Ferill 71. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1988. – 1058 ár frá stofnun Alþingis.
111. löggjafarþing. – 71 . mál.


Sþ.

359. Skýrsla



forsætisráðherra um stöðu og rekstur fiskvinnslufyrirtækja, samkvæmt beiðni.

(Lögð fyrir Alþingi á 111. löggjafarþingi 1988–89.)



    Að ósk forsætisráðherra hefur Þjóðhagsstofnun í samvinnu við ráðuneytið tekið saman gögn í samræmi við ofangreinda beiðni eftir því sem tök voru á. Byggt var að mestu á ársreikningum fyrirtækja 1987. Kannaðir voru möguleikar á að byggja skýrslugerðina á reikningum frystihúsa á þessu ári, þ.e. milliuppgjöri fyrirtækjanna fyrstu níu mánuði ársins 1988. Þessir möguleikar voru ekki fyrir hendi sem stafa af takmörkuðum fjölda reikninga hreinna frystihúsa. Þess í stað var gerð rekstraráætlun fyrir árið 1988 sem byggð var á reikningum 1987. Þessi rekstraráætlun var síðan borin saman við fyrirliggjandi milliuppgjör fyrstu níu mánuði ársins 1988 sem sýna svipaða niðurstöðu að því er varðar rekstur eins og nánar verður vikið að hér síðar.
    Það skal tekið skýrt fram að þessi samantekt Þjóðhagsstofnunar á rekstri og stöðu frystihúsanna miðast ekki við hagkvæmnisathugun né greiningu á vandkvæðum einstakra fyrirtækja. Heldur er reynt eftir fremsta megni að bæta við þær upplýsingar sem þegar hafa komið fram um þessa grein.

    Skýrslan, sem hér fer á eftir, skiptist í fjóra hluta auk talnaefnis og fylgiskjals:
     Fyrsti hlutinn fjallar um úrtak og úrvinnslu ársreikninga þeirra fyrirtækja sem könnunin nær yfir.
     Annar hlutinn greinir frá helstu niðurstöðum.
     Þriðji hlutinn fjallar sérstaklega um rekstur og afkomudreifingu frystihúsanna.
     Fjórði hlutinn fjallar síðan sérstaklega um efnahagsstöðu.

    Eftirtaldar töflur og fylgiskjal fylgja þessari skýslu:
Tafla 1.     Yfirlit yfir nokkrar rekstrar- og efnahagsstærðir 30 frystihúsa.
Tafla 2.     Rekstraráætlun 30 frystihúsa almanaksárið 1988.
Tafla 3.     Samandregið rekstraryfirlit 30 frystihúsa árið 1987.
Tafla 4.     Sundurgreint rekstraryfirlit 30 frystihúsa árið 1987.
Tafla 5.     Velta og ársverk í 30 frystihúsum 1987.
Tafla 6.     Samandregið efnahagsyfirlit 30 frystihúsa í árslok 1987.
Tafla 7.     Sundurgreint efnahagsyfirlit 30 frystihúsa í árslok 1987.

     Töfluviðauki:
Tafla v1.     Milliuppgjör reksturs frysti- og saltfiskdeilda 29 fyrirtækja fyrstu níu mánuði ársins 1988.
Tafla v2.     Efnahagsreikningur 29 fyrirtækja í sjávarútvegi í septemberlok 1988.

     Fylgiskjal:
    Greinargerð um uppgjörsaðferðir Þjóðhagsstofnunar og aðrar uppgjörsaðferðir.


