Ferill 203. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1988. – 1058 ár frá stofnun Alþingis.
111. löggjafarþing. – 203 . mál.


Ed.

276. Frumvarp til laga



um breytingu á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga.

(Lagt fyrir Alþingi á 111. löggjafarþingi 1988.)



I. KAFLI

Um breytingu á lögum nr. 41/1983, um málefni fatlaðra.

1. gr.

    26. gr. laganna orðast svo:
    Ríkið kemur á fót stofnunum skv. 2.–13. tölul. 7. gr. Sveitarfélög útvega rými fyrir fatlaða á dagvistarstofnunum fyrir börn skv. 1. og 14. tölul. 7. gr. og koma á fót sérdeildum og fer um þann stofnkostnað í samræmi við lög nr. 112/1976, um byggingu og rekstur dagvistarheimila fyrir börn, með síðari breytingum.
    Ríkið greiðir að fullu stofnkostnað skv. 2.–13. tölul. 7. gr.
    Tryggja skal fötluðum ókeypis vist á þeim stofnunum sem um getur í 7. gr., sbr. þó 28. gr. Kostnaður skv. 9. og 10. gr. greiðist úr ríkissjóði.

2. gr.

    28. gr. laganna orðast svo:
    Kostnaður við rekstur stofnana skv. 1. og 14. tölul. 7. gr. greiðist í samræmi við lög nr. 112/1976. Jafnframt greiðir ríkissjóður þann kostnað sem er umfram almennar greiðslur í viðkomandi stofnun, enda skerðist réttur barnsins til annarra bótagreiðslna ekki.
    Ríkissjóður greiðir þann rekstrarkostnað stofnana skv. 2.- 13. tölul. 7. gr. sem ekki er greiddur af sértekjum eða eigin fé.
    Sérstaka flutningaþjónustu fyrir fatlaða, sem ekki geta nýtt sér almenningsfarartæki til og frá stofnunum, skal greiða af rekstrarfé viðkomandi stofnunar.

II. KAFLI

Um breytingu á lögum nr. 93/1947, um aðstoð til vatnsveitna.

3. gr.

    1.–7. og 9. gr. laganna falla brott.

III. KAFLI

Um breytingu á lögum nr. 59/1983, um heilbrigðisþjónustu.

4. gr.

    1. tölul. 18. gr. laganna orðast svo:
    Kostnaður við byggingu og búnað heilsugæslustöðva, svo og við aðstöðu til móttöku sjúklinga utan stöðva, greiðist 60% úr ríkissjóði en 40% af hlutaðeigandi sveitarfélögum.

5. gr.

    1. tölul. 20. gr. laganna orðast svo:
    Rekstrarkostnaður heilsugæslustöðva greiðist úr ríkissjóði. Viðhalds- og endurnýjunarkostnaður fasteigna og tækja greiðist sem stofnkostnaður.

6. gr.

    1. tölul. 21. gr. laganna orðast svo:
    Ráðherra skipar stjórnir heilsugæslustöðva og skulu þær þannig skipaðar að starfslið stöðvarinnar tilnefnir tvo, tveir skulu kosnir af hlutaðeigandi sveitarstjórnum og einn skipaður án tilnefningar og skal hann jafnframt vera formaður og búsettur á starfssvæði stöðvarinnar. Kjörtímabil stjórna heilsugæslustöðva er hið sama og sveitarstjórna.

7. gr.

    2. tölul. 30. gr. laganna orðast svo:
    Sjúkrahúsum sveitarfélaga skal stjórnað af fimm manna stjórnum sem ráðherra skipar. Starfsmannaráð sjúkrahúsa kjósa tvo menn og hlutaðeigandi sveitarstjórn eða stjórnir tvo. Ráðherra skipar einn án tilnefningar og skal hann vera formaður stjórnar og búsettur á starfssvæði sjúkrahússins. Heilbrigðismálaráð Reykjavíkur kýs fulltrúa borgarinnar í stjórn sjúkrastofnana Reykjavíkurborgar. Í stjórnir einkasjúkrahúsa eða sjálfseignarstofnana skipar ráðherra einn stjórnarmann án tilnefningar og skal sá jafnframt vera formaður stjórnar, en eigendur kjósa þrjá stjórnarmenn og starfsmannaráð einn mann.

8. gr.

    3. og 4. tölul. 34. gr. laganna orðast svo:
    Framlag ríkissjóðs til sjúkrahúsbygginga, sem til er stofnað skv. 2. tölul. 34 gr., skal vera 60% af kostnaði við byggingu og búnað en framlag hlutaðeigandi sveitarfélaga 40%.
    Ríkissjóður og sveitarfélög eru eignaraðilar í hlutfalli við framlag til sjúkrahúsbygginga. Viðhald fasteigna og tækja greiðist sem stofnkostnaður.

IV. KAFLI

Um breytingu á lögum nr. 67/1971, um almannatryggingar,

með síðari breytingum.

9. gr.

    1. mgr. 2. gr. laganna orðast svo:
    Tryggingastofnun ríkisins annast lífeyristryggingar, slysatryggingar og sjúkratryggingar. Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið hefur yfirumsjón með allri starfsemi Tryggingastofnunar ríkisins.

10. gr.

    2. og 3. mgr. 32. gr. laganna orðast svo:
    Að svo miklu leyti sem sérstakir samningar slysatrygginga ná ekki yfir sjúkrahjálp samkvæmt framansögðu getur tryggingaráð ákveðið endurgreiðslu að nokkru eða öllu leyti.
    Nú veldur slys ekki óvinnuhæfni í 10 daga, en hefur þó í för með sér kostnað sem um ræðir í grein þessari og má þá greiða hann að svo miklu leyti sem hann fæst ekki greiddur hjá sjúkratryggingum.

11. gr.

    37. og 38. gr. laganna falla brott.

12. gr.

    39. gr. laganna orðast svo:
    Hlutverk sjúkratryggingadeildar Tryggingastofnunar ríkisins er að annast sjúkratryggingar samkvæmt lögum þessum. Enn fremur er það hlutverk sjúkratryggingadeildar:
a.    Að veita styrk til að afla hjálpartækja og bifreiða sem nauðsynlegar eru vegna þess að líkamsstarfsemi er hömluð eða vantar líkamshluta.
b.    Að veita styrk til æfingameðferðar eða þjálfunar vegna afleiðinga alvarlegra, langvinnra sjúkdóma eða slysa.
c.    Að veita styrk til aðgerða hjá tannlækni, umfram það sem 44. gr. nær til, vegna meðfæddra galla, svo sem klofins góms eða meiri háttar tannvöntunar.
d.    Að greiða kostnað við yfirstjórn Tryggingastofnunarinnar á sjúkratryggingamálum.
e.    Að greiða ferðastyrk til sjúklinga sem af nauðsyn leita læknishjálpar erlendis, svo og til fylgdarmanna þeirra þegar sérstaklega stendur á. Tryggingaráð setur reglur um úthlutun styrkja samkvæmt þessum staflið.
f.    Að greiða kostnað samkvæmt nánari ákvörðun tryggingaráðs vegna psoriasissjúklinga sem að mati sérfræðinga þurfa að leita læknishjálpar á meðferðarstofnunum psoriasissjúklinga sem komi í stað sjúkrahúsvistar.
    Tryggingaráð setur nánari reglur um greiðslufyrirkomulag og skipulag slíkra ferða auk hámarksfjölda psoriasissjúklinga sem árlega geta notið slíkrar fyrirgreiðslu.
    Tryggingaráð setur reglur um greiðslu styrkja samkvæmt a-, b- og c-liðum 1. mgr. Afla skal greiðsluheimildar frá Tryggingastofnuninni fyrir fram. Tryggingayfirlæknir getur áskilið vottorð sérfræðings um nauðsyn hjálpartækis eða þjálfunar.
    Ráðherra getur ákveðið að sjúkratryggingadeild greiði:
a.    Gjald fyrir rannsóknir og læknishjálp sem Tryggingastofnunin semur um við opinberar heilbrigðisstofnanir.
b.    Kostnað samkvæmt milliríkjasamningum af sjúkrahjálp við erlenda ríkisborgara sem dveljast hér um stundarsakir.

13. gr.

    40. gr. laganna orðast svo:
    Allir landsmenn eru sjúkratryggðir eigi þeir lögheimili hér á landi. Börn og unglingar, 16 ára og yngri, eru sjúkratryggð með foreldrum sínum. Sama á við um stjúpbörn og fósturbörn. Sjúkratryggingadeild eða hlutaðeigandi umboðsskrifstofa gefur út réttindaskírteini til hvers þess sem sjúkratryggður er.
    Ráðherra getur að fengnum tillögum tryggingaráðs sett nánari ákvæði í reglugerð um fyrirkomulag og framkvæmd sjúkratrygginga og um starfsemi sjúkratryggingadeildar.

14. gr.

    41. gr. laganna orðast svo:
    Hverjum þeim, sem sjúkratryggður er skv. 40. gr., skal tryggð ókeypis vist að ráði læknis í sjúkrahúsum, þar með talið á fæðingarstofnunum. Sjúkrahúsvist skal tryggð eins lengi og nauðsyn krefur ásamt læknishjálp og lyfjum og annarri þjónustu sem sjúkrahúsið veitir.

15. gr.

    42. gr. laganna orðast svo:
    Nú er sjúkratryggðum brýn nauðsyn á að vistast í erlendu sjúkrahúsi vegna þess að ekki er unnt að veita honum nauðsynlega hjálp í íslensku sjúkrahúsi og greiðir þá sjúkratryggingadeild kostnað við sjúkrahúsvistina. Sama gildir um kostnað við dvöl, lyf og læknishjálp sem nauðsynleg er erlendis að lokinni sjúkrahúsvistinni þar. Ráðherra skipar nefnd sem úrskurðar um hvort fyrrgreind skilyrði eru fyrir hendi, svo og hvar sjúkratryggður skuli vistaður erlendis. Nú er sjúkratryggður vistaður á öðrum og dýrari stað erlendis en nefndin hefur ákveðið og greiðir þá sjúkratryggingadeild aðeins þann kostnað sem greiða hefði átt á þeim stað sem hún ákvað. Í nefndina skal skipa tvo yfirlækna við Landspítalann, yfirlækni á Borgarspítalanum og yfirlækni við St. Jósefsspítalann Landakoti. Tryggingayfirlæknir á sæti í nefnd þessari og skal hann vera formaður hennar. Ráðherra getur með reglugerð sett nánari ákvæði um framkvæmd málsins.

16. gr.

    43. gr. laganna orðast svo:
    Til viðbótar þeim réttindum, sem þegar eru upptalin, skulu sjúkratryggingar veita þá hjálp sem hér segir:
a.    Almenna læknishjálp utan sjúkrahúsa hjá lækni sjúklings sem Tryggingastofnunin hefur gert samning við. Fyrir hvert viðtal á læknastofu og hverja vitjun til sjúklings greiði hinn sjúkratryggði lækni það gjald er ákveða skal með reglugerð. Sjúkratryggingar hafa heimild til að ákveða að sjúklingur greiði læknisreikninga að fullu og endurgreiða sjúkratryggingar þá sjúklingi sinn hluta. Utanhéraðssjúklingar skulu jafnan greiða lækni að fullu.
b.    Nauðsynlegar rannsóknir og aðgerðir eftir tilvísun heilsugæslulæknis eða heimilislæknis hjá sérfræðingum sem Tryggingastofnun ríkisins hefur gert samning við. Fyrir hverja komu til sérfræðings greiðir sjúklingur sérfræðingi gjald sem ákveða skal með reglugerð.
c.    Lyf sem sjúkratryggðum er brýn nauðsyn að nota að staðaldri. Af öðrum nauðsynlegum lyfjakostnaði greiðir sjúkratryggður fyrstu 440 kr. en sjúkratryggingar það sem á vantar fullt verð. Sé heildarverð lyfs jafnt eða lægra, en þessi mörk greiðir sjúkratryggður það.
d.    Röntgengreining og geislameðferð samkvæmt gjaldskrá sem daggjaldanefnd setur, þó þannig að sjúkratryggður greiðir 550 kr. fyrir hverja röntgengreiningu.
e.    Sjúkradagpeningar skv. 45. gr.
f.    Kostnað vegna aðstoðar ljósmóður við fæðingu í heimahúsum, ákveðinn með þeim hætti sem um ræðir í 46. gr., og að auki dagpeninga, jafnháa sjúkradagpeningum í 10 daga frá því fæðing hefst.
g.    Tannlækningar skv. 44. gr.
h.    Óhjákvæmilegan ferðakostnað læknis til þeirra sjúkratryggðu sem ekki eru ferðafærir sökum sjúkdóms síns, þó þannig að sjúkratryggður greiðir 70 kr. fyrir hverja ferð.
i.    Óhjákvæmilegan flutningskostnað sjúkratryggðs í sjúkrahús innan lands að 7 / 8 hlutum, enda sé flutningsþörf svo bráð og heilsu hins sjúkatryggða svo varið að hann verður ekki fluttur eftir venjulegum farþega- og flutningsleiðum. Þó greiðir sjúkratryggður aldrei meira en 1.650 kr. Sjúkraflutningur innan bæjar greiðist þó ekki og frá kostnaði við sjúkrabifreið dregst kostnaður vegna fyrstu 10 km. Sömu reglur skulu gilda um flutning sjúks manns frá sjúkrahúsi til heimilis eða dvalarstaðar, enda verði hann ekki fluttur eftir venjulegum farþegaflutningsleiðum. Sé fylgd nauðsynleg greiðist 7 / 8 af fargjaldi fylgdarmanns jafnvel þó að um áætlunarferð sé að ræða. Flutningskostnaður milli sjúkrahúsa greiðist að fullu af því sjúkrahúsi sem sendir sjúkling, nema um sé að ræða flutning milli sjúkrahúsa í sama sveitarfélagi og heilsu sjúklings sé þannig varið hann geti notað venjulegar farþegaflutningsleiðir.
j.    Óhjákvæmilegan ferðakostnað með takmörkunum og eftir reglum sem tryggingaráð setur og ráðherra staðfestir fyrir sjúkratryggða sem þarfnast ítrekaðrar meðferðar hjá lækni eða í sjúkrahúsi með eða án innlagningar.
k.    Hjúkrun í heimahúsum vegna alvarlegra og langvinnra sjúkdóma og slysa samkvæmt samningum sem Tryggingastofnun ríkisins gerir og reglum sem tryggingaráð setur.
    Ráðherra er með reglugerð heimilt að breyta greiðslum sjúkratryggðra samkvæmt þessari grein, svo og að ákveða með reglugerð hámark eininga í lyfjaávísunum.
    Með reglugerð er einnig heimilt að ákveða víðtækari hjálp vegna veikinda en mælt er fyrir um í þessari grein, þar á meðal að láta réttindi til greiðslu kostnaðar við tannlækningar ná til fleiri hópa en segir í 44. gr. og ákveða með hliðsjón af ákvæðum þeirrar greinar hvernig þátttöku skuli haga í tannlækniskostnaði viðbótarhópa.

