Ferill 210. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1988. – 1058 ár frá stofnun Alþingis.
111. löggjafarþing. – 210 . mál.


Nd.

343. Frumvarp til laga



um lánskjör og ávöxtun sparifjár.

Flm.: Eggert Haukdal.



1. gr.

    Seðlabanki Íslands getur að fengnu samþykki ráðherra bundið vaxtaákvarðanir innlánsstofnana takmörkunum til að tryggja að nafnvextir af útlánum verði eigi hærri en þeir eru í helstu viðskiptalöndum Íslands, svo og til að draga úr óhæfilegum vaxtamun milli inn- og útlána.

2. gr.

    Við gildistöku laga þessara lækka nafnvextir á óverðtryggðum útlánum í áföngum þannig að þeir verði innan 12 mánaða frá gildistöku laganna sambærilegir við hliðstæða vexti í samkeppnislöndum okkar.

3. gr.

    Skammtímalán og lán að meðallengd, þar með talin rekstrarlán, afurðalán, persónuleg lán og víxlar, sem um er samið eftir gildistöku laganna, skulu fylgja sömu vaxtaprósentu og um getur í 2. gr.
    Fasteignatryggð langtímalán, þar með talin lán til íbúðarhúsabygginga, fylgja einnig sömu vaxtaprósentu og um getur í 2. gr., þó með þeim fyrirvara að vextir af þeim mega að loknu vaxtaaðlögunartímabili vera allt að þremur prósentustigum hærri en vextir af skammtímalánum og lánum að meðallengd.

4. gr.

    Af spariinnlánum eftir gildistöku laganna greiðist til jafnaðar vextir einu til tveimur prósentustigum neðar útlánsvöxtum. Af hlaupareikningum greiðast ekki vextir.
    Jafnframt skal heimilt vera frá gildistöku laganna að gengistryggja spariinnlán sem staðið hafa óhreyfð í eitt ár eða lengur. Sama gildir um spariskírteini ríkissjóðs, enda séu þau ekki til skemmri tíma en eins árs.

5. gr.

    Seðlabanki Íslands ákveður í samráði við ríkisstjórn við hvaða gjaldmiðil eða gjaldmiðla skuli miða gengistryggingu skv. 4. gr. og sé hún nánar skilgreind í reglugerð.
    Kostnað af gengistryggingu spariinnlána skal greiða að hluta til með gengishagnaði en að öðru leyti af viðkomandi innlánsstofnunum, með aðstoð ríkissjóðs ef þröf krefur. Ríkissjóður beri kostnað af gengistryggingu spariskírteinanna.

6. gr.

    Við gildistöku laga þessara hættir verðtrygging samkvæmt lánskjaravísitölu. Þar með falla úr gildi ákvæði VII. kafla, 34.–47. gr., laga nr. 13/1979, um stjórn efnahagsmála. Enn fremur ákvæði 2. mgr. 9. gr. laga um Seðlabanka Íslands, nr. 36/1986, svo og önnur lagaákvæði er kunna að stríða gegn lögum þessum.

7. gr.

    Ráðherra setur reglugerð um framkvæmd laga þessara.

8. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Frumvarp þetta var lagt fram á síðasta þingi og hlaut þá afgreiðslu að vera vísað til ríkisstjórnarinnar eftir miklar umræður. Frumvarpið fékk mikinn stuðning úti í þjóðlífinu en lítinn hjá ráðandi mönnum. Þó er það staðreynd að síðan frumvarpið var lagt fram hefur í verulegum mæli verið unnið samkvæmt því, þ.e. vextirnir færðir niður. Gagnvart lánskjaravísitölunni hefur hins vegar lítið verið aðhafst nema að tala. Nú er þó boðuð sú breyting á grundvelli hennar af ráðamönnum sem óvíst er hvaða afgreiðslu hlýtur. Frumvarpið er hér endurflutt.
    Landsmönnum er velflestum orðið ljóst að verðtrygging fjárskuldbindinga, sem kveðið var á um í lögum nr. 13/1979, fær ekki staðist lengur. Lánskjaravísitalan hefur sprengt gjaldþol þegnanna, ekki aðeins atvinnufyrirtækja og heimila, heldur einnig opinberra stofnana og ríkissjóðs sjálfs sem rekinn hefur verið með halla. Útflutningsframleiðslan á einkanlega
undir högg að sækja, enda þarf hún að borga þrisvar til fjórum sinnum hærri vexti en keppendur hennar á erlendum mörkuðum (8–12%). Þess vegna er þrýst á gengislækkun sem er yfirvofandi ef ekkert er að gert. Hún hækkar hins vegar verð innfluttra vara og eykur skulda- og vaxtabyrði útflutningsfyrirtækjanna sjálfra, einnig ríkissjóðs og þar með skattþungann á þegnunum. Sjálfkrafa vaxtahækkanir samkvæmt vísitölu gera og íbúðarhúsnæði dýrara bæði fyrir þá sem byggja og leigja. Það eykur kaupkröfur launafólks og kaupgjaldshækkanir leiða aftur til vöruverðshækkana. Við höfum vaxta- og verðlagsskrúfu sem ekki er unnt að hemja, nema lánskjaravísitala verði tekin úr sambandi eins og kaupgjaldsvísitalan.
    Hér er rétt að geta þess að lög nr. 13/1979 gerðu ráð fyrir verðbótavísitölu á laun, sbr. 48. gr. Hún hefur verið afnumin en lánskjaravísitala ekki. Orkar tvímælis hvort slíkt stenst lagalega. Í framkvæmd leiddi afnám kaupgjaldsvísitölunnar til þess að hundruð launþega misstu íbúðir sínar. Jafngilti það í raun réttri eignaupptöku.
    Þessum orðum til staðfestingar læt ég fylgja hér með töflu sem unnin var af sérfræðingi í opinberri stofnun. Forsendur eru gefnar ofan við töfluna. Þær eru í stuttu máli þær að gengið er út frá húsnæðisstjórnarláni eins og það er í dag, þ.e. 3.300 þús. kr. til 40 ára á 3,5% ársvöxtum auk verðtryggingar samkvæmt lánskjaravísitölu. Miðað er við meðaltalshækkun hennar á ári hverju yfir sex ára tímaskeiðið frá janúar 1982 til desember 1987, þ.e. 35,8% (brotinu sleppt).
    Mánaðarkaup verkamanns með yfirvinnu var á síðasta ársfjórðungi 1987 47.575 kr., eða 570.900 kr. á ári. Svo sem sjá má á töflunni, dálk 7, eru þessi árslaun öll upp etin af greiðslum vaxta og afborgana af þessu eina láni þegar á fjórða ári þess. Verkamaðurinn hefur þá ekkert aflögu til að lifa af. Má fara nærri um það hvílíkan þrýsting slík lánskjör skapa til grunnkaupshækkana þegar kaupgjaldsvísitala er ekki reiknuð. Launahækkanir skila sér út í verðlagið sem íþyngir atvinnurekstri og gerir samkeppnisstöðu okkar út á við erfiðari. Það kallar á gengislækkun sem gripið er til æ ofan í æ. Þannig höfum við þá vaxta- og verðlagsskrúfu sem nú er að sliga þjóðfélagið, jafnt fyrirtæki sem heimili.
    Enda þótt tekist hafi að draga úr verðbólgu um hríð með því að keyra niður vexti með „handafli“ og með því að lögbjóða verðstöðvun og kaupstöðvun getur enginn maður vænst slíks til frambúðar meðan lánskjaravísitalan fær að leika lausum hala.
    Skylt er að vekja athygli á því að eigendur fyrirtækja hafa að minnsta kosti siðferðislegan rétt að ávaxta eigið fjármagn með gildandi vaxtaprósentu. Hver yrðu áhrif slíks á verðlagið?
    Lánskjaravísitala, sem breytist mánaðarlega eftir duttlungum óhefts verðs á vöru og þjónustu, veldur óstöðugleika á fjármagnsmörkuðum sem gerir áætlanir fram í tímann lítt eða ekki mögulegar. Af þeirri ástæðu m.a. er lagt til að verðtrygging samkvæmt henni verði afnumin á allar fjárskuldbindingar frá og með gildistöku þessara laga en vaxtapólitík okkar samræmd þeirri sem tíðkast í viðskiptalöndum okkar.
    Einstakar greinar frumvarpsins verða nú túlkaðar nokkru nánar.