1. Úrtak og úrvinnsla.
    Árlega safnar Þjóðhagsstofnun saman ársreikningum fyrirtækja í sjávarútvegi. Þessi söfnun er venjulega byggð á stóru úrtaki flestra vinnslugreina í sjávarútvegi. Árið 1987 náði þetta úrtak til um 85% af hefðbundinni frystingu miðað við móttekið hráefni. En með hefðbundinni frystingu er átt við alla landfrystingu fyrir utan rækju- og hörpudiskvinnslu. Það er kunnara en frá þurfi að segja að mörg fyrirtæki í sjávarútvegi stunda blandaðan rekstur. Ekki aðeins með sameiginlegan rekstur veiða og vinnslu, heldur og fjölþætta starfsemi innan hvorrar greinar fyrir sig. Þannig eru mörg frystihús með framleiðslu á saltfiski, skreið, mjöli og lýsi samhliða freðfiskframleiðslunni. Þetta veldur því að afar fá fyrirtæki eru með hreina frystingu á sínum snærum. Sem dæmi má nefna að rúmlega helmingur af saltfiskverkuninni fer fram í frystihúsum landsins.
    Við val á þeim fyrirtækjum, sem könnunin náði yfir, voru á grundvelli úrtaks Þjóðhagsstofnunar valin öll frystihús sem höfðu meira en 80% af framleiðslu sinni í hefðbundinni frystingu og jafnframt efnhagsreikning á bak við rekstrarreikning. Með þessu móti fengust 30 fyrirtæki sem að uppistöðu stunda frystingu. Hlutfall frystingar í þessum fyrirtækjum var liðlega 90% árið 1987. Helmingur þessara fyrirtækja voru jafnframt með útgerð.
    Við flokkun eftir rekstrarafkomu þessara fyrirtækja var miðað við verga hlutdeild fjármagns sem hlutfall af tekjum í vinnslu. En verg hlutdeild fjármagns er með öðrum orðum rekstrarafgangur sem er ætlað að mæta afskriftum
og vöxtum af lánsfé auk ávöxtunar eigin fjár og tekju- og eignarsköttum. Þörfin fyrir verga hlutdeild fjármagns er afar mismunandi eftir fyrirtækjum sem ræðst af þeim þáttum sem taldir voru upp hér á undan.
    Úrvinnslunni var þannig háttað að fyrirtækjunum er raðað eftir afkomu. Það lakasta er merkt númer 1 og það sem sýndi bestu rekstrarafkomuna er merkt númer 30 eins og kemur fram á töflu 4. Einnig voru fyrirtækin dregin saman í þrjá jafnstóra hópa til að auðvelda yfirsýn, sbr. töflurnar hér á eftir. Í hverjum hóp var helmingur fyrirtækjanna með útgerð.
    Ekki þótti ráðlegt að flokka afkomuna eftir hreinum hagnaði því tvenns konar uppgjörsaðferðir tíðkast í ársreikningum fyrirtækjanna. Ýmist er um að ræða skattaleg uppgjör eða svokallaða fráviksaðferð. Þessar aðferðir geta leitt til mismunandi niðurstöðu í fjármagnsliðum, en hafa ekki áhrif á afkomuna á mælikvarða vergrar hlutdeildar fjármagns.

2. Helstu niðurstöður.
    Í töflu 1 er sýnt samandregið yfirlit yfir nokkrar rekstrar- og efnahagsstærðir fyrirtækjanna sem könnunin nær yfir. Hér kemur fram afar mismunandi afkoma í frystingu eftir hópum sem tilgeindir voru hér að framan. Þannig skilja um 14 prósentustig í vergri hlutdeild fjármagns á milli 10 lökustu og 10 bestu fyrirtækjanna. Einnig kemur fram á þessari töflu að aukin meðalvelta í fiskvinnslu á hvert fyrirtæki fer saman við betri afkomu. Hlutfall af seldum afla innan lands af hráefnisnotkun gefur til kynna í hve ríkum mæli fyrirtækin eru sjálfum sér nóg um öflun hráefnis. Þetta hlutfall er 32% í lakasta afkomuhópnum, en tæplega 70% í þeim besta. Seldur afli erlendis sem hlutfall af heildaraflaverðmæti hvers hóps virðist vera álíka stór eða í kringum 25%.
    Það sem snýr að efnhags- og greiðslustöðu fyrirtækjanna má sjá að hærra eiginfjár- og veltufjárhlutfall fer saman með hærri vergri hlutdeild fjármagns þegar litið er á afkomuna eftir fyrrgreindum hópum. Hlutfall skulda af heildarveltu, útgerðar og fiskvinnslu samtals, er lægst í besta afkomuhópnum. Þessi sami hópur var aftur á móti með mestu fjárfestingarnar árið 1987, eða sem nemur um 18% af heildarveltu. Áætlaður afborgunartími langtímalána er greinilega að meðaltali knappastur hjá lökustu fyrirtækjunum en rýmstur hjá þeim sem tilheyra besta hópnum.