17. gr.

    44. gr. laganna orðast svo:
    Fyrir tannlæknaþjónustu greiða sjúkratryggingar í samræmi við samninga sem Tryggingastofnun ríkisins hefur gert eða samkvæmt gjaldskrá sem heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra setur, séu samningar ekki fyrir hendi, sem hér segir, enda sé reikningi framvísað á því reikningsformi sem Tryggingastofnun ríkisins ákveður:
1.    Fyrir börn 5 ára eða yngri 75% kostnaðar við hvers konar þjónustu.
2.    Fyrir börn og unglinga 6–15 ára 100% kostnaðar við tannlækningar aðrar en gullfyllingar, krónu- og brúargerð og tannréttingar, en 50% af þessum aðgerðum. Þjónustan skal veitt hjá skólatannlækni eða heilsugæslustöð ef þess er kostur.
3.    Fyrir 16 ára unglinga 50% kostnaðar við hvers konar þjónustu.
4.    Fyrir unglinga, þótt eldri séu en 16 ára, skal greiða 50% kostnaðar við tannréttingarmeðferð sem hafin hefur verið áður en þeir urðu 16 ára þar til meðferð er lokið. Heimilt er að greiða 50% kostnaðar við aðgerð á 17–18 ára unglingi ef þörfin hefur komið upp fyrr, enda hafi tryggingayfirlækni þá verið gerð grein fyrir því eða að minnsta kosti áður en unglingurinn verður 17 ára að rétt sé að festa aðgerðinni og tryggingayfirlæknir samþykkir það.
5.    Fyrir elli- og örorkulífeyrisþega sem njóta tekjutryggingar 75% kostnaðar, en fyrir aðra elli- og örorkulífeyrisþega 50% kostnaðar, þó ekki fyrir gullfyllingar, krónur eða brýr. Heimilt er að hækka greiðslur fyrir þessa bótaþega eftir reglum, sem tryggingaráð setur, í allt að 100%.

18. gr.

    1., 2. og 3. mgr. 45. gr. laganna orðast svo:
    Sjúkratryggingar greiða sjúkradagpeninga ef sjúkratryggður sem orðinn er
17 ára og nýtur ekki elli- og örorkulífeyris verður algerlega óvinnufær, enda leggi hann niður vinnu og launatekjur falli niður sé um þær að ræða.
    Sjúkradagpeningar eru ekki greiddir lengur en í 52 vikur samtals á hverjum 24 mánuðum. Þó er Tryggingastofnun ríkisins heimilt að ákveða að dagpeningar skuli greiddir lengur ef ljóst er að sjúklingurinn verður innan skamms annaðhvort vinnufær eða að unnt verður að ákveða örorku hans, tímabundið eða til bráðabirgða. Dagpeningar, sem nema minna en fullum sjúkradagpeningum, sbr. 4. og 5. mgr., skulu að jafnaði ekki greiddir lengur en í þrjá mánuði.
    Sjúkratryggðir njóta sjúkradagpeninga frá og með 15. veikindadegi séu þeir óvinnufærir a.m.k. í 21 dag. Upphaf biðtímans miðast við þann dag er óvinnufærni er staðfest af lækni.

19. gr.

    1. mgr. 46. gr. laganna orðast svo:
    Tryggingastofnun ríkisins gerir samninga um greiðslur samkvæmt þessum kafla. Takist samningar ekki ákveður heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra greiðsluna með tilliti til gjaldskrárinnar eða gildandi samninga annarra heilbrigðisstétta.

20. gr.

    Upphaf 3. mgr. 46. gr. orðast svo:
    Daggjöld sjúkrahúsa, sem ekki eru á föstum fjárlögum, svo og gjaldskrár fyrir utansjúkrahússjúklinga, skulu ákveðin af fimm manna nefnd, daggjaldanefnd.

21. gr.

    47. gr. laganna orðast svo:
    Nú er sjúkratryggðum nauðsyn að leita sér lækninga þar sem hann er staddur erlendis og skulu þá sjúkratryggingar greiða kostnað af því eins og um læknishjálp innan lands væri að ræða. Þetta nær þó ekki til þeirra sem samkvæmt milliríkjasamningum öðlast rétt til sjúkrahjálpar í öðru landi vegna dvalar þar að því er varðar þá sjúkrahjálp sem samningarnir fjalla um.
    Nú verður sjúkratryggður maður fyrir verulegum kostnaði vegna veikinda eða slyss erlendis og fær hann ekki endurgreiddan nema að litlu leyti frá sjúkratryggingum og er þá tryggingaráði heimilt að ákveða að sjúkratryggingadeild taki meiri þátt í slíkum kostnaði.

22. gr.

    48. gr. laganna fellur niður.

23. gr.

    50. gr. laganna orðast svo:
    Kostnaður sjúkratrygginga greiðist að fullu úr ríkissjóði.
    Framlag ríkissjóðs til sjúkratrygginganna greiðist Tryggingastofnun ríkisins með jöfnum mánaðarlegum greiðslum fyrir 10. hvers mánaðar.

24. gr.

    Hvarvetna þar sem í öðrum greinum laganna stendur „sjúkrasamlag“ kemur: sjúkratryggingar eða orðið falli brott eftir því sem við á.

25. gr.

    Hvarvetna þar sem í öðrum greinum laganna stendur „sjúkrasamlagsstjórn“ kemur: Tryggingastofnun ríkisins eða orðið falli brott eftir því sem við á.

26. gr.

    Hvarvetna þar sem stendur „samlagsmaður“ í öðrum greinum laganna kemur: sjúkratryggður.

27. gr.

    Uppgjör sjúkrasamlaga fyrir árið 1989 skal liggja fyrir eigi síðar en 1. júlí 1990.
    Eignir sjúkrasamlaga skulu renna til Tryggingastofnunar ríkisins og skulu þær nýttar fyrir umboðsskrifstofur Tryggingastofnunar ríkisins.

V. KAFLI

Um breytingu á lögu m nr. 64/1981, um atvinnuleysistryggingar,

með síðari breytingu.

28. gr.

    5. gr. laganna orðast svo:
    Atvinnuleysistryggingasjóður skal inna af hendi þær bætur sem um ræðir í 1. gr. Árlegar tekjur sjóðsins eru þessar:
a.    Iðgjöld atvinnurekenda skv. 10. gr.
b.    Framlag ríkissjóðs skv. 14. gr.
c.    Vextir af innstæðufé sjóðsins og verðbréfum.

29. gr.

    14. gr. laganna fellur brott.

30. gr.

    1. mgr. 15. gr. laganna orðast svo:
    Ríkissjóður greiðir framlag til Atvinnuleysistryggingasjóðs er skal nema þrefalt hærri fjárhæð en heildariðgjöld skv. 10. gr.

VI. KAFLI

Um breytingu á lögum um grunnskóla, nr. 63/1974, með síðari breytingum.

31. gr.

    1. og 2. mgr. 11. gr. laganna orðast svo:
    Fræðsluráð skal skipað fimm eða sjö mönnum sem kjörnir eru af sveitarstjórnum eða samtökum sveitarfélaga í hlutaðeigandi fræðsluumdæmi. Jafnmargir skulu kjörnir til vara.
    Um kosningu og starfshætti fer eftir meginreglum sveitarstjórnarlaga, nr. 8/1986.

32. gr.

    12. gr. laganna orðast svo:
    Fræðsluráð fjallar um og fer með sameiginleg málefni sveitarfélaga á sviði fræðslumála í hlutaðeigandi fræðsluumdæmi.
    Fræðsluráð skal vera fræðslustjóra til ráðuneytis um dagleg störf hans. Fræðsluráð getur falið fræðslustjóra að annast framkvæmdastjórn fyrir ráðið.
    Fræðsluráð hefur samvinnu við skólanefndir og samræmir störf þeirra í umdæminu. Það fer að öðru leyti með þau málefni sem hlutaðeigandi sveitarstjórnir fela þeim eða ákveðin kunna að verða í reglugerðum settum samkvæmt lögum þessum.

33. gr.


    1. mgr. 14. gr. laganna orðast svo:
    Fræðslustjóri er fulltrúi menntamálaráðuneytis um fræðslumál í umdæminu og skal búsettur þar sem fræðsluskrifstofa umdæmisins er eða í næsta nágrenni. Hann er framkvæmdastjóri fræðslusráðs, sé svo um samið, og forstöðumaður fræðsluskrifstofu, sbr. 12. og 15. gr.
    3. tölul. 2. mgr. 14. gr. laganna orðast svo:
    Hann hefur í umboði menntamálaráðuneytisins umsjón með eignum og rekstri þeirra skóla sem lög þessi taka til, sbr. þó 29. gr.

34. gr.

    15. gr. laganna orðast svo:
    Samtök sveitarfélaga ákveða fræðsluskrifstofu stað, en háð er sú ákvörðun samþykki menntamálaráðuneytis.
    Fræðslustjóri er forstöðumaður fræðsluskrifstofu. Starfsmenn fræðsluskrifstofu eru ríkisstarfsmenn. Um ráðningu og starfskjör þeirra fer eftir lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.
    Heimilt er fræðslustjóra að semja svo við samtök sveitarfélaga, einstök skólahverfi og sveitarfélög að fræðsluskrifstofa taki að sér tiltekin verkefni fyrir þessa aðila, enda komi full greiðsla fyrir. Á hliðstæðan hátt er fræðslustjóra heimilt að semja svo við samtök sveitarfélaga að skrifstofa þeirra eða einstakar starfsdeildir innan þeirra annist störf fyrir fræðsluskrifstofu, enda komi samþykki menntamálaráðuneytis til.

35. gr.

    23. gr. laganna orðast svo:
    Gerð skólamannvirkja er undirbúin heima í héraði af sveitarstjórn í samráði við skólanefnd, en verður að hljóta samþykki menntamálaráðuneytis áður en framkvæmdir hefjast.
    Stofnkostnaður grunnskóla greiðist af sveitarfélögum.
    Í hverju skólahverfi skal vera skólahúsnæði sem fullnægir þörfum grunnskóla við þær aðstæður sem þar eru. Við gerð eða breytingar skólamannvirkja skal m.a. tekið tillit til hvort nemendur ganga til skóla, er ekið þangað daglega, búa þar í heimavist eða fyrirkomulag er blandað.
    Nafngift skóla er háð samþykki menntamálaráðuneytis að fenginni umsögn örnefnanefndar.

36. gr.

    3.–6. mgr. 24. gr. laganna falla brott.

37. gr.

    27. gr. laganna orðast svo:
    Um listskreytingu skólamannvirkja fer eftir lögum nr. 34/1982, um Listskreytingasjóð ríkisins.

38. gr.

    28. gr. laganna orðast svo:
    Eðlilegt viðhald skólahúsa og búnaðar, þar á meðal endurnýjun kennslutækja, er sveitarfélögum skylt að annast á fullnægjandi hátt.
    Viðhaldskostnaður greiðist af sveitarfélögum.

39. gr.

    29. gr. laganna orðast svo:
    Dagleg umsjón og umráð skólamannvirkja, þar á meðal skólastjóra- og kennarabústaða sem eru sameign ríkis og sveitarfélaga eða sveitarfélaga einna, skal vera í höndum skólastjóra og skólanefndar sem fara að því leyti með umboð sveitarstjórnar og menntamálráðuneytisins.
    Heimilt er sveitarstjórn að ráðstafa skólahúsnæði eða hluta þess til æskulýðsstarfsemi, íþróttastarfsemi og almennrar félagsstarfsemi í þágu íbúa byggðarlagsins. Slíkt er þó aðeins heimilt að hvergi brjóti í bága við skólahald né aðra notkun skólahúsnæðis samkvæmt lögum.
    Sveitarstjórn getur ákveðið að fenginni umsögn hlutaðeigandi skólanefndar að skólahúsnæði sé utan venjulegs skólatíma notað til gistingar og veitingareksturs.
    Tekjur af eignum skóla renna til sveitarsjóða.

40. gr.

    34. gr. laganna orðast svo:
    Skólastjóri ræður með samþykki skólanefndar stunda- og forfallakennara við grunnskóla, sbr. þó lög nr. 48/1986.
    Sveitarstjórn eða skólanefnd í umboði hennar ræður þá starfsmenn skóla er teljast starfsmenn sveitarfélaga.

41. gr.

