í Stjórnarráði ekki skilja á þessu þörfina.
Neðanmálsgrein: 1
    Til kl. 03.00.
Neðanmálsgrein: 2
    Frá kl. 11.00–19.00.