3. Rekstur og afkomudreifing.
    Í töflu 4 er sýnt rekstraryfirlit fiskvinnslunnar fyrir sérhvert fyrirtæki árið 1987 sem könnunin náði til. Allar tölur birtast sem hlutföll af veltu í
fiskvinnslu fyrirtækjanna. Í þessari töflu kemur fram töluverð sundurliðun í tekju-, gjalda- og fjármagnsliði. Í rekstrartekjum er liður fyrir aðrar tekjur, en undir hann fellur innanlandssala afurða, endurgreiddur söluskattur og fleira. Í rekstrargjöldum kemur fram liður undir heitinu önnur aðföng, en þar eru færðir breytilegir kostnaðarliðir sem ekki er getið í tilgreindum rekstrargjöldum. Samkvæmt þessari töflu er mikil afkomubreidd milli lakasta fyrirtækisins og þess besta. En hann er nálægt 30 prósentustigum í vergri hlutdeild fjármagns (sjá neðstu línu í töflu 4).
    Í töflu 5 koma fram upplýsingar um veltu fyrirtækjanna árið 1987 og sundurgreining hennar milli vinnslu og veiða. Jafnframt þessu er sýndur áætlaður fjöldi ársverka í þessum fyrirtækjum í stað fjölda starfsmanna eins og beðið er um. Þessi áætlun byggir á launamiðaskrá 1986. Upplýsingar um nákvæman fjölda starfsmanna og hversu stór hluti þeirra er búsettur í sveitarfélagi fyrirtækisins liggja ekki fyrir.
     Tafla 3 greinir frá samandregnu rekstraryfirliti reikninganna á töflu 4. Í þessu yfirliti má glöggt sjá hvernig helstu rekstrargjöld lækka í hlutfalli við veltu samfara betri afkomu. Skýrast er þetta samband með kostnaðarliðum eins og hráefni, launum vegna framleiðslu, flutningskostnaði og viðhaldi.
     Tafla 2 sýnir áætlun um rekstur frystihúsanna fyrir árið 1988. Hér eru fjármagnsliðir endurmetnir samkvæmt aðferðum Þjóðhagsstofnunar. Einnig hér má greina töluverða afkomudreifingu á mælikvarða hreins hagnaðar. Þannig er áætlað að 10 lökustu húsin séu rekin með um 12 1 / 2 % halla og þau 10 bestu með um 2 1 / 2 % hagnaði að meðaltali. Þessi rekstraráætlun sýnir jafnframt um 3-4% versnun í vergri hlutdeild fjármagns fiskvinnslunnar sem verður fyrst og fremst rakin til hækkunar gjalda umfram hækkun tekna. Til samanburðar þessari rekstraráætlun er vísað til töflu 1v, en þar er sýnt milliuppgjör reksturs frysti- og saltfiskdeilda í 29 fyrirtækjum fyrstu níu mánuði ársins 1988. Af þessum samanburði að dæma virðist ekki mikill munur liggja í vergri hlutdeild fjármagns milli rekstraráætlunar Þjóðhagsstofnunar og milliuppgjörsins. En aftur á móti er töluverður munur í hreinum hagnaði þessara reikninga sem liggur í ólíkum uppgjörsaðferðum fjármagnsliða (sjá einnig meðfylgjandi fylgiskjal).

4. Efnahagsstaða.
    Í töflu 7 er efnahagsyfirlit sérhvers fyrirtækis og eru tölurnar þar sýndar sem hlutföll af eignum alls. Af þessum tölum að dæma virðist enn meiri breidd í eiginfjárhlutfalli miðað við afkomu meðal fyrirtækjanna 30. Þetta
hlutfall var allt frá -84% til um 85% í árslok 1987, en þess ber að gæta að hér er um bókfært verð eigna að ræða. Ef notast væri við vátryggingarverð skipa í staðinn fyrir bókfært verð mundi þetta eiginfjárhlutfall hækka verulega hjá þeim fyrirtækjum sem reka útgerð. Á töflu 6 getur að líta samandregið efnahagsyfirlit frystihúsanna. En í þessari töflu er aftur á móti sýnd meiri sundurliðun í einstökum eigna- og skuldaliðum. Samkvæmt þessari töflu var eigið fé fyrirtækjanna um 18% af eignum alls í árslok 1987.
    Í töflu 2v er jafnframt sýndur efnahagsreikningur í septemberlok 1988 sem stendur á bak við áðurnefnt milliuppgjör 29 fyrirtækja í sjávarútvegi. Ekki er ráðlegt að gera beinan samanburð á töflum 6 og 2v því ekki er um að ræða sömu fyrirtækin í þessu tilviki. Í töflu 2v er eiginfjárhlutfallið tæplega 5%. En þess ber að gæta að ekki aðeins hallarekstur á árinu 1988 hefur áhrif á þetta hlutfall, heldur einnig endurmat eigna og skulda. Þannig er háttað að endurmat fastafjármuna er gert í samræmi við breytingu á vísitölu byggingarkostnaðar. En stór hluti kostnaðarverðs fastafjármuna í sjávarútvegi er eðlilegri tengdur gengi og erlendu verði. Frá ársbyrjun 1988 til september hefur byggingarvísitalan hækkað um 16% en gengið um 22%. Þetta leiðir til vanmats á verðbreytingum eigna innan ársins 1988 og um leið lækkunar á eiginfjárhlutfallinu. Síðan er það annað mál hversu nákvæmt eignamat er að finna í efnahagsreikningum fyrirtækjanna í ársbyrjun 1988. Til frekari skýringa á þessum aðferðum er vísað til meðfylgjandi fylgiskjals hér á eftir.