    3.–5. mgr. 37. gr. laganna orðast svo:
    Skólastjóri við heimavistarskóla er jafnframt heimavistarstjóri. Í heimavistum skal daglegt eftirlit og umsjón með nemendum jafnframt vera í höndum kennara, fóstra eða annarra starfsmanna með uppeldismenntun sem menntamálaráðneytið viðurkennir.
    Kostnaður við gæslu á heimavist greiðist af hlutaðeigandi sveitarfélagi.
    Menntamálaráðuneytið setur reglugerð um störf og starfslið í heimavistum og aðbúnað nemenda þar.

42. gr.

    Úr 1. mgr. 43. gr. laganna falla brott orðin „sbr. 77. gr.“
    3. mgr. sömu greinar orðast svo:
    Kostnaður við félagsstörf greiðist af hlutaðeigandi sveitarfélagi.

43. gr.

    66. gr. laganna orðast svo:
    Í hverju fræðsluumdæmi skal starfa ráðgjafar- og sálfræðiþjónusta fyrir grunnskóla.
    Menntamálaráðuneytið gerir í samráði við fræðslustjóra heildaráætlun um framkvæmd ráðgjafar- og sálfræðiþjónustu samkvæmt lögum þessum. Skal áætlunin miðuð við það fjármagn sem til þessa starfsþáttar er veitt á fjárlögum. Til þessarar starfsemi skal að fengnum tillögum fræðslustjóra ráða sálfræðinga, félagsráðgjafa og sérkennara. Einnig er heimilt að nýta þjónustu ráðgefandi læknis í þessum efnum.
    Kostnaður við ráðgjafar- og sálfræðiþjónustu greiðist úr ríkissjóði.

44. gr.

    77. gr. laganna orðast svo:
    Auk kostnaðar við kennslu skv. 76. gr. greiðir ríkissjóður launakostnað við stjórnun grunnskóla, störf í skólasafni samkvæmt nánari ákvörðun í reglugerð, svo og þann launakostnað er stafar af lækkun kennsluskyldu kennara samkvæmt lagafyrirmælum eða ákvörðun menntamálaráðuneytis.
    Ríkissjóður greiðir enn fremur laun stjórnskipaðra prófdómara, sbr. þó 61. gr., og kostnað er leiðir af kjarasamningum ríkisins við kennara.

45. gr.

    Í stað 78.–80. gr. laganna kemur ein ný grein er verði 78. gr. en töluröð annarra greina breytist samkvæmt því. Greinin orðast svo:
    Sveitarfélög greiða allan annan rekstrarkostnað grunnskóla, en laun vegna kennslu og stjórnunar, eða kostnað vegna annarra þeirra rekstrarþátta sem greindir eru í lögum þessum sem verkefni ríkissjóðs.

46. gr.

    83. gr. laganna fellur brott.

47. gr.

    84. gr. laganna, er verður 81. gr., orðast svo:
    Menntamálaráðuneytið hefur eftirlit með framkvæmd þessara laga og skulu því afhentir ársreikningar skólanna.
    Hlutaðeigandi sveitarfélög annast fjármál og reikningshald, en geta falið skólanefnd, skólastjóra eða sérstökum reikningshaldara að hafa á hendi reikningshald í umboði sínu.
    Reikningar skólanna skulu endurskoðaðir á sama hátt og reikningar hlutaðeigandi sveitarfélaga. Þar sem fleiri sveitarfélög en eitt standa að rekstri grunnskóla, skulu hlutaðeigandi oddvitar sameiginlega tilnefna til fjögurra ára í senn tvo fulltrúa til að endurskoða reikninga skólans og tvo til vara. Menntamálaráðuneytið og aðilar í umboði þess skulu eiga aðgang að öllu slíku reikningshaldi og upplýsingum um skólakostnað.

48. gr.

    Í stað 85. og 86. gr. laganna kemur ein ný grein er verði 82. gr. og orðast svo:
    Ríkissjóður greiðir allan kostnað af rekstri fræðsluskrifstofu, þar með talinn allan kostnað við ráðgjafar- og sálfræðiþjónustu í þeim skólum sem lög þessi taka til. Fjárveitingar til þessara starfa skulu við það miðaðar að unnt sé að veita þá þjónustu sem lög og reglugerðir samkvæmt þeim ákveða.

49. gr.

    Við lögin bætist ný grein er verði 83. gr. sem orðast svo:
    Sveitarfélög greiða stofnkostnað grunnskóla, sbr. 23. gr. Jafnframt falla úr gildi ákvæði laga nr. 49/1967, um skólakostnað. Þó skulu haldast ákvæði þeirra laga um verðtryggingu stofnkostnaðarframlaga ríkissjóðs að því er tekur til fullgerðra framkvæmda eða framkvæmda sem hafnar eru og ríkissjóður er skuldbundinn til að greiða samkvæmt nánara samkomulagi við hlutaðeigandi sveitarstjórn. Menntamálaráðuneytið setur reglur um lágmarksstærð grunnskólahúsnæðis og búnað þess.

VII. KAFLI

Um breytingu á íþróttalögum, nr. 49/1956, með síðari breytingum.

50. gr.

    Í stað 5.–10. gr. í II. kafla laganna kemur ein ný grein, sem verði 5. gr., en töluröð greina, sem á eftir koma, breytist til samræmis við það. Greinin orðast svo:
    Bygging íþróttamannvirkja í þágu skóla og til almenningsnota eru í verkahring sveitarfélaga.
    Bygging íþróttamannvirkja fyrir íþróttafélög og félagasambönd innan vébanda Íþróttasambands Íslands og Ungmennafélags Íslands skal og vera í verkahring sveitarfélaga. Byggingarstyrkir skulu ákveðnir í fjárhagsáætlun sveitarstjórnar. Samþykki sveitarstjórnar um að mannvirki sé styrkhæft skal liggja fyrir áður en framkvæmdir hefjast.
    Alþingi veitir árlega fé í sjóð sem nefnist Íþróttasjóður. Fé úr sjóðnum skal veita til bygginga íþróttamannvirkja á vegum félaga sem um getur í 2. mgr. Íþróttanefnd gerir tillögur til fjárveitinganefndar um skiptingu fjárins.
    Í reglugerð, sem menntamálaráðuneytið setur, að höfðu samráði við íþróttanefnd og stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga, skal m.a. ákveða nánar um skilyrði fyrir opinberum styrkveitingum, rekstur og afnot mannvirkja sem njóta styrks.

51. gr.

    Fyrirsögn II. kafla laganna verði: Um bygginga rstyrki.

VIII. KAFLI

Um breytingu á lögum nr. 107/1970, um félagsheimili,

með síðari breytingum.

52. gr.

    Í stað 2., 3. og 4. gr. laganna kemur ein ný grein, sem verði 2. gr., en töluröð annarra greina breytist samkvæmt því. Greinin orðast svo:
    Sveitarstjórn veitir byggingarstyrki til félagsheimila eftir því sem ákveðið er í fjárhagsáætlun sveitarstjórnar. Samþykki sveitarstjórnar skal liggja fyrir áður en framkvæmdir hefjast.

53. gr.

    5. gr. laganna, sem verði 3. gr., orðast svo:
    Eigendum félagsheimila, sem notið hafa byggingarstyrks frá ríki eða sveitarfélagi, er skylt að heimila öðrum félögum, sem falla undir 1. gr., afnot af húsinu gegn hæfilegu gjaldi ef það fer ekki í bága við notkun þeirra sjálfra. Rísi ágreiningur um rétt til afnota af félagsheimili eða um eðlilegt leigugjald skulu hlutaðeigandi sveitarstjórnir skera úr.

54. gr.

    6. gr. laganna, sem verði 4. gr., orðast svo:
    Óheimilt er að selja félagsheimili, sem styrkt hafa verið af ríki eða sveitarfélagi, án leyfis menntamálaráðherra og hlutaðeigandi sveitarstjórnar. Óheimilt er að veðsetja félagsheimili sem styrkt hafa verið nema fyrir láni til greiðslu byggingarkostnaðar eða til endurbóta á eigninni.

55. gr.


    7. gr. laganna fellur brott.
    Í stað orðanna „styrk úr Félagsheimilasjóði“ í 8. gr. laganna, sem verður 5. gr., kemur: opinberum styrk.

56. gr.

    9. gr. laganna, sem verði 6. gr., orðast svo:
    Menntamálaráðuneytið getur, að höfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga, ákveðið með reglugerð nánari skilyrði til styrkveitinga og önnur atriði er snúa að framkvæmd laganna.
    Ágreiningi, sem verða kann um skilning á lögum þessum eða um framkvæmd þeirra, má skjóta til ráðherra.

57. gr.

    Við lögin bætist ný grein er verði 7. gr. og orðast svo:
    Til Menningarsjóðs félagsheimila skal renna hluti af skemmtanaskatti. Sjóðurinn skal verja tekjum sínum til að stuðla að menningarstarfsemi í félagsheimilum. Heimilt er einnig, ef sérstaklega stendur á, að styrkja menningarstarfsemi sem fram fer utan félagsheimila.
    Menntamálaráðuneytið skal fara með málefni sjóðsins.

IX. KAFLI

Um breytingu á lögum nr. 58/1970, um skemmtanaskatt,

með síðari breytingu.

58. gr.

    1. mgr. 6. gr. laganna orðast svo:
    Skemmtanaskattur rennur í ríkissjóð á árinu 1989, sbr. þó 7. gr. laganna. Eftir það skal skattinum ráðstafað, í samráði við fjármálaráðherra, til framkvæmda á sviði lista og menningarmála og til forvarnastarfa á sviði áfengis- og fíkniefnamála. Nánari ákvæði um ráðstöfun fjárins skal menntamálaráðherra setja í reglugerð.

59. gr.

    7. gr. laganna orðast svo:
    Af skemmtanaskatti skv. 2. gr. renna 10% til Sinfóníuhljómsveitar Íslands og 10% til Menningarsjóðs félagsheimila.

X. KAFLI

Um breytingu á lögum nr. 112/1976, um byggingu og rekstur

dagvistarheimila fyrir börn, með síðari breytingum.

60. gr.

    2. gr. laganna orðast svo:
    Bygging og rekstur dagvistarheimila er í verkahring sveitarfélaga. Menntamálaráðuneytið skal hafa með höndum umsjón og eftirlit með dagvistarstofnunum og vera sveitarstjórnum til ráðuneytis um þessi mál.
    Samþykki menntamálaráðuneytis og hlutaðeigandi sveitarstjórnar þarf til að setja á stofn dagvistarheimili.

61. gr.


    3. gr. laganna orðast svo:
    Sveitarstjórn ákveður byggingu og fyrirkomulag á rekstri dagvistarheimila í eigu þess.
    Sveitarstjórn getur veitt aðilum, sem reka vilja dagvistarheimili í samræmi við markmið þessara laga, styrki til byggingar og reksturs, eftir því sem ákveðið er í fjárhagsáætlun sveitarstjórnar. Áður en framkvæmdir hefjast skal ganga frá samningi milli sveitarstjórnar og félags um styrk og skilyrði varðandi rekstur heimilisins.

62. gr.

    Í 1. mgr 4. gr. laganna falla brott orðin „úr ríkissjóði“.

63. gr.

    6. gr. laganna orðast svo:
    Menntamálaráðuneytið skal í samráði við stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga setja í reglugerð almenn ákvæði um húsnæði og búnað dagvistarheimila sem falla undir lög þessi.
    Nú hættir aðili, sem notið hefur opinbers styrks til stofnunar dagvistarheimilis, rekstri þess og getur þá hlutaðeigandi sveitarfélag gert kröfu um endurgreiðslu styrksins.

64. gr.

    7. gr. laganna fellur brott.

65. gr.

    9.–14. gr. laganna fellur brott, en töluröð annarra greina breytist til samræmis við það.

XI. KAFLI

Um breytingu á lögum nr. 75/1985, um fjárhagslegan stuðning

við tónlistarskóla.

66. gr.

    3. mgr. 3. gr. laganna fellur brott.

67. gr.

    4. gr. laganna orðast svo:
    Stofnkostnaður tónlistarskóla greiðist af stofnendum hans.

68. gr.

    7. gr. laganna orðast svo:
    Sveitarfélög, sem reka tónlistarskóla, greiða launakostnað kennara og skólastjóra.

69. gr.

    Síðasti málsliður 8. gr. laganna falli brott. Við greinina bætist ný málsgrein er orðast svo:
    Sveitarstjórn skal taka afstöðu til áætlunar skólans og gera samkomulag við skólastjórn um kennslu og starfsmannahald fyrir 1. júlí ár hvert.

70. gr.

    Í stað orðanna „fjármálaráðuneytið og launanefnd sveitarfélaga gera“ í 1. málsl. 9. gr. laganna kemur: launanefnd sveitarfélaga gerir.

71. gr.

    Síðasti málsliður 10. gr. laganna fellur brott.

XII. KAFLI

Um breytingu á vegalögum, nr. 6/1977, með síðari breytingum.

72. gr.

    21.–24. gr. og 26.–27. gr. laganna falla brott en töluröð annarra greina breytist til samræmis við það.

73. gr.

    28. gr. laganna, sem verði 22. gr., orðast svo:
    Af tekjum til vegamála samkvæmt lögum um fjáröflun til vegagerðar skal árlega veita ákveðna fjárhæð til sýsluvega. Vegamálastjóri annast skiptingu fjárins milli sýslna eftir reglugerð,sem ráðherra setur. Við skiptingu skal aðallega miða við notkun og lengd þeirra sýsluvega í hverri sýslu sem falla undir a-c lið 2. mgr. 19. gr., en jafnframt skal þó höfð hliðsjón af því hve mikill hluti þeirra vega er lagður, ruddur eða ekki akfær.

XIII. KAFLI

Um landshafnir.

74. gr.

    Felld eru úr gildi lög nr. 23/1955, um landshöfn í Keflavíkurkaupstað og Njarðvíkurhreppi, lög nr. 38/1951, um landshöfn í Rifi á Snæfellsnesi, og lög nr. 61/1966, um landshöfn í Þorlákshöfn, með síðari breytingum. Um hafnir þessar skulu gilda hafnalög, nr. 69/1984.