Um 1. gr.


    Hún felur í sér breytingu á 2. mgr. 9. gr. laga um Seðlabanka Íslands. Samkvæmt 9. gr. þeirra laga ber bankanum að tryggja að raunvextir af útlánum innlánsstofnana verði eigi hærri en þeir eru að jafnaði í helstu viðskiptalöndum okkar. Það táknar að vextir af útlánum innlánsstofnana skuli elta verðbólguna, hver svo sem hún verður, og að raunvextir, eins og þeir kunna að vera í viðskiptalöndum okkar, komi þar til viðbótar.
    Einmitt þessi skrúfuhækkun vaxta hefur verið helsti verðbólguvaldurinn hérlendis upp á síðkastið. Vaxtahækkanir á þensluskeiði leiða til hækkana á verði vöru og þjónustu innan lands. Fyrirtæki, sem flytja framleiðslu sína út og keppa erlendis, ráða ekki verði á heimsmarkaði og geta því ekki bætt hærri vaxtaprósentu við verðið þar. Skiptir í því tilviki ekki máli hvort við köllum hluta vaxtanna „verðbótaþátt“. Nafnvextir verða að vera svipaðir og í viðskiptalöndum okkar til að jafna samkeppnisstöðu hérlendra atvinnuvega við þá erlendu. Að öðrum kosti verður að jafna mismuninn með endurteknum gengisfellingum.

Um 2. gr.


    Vextir af útlánum, sem ekki eru í viðjum verðtryggingar, séu lækkaðir þegar frá gildistöku laganna. Þetta er orðið aðkallandi eins og segir í greinargerð hér að framan. Hins vegar er óæskilegt að framkvæma snöggar vaxtabreytingar og því er lagt til að þær komi í áföngum.

Um 3. gr.


    Frá sama tíma sé að því stefnt að lágvextir gildi um öll skammtímalán og lán af meðallengd, þar með talin rekstrarlán, afurðalán, persónuleg lán og víxla. Vextir af þessum lánum hafa beinust áhrif á framleiðslukostnað í landinu og á samkeppnisstöðu atvinnuveganna út á við, svo og á verð vöru og þjónustu almennt. Skammtímalán eru lán til skemmri tíma en þriggja ára, en lán af meðallengd lán frá þremur og allt að tíu árum.
    Varðandi langtímaíbúða- og fasteignalán, þ.e. lán til tíu ára eða lengur, er settur sá fyrirvari að þau megi vera á vöxtum allt að þremur prósentustigum hærri en almennir útlánsvextir. Þetta er í samræmi við hefðir sem gilda í vestrænum ríkjum. Miðað við aðstæður ytra núna væru vextir af þessum langtímalánum mest 15% á ári. Ætti að vera vel mögulegt að halda verðbólgu langt fyrir neðan þau mörk þegar vísitölufarganinu er aflétt.

Um 4. gr.


    Gengistrygging hæfir lengri tíma spariinnlánum. Hún sér fyrir því að króna sparifjáreigandans haldi verðgildi sínu þó að gengið sé lækkað af stjórn peningamála. Slík gengistrygging er óþörf á skammtímainnlán, sem bíða aðeins gróðatækifæris í bönkum eða sparisjóðum. Viðskiptareikningar mynda yfirleitt um 2 / 3 af innlánum viðskiptabanka og yfir 90% af rekstrarkostnaði bankanna fer í að þjónusta þá reikninga. Þess vegna greiða erlendir bankar litla eða enga vexti af veltiinnlánum. Það hjálpar þeim til að greiða hærri vexti af langtímaspariinnlánum.