Fylgiskjal.


Greinargerð um uppgjörsaðferðir Þjóðhagsstofnunar og aðrar uppgjörsaðferðir.



1. Uppgjörsaðferðir Þjóðhagsstofnunar.
    Í rekstraryfirlitum Þjóðhagsstofnunar fyrir sjávarútveg eru m.a. færðir þrír reiknaðir gjaldaliðir sem ekki eru unnir upp úr ársreikningum fyrirtækja heldur eru reiknaðar stærðir. Þetta eru: a) verðbreyting kostnaðarliða (birgða), b) reiknaðir afurðalánavextir og c) árgreiðsla. Þessir liðir eru færðir í stað afskrifta, vaxta og verðbreytingarfærslu samkvæmt almennum uppgjörsaðferðum og eru fyrst og fremst til komnir vegna erfiðleika við að
semja rekstraryfirlit þegar verðbreytingar eru miklar. Verður nú gerð frekari grein fyrir þessum gjaldaliðum.
a.     Verðbreyting kostnaðarliða er færð í því skyni að leiðrétta fyrir kostnaðarbreytingum frá þeim tíma að vara er framleidd þar til hún er seld. Þjóðhagsstofnun áætlar þessa gjaldfærslu með þeim hætti að áætla verðmæti meðalbirgða í hverri grein og reikna verðbreytingu út frá samveginni hækkun á hráefnisverði, launum og vöru og þjónustu.
b.     Reiknaðir afurðalánavextir. Rekstrarvextir eru áætlaðir sérstaklega á þann hátt að reikna gildandi vexti á hverjum tíma af afurðalánum á áætlað meðalverðmæti birgða að viðbættu því sem útistandandi er vegna ógreiddra afurða.
c.     Árgreiðsla er hugsuð þannig að varanlegum rekstrarfjármunum er gefinn ákveðinn endingartími og jafnframt að það fjármagn, sem í þeim liggur, ávaxti sig. Þar með ber bæði eigið fé og lánsfé ákveðna vexti og í seinni tíð hefur almennt verið miðað við 6% ávöxtunarkröfu. Þetta er þó í sjálfu sér ekki heilög tala, heldur nálgun við raunvaxtakostnað fyrirtækja. Því kemur vel til álita að nota mismunandi ávöxtunarkröfur eftir aðstæðum á fjármagnsmarkaði á hverjum tíma eins og Þjóðhagsstofnun hefur reyndar gert. Við ákvörðun á eignamati og endingartíma eignanna er stuðst við afskriftartíma samkvæmt skattalögum og upprunalegt kaupverð eignanna endurmetið. Þó er þetta ekki gert hvað fiskiskip varðar, en þar er stuðst við vátryggingarverðmæti að viðbættu 10% vegna veiðarfæra o.þ.h. Miðað hefur verið við 12 ára endingartíma skipa.