XIV. KAFLI

Um kostnaðaruppgjör milli ríkissjóðs og sveitarfélaga.

75. gr.

    Ríkissjóður greiðir sveitarfélögum og félagasamtökum framlög vegna áfallinna skuldbindinga ríkissjóðs við byggingu dagvistarheimila, grunnskóla, íþróttamannvirkja og félagsheimila miðað við stöðu framkvæmda í árslok 1989. Við mat á þessum skuldbindingum ríkissjóðs skal miða við núgildandi lagaákvæði um hlutdeild ríkissjóðs í byggingarkostnaði fyrrgreindra mannvirkja.
    Þátttaka ríkissjóðs í framkvæmdum sem unnar eru á árinu 1989 skal þó aðeins nema þeim framlögum, sem eru á fjárlögum 1989, að frádregnum þeim hluta framlaganna, sem gengur til greiðslu á skuldum ríkissjóðs við sveitarfélög og félagasamtök vegna framkvæmda sem unnar voru fyrir árslok 1988.
    Um skiptingu fjár samkvæmt þessari grein skal fara eins og mælt verður fyrir um í fjárlögum árin 1990–1993. Menntamálaráðherra setur reglugerð í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga um framkvæmd þessarar greinar.

XV. KAFLI

Gildistaka.

76. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 1990. Jafnframt falla úr gildi önnur þau lagaákvæði en að framan eru talin sem kunna að brjóta í bága við þessi lög.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


Inngangur.
    Um langt árabil hefur farið fram mikil umræða um nauðsyn breyttrar verkaskiptingar ríkis og sveitarfélaga. Nokkrar nefndir hafa starfað að þessum málum og skilað tillögum til breytinga á verkaskiptingunni og safnað saman miklum upplýsingum.
    Á samráðsfundi ríkis og sveitarfélaga í júní 1986 var gert um það samkomulag að skipa tvær nefndir sem hefðu það hlutverk að gera tillögur um breytingar á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga og breytingar á fjárhagslegum samskiptum þessara aðila.
    Þáverandi félagsmálaráðherra skipaði aðra nefndina, en hún fjallaði um verkaskiptinguna. Nefndarmenn voru tilnefndir af Sambandi íslenskra sveitarfélaga, félagsmálaráðuneyti, fjármálaráðuneyti, menntamálaráðuneyti og heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti. Nefnd þessi var kölluð verkaskiptanefnd.
    Þáverandi fjármálaráðherra skipaði hina nefndina, en hún fjallaði um fjármálaleg samskipti ríkis og sveitarfélaga. Nefndarmenn í henni voru tilnefndir af Sambandi íslenskra sveitarfélaga, félagsmálaráðuneyti og fjármálaráðuneyti. Nefnd þessi var kölluð fjármálanefnd.
    Við vinnu sína höfðu nefndirnar einkum til hliðsjónar:
1.    Álitsgerð verkaskiptanefndar ríkis og sveitarfélaga frá 1980, en þessi nefnd var skipuð 1976 af Gunnari Thoroddsen, þáverandi félagsmálaráðherra.
2.    Skýrslu samninganefndar um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga frá 1983. Nefndin var skipuð 1982 af Svavari Gestssyni, þáverandi félagsmálaráðherra.
3.    Samþykkt stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga um verkaskiptamál frá apríl 1985.
    Nefndir þessar höfðu með sér náið samstarf og skiluðu þær álitum sínum vorið 1987. Álitin voru gefin út í bókinni „Samstarf ríkis og sveitarfélaga“ sem m.a. hefur verið dreift til alþingismanna og allra sveitarstjórnarmanna.
    Mikil kynning hefur farið fram á álitum nefndanna, bæði á vegum Sambands íslenskra sveitarfélaga og landshlutasamtaka sveitarfélaga. Þá voru
verkaskiptamálin aðalumræðuefni á samráðsfundum ríkis og sveitarfélaga í desember 1986 og maí 1987.
    Rétt þykir að gera hér grein fyrir nokkrum helstu atriðum í álitum nefndanna. Þar er m.a. fjallað um galla á núverandi verkaskiptingu, hvaða markmið voru höfð til hliðsjónar við tillögugerð og áhrif breytinga á fjárhag ríkis og sveitarfélaga.
    Varðandi galla á núverandi fyrirkomulagi verkaskiptingar ríkis og sveitarfélaga var bent á nokkur meginatriði sem komið hafa fram.
–    Talið er að ríkið hafi oft með höndum verkefni sem betur væru komin í höndum heimamanna vegna þekkingar þeirra á staðbundnum þörfum og aðstæðum. Sveitarfélögin mundu leysa þessi verkefni á hagkvæmari hátt.
–    Verkaskipting ríkis og sveitarfélaga er talin óskýr og flókin. Mikil vinna er lögð í margs konar uppgjör milli þessara aðila. Í mörgum tilvikum er stöðug togstreita og ágreiningur milli ríkis og sveitarfélaga einkum vegna fjárhagslegra samskipta.
–    Ákvarðanir um framkvæmdir eru oft taldar teknar af þeim aðilanum sem ekki ber síðan nægjanlega ábyrgð á stofnkostnaði og rekstri viðkomandi verkefnis.
–    Sveitarfélögin eru talin fjárhagslega ósjálfstæð og of háð ríkisvaldinu.
–    Í störfum sínum settu nefndirnar sér samhljóða markmið og tillögur þeirra ber að skoða með hliðsjón af þeim. Markmið þessi voru:
–    Sveitarfélögin hafi einkum með höndum verkefni sem ráðast af staðbundnum þörfum og þar sem ætla má að þekking á aðstæðum ásamt frumkvæði heimamanna leiði til betri og hagkvæmari þjónustu. Ríkið annist fremur verkefni sem hagkvæmara er að leysa á landsvísu.
–    Sveitarfélögin verði fjárhagslega sjálfstæðari og síður háð ríkisvaldinu.
–    Verkaskipting ríkis og sveitarfélaga verði skýrari og einfaldari og dregið verði úr samaðild.
–    Saman fari frumkvæði, framkvæmd og fjárhagsleg ábyrgð á stofnkostnaði og rekstri svo sem auðið er.
–    Stuðningur ríkisins við sveitarfélögin til að annast lögbundin verkefni verði í meira mæli í formi almennra framlaga í stað fjárveitinga til einstakra verkefna.
    Tillögur beggja nefndanna eru í mörgum liðum en í eftirfarandi yfirliti eru þær flokkaðar eftir málaflokkum.


    Sjá yfirlit yfir tillögur nefndanna þ.e. eins konar töflu um verkaskiptingu í prentuðu þinskjali.


    Fjármálanefnd gerði það að tillögu sinni að úthlutunarreglum Jöfnunarsjóðs yrði breytt og meira fé ráðstafað til að styrkja einkum hin fámennari sveitarfélög til að annast lögbundin verkefni, til að jafna útgjöld sveitarfélaga og til að standa undir stofnframkvæmdum. Tekjum sjóðsins yrði skipt í þrjá hluta, bundin framlög, sérstök framlög og almenn framlög og hlutfall hvers hluta ákveðið í lögum.
    Sérstök framlög Jöfnunarsjóðs yrðu skilyrt og sveitarfélögin þess vegna flokkuð eftir tegund, verkefnum, útgjöldum og tekjum. Framlögunum var ætlað að standa undir kostnaðarsömum stofnframkvæmdum hjá fámennum sveitarfélögum, bæta upp tekjumissi sveitarfélaga vegna fólksfækkunar, greiða fyrir sameiningu sveitarfélaga, aðstoða dreifbýlissveitarfélög til að standa undir auknum kostnaði við grunnskóla, bæta upp annan aukinn kostnað við breytta verkaskiptingu og til innbyrðis tekjujöfnunar milli sveitarfélaga.
    Við undirbúning fjárlagafrumvarps fyrir 1988 ákvað þáverandi ríkisstjórn að taka á því ári fyrsta skrefið í heildarendurskoðun á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Frumvarp um þetta efni var lagt fram á Alþingi í byrjun desember 1987. Afgreiðsla frumvarps þessa dróst á langinn og í tengslum við efnahagsaðgerðir ríkisstjórnarinnar í mars var það lagt til hliðar og málinu frestað.

Um frumvarpið.
    Félagsmálaráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, skipaði í nóvember 1987 nefnd til að undirbúa næsta skref í flutningi verkefna milli ríkis og sveitarfélaga og fjalla um uppgjör og eignatilfærslur sem því tengjast. Nefnd þessi var skipuð fulltrúum frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga og þeim ráðuneytum sem mest samskipti hafa við sveitarfélögin.
    Nefnd þessari var ætlað að starfa á grundvelli nefndarálitanna frá 1987. Þegar ljóst var hver yrðu afdrif verkaskiptafrumvarpsins, sem lagt var fram í desember 1987, var nefndinni falið að yfirfara verkaskiptamálið að nýju og undirbúa framlagningu lagafrumvarps nú í haust.
    Að ósk félagsmálaráðherra gekk nefndin frá drögum að áliti um miðjan október, sem þá var kynnt fyrir viðkomandi ráðherrum, ríkisstjórn og Sambandi íslenskra sveitarfélaga.
    Nefndarmenn og einnig félagsmálaráðherra hafa rætt við fjölda sveitarstjórnarmanna og kynnt sér viðhorf þeirra til málsins. Með tilliti til þessa og gagnrýni á fyrri tillögur leggur nefndin til nokkrar breytingar frá fyrri tillögum. Helstu breytingarnar eru:
1.    Sveitarfélögin greiði 40% af stofnkostnaði framhaldsskóla, sbr. nýsamþykkt lög. Fyrri tillögur gerðu ráð fyrir að ríkið greiddi allan stofnkostnaðinn.
2.    Lagt er til að fallið verði frá áformum um að færa styrki til íþrótta- og æskulýðsfélaga alfarið til sveitarfélaga.
3.    Gert er ráð fyrir að stofnkostnaði við heilsugæslustöðvar og sjúkrahús verði skipt þannig að sveitarfélögin greiði 40%, en allur rekstrarskostnaður verði greiddur af ríkinu. Í fyrri tillögum var reiknað með að ríkið greiddi stofn- og rekstrarskostnað sjúkrahúsa, en sveitarfélögin stofn- og rekstrarskostnað heilsugæslustöðva.
4.    Lagt er til að hlutverki Framkvæmdasjóðs aldraðra verði breytt og núverandi verkefni hans flytjist að mestu til sveitarfélaga (bygging dvalarheimila og íbúða fyrir aldraða).
    Seinna var tekin sú ákvörðun að fella niður tillögu verkaskiptanefndar varðandi byggðasöfn.
    Nefndin ítrekar fyrri tillögur um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga í sambandi við breytingar á verkaskiptingunni. Þar er lagt til að veitt verði sérstök framlög til sveitarfélaganna með þrennum hætti:
a.    Framlög til stofnframkvæmda.
b.    Framlög til rekstrars grunnskóla í dreifbýli.
c.    Framlög vegna breyttrar verkaskiptingar.
    Nefndin leggur til að upphæð þessara framlaga verði við það miðuð að hagur hinna minni og vanmegnugri sveitarfélaga batni við breytingar á verkaskiptingunni.
    Menntamálaráðuneytið hefur tekið saman lauslega áætlun um „skuldastöðu“ ríkissjóðs um næstu áramót vegna sameiginlegra framkvæmda ríkis og sveitarfélaga sem eru á vegum þess ráðuneytis. Samkvæmt áætluninni verður staðan þannig (í m.kr.):

    1. Íþróttamannvirki ...........         100
    2. Félagsheimili ..............         70
    3. Dagvistarheimili ...........         210
    4. Grunnskólar ................         685
              ——
    Samtals .......................         1.065