    Spariskírteini ríkissjóðs skulu vera gengistryggð, enda sé gildistími þeirra ekki skemmri en eitt ár. Þau geta gegnt miklu hlutverki við stjórn peningaframboðs og mega því hafa sérstöðu.
    Önnur verðbréf og skuldabréf séu hins vegar ekki gengistryggð. Markaðsverð þeirra ákvarðast eftirleiðis af afföllum í stað verðtryggingar. Útgefandi veit þá frá byrjun að hverju hann gengur, en með verðtryggingu samkvæmt vísitölu er hann í stöðugri óvissu.

Um 5. gr.


    Gengistrygging spariinnlána, sem staðið hafa óhreyfð í eitt ár eða lengur, skal nánar skilgreind í reglugerð svo sem segir í frumvarpinu. Þannig skal t.d. ákveða við hvaða gjaldmiðil eða gjaldmiðla skuli miða.
    Varðandi kostnað af gengistryggingunni skal þetta tekið fram:
1.     Með gengishagnaði er átt við verðhækkun á birgðum útflutningsvara sem til eru í landinu þegar gengi er lækkað. Eðlilegt er að ríkissjóður ráðstafi honum. Gengislækkunin sjálf er hins vegar til þess að bæta rekstrarafkomu útflutningsatvinnuveganna. Hér er lagt til að hluta af gengishagnaði verði varið til að rétta hlut sparifjáreigenda þegar verðgildi krónunnar fellur.
2.     Það er yfirlýst stefna ríkisstjórnarinnar að halda gengi íslensku krónunnar stöðugu. Líklegt má telja að það takist í reynd, enda er skuldastaða bæði útflutningsgreinanna og ríkissjóðs sjálfs með þeim hætti að gengislækkun hjálpar lítt. Ef einhver gengislækkun, og þá væntanlega lítil, er talin óhjákvæmileg ætti hún ekki að hafa í för með sér neinn verulegan kostnað við gengistryggingu langtímaspariinnlána.
3.     Þeir sem eiga stórar fjárhæðir í lausu fé ávaxta það gjarnan á verðbréfamarkaði, í viðskiptum eða í fasteignum. Einnig af þessari ástæðu er ekki að vænta mikils kostnaðar við gengistrygginguna. Það er einkum gamla fólkið sem lætur fé liggja lengi inni á sparisjóðsbókum og hag þess verður að tryggja.
4.     Vextir af almennum spariinnlánum, svo og af þriggja og sex mánaða spariinnlánum, ættu gjarnan að vera hinir sömu og af spariinnlánum til eins árs eða lengur. Það dregur úr hinum síðastnefndu sem ein eru gengistryggð og lækkar því gengistryggingarkostnaðurinn.
5.     Sú staðreynd að engir vextir eru greiddir af veltiinnlánum (tékkareikningum) og að spariinnlánin bera til jafnaðar vexti einu prósentustigi neðar almennum útlánsvöxtum gerir allsherjarvaxtamun banka og sparisjóða (svonefndur „spread“) meiri en áður, og það auðveldar innlánsstofnunum að standa straum af gengistryggingunni.
6.     Ætla má að fasteignalán banka og sparisjóða muni í framtíð nema, eins og í öðrum löndum, um 20% heildarútlána. Þar sem slík langtímalán mega bera allt að 3% hærri vexti en önnur lán hefur það líka þau áhrif að auka allsherjarvaxtamuninn og arðsemi innlánsstofnananna.
7.     Ef gengishagnaður hrekkur ekki til og innlánsstofnanir hafa ekki heldur bolmagn til að gengistryggja langtímaspariinnlán, hvort tveggja harla ólíklegt, kemur í hlut ríkissjóðs að greiða kostnaðinn af slíkri gengistryggingu að minnsta kosti að nokkru. Sú fjárhæð yrði aðeins brot þess sem ríkissjóður sparar við afnám verðtryggingar samkvæmt lánskjaravísitölu.

Um 6. gr.


    Við gildistöku laga þessara hættir verðtrygging samkvæmt lánskjaravísitölu. Gildir einu hvort til þeirra er stofnað hjá bönkum, sparisjóðum, fjárfestingarsjóðum, lífeyrissjóðum, verðbréfamörkuðum eða í öðrum viðskiptum.




Fylgiskjal.


HÉR KEMUR REPRÓ ÚR GUTENBERG.