2. Aðrar uppgjörsaðferðir.
    Reglur skattalaga hvað varðar uppgjör á fjármagnskostnaði eru nokkuð einfaldar og hafa endurskoðendur brugðið út frá þeim reglum og þróað svonefnda fráviksaðferð í því skyni að fá raunhæfari mynd af afkomu fyrirtækja. Sú aðferð er núorðið algeng við uppgjör á sjávarútvegsfyrirtækjum. Markmið með þessari aðferð er m.a. að nálgast betur þá raunvexti sem atvinnureksturinn býr við en skattauppgjör gera. Bæði í fráviksaðferð og reglum skattalaga er auk vaxta gjaldfært gengistap og verðbætur af höfuðstól skulda. Á móti kemur tekjufærsla. Samkvæmt fráviksaðferð er reiknað út frá verðbreytingum innan ársins í stað verðbreytinga milli ára eins og skattalög gera ráð fyrir. Í báðum tilvikum er reiknað með breytingum á byggingarvísitölu og er sú viðmiðun notuð til að mæla almennar verðlagsbreytingar innan lands. Þá er í
fráviksaðferð endurskoðenda tekið tillit til efnahagsstærða í byrjun og lok uppgjörstímabils sem ekki er gert ráð fyrir í skattalögum. Þrátt fyrir þessa betrumbót endurskoðenda eru enn ýmis álitamál í þessum efnum. Má þar nefna þegar misvægi er í þróun gengis og innlends verðlags, meðferð á verðbreytingu birgða og gengishagnaðar vegna veittra afurðalána. Hér á eftir verður stuttlega fjallað um hvern þessara þriggja þátta.

2.1 Mismunandi verðbreytingar.
    Þegar stuðst er við byggingarvísitölu til að leiða út raunvexti á sama tíma og misvægi er milli gengisbreytinga og verðbreytinga innan lands, eins og var á árinu 1987, leiðir þessi aðferð til þess að fjármagnskostnaður verður lítill í fyrirtækjum sem skulda mikið í erlendri mynt. Dæmi er um fyrirtæki í sjávarútvegi sem skuldaði á annan milljarð króna í árslok 1987, en var með nettó fjármagnstekjur (neikvæðan fjármagnskostnað) á því ári, þótt fjármagnskostnaður þess fyrirtækis væri rúmlega 15% sem hlutfall af tekjum á fyrstu sex mánuðum árins 1988. Samhliða þessum aðferðum við uppgjör á fjármagnskostnaði eru varanlegir rekstrarfjármunir endurmetnir samkvæmt byggingarvísitölu þótt raunverulegt verðmæti eigna kunni frekar að fylgja gengisbreytingum. Þetta snýst svo aftur við þegar gengisbreytingar verða umfram hækkun á verðlagi innan lands eins og orðið hefur á árinu 1988 en þá fá eignir minni uppfærslu en erlendar skuldir sem leiðir til minnkandi eiginfjár í stað aukningar árið á undan.
    Í uppgjöri fyrir Landsvirkjun fyrir árið 1987 bregður uppgjörsaðili út frá hinni almennu fráviksaðferð endurskoðenda og styðst við verðbreytingar sem hann metur út frá samsetningu eignanna og þá hvaða verðbreytingar sé eðlilegt að miða endurmatið við. Þetta leiðir til meiri útreiknaðs fjármagnskostnaðar og minna endurmats á eignum það ár en ef stuðst hefði verið við byggingarvísitölu, en 2/3 af eignum Landsvirkjunar eru endurmetnar samkvæmt hækkun á SDR að viðbættri erlendri verðbólgu og 1/3 samkvæmt byggingarvísitölu. Verðstuðull þannig reiknaður verður um 9% í stað þess að vera um 17% samkvæmt byggingarvísitölu. Þessi aðferð leiðir til þess að sveiflur milli ára verða mun minni bæði í eignamati og útreikningi á fjármagnskostnaði þegar mikið misvægi er milli gengis og verðbreytinga innan lands.

2.2 Verðbreyting birgða.
    Verðbreyting birgða er gjaldaliður sem flest fyrirtæki færa með fjármagnskostnaði. Sum fyrirtækjanna gera grein fyrir honum sérstaklega sem
verður að telja eðlilegra þar sem gjaldfærslan er ekki vegna fjármagnskostnaðar heldur á að koma í veg fyrir að tekjur séu reiknaðar vegna almennra verðhækkana á birgðum. Í því uppgjöri, sem endurskoðendur gerðu nú fyrir árið 1988, var færsla á þessum lið samræmd og færð sérstaklega í uppgjörinu.

2.3 Gengishagnaður.
    Þriðja atriðið, sem á fyrst og fremst við uppgjör á sjávarútvegsfyrirtækjum, er að gengishagnaður af útistandandi kröfum vegna afurðasölu er færður með framleiðslutekjum í stað þess að færa hann til lækkunar á fjármagnskostnaði. Þetta mun vera gert vegna erfiðleika við að skilgreina gengisbreytingar í skilaverði afurðanna.