    Tekið skal fram að hér er um mjög grófa áætlun að ræða. Mikið vantar á að enn liggi fyrir nægjanlegar upplýsingar frá sveitarfélögunum um framkvæmdir
yfirstandandi árs enda nær þrír mánuðir eftir af árinu 1988.
    Ríkið og sveitarfélögin þurfa að komast að sameiginlegri niðurstöðu um „skuldastöðuna“. Einnig þarf að jafna ágreining sem verið hefur milli þessara aðila um við hvaða byggingarkostnað eigi að miða kostnaðarþátttöku ríkissjóðs.
    Nefndin leggur til að mótaðar verði nánari reglur um uppgjör milli ríkis og sveitarfélaga vegna breytinga á verkaskiptingunni og af því tilefni verði skipuð nefnd með fulltrúum ríkis og Sambands íslenskra sveitarfélaga.
    Nefndin leggur til að greiðsluskuldbindingar ríkissjóðs við sveitarfélögin verði gerðar upp með sem næst jöfnum greiðslum á eigi lengri tíma en fjórum árum eftir að breytingar á verkaskiptingunni taka gildi.
    Við samningu þessa frumvarps hefur verið hafður sá háttur á að hvert ráðuneyti, sem hlut á að máli, hefur unnið tillögur til breytinga á lögum sem undir það heyrir. Þannig hefur félagsmálaráðuneyti lagt til 1.–3. gr. frumvarpsins, heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti 4.–30. gr., menntamálaráðuneyti 31.–71. gr. og samgönguráðuneyti 72.–74. gr. Þessi ráðuneyti hafa einnig gengið frá athugasemdum við hverja einstaka grein frumvarpsins. Efni 75. gr. er hins vegar unnið í samvinnu félagsmálaráðuneytis, fjármálaráðuneytis og menntamálaráðuneytis.
    Á vegum félagsmálaráðuneytis og fjármálaráðuneytis var unnið við að fella ofangreindar tillögur saman í fyrirliggjandi frumvarp og einnig samningu hinna almennu athugasemda frumvarpsins.
    Frumvarpið er í öllum aðalatriðum byggt á tillögunum frá 1987 með þeim breytingum og áherslum sem nefndin leggur nú til. Helstu breytingar frá gildandi lögum, sem lagðar eru til í frumvarpinu, eru eftirfarandi:
1.    Felld verði niður 15% þátttaka sveitarfélaga í stofnkostnaði nokkurra stofnana fyrir fatlaða.
2.    Felld verði niður sérstök framlög til vatnsveitna í fjárlögum.
3.    Felld verði niður þátttaka sveitarfélaga í rekstri sjúkrahúsa og heilsugæstustöðva.
4.    Hlutdeild sveitarfélaga í stofnkostnaði sjúkrahúsa og heilsugæslustöðva verði 40% í stað 15%.
5.    Framlög sveitarfélaga til sjúkrasamlaga verði felld niður og sjúkratryggingarnar verði alfarið verkefni ríkisins.
6.    Framlög sveitarfélaga til atvinnuleysistrygginga verði felld niður.
7.    Ríkissjóður greiði alfarið kostnað við rekstur fræðsluskrifstofa.
8.    Sveitarfélög greiði allan reksturskostnað grunnskóla að undanskildum kennslulaunum.
9.    Sveitarfélög greiði allan stofnkostnað grunnskóla.
10.    Felld verði niður þátttaka ríkisins í stofnkostnaði íþróttamannvirkja á vegum sveitarfélaga.
11.    Felld verði niður þátttaka ríkisins í byggingu félagsheimila.
12.    Bygging dagvistarheimila fyrir börn verði alfarið verkefni sveitarfélaga.
13.    Felld verði niður þátttaka ríkisins í launakostnaði tónlistarskóla.
14.    Felld verði niður framlög sveitarfélaga til sýsluvega.
15.    Felld verði úr gildi sérstök lög um landshafnir og þess í stað gildi um þær almenn hafnalög.
    Til viðbótar við framantaldar breytingar er gert ráð fyrir að gerðar verði breytingar á lögum nr. 92/1982, um málefni aldraðra, en lögin missa gildi sitt um næstu áramót. Endurskoðun laganna stendur yfir og stefnt er að því að flytja sérstakt frumvarp um breytingar á þeim lögum. Þar verður lagt til að hlutverki Framkvæmdasjóðs aldraðra verði breytt og núverandi verkefni hans flytjist að mestu til sveitarfélaga og einnig að heimilishjálp verði verkefni sveitarfélaga.
    Reiknað er með að á vegum menntamálaráðuneytisins verði flutt frumvarp sem m.a. feli í sér að framhaldsnám í Tónlistarskólanum í Reykjavík verði alfarið greitt af ríkinu, svo og rekstur Myndlista- og handíðaskólans.
    Við mat á áhrifum breyttrar verkaskiptingar á fjármál sveitarfélaga eru einnig teknar með breytingar sem felast í nýjum lögum um framhaldsskóla.
    Samhliða þessu frumvarpi er lagt fram frumvarp til laga um tekjustofna sveitarfélaga. Í þeim kafla frumvarpsins, sem fjallar um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga, er lagt til að veitt verði sérstök framlög til sveitarfélaga vegna breytinga á verkaskiptingunni í samræmi við þær tillögur sem áður eru raktar hér í greinargerðinni.
    Á fylgiskjali með frumvarpi þessu kemur fram mat á áhrifum breyttrar verkaskiptingar á fjármál sveitarfélaga á ársgrundvelli.


Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um I. kafla.


    Kaflinn fjallar um breytingar á lögum nr. 41/1983, um málefni fatlaðra. Málefnum fatlaðra er nú sinnt af ríki, sveitarfélögum og ýmsum félagasamtökum.
    Samkvæmt lögunum eiga sveitarfélögin að taka þátt í stofnkostnaði og rekstri sumra stofnana fyrir fatlaða. Ákvæði laganna um þetta efni eru þó ekki nægjanlega skýr og hafa reynst mjög örðug í framkvæmd.

Um 1. gr.


    Í 26. gr. núverandi laga um málefni fatlaðra eru ákvæði um skiptingu stofnkostnaðar milli ríkis og sveitarfélaga. Lagt er til að þessum ákvæðum verði breytt á þann veg að ríkið greiði að fullu stofnkostnað skv. 2.–13. tölul. 7. gr., en sveitarfélögin eiga nú að greiða 15% af stofnkostnaði sumra þessara stofnana.

Um 2. gr.


    Í 28. gr. núverandi laga um málefni fatlaðra eru ákvæði um rekstrarskostnað og skiptingu hans. Lagt er til að þessum ákvæðum verði breytt þannig að 15% þátttaka sveitarfélaga í rekstrarskostnaði nokkurra stofnana fyrir fatlaða verði felld niður.

Um II. kafla.


    Bygging og rekstur vatnsveitna er eitt þeirra verkefna sem sveitarfélögunum eru falin í sveitarstjórnarlögum. Á fjárlögum hefur verið veitt nokkru fé til vatnsveituframkvæmda sveitarfélaga. Fjárveitingar eru samkvæmt heimild í lögum nr. 93/1947, um aðstoð til vatnsveitna, og hafa þær undanfarið runnið til fámennra þéttbýlissveitarfélaga sem þurft hafa að leggja í mjög kostnaðarsamar framkvæmdir.
    Lagt er til að hætt verði við að veita á fjárlögum sérstaka styrki til bygginga vatnsveitna og í tillögum um breytingar á verkefnum Jöfnunarsjóðs er gert ráð fyrir sérstökum fjárstuðningi við fámenn sveitarfélög sem ráðast þurfa í dýrar vatnsveituframkvæmdir.

Um 3. gr.


    Með hliðsjón af fyrirhugaðri breytingu laganna eru öll ákvæði laganna óþörf að undanskildri 8. gr., en þar er að finna heimild fyrir sveitarfélög að leggja á sérstakan vatnsskatt sem mörg sveitarfélög nýta sér. Lagt er til að allar greinar aðrar en 8. gr. verði felldar úr gildi. Greinin verður því 1. gr. laganna.

Um III. kafla.


    Þessi kafli fjallar um breytingar á lögum nr. 59/1983, um heilbrigðisþjónustu, en lagt er til að kostnaður við rekstur heilsugæslustöðva og sjúkrahúsa verði verkefni ríkisins að öllu leyti. Rétt er að geta þess að á vegum heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins er unnið að
heildarendurskoðun laganna og er reiknað með að frumvarp verði lagt fram bráðlega. Í frumvarpi þessu er því eingöngu tekið á atriðum sem snerta rekstur heilbrigðisþjónustunnar og stjórnir heilsugæslustöðva og sjúkrahúsa.

Um 4. gr.


    Gert er ráð fyrir aukinni hlutdeild sveitarfélaganna í kostnaði við byggingu og búnað heilsugæslustöðva, þannig að í stað 15% samkvæmt gildandi lögum skuli sveitarfélögin greiða 40%. Á móti losna sveitarfélögin við allar rekstrarskuldbindingar.

Um 5. gr.


    Gert er ráð fyrir því að rekstrarskostnaður heilsugæslustöðva greiðist að fullu úr ríkissjóði. Samkvæmt gildandi lögum greiðir ríkið eingöngu laun lækna, hjúkrunarfræðinga, ljósmæðra og sjúkraþjálfara, en sveitarfélögin annast allan annan reksturskostnað.

Um 6. gr.


    Með hliðsjón af því að ráðgert er að ríkið standi undir kostnaði við rekstur heilsugæslustöðva að öllu leyti er nauðsynlegt að breyta samsetningu stjórna heilsugæslustöðva þannig að í stað þess að starfslið stöðvarinnar kjósi einn mann er nú lagt til að það tilnefni tvo menn, hlutaðeigandi sveitarstjórn tvo eins og verið hefur, en ráðherra skipi einn án tilnefningar sem jafnframt verði formaður. Gerð er sú krafa til fulltrúa ráðherra að hann sé búsettur á starfssvæði hlutaðeigandi heilsugæslustöðvar. Á þennan hátt er reynt að treysta böndin milli þeirra sem stjórna rekstrinum og ríkisins sem annast allar greiðslur.

Um 7. gr.


    Gert er ráð fyrir því að á sama hátt og þegar um er að ræða stjórnir heilsugæslustöðva, sbr. 31. gr., skipi ráðherra einn stjórnarmann í stjórnir sjúkrahúsa sem jafnframt yrði formaður og búsettur á starfssvæði sjúkrahússins. Þetta á við þegar um er að ræða sjúkrahús sveitarfélaganna. Þegar um er að ræða einkasjúkrahús eða sjálfseignastofnun er gerð tillaga um það að í stað fulltrúa hlutaðeigandi sveitarfélags komi fulltrúi ráðherra og að hann skuli vera formaður, enda reksturinn með öllu óviðkomandi hlutaðeigandi sveitarfélögum. Með þessu ákvæði er einnig á sama hátt og varðandi heilsugæsluna reynt að treysta böndin milli stjórna sjúkrahúsa og ríkisins sem annast allar greiðslur.

Um 8. gr.


    Gerð er tillaga um það að framlag ríkisins til sjúkrahúsbygginga, þar með talinn búnaður og tæki, skuli vera 60% í stað 85% eins og gildir í dag. Vísast nánar um þetta til athugasemda við 4. gr. en sömu sjónarmið liggja hér að baki.
    Enn fremur er gerð sú tillaga að viðhald fasteigna og tækja greiðist sem stofnkostnaður í stað þess að það greiðist sem reksturskostnaður. Mundu því gilda sömu reglur um þetta þegar sjúkrahús eiga hlut að máli eins og gilda um heilsugæslustöðvar.
    Enn fremur væri óraunhæft að ætlast til að þegar reksturinn er allur kominn yfir á ríkið skuli viðhald fasteigna og tækja greiðast sem reksturskostnaður.

Um IV. kafla.


    Þessi kafli fjallar um breytingar á lögum nr. 67/1971, um almannatryggingar, með síðari breytingum. Um er að ræða nánast uppstokkun á sjúkratryggingakafla laganna, þ.e. V. kafla, því lagt er til að sjúkratryggingar verði eingöngu verkefni ríkisins og þar af leiðandi verði sjúkrasamlögin lögð niður. Vakin skal athygli á því að á vegum heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis starfar sérstök nefnd sem hefur það verkefni að endurskoða almannatryggingalög, sérstaklega ákvæðin um starfsemi Tryggingastofnunar ríkisins. Reiknað er með að nefndin skili tillögum á næsta ári en þó ekki fyrr en að loknu yfirstandandi Alþingi. Því eru eingöngu lagðar til breytingar á þeim atriðum, sem fjalla um sjúkrasamlögin og yfirtöku ríkisins á verkefnum þeirra, þ.e. um sjúkratryggingar og sjúkratryggingadeild Tryggingastofnunar ríkisins. Enn fremur eru leiðrétt nokkur atriði í lögunum sem ýmist hafa ekki raunhæft gildi í dag vegna síðar tilkominna laga, t.d. laga um málefni fatlaðra, nr. 41/1983, eða eiga ekki við eftir þá einföldun kerfisins sem verður við brottfall sjúkrasamlaga, en í mörgum tilvikum er um að ræða annaðhvort greiðslu frá sjúkratryggingadeild eða sjúkrasamlagi eða jafnvel báðum þessum aðilum.

Um 9. gr.


    Lögð er til sú breyting að Tryggingastofnun ríkisins annist auk lífeyristrygginga og slysatrygginga sjúkratryggingar og taki þar með yfir hlutverk sjúkrasamlaga. Að öðru leyti er 2. gr. laganna óbreytt.

Um 10. gr.


    Felld eru niður ákvæði 32. gr. laganna um samninga og greiðslur sjúkrasamlaga.

Um 11. gr.


    37. og 38. gr. almannatryggingalaga fjalla um sjúkrasamlög og starfsemi þeirra, um sameiningu sjúkrasamlaga, stjórnir sjúkrasamlaga og kjörtímabil þeirra. Með vísun til þess að með frumvarpinu er ætlunin að sjúkratryggingar verði verkefni ríkisins ber að fella greinarnar niður.

Um 12. gr.


    Hér er fjallað um hlutverk sjúkratryggingadeildar Tryggingastofnunar ríkisins og er greinin óbreytt frá gildandi 39. gr. að öðru leyti en því að teknir eru út þeir þættir sem snerta sjúkrasamlögin sérstaklega.

Um 13. gr.


    Með hliðsjón af brottfalli sjúkrasamlaga er gert ráð fyrir því að landsmenn séu sjúkratryggðir, eigi þeir lögheimili hér á landi, og að börn og unglingar 16 ára og yngri fylgi foreldrum. Hið sama gildi um stjúpbörn og fósturbörn.
    Enn fremur er gerð tillaga um það að ráðherra geti, að fengnum tillögum tryggingaráðs, sett nánari ákvæði í reglugerð um fyrirkomulag og framkvæmd sjúkratrygginga og um starfsemi sjúkratryggingadeildar Tryggingastofnunar ríkisins. Það gefur auga leið að skipuleggja verður þjónustu sjúkratrygginga og sjúkratryggingadeildar við landsbyggðina, auk þess sem setja verður fastar reglur um fyrirkomulag, t.d. um það hvar skuli greiða reikninga og hvert reikningar skuli sendir. Í þessu tilviki er rétt að benda á 8. gr. laganna, þar sem gert er ráð fyrir því að sveitarstjórn sé heimilt í samráði við tryggingaráð að tilnefna sérstakan trúnaðarmann Tryggingastofnunarinnar sé þar ekki umboðsskrifstofa Tryggingastofnunarinnar fyrir. Þetta ákvæði hefur lítið verið notað til þessa en fyllsta ástæða er til þess, þegar sjúkrasamlög hafa verið lögð niður, að sveitarstjórnir nýti sér þetta ákvæði til að halda tengslum við Tryggingastofnun ríkisins, m.a. til þess að annast upplýsingastörf í sveitarfélaginu og treysta tengsl íbúa sveitarfélagsins við Tryggingastofnun ríkisins eða umboðsskrifstofu hennar.

