Ferill 135. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1988. – 1058 ár frá stofnun Alþingis.
111. löggjafarþing. – 135 . mál.


Nd.

241. Nefndarálit



um frv. til l. um sérstakan skatt á verslunar- og skrifstofuhúsnæði.

Frá 2. minni hl. fjárhags- og viðskiptanefndar.



    Við dreifingu skattbyrða telja kvennalistakonur eðlilegt að horfa til hinna breiðu baka í þjóðfélaginu. Með tilliti til þess hafa þær stutt sérstakan skatt á verslunar- og skrifstofuhúsnæði og einnig tillögur um hækkun hans. Sú afstaða styðst enn fremur við nauðsyn þess að hamla gegn offjárfestingu og þenslu í þessum greinum. Sú þörf var augljós þegar þessi skattur var síðast til meðferðar á Alþingi.
    Nú eru aðstæður að sönnu á margan hátt breyttar. Fjárfestingaræðið hefur rénað og samdráttur er víða hafinn. Ein er þó sú grein, sem þessi skattur tekur til, og stendur nú með sérstökum blóma, en það er starfsemi banka og annarra aðila á fjármagnsmarkaði, en þeir munu greiða verulegan hluta af þessum skatti.
    Á þessu ári nær álagning skatts á verslunar- og skrifstofuhúsnæði til 954 lögaðila og 1200 einstaklinga. Tæplega 90% af skattinum eru lögð á aðila á höfuðborgarsvæðinu þar sem meðalskattur á hvern gjaldanda er u.þ.b. þrefalt hærri en utan þess svæðis. Ótrúleg umsvif í þessum greinum á undanförnum árum, einkum á höfuðborgarsvæðinu, benda ekki til þess að þeim hafi verið íþyngt um of með álögum, og þótt nú hafi þrengt að er það álit 2. minni hl. að þessi skattur skipti ekki sköpum um afkomu fyrirtækja. 2. minni hl. leggur því til að frv. verði samþykkt.

Alþingi, 14. des. 1988.



Kristín Halldórsdóttir.