3. Mat á rekstrarafkomu.
    Eins og hér hefur komið fram þarf margt að hafa í huga þegar menn velta fyrir sé fjármagnskostnaði fyrirtækja. Við afkomumat Þjóðhagsstofnunar gætir framangreinds misvægis milli verðbreytinga hér innan lands og gengisbreytinga afar lítið. Um rekstrarvexti er það að segja að þar styðst Þjóðhagsstofnun við vexti afurðalána, en reiknar 6% ávöxtun vegna fastafjármuna og er því reiknuð ávöxtun jafnt á eigið fé og lánsfé eins og áður hefur komið fram. Ef miða á við vexti af skuldum samsvarar þetta heldur hærri raunvöxtum því eigið fé í sjávarútvegi hefur verið um 30% ef eignamat á skipum er miðað við vátryggingarverð þeirra. Hér er um að ræða stílfært dæmi með ákveðinni ávöxtunarkröfu á fastafjármuni. Þetta lýsir því ekki hinni eiginlegu raunvaxtagreiðslu, en hagnaður eða tap er það sem umfram er eða á vantar miðað að við þessa ákveðnu ávöxtun. Í umræðunni er þetta borið saman við útreiknaðan fjármagnskostnað fyrirtækja og því geta niðurstöður eðlilega orðið mismunandi.
Erfitt er að meta hvaða ávöxtunarkrafa samkvæmt útreikningsaðferðum Þjóðhagsstofnunar lýsir á raunhæfastan hátt afkomu fyrirtækja. Þjóðhagsstofnun hefur að undanförnu oftast miðað við 6%. Fram hefur komið sú gagnrýni að þetta sé lág tala og ágerist gagnrýnin við aðstæður eins og á þessu ári þegar misvægið milli gengis og erlends verðlags magnar fjármagnskostnaðinn samkvæmt fráviksaðferðinni. Ekkert skal fullyrt í þessu efni en á það skal bent að mestur hluti skulda sjávarútvegsfyrirtækja eru lán sem tryggð eru með gengi og raunvextir útlána helsta fjárfestingarlánasjóðs sjávarútvegsins geta vart talist hærri en 5% um þessar mundir. Einnig má nefna að Þjóðhagsstofnun reiknar afurðalánavexti eins og þeir eru á hverjum tíma án þess að taka tillit
til erlendrar verðbólgu. Hér yrðu því raunvextir af öðrum lánum að vera nokkuð háir til að vega upp þessa vexti ásamt ávöxtun eigin fjár.
    Af því sem hér hefur verið sagt má ráða að þegar misræmi verður á milli gengis og innlendra verðhækkana veldur það því að almennar afkomumælingar verða ónákvæmari en ella og þá sérstaklega með tilliti til breytinga milli ára. Þessa fyrirvara er rík ástæða til að hafa í huga þegar niðurstöður reikningsuppgjöra eru skoðuð. Að öðrum kosti gætu menn dregið rangar ályktanir af niðurstöðum uppgjöranna. Jafnframt er rétt að leggja áherslu á það að til lengri tíma gefa þessar aðferðir líklega svipaða niðurstöðu en afkomusveiflurnar verða meiri samkvæmt fráviksaðferðinni en aðferð Þjóðhagsstofnunar.
    Á árinu er talið að laun hafi hækkað um 46%. Á sama tíma jókst landsframleiðsla um 30% í krónum. Vegna þessarar hækkunar launa umfram breytingar í framleiðslu þá mætti ætla að afkoma atvinnulífsins í heild hafi verið verri en almennir afkomumælikvarðar fyrirtækja gefa til kynna. Ástæðuna fyrir því má örugglega rekja að einhverju leyti til þeirrar aðferðar sem viðhöfð er við uppgjör á fjármagnskostnaði og lýst hefur verið hér að framan því í stað þess að hafa fjármagnsgjöld af erlendum skuldum reiknast fyrirtækjunum af þeim fjármagnstekjur. Þá er rétt að hafa það í huga að sá mikli fjármagnskostnaður, sem kemur fram á árinu 1988 við það að verð á erlendum gjaldeyri hækkar meira en verðlag innan lands, kemur til með að lækka þegar betra samræmi verður milli breytinga á gengi og verðbreytinga hér innan lands.


Töflur 1, 2 ,3, 4, 5, 6, 7, 1v og 2v


REPRÓ í GUT.