Um 14. og 15. gr.


    Með vísun til þess að sjúkrasamlög verða lögð niður verður að breyta 41. og 42. gr. laganna, þannig að þær fjalli eingöngu um greiðslu sjúkrahúskostnaðar á vegum sjúkratrygginga. Samkvæmt gildandi lögum er um tvenns konar greiðslur að ræða, annars vegar bein framlög úr ríkissjóði samkvæmt fjárlögum eða greiðslur sjúkrasamlaga og hins vegar greiðslur sjúkratryggingadeildar, sé um að ræða sjúkrahúslegu sem varað hefur lengur en 12 mánuði undanfarin tvö ár. Hér eftir yrði um einhlítar greiðslur sjúkratrygginga að ræða án þess að legutími skipti máli. Að öðru leyti eru greinarnar óbreyttar.

Um 16. gr.


    Í þessari grein er fjallað um önnur réttindi en þau sem upp eru talin áður og sjúkratryggingum ber að annast í stað sjúkrasamlaga. Að öðru leyti er greinin efnislega óbreytt frá 43. gr. gildandi laga. Athygli skal vakin á því að þær upphæðir, sem koma fram í greininni, eru þær sem eiga við í dag og hljóta þær að taka breytingum fyrir gildistöku sem er 1. janúar 1990.

Um 17. gr.


    Hér er fjallað um greiðslur hins opinbera vegna tannlæknaþjónustu fyrir tiltekna hópa, þ.e. börn og unglinga og elli- og örorkulífeyrisþega. Gert er ráð fyrir því að á sama hátt og ríkið tekur yfir starfsemi og greiðslur sjúkrasamlaga taki ríkið einnig yfir hlutdeild sveitarfélaganna í tannlæknakostnaði. Hér er um að ræða greiðslur fyrir börn og unglinga 6–15 ára, en sveitarfélögin hafa greitt þann kostnað sem nemur helmingi á móti helmingi frá ríki. Varðandi gullfyllingar, krónu- og brúargerð og tannréttingar fyrir þennan hóp hafa sveitarfélögin greitt 25% og ríkið 25%. Með þeim breytingum sem hér eru gerðar tekur ríkið á sig að greiða 100% kostnaðar við almennar tannlækningar en 50% af gullfyllingum, krónu- og brúargerð og tannréttingum. Að öðru leyti er greinin óbreytt frá 44. gr. gildandi laga.

Um 18. gr.


    Hér er fjallað um hlutverk sjúkratrygginga í greiðslu sjúkradagpeninga í stað sjúkrasamlaga. Að öðru leyti þarfnast greinin ekki skýringa.

Um 19. gr.


    Breyta þarf 1. mgr. 46. gr., þannig að ekki er lengur gert ráð fyrir því að sjúkrasamlög geri samninga um greiðslur varðandi sjúkratryggingar, heldur verði það eingöngu hlutverk Tryggingastofnunar ríkisins. Enn fremur er lagt til að felld verði niður ákvæði er skylda héraðslækni, sem situr í kauptúni eða kaupstað til að gegna læknastörfum gegn föstu gjaldi, ákvarði sjúkrasamlag og Tryggingastofnun ríkisins að svo skuli gert, þar sem þetta ákvæði er óraunhæft í dag með hliðsjón af breyttum lögum um heilbrigðisþjónustu og breyttu hlutverki héraðslækna.

Um 20. gr.


    Lögð er til orðalagsbreyting á 3. mgr. 46. gr. með hliðsjón af breytingum sem átt hafa sér stað á undanförnum árum varðandi starfsemi daggjaldanefndar, ekki síst með hliðsjón af því að stór hluti sjúkrahúsa er kominn yfir á kerfi fastra fjárveitinga.

Um 21. gr.


    Í 47. gr. gildandi laga er fjallað um rétt sjúklinga til þess að leita sér lækninga utan samlagssvæðis. Þetta ákvæði er óþarft nái breytingarnar fram að ganga. Hins vegar er lagt til, til þess að taka af allan vafa, að ákvæðið gildi um þá sjúkratryggðu sem staddir eru erlendis og þurfa nauðsynlega á læknishjálp að halda.
    Á þennan hátt yrði gerður munur, annars vegar á þeim sem þurfa að leita sér læknishjálpar erlendis og þeim sem þurfa að leita sér læknishjálpar þegar þeir eru staddir erlendis. Í fyrra tilvikinu þarf svonefnd „siglinganefnd“ skv. 42. gr. ætíð að fjalla um málið komi til greiðslna sjúkratrygginga, en í síðara tilvikinu yrði réttur einstaklingsins tryggður til þess að fá að minnsta kosti sambærilega greiðslu og um læknishjálp innan lands væri að ræða. Að öðru leyti er greinin óbreytt.

Um 22. gr.


    Í þessari grein er fjallað um flutninga manna milli samlagssvæða og greiðslu sjúkrabóta í slíkum tilvikum. Þar sem landið verður eitt svæði, nái breytingarnar fram að ganga, er greinin óþörf.

Um 23. gr.


    Þarfnast ekki skýringa.

Um 24.–26. gr.


    Þar sem í lögum um almannatryggingar koma fyrir í mörgum greinum orðin „sjúkrasamlag“, „sjúkrasamlagsstjórn“ og „samlagsmaður“ er nauðsynlegt að kveða á um aðra orðanotkun sé slíku til að dreifa eða að orðin hreinlega falli niður eigi það við. Allt of langt mál yrði að breyta þessum greinum, en hér má nefna 4. mgr. 51. gr., 53. gr., 3. mgr. 55. gr., 2. mgr. 56. gr., 58. gr., 62. gr., 1. mgr. 67. gr. og 2. mgr. 72. gr. Í sumum tilvikum þarf til ný orð, en í öðrum tilvikum hafa orðin enga þýðingu vegna breytinga á lögunum og falla því niður.

Um 27. gr.


    Reiknað er með að sjúkrasamlög hafi að fullu gert upp árið 1989 fyrir mitt ár 1990 og að frá og með þeim tíma ljúki starfsemi þeirra algjörlega. Lagt er til að eignir sjúkrasamlaga renni til Tryggingastofnunar ríkisins og að þær skuli nýttar undir umboðsskrifstofur Tryggingastofnunar ríkisins. Ekki er gerð tillaga um yfirfærslu starfsfólks en um þann þátt gilda að sjálfsögðu reglur um opinbera starfsmenn, annars vegar þegar störf eru lögð niður og hins vegar um forgang að störfum. Þetta er framkvæmdaratriði sem ræða þarf til hlítar áður en breytingarnar öðlast gildi.

Um V. kafla.


    Þessi kafli fjallar um breytingar á lögum nr. 64/1981, um atvinnuleysistryggingar, með síðari breytingu. Reiknað er með að starfsemi Atvinnuleysistryggingasjóðs verði verkefni ríkissjóðs og atvinnurekenda, þannig að ríkissjóður taki á sig skuldbindingar sveitarsjóða. Þetta hefur í för með sér breytingar á nokkrum greinum laganna.

Um 28. gr.


    Felldur er út b-liður 5. gr. þar sem fjallað er um framlög sveitarfélaganna.

Um 29. gr.


    Felld er niður 14. gr. laganna þar sem fjallað er um framlag sveitarsjóða til Atvinnuleysistryggingasjóðs. Aðrar greinar færast til sem því nemur.

Um 30. gr.


    Með hliðsjón af breyttum verkaskiptareglum og því að ríkissjóður tekur yfir hlutverk sveitarsjóða er nauðsynlegt að breyta 1. mgr. 15. gr., sem
reyndar verður 1. mgr. 14. gr., þannig að ríkissjóður taki á sig framlag sveitarsjóða og greiði sem nemur þreföldu iðgjaldi atvinnurekenda í stað tvöfalds, en samkvæmt gildandi lögum greiða sveitarsjóðir sama iðgjald og atvinnurekendur.

Um VI. kafla.


    Bygging og rekstur grunnskóla hefur verið sameiginlegt verkefni ríkis og sveitarfélaga.
    Bæði stjórnunarleg og fjárhagsleg samskipti eru mikil, en jafnframt í mörgu tilliti flókin. Þessi flóknu samskipti hafa m.a. leitt til óþarfa árekstra og margvíslegra uppgjöra sem hægt væri að komast hjá ef sveitarstjórnir tækju aukna ábyrgð á rekstri og byggingu grunnskóla. Hér er tvímælalaust um staðbundin verkefni að ræða sem sveitarfélög geta ráðið við með nokkurri aðstoð ríkisins.
    Til þess að einfalda þessi samskipti er lagt til að verkefni ríkisins verði að sjá að mestu um hinn uppeldisfræðilega þátt skólastarfsins, en hlutur sveitarfélaga verði að standa straum af kostnaði við umgjörð þess starfs, aðbúnað og aðstöðu.
    Ríkissjóður greiði því laun vegna kennslu, stjórnunar og starfa á skólasöfnum, við skólaráðgjöf og við yfirstjórn fræðslumála.
    Þetta felur í sér að ríkið greiðir laun skólastjóra og kennara og þann kostnað sem leiðir af kjarasamningum við samtök þeirra eins og áður, en auk þess allan kostnað við rekstur fræðsluskrifstofu og ráðgjafar- og sálfræðiþjónustu sem áður var greiddur að hluta af sveitarfélögum.
    Sveitarfélög kosti ein byggingu grunnskóla.
    Auk þess bæru sveitarfélögin ein kostnað af nokkrum rekstrarþáttum sem áður voru greiddir eða endurgreiddir að hluta úr ríkissjóði. Þessir rekstrarþættir eru: Laun vegna gæslu og mötuneytis nemenda í heimavistum og heimanakstri, skrifstofustarfa, tækjavörslu og félagsstarfa. Kostnaður vegna skólaaksturs, heilsugæslu, húsaleigu og trygginga fasteigna.
    Jafnhliða þessum tilfærslum á sviði fjármálalegra samskipta er gert ráð fyrir áherslubreytingum í stjórnun grunnskóla til samræmis við tilfærslur verkefna.

Um 31. gr.


    Samkvæmt gildandi lögum skulu fulltrúar í fræðsluráð kjörnir af landshlutasamtökum. Þegar ákvæði þetta var sett stóð til að setja sérstök lög
um landshlutasamtök. Það hefur ekki verið gert. Því er hér lögð til sú breyting að sveitarstjórnir eða samtök sveitarfélaga, sbr. 97. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 8/1986, í hlutaðeigandi fræðsluumdæmi kjósi fulltrúa í fræðsluráð og er það í samræmi við ríkjandi framkvæmd.

Um 32. gr.


    Að fenginni reynslu og samkvæmt eðli máls er ekki talið rétt að fræðsluráð fari með stjórn fræðslumála í umboði menntamálaráðuneytis, sem engin áhrif hefur á kjör manna til starfa þar og í reynd hafa fræðsluráð litið á sig sem fulltrúa heimaaðila.
    Gert er ráð fyrir að fræðsluráð fjalli um sameiginleg málefni sveitarfélaga á sviði skólamála í hlutaðeigandi fræðsluumdæmi.

Um 33. gr.


    Fellt er brott í 1. mgr. „og hlutaðeigandi sveitarfélaga“ og bætt við setningunni „sé svo um samið, sbr. 12. og 15. gr.“
    Í 3. tölul. fellur brott „og sveitarstjórn umdæmisins“.
    Með sama hætti og ekki er gert ráð fyrir því að fræðsluráð fari með umboð menntamálaráðuneytis, sbr. 32. gr. frumvarps þessa, er ekki gert ráð fyrir því að fræðslustjóri fari með umboð sveitarstjórna, nema þau vilji fela honum slíkt umboð.

Um 34. gr.


    Í 1. mgr. kemur „samtök sveitarfélaga“ í stað „landshlutasamtök sveitarfélaga“.
    Í 2. mgr. er lögð til sú breyting að starfsmenn fræðsluskrifstofu verði ríkisstarfsmenn og að um ráðningu þeirra fari eftir lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.
    3. mgr. er efnislega óbreytt að öðru leyti en því að í stað orðanna „fræðsluráð og landshlutasamtök“ koma orðin „fræðslustjóri og samtök“.

Um 35. gr.


    Felld er niður með 1. mgr. 23. gr. sú lagaskylda að samráð skuli haft við fræðsluráð áður en framkvæmdir við skólamannvirki hefjast, m.a. með tilliti til breyttrar stöðu fræðsluráða. Eðlilegt virðist að sveitarfélög séu frjáls um slíkt samráð.
    Sett er inn ný málsgrein um að stofnkostnaður grunnskóla greiðist af sveitarfélögum.
    Fellt er niður ákvæði í 2. mgr. 23. gr. núgildandi laga þess efnis að menntamálaráðuneytið ákveði hvaða gerð skólamannvirkja skuli reisa á hverjum stað þar sem nægjanlegt þykir að gerð skólamannvirkja hljóti samþykki ráðuneytisins, sbr. 1. mgr. sömu greinar.
    Þá eru felld niður ákvæði um að menntamálaráðuneytið láti gera framkvæmdaáætlun um skólabyggingar þar sem framkvæmdir færast til sveitarfélaga.

Um 36. gr.


    Felld eru brott ákvæði þess efnis að ríkissjóður yfirtaki hlut sveitarfélaga í skólabyggingum verði breyting gerð á skólahverfi og endurselji síðan nýjum aðilum o.s.frv.
    Gera verður ráð fyrir að eignatilfærslur geti átt sér stað með samningum milli sveitarstjórna án beinnar aðildar ríkis, auk þess sem vart getur talist eðlilegt að lögbinda kaup ríkissjóðs á skólahúsnæði eftir að sveitarfélög greiða allan stofnkostnað skólamannvirkja.
    Þá er einnig fellt niður ákvæði þess efnis að sérstakt samþykki ráðuneytis þurfi til vegna aðstöðu fyrir félagsstarfsemi í tengslum við skóla.

Um 37. gr.


    Með samþykkt laga nr. 34/1982, um Listskreytingasjóð ríkisins, sbr. 14. gr., voru fyrri ákvæði 27. gr. grunnskólalaga um framlag til listskreytinga skólamannvirkja felld úr gildi. Breyting á 27. gr. er því gerð til samræmis við þetta.

Um 38. gr.


    Með samþykkt 6. gr. laga nr. 94/1975 var sveitarfélögum gert að greiða viðhald húsa og lóða ásamt viðhaldi tækja og búnaðar í grunnskólum, sbr. og núgildandi 79. gr. grunnskólalaga. Orðalagi 28. gr. er breytt til samræmis og m.a. fellt niður að í reglugerð skuli sett ákvæði um að árlegur hundraðshluti af brunabótamati hvers skólahúss renni til viðhalds húss og lóðar.

Um 39. gr.


    Breyting frá gildandi lögum felst í því að í 1. mgr. 29. gr. er bætt við „þar á meðal skólastjóra- og kennarabústaðir“ til þess að taka af tvímæli um ráðstöfun slíkra mannvirkja.
    Þá er einnig bætt við í 1. mgr. „eða sveitarfélaga einna“, m.a. með tilliti til breyttrar verkaskiptingar.
    Í 3. mgr. er fellt niður ákvæði um samþykki menntamálaráðuneytis fyrir notkun skólamannvirkja utan skólatíma.
    Þá er bætt við málsgrein um að tekjur af eignum skóla renni til sveitarsjóðs.

Um 40. gr.


    Gert er ráð fyrir því að ríkissjóður greiði allan launakostnað vegna kennslu og stjórnunar, sbr. 44. gr. þessa frumvarps, en sveitarfélög greiði annan launakostnað, svo sem vegna mötuneytis, ræstingar, húsvörslu og heimavistargæslu.
    Í IV. kafla grunnskólalaga er sagt til um hvernig skuli staðið að ráðningu fastra starfsmanna ríkisins til kennslu og stjórnarstarfa. Lausráðnir starfsmenn, sem taka laun frá ríki, skulu ráðnir af skólastjóra með samþykki skólanefndar.
    Aðrir starfsmenn skólans teljast starfsmenn hlutaðeigandi sveitarfélags og skulu ráðnir af sveitarstjórn eða skólanefnd í umboði hennar.

Um 41. gr.


    Kostnaður við gæslu í heimavistum skal greiddur af sveitarfélögum. Í samræmi við þetta eru felld niður ákvæði þess efnis að menntamálaráðuneyti ráði starfsmenn til umsjónar og gæslu í heimavistum.

Um 42. gr.


    Felld er niður tilvísun í fjármálakafla laganna er fjallar um framlög ríkis til félagsstarfa.
    Þá er ákveðið að kostnaður við félagsstörf í skólum skuli greiddur af sveitarfélögum. Í samræmi við þetta eru felld niður ákvæði þess efnis að skólastjóri geti veitt kennurum afslátt frá kennsluskyldu vegna félagsstarfa.

Um 43. gr.


    Meginbreytingin frá núgildandi ákvæðum 66. gr. felur í sér að felld eru niður ákvæði um hvernig skuli staðið að stofnun ráðgjafar- og sálfræðiþjónustu í hverju umdæmi, en þess í stað sett inn ákvæði sem mælir fyrir um að í hverju umdæmi skuli vera ráðgjafar- og sálfræðiþjónusta fyrir grunnskóla.
    Þá er sett inn ákvæði þess efnis að kostnaður við ráðgjafar- og sálfræðiþjónustu greiðist úr ríkissjóði í stað þess að áður skiptist sá kostnaður að jöfnu milli ríkis og sveitarfélaga.

Um 44. gr.


    Í gildandi lögum er fjallað um kvótabundin framlög ríkisins til starfa við stjórnun, bókasöfn og kennslutæki auk félagsstarfa í grunnskóla.
    Samkvæmt fyrirhugaðri breytingu á verkaskiptingu greiðir ríkissjóður launakostnað sem leiðir af stjórnun grunnskóla og starfrækslu skólasafna, en sveitarfélög launakostnað vegna skrifstofustarfa, tækjavörslu og félagsstarfa. Fyrri málsgrein 77. gr., eins og hún er orðuð samkvæmt frumvarpi þessu, er ætlað að taka af tvímæli um þessa verkaskiptingu.
    Seinni málsgreinin kveður á um skyldu ríkissjóðs til að greiða laun stjórnskipaðra prófdómara og ýmsan aukakostnað kennara er leiðir af kjarasamningum ríkis og kennara.

Um 45. gr.


    78.–80. grein fjalla um greiðslur sveitarfélaga og greiðsluhlutdeild ríkissjóðs í ýmsum rekstrarþáttum grunnskóla.
    Samkvæmt fyrirhugaðri breytingu á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga bera sveitarfélögin ein kostnað af nokkrum rekstrarþáttum sem áður voru greiddir eða endurgreiddir að hluta úr ríkissjóði, en þeir eru, auk stofnkostnaðar, launakostnaður vegna umsjónar og mötuneytis nemenda í heimavistum og heimanakstri, skrifstofukostnaður, tækjavarsla, félagsstarf og akstur nemenda, heilsugæsla, að því leyti sem hún fellur til sem skólakostnaður, svo og húsaleiga og tryggingar fasteigna.
    Þessari grein er ætlað að taka af allan vafa vegna þessarar verkaskiptingar.

Um 46. gr.


    Þarfnast ekki skýringa.

Um 47. gr.


    1. mgr. er breytt með tilliti til þess að reikninga sveitarfélaga þarf ekki að leggja fram til endurskoðunar og úrskurðar um hlut ríkissjóðs í almennum rekstri grunnskóla, heldur eingöngu sem lið í gagna- og upplýsingaöflun.
    2. mgr. er óbreytt frá gildandi lögum að öðru leyti en því að felld eru brott orðin „með samþykki fræðslustjóra“.
    3. mgr. er óbreytt frá gildandi lögum.

Um 48. gr.


    Samkvæmt fyrirhugaðri breytingu á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga er ríkissjóði ætlað að greiða allan kostnað af rekstri fræðsluskrifstofu og ráðgjafar- og sálfræðiþjónustu. Þessari grein er ætlað að taka af tvímæli um greiðslur ríkisins vegna þessa þáttar skólastarfsins.
    Jafnframt falla úr gildi greinar er fjalla m.a. um kostnaðarhlutdeild sveitarfélaga í rekstri fræðsluskrifstofu.

Um 49. gr.


    Þar sem sveitarfélögum einum er ætlað að greiða stofnkostnað eru þau ákvæði laga nr. 49/1967, um skólakostnað, sem á annan veg mæla, felld úr gildi að öðru leyti en því að verðtryggingarákvæði laganna eru látin haldast þar til uppgjöri við sveitarfélög vegna skólabygginga er lokið.
    Þá er enn fremur kveðið á um að menntamálaráðuneyti skuli gefa út reglur um húsnæði og búnað grunnskóla.

Um VII. kafla.


    Bæði ríki og sveitarfélög taka nú þátt í byggingu íþróttamannvirkja, en mannvirkin eru rekin af sveitarfélögum eða íþróttafélögum. Þá styrkja báðir aðilar rekstur íþróttahreyfingarinnar og íþróttafélaga.
    Lagt er til að fjárveitingar til byggingar íþróttamannvirkja verði fyrst og fremst á vegum sveitarfélaganna. Nú tekur ríkissjóður þátt í byggingu íþróttamannvirkja og veitir nokkurt fé til stuðnings íþróttahreyfingunni. Fjárveitingar Íþróttasjóðs til mannvirkjagerðar eru yfirleitt lágar og ríkið er á eftir að greiða sinn hlut og einnig eru fjárveitingar óverðtryggðar.
    Breytt verkaskipting í þessum málaflokki kallar á verulegar breytingar á íþróttalögum, nr. 49/1956. Að sinni er einungis breytt þeim greinum sem snúa að hlutverki Íþróttasjóðs, en í ýmsum öðrum greinum laganna er minnst á Íþróttasjóð. Ekki eru í frumvarpinu gerðar tillögur um breytingar á þessum ákvæðum þar sem menntamálaráðuneyti hefur ákveðið að skipa sérstaka nefnd til að endurskoða íþróttalögin í heild sinni.
    Þrátt fyrir að gert sé ráð fyrir að stuðningur við byggingu íþróttamannvirkja verði í verkahring sveitarfélaganna er í frumvarpi þessu lagt til að Alþingi veiti árlega fé til byggingar íþróttamannvirkja á vegum félaga.

Um 50. gr.


    Lagt er til að ákvæði 5.–10. gr. íþróttalaga, þar sem fjallað er um Íþróttasjóð og verkefni hans, verði felld brott og í stað þeirra komi ný grein sem verði 5. gr.
    Í 1. mgr. eru ákvæði þess efnis að íþróttamannvirki í þágu skóla og almennings séu verkefni sveitarfélaga.
    Í 2. mgr. er kveðið á um að sveitarfélög taki að sér opinberan fjárstuðning vegna bygginga mannvirkja á vegum íþróttafélaganna.
    Í 3. mgr. er þrátt fyrir það gert ráð fyrir að íþróttafélögin geti fengið nokkurn styrk frá ríkinu úr sérstökum íþróttasjóði eftir því sem fé er veitt til á fjárlögum. Lagt er til að íþróttanefnd ríkisins geri tillögur til fjárveitinganefndar um skiptingu fjárins. Menntamálaráðherra mun setja reglugerð um styrki ríkisins og sveitarfélaganna.
    Jafnframt er lagt til að heiti kaflans sem nú er „Um Íþróttasjóð“ verði breytt í „Um byggingarstyrki“.

Um 51. gr.


    Þarfnast ekki skýringa.

Um VIII. kafla.


    Lagt er til að ríkisvaldið hætti afskiptum af byggingum félagsheimila og að sveitarfélögin taki við þessum skuldbindingum og samhliða því verði Félagsheimilasjóður lagður niður. Meginhluti tekna af skemmtanaskatti rann áður til Félagsheimilasjóðs, en nú styrkir ríkið byggingu félagsheimila með framlagi til sjóðsins á fjárlögum og meiri hluti skemmtanaskatts fer í ríkissjóð.

Um 52. gr.


    Í þessari grein frumvarpsins er lagt til að 2., 3. og 4. gr. laga um félagsheimili falli niður og í stað þeirra komi ný grein sem verði 2. gr. laganna og fjalli um styrkveitingar sveitarfélaga til bygginga félagsheimila.

Um 53. gr.


    Grein þessari er ætlað að koma í stað 5. gr. laganna um félagsheimili. Frumvarpsgreinin, sem er hluti af núverandi 5. gr., þarfnast ekki skýringa.

Um 54. gr.


    Grein þessi kemur í stað 6. gr. laganna. Hún fjallar um hömlur á sölu félagsheimilis sem notið hefur opinbers styrks og leiðir af breytingum þeim sem að framan greinir. Ákvæðið er hluti af 6. gr. gildandi laga.

Um 55. gr.


    Í 7. gr. núverandi laga eru ákvæði um hvað verði um félagsheimili ef félag sem staðið hefur að byggingu þess er lagt niður. Í frumvarpinu er grein þessi felld út en í staðinn er að finna ákvæði í 8. gr. frumvarpsins, þar sem m.a. er gert ráð fyrir að þessi atriði verði ákveðin í reglugerð.
    Í 8. gr., sem verði 5. gr., falla niður orðin „styrks úr Félagsheimilasjóði“.

Um 56. gr.


    Í 1. mgr. þessarar greinar er að finna nýmæli sem felur í sér að menntamálaráðuneyti er heimilt að setja reglugerð um styrkveitingar og önnur atriði er varða samskipti sveitarfélaganna og félagasamtaka sem njóta vilja opinbers styrks til byggingar félagsheimilis.
    Síðari málsgrein þessarar greinar er samhljóða 9. gr. núverandi laga.

Um 57. gr.


    Í 3. mgr. 2. gr. laga um félagsheimili eru ákvæði um fjárveitingu til Menningarsjóðs félagsheimila og um verkefni sjóðsins. Ákvæðum þessum er nokkuð breytt og lagt til að þau verði í sérstakri grein sem verði þá 7. gr. laganna.

Um IX. kafla.


    Tillaga um að hætta starfsemi Félagsheimilasjóðs leiðir til þess að breyta þarf ráðstöfun tekna á skemmtanaskatti samkvæmt lögum nr. 58/1970.

Um 58. gr.


    Í 6. gr. laga um skemmtanaskatt segir að hann skuli renna í Félagsheimilasjóð. Eftir gildistöku þessara laga er gert ráð fyrir að 20% af tekjum sjóðsins renni til Sinfóníuhljómsveitar Íslands og Menningarsjóðs félagsheimila, en aðrar tekjur sjóðsins fari til framkvæmda á sviði lista og menningarmála og til forvarnastarfa á sviði áfengis- og fíkniefnamála. Nánari ákvæði um ráðstöfun skal setja í reglugerð.

Um 59. gr.


    Hluti af tekjum skemmtanaskattsins rennur nú til Sinfóníuhljómsveitar Íslands og er honum varið til hljómleikahalds á landsbyggðinni. Ákvæði þessu er ekki breytt en við greinina er bætt að 10% af skattinum renni til Menningarsjóðs félagsheimila. Þessi fjárveiting var áður í 2. mgr. 2. gr. laga um félagsheimili sem lagt er til að verði breytt, sbr. 52. gr. frumvarps þessa.

Um X. kafla.


    Samkvæmt núverandi verkaskiptingu sjá sveitarfélögin um dagvistarmál barna að öðru leyti en því að ríkið styrkir byggingu dagvistarheimila. Ríkið styrkir nú byggingu dagvistarheimila með fjárveitingum á fjárlögum sem samsvara 50% af áætluðum byggingarkostnaði.
    Lagt er til að sveitarfélögin sjái ein um byggingu almennra dagvistarstofnana. Hins vegar verði meðferðarheimili og sérhæfð heimili fyrir fatlaða í verkahring ríkisins eins og fram kemur í I. kafla frumvarpsins.
    Breyting á þessum málum hefur áhrif á efni laga nr. 112/1976, um byggingu og rekstur dagvistarheimila fyrir börn. Í frumvarpinu er einungis breytt þeim ákvæðum sem snúa að fjármálasamskiptum við ríkið. Menntamálaráðherra hefur ákveðið að skipa sérstaka nefnd til að endurskoða lögin í heild sinni.

Um 60. gr.


    Lagt er til að sveitarfélögin kosti ein byggingar dagvistarheimila fyrir börn. Í samræmi við það er 2. gr. gildandi laga breytt og jafnframt er skilgreint hvað skuli vera hlutverk menntamálaráðuneytis varðandi þennan málaflokk.

Um 61. gr.


    Í 3. gr. gildandi laga er fjallað um þá aðila sem notið geta ríkisframlaga til byggingar dagvistarheimila. Þessu ákvæði er breytt og lagt til að sveitarfélögin taki að sér að styrkja þá aðila sem reisa vilja og reka dagvistarheimili. Þá er felld niður upptalning á þeim aðilum sem notið geta styrks.

Um 62. gr.


    Vegna þessara breytinga þarf að fella niður orðin „úr ríkissjóði“ í 1. mgr. 4. gr. laganna.

Um 63. gr.


    Grein þessi breytist þar sem ríkið hættir að styrkja byggingu mannvirkja sem falla undir lögin. Hins vegar er lagt til að menntamálaráðuneytið setji reglugerð um aðstöðu dagvistarheimila. Greininni er einnig ætlað að koma að hluta til í stað 11. gr. laganna sem felld er niður í 65. gr. frumvarpsins.
    Í 2. mgr. er breyting á ákvæðum 4. mgr. 6. gr. gildandi laga varðandi endurgreiðslu á veittum styrkjum hætti dagvistarheimili starfsemi.

Um 64. gr.


    Með framangreindum breytingum er 7. gr. gildandi laga óþörf. Eldra húsnæði sem keypt yrði fyrir dagvistarheimili getur notið fjárstyrks úr sveitarsjóði skv. 2. mgr. 13. gr. frumvarps þessa.

Um 65. gr.


    Við það að sveitarfélögin taka að sér alfarið byggingu dagvistarheimila og ríkið hættir að styrkja slíkar byggingar eru ákvæði 9., 10., 11., 13. og 14. gr. gildandi laga úrelt og því er lagt til að greinar þessar verði felldar úr gildi. Ákvæði 11. gr. er að hluta komið í 63. gr. frumvarpsins.

Um XI. kafla.


    Þessi kafli fjallar um breytingar á lögum nr. 75/1985, um fjárhagslegan stuðning við tónlistarskóla.
    Lagt er til að sveitarfélögin standi ein undir skuldbindingum hins opinbera við almenna tónlistarskóla, en ríkið greiði kostnað við æðri tónlistarmenntun.
    Í frumvarpi þessu eru einungis lagðar til breytingar á fjárhagslegum skuldbindingum sem er að finna í lögunum. Menntamálaráðherra hefur ákveðið af þessu tilefni að skipa sérstaka nefnd til að endurskoða lögin í heild sinni. Þá er í undirbúningi lagasetning um æðra tónlistarnám. Þar til þau lög hafa verið samþykkt er eðlilegt að gert verði sérstakt samkomulag milli núverandi rekstraraðila Tónlistarskólans í Reykjavík um kostnað við framhaldsnám í tónlist, þar á meðal menntun tónlistarkennara.
    Í gildandi lögum er gert ráð fyrir að ríkið styrki skóla sveitarfélaganna sem samsvari helmingi af kennslukostnaði. Sum sveitarfélög greiða nú meira en helming launakostnaðar vegna þess að kennslustundafjöldi sá, sem menntamálaráðuneytið miðar við, hefur ekki fylgt auknum umsvifum margra tónlistarskóla.
    Stuðningur sveitarfélaganna við tónlistarfræðslu er verulegur. Sem dæmi má nefna að tólf af þrettán sveitarfélögum í úrtaki fjármálanefndar, frá árinu 1987, verja fé til tónlistarskóla frá 0,5% upp í 4% af heildarútgjöldum. Áhrif breyttrar verkaskiptingar í þessum málaflokki hjá sveitarfélögunum í úrtakinu yrði útgjaldaauki frá 0,5% og allt að 3% af heildarútgjöldum.

Um 66. gr.


    Ákvæði í 3. mgr. 3. gr. um að menntamálaráðuneytið þurfi að samþykkja stofnun almennra tónlistarskóla verður óþarft með breyttri verkaskiptingu í þessum málaflokki og er því lagt til að málsgreinin verði felld niður.

Um 67. gr.


    Núgildandi 4. gr. laganna fjallar um stofnkostnað. Þar segir að hann greiðist af stofnendum tónlistarskóla, en veita skal styrk til hljóðfærakaupa og annars stofnkostnaðar eftir því sem fé er veitt á fjárlögum. Á undanförnum árum hafa fjárveitingar til þessara styrkja verið hverfandi á fjárlögum. Í samræmi við fyrirliggjandi tillögur er lagt til að síðari hluti 1. málsl. og allur 2. málsl. falli niður.

Um 68. gr.


    Í 7. gr. laganna eru ákvæði um styrk ríkissjóðs til tónlistarskóla sem sveitarfélög reka til að standa undir greiðslu á hluta launagreiðslna til kennara og skólastjóra. Í 68. gr. frumvarpsins er lagt til að sveitarfélögin greiði þennan kostnað og felld eru niður ákvæði um ríkisstyrki og hvernig skuli staðið að umsókn um þá.

Um 69. gr.


    Í 8. gr. gildandi laga eru ákvæði um stuðning við tónlistarskóla sem reknir eru af tónlistarfélögum og einkaaðilum. Fyrri hluta greinarinnar um umsókn til hlutaðeigandi sveitarstjórnar er ekki breytt með frumvarpi þessu, en fellt er niður ákvæði um það að þegar sveitarstjórn hefur samþykkt áætlun um rekstur þá skuli hún send menntamálaráðuneyti. Í staðinn kemur ný málsgrein um að hlutaðeigandi sveitarstjórn taki afstöðu til áætlunar tónlistarskóla og geri samkomulag fyrir 1. júlí við skólastjórn einkaskóla um kennslu og starfsmannahald.

Um 70. gr.


    Um störf starfsmanna tónlistarskóla, sem eigi eru reknir af sveitarfélögum, er fjallað í 9. gr. gildandi laga. Til samræmis við aðrar breytingar er lagt til að úr grein þessari verði felld niður ákvæði um aðild fjármálaráðuneytis að kjarasamningum tónlistarskólakennara. Önnur ákvæði greinarinnar eru óbreytt.

Um 71. gr.


    Í samræmi við fyrirliggjandi tillögu um að sveitarfélögin standi ein undir skuldbindingum hins opinbera við almenna tónlistarskóla er lagt til að felldur verði niður síðasti málsliður 10. gr. laganna þar sem mælt er fyrir um að ríkissjóður endurgreiði sveitarfélagi helming útlagðs kennslukostnaðar.

Um XII. kafla.


    Kaflinn fjallar um breytingar á vegalögum, nr. 6/1977, með síðari breytingum.
    Samkvæmt gildandi vegalögum fá sýsluvegasjóðir mestan hluta tekna sinna af ríkisframlagi á vegáætlun. Hreppsfélög leggja þó að jafnaði til um 1/3 hluta tekna sýsluvegasjóða og örlítið brot, minna en 1%, er fengið með sérstökum vegaskatti á fasteignir sem eru í eigu annarra en íbúa viðkomandi hrepps.
    Lagt er til að tveir síðasttöldu tekjuliðirnir falli niður og bygging og viðhald sýsluvega verði að öllu leyti kostuð af ríkisframlagi á vegáætlun. Sýsluvegir verða eftir sem áður sérstakur flokkur opinberra vega og héraðsnefndir eða vegasamlög annast gerð framkvæmdaáætlana í samráði við vegamálastjóra.

Um 72. gr.


    Felldar eru niður 21.–24. gr. og 26. gr. í vegalögum sem fjalla um framlög hreppsfélaga og vegaskatt af fasteignum. Einnig 27. gr. um reikningshald fyrir sýsluvegi, enda eðlilegt að vegamálastjóri annist það þar sem fé til veganna kemur nú eingöngu af vegáætlun.

Um 73. gr.


    Í núverandi 28. gr. eru ákvæði um ríkisframlag í hlutfalli við heildarframlög úr héraði, svo og um skiptingu þess milli sýslna.
    Þar sem heildarframlög falla niður er hér lagt til að heildarframlag ríkisins sé ákveðið hverju sinni í vegáætlun. Ákvæði um skiptingu þess milli sýslna eru efnislega óbreytt frá því sem er í gildandi lögum.

Um XIII. kafla.


    Hafnir hafa mikla þýðingu fyrir atvinnulíf margra sveitarfélaga. Um málefni hafna, byggingu þeirra og rekstur gilda nú hafnalög, nr. 69/1984. Í lögum er gert ráð fyrir að frumkvæði um hafnargerð sé hjá hlutaðeigandi sveitarfélagi og framkvæmdir á ábyrgð þess. Þá sjá sveitarfélögin og um rekstur hafnanna.
    Undantekning frá þessari meginreglu er bygging og rekstur þriggja hafna sem eru landshafnir samkvæmt sérstökum lögum. Í hafnalögum er bráðabirgðaákvæði þar sem samgönguráðherra er falið að taka upp viðræður við hlutaðeigandi sveitarstjórnir um að þeim verði afhent til eignar og rekstrar mannvirki landshafnanna í Rifi, Þorlákshöfn og Keflavík-Njarðvík. Þá er ríkissjóði heimilt að yfirtaka framkvæmdaskuldir téðra hafnasjóða. Ríkissjóður hefur lagt landshöfnunum til allt fé vegna framkvæmda og stundum nokkurt rekstrarfé. Rekstrarafkoma landshafnanna hefur farið batnandi.

Um 74. gr.


    Í samræmi við ákvæði hafnalaga er í þessari grein frumvarpsins lagt til að felld verði úr gildi sérstök lög um landshafnirnar þrjár og þess í stað gildi almenn hafnalög um þær eins og hafnir annarra sveitarfélaga.

Um XIV. kafla.


    Þessi kafli fjallar um uppgjör ríkissjóðs við sveitarfélög og ýmis félagasamtök vegna breyttra reglna um skiptingu stofnkostnaðar vegna byggingar dagvistarheimila, grunnskóla, félagsheimila og íþróttamannvirkja.

Um 75. gr.


    Í 1. mgr. eru ákvæði um uppgjör stofnkostnaðarframlaga ríkissjóðs vegna byggingar dagvistarheimila, grunnskóla, félagsheimila og íþróttamannvirkja. Gert er ráð fyrir að áfallinn stofnkostnaður vegna ofannefndra framkvæmda verði gerður upp miðað við stöðu framkvæmda í árslok 1989 og greiddur samkvæmt núgildandi lagaákvæðum. Þó skal þátttaka ríkissjóðs vegna framkvæmda sem unnar eru á árinu 1989 vera takmörkuð við fjárveitingar í fjárlögum 1989 að frádregnum þeim hluta þeirra sem gengur til greiðslu skulda ríkissjóðs við sveitarfélög og félagasamtök vegna framkvæmda sem unnar voru fyrir árslok 1988.
    Um skiptingu fjár samkvæmt þessari grein skal mælt fyrir um á fjárlögum, í fyrsta sinn 1990. Gert er ráð fyrir því að fagráðuneyti geri tillögu til Fjárlaga- og hagsýslustofnunar um uppgjör ógreiddra stofnkostnaðarframlaga
ríkissjóðs með venjulegum hætti við gerð fjárlaga. Við þá tillögugerð skal höfð hliðsjón af því hvernig fjárveitingum hefði verið háttað til hlutaðeigandi framkvæmdar að óbreyttum lögum.
    Gert er ráð fyrir því að ríkissjóður greiði áfallin stofnkostnaðarframlög með jöfnum greiðslum á fjórum árum.
    Þótt gert sé ráð fyrir að uppgjör fari fram á fjórum árum á það fyrst og fremst við um allsherjaruppgjör á skuldbindingum ríkissjóðs vegna bygginga dagheimila, grunnskóla, félagsheimila og íþróttamannvirkja. Ef einungis á eftir að inna af hendi lokagreiðslu vegna tiltekinnar framkvæmdar er ekkert því til fyrirstöðu að kveða á um hana við afgreiðslu fjárlaga 1990.

Um XV. kafla.


Um 76. gr.


    Þarfnast ekki skýringa.



Fylgiskjal.


    Sjá töflu um mat á áhrifum breyttrar verkaskiptingar á fjármál sveitarfélaga á ársgrundvelli miðað við núverandi tillögur í prentuðu þingskjali.