Ferill 227. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1988–89. – 1058 ár frá stofnun Alþingis.
111. löggjafarþing. – 227 . mál.


Ed.

417. Frumvarp til laga



um fjölskylduráðgjöf.

(Lagt fyrir Alþingi á 111. löggjafarþingi 1988–89.)



1. gr.

    Á vegum hins opinbera skal veita ráðgjöf í skilnaðarmálum, fræðslu um málefni barna í tengslum við sambúðarslit foreldra og leiðbeiningar um úrlausn í forsjár- og umgengnisréttarmálum.
    Í þessum tilgangi skal starfrækja sérstaka miðstöð fjölskylduráðgjafar undir yfirstjórn félagsmálaráðuneytisins þar sem veitt verði m.a. sérfræðiaðstoð sálfræðinga og lögfræðinga.
    Félagsmálaráðherra setur reglugerð um hvernig háttað verði greiðslu fyrir þjónustu samkvæmt gjaldskrá og um starfsemi miðstöðvarinnar.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Ákvæði til bráðabirgða.


    Fyrst um sinn verði miðstöð fjölskylduráðgjafar á höfuðborgarsvæðinu sem veitir öllu landinu þjónustu. Að fenginni reynslu að þremur árum liðnum frá gildistöku laganna verði lögin endurskoðuð á grundvelli sérstakrar athugunar á starfseminni. Þá verði athugað hvort staðsetja beri starfsemina víðar um landið, t.d. í tengslum við skipulag félagsþjónustu sveitarfélaga.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Starfshópur á vegum félagsmálaráðuneytisins hefur um nokkurt skeið unnið við að semja frumvarp um fjölskylduráðgjöf. Í hópnum voru Drífa Pálsdóttir, deildarstjóri í dómsmálaráðuneytinu, Guðfinna Eydal sálfræðingur, Lára V. Júlíusdóttir lögfræðingur, Sigríður Ingvarsdóttir, héraðsdómari og formaður barnaverndarráðs, og Sólveig Pétursdóttir lögfræðingur, formaður barnaverndarnefndar Reykjavíkur.
    Á Alþingi 1983 var lagt fram stjórnarfrumvarp um fjölskylduráðgjöf sem þá var ekki afgreitt. Í vinnu starfshópsins hefur verið tekið mið af því frumvarpi. Jafnframt var lögð áhersla á að ráðgjöfin geti betur tekið á þeim brýnu vandamálum sem upp koma í tengslum við sambúðarslit og skilnað. Forsjárdeilumál verða sífellt fleiri þar sem skilnuðum hefur fjölgað, og hefur verulega skort ráðgjöf til fólks um þessi mál. Hugmyndir hópsins hafa einkum beinst að aðstoð við fólk til að greiða úr vandamálum, sem tengjast skilnaði, eins og forsjármálum. Það er mat hópsins að með auknu fyrirbyggjandi starfi eins og hér er lagt til megi oft komast hjá þeim skaða sem illskeyttar skilnaðardeilur foreldra valda börnum. Litið hefur verið til þeirrar starfsemi sem rekin er í öðrum löndum, einkum Danmörku og Bandaríkjunum, á vettvangi fjölskyldu- og skilnaðarráðgjafar.
    Starfshópurinn taldi að þörfin fyrir fjölskylduráðgjöf væri einna brýnust vegna skilnaðar- og sambúðarslitamála, og því ætti þessi starfsemi fyrst og fremst að ná til þeirra málaflokka. Ekki væri nægilegt að veita hér einungis sálfræðiaðstoð því að nauðsynlegt er einnig að svara öllum þeim lögfræðilegu álitaefnum sem upp koma í tengslum við skilnað og sambúðarslit.
    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir gjaldtöku fyrir þessa þjónustu og að sett verði reglugerð um hana. Brýnt er að gjaldtaka verði við það miðuð að sérstakt tillit sé tekið til efnalítils fólks. Þar sem hér er ekki um ókeypis þjónustu að ræða ætti það að verða til þess að fólk legði sig frekar fram um að árangur næðist. Tekjur af þjónustunni mundu eiga a.m.k. að hluta til að standa undir kostnaði.
    Með bráðabirgðaákvæði er lagt til að þremur árum eftir gildistöku laganna verði þau endurskoðuð á grundvelli sérstakrar úttektar á starfseminni. Eðlilegt þykir að við þá endurskoðun verði starfsmenn ráðgjafarinnar sérstaklega hafðir með í ráðum. Einkum verði athugað hvort staðsetja skuli starfsemina víðar en frumvarpið gerir ráð fyrir.
    Rétt þykir að taka eftirfarandi fram þótt það hafi ekki komið fram í nefndaráliti starfshópsins.
    Sérstök fjölskylduráðgjöf dregur á engan hátt úr þýðingu annarrar fyrirbyggjandi starfsemi í fjölskyldumálum sem einkum er unnið að á vegum félagsmálastofnana, heilsugæslustöðva og barnaverndarnefnda.
    Á heilsugæslustöðvum má segja að veitt sé almenn ráðgjöf. Fyrirbyggjandi aðgerðir þar felast í ungbarnaeftirliti, mæðraskoðun og fræðslu af ýmsum toga, í formi funda, námskeiða og bæklinga. Á sviði heilbrigðisþjónustunnar sjá sérfræðingar fyrst og fremst um líkamlega heilsugæslu.
    Félagsmálastofnanir eru einungis starfræktar í stærri byggðarlögum. Við þær eru fjölskyldudeildir þar sem mestur þungi er af framfærslumálum og meðferð barnaverndarmála. Þar er oftast um að ræða erfið og bráð verkefni sem veita lítið svigrúm til ráðgjafar, meðferðar og skipulegs forvarnarstarfs.
    Barnaverndarnefndir, sem eru umsagnaraðilar í umgengnisréttar- og forsjárdeilumálum, eru ekki í stakk búnar til að veita sérstaka fjölskylduráðgjöf, enda ekki heppilegt að slík ráðgjöf sé einnig í höndum þeirra sem e.t.v. þurfa síðar að veita umsögn í forsjárdeilumáli sömu aðila.
    Samkvæmt könnun Heilsuverndarstöðvar Reykjavíkur á högum fjögurra ára barna á árunum 1981–1983 var talið að fjölskyldur um 20% barna þyrftu einhvers konar aðstoð. Foreldraráðgjöf Barnaverndarráðs Íslands sem starfrækt var frá 1979 gat aðeins sinnt litlum hluta þeirra og mörg mál barna biðu eftir að komast að, en foreldraráðgjöfin var lögð niður 1984.
    Miðað við reynsluna í öðrum löndum er talið nauðsynlegt að fjölskylduráðgjöf sé starfrækt sem sjálfstæð og sérhæfð þjónusta. Á þeim þremur árum sem lagt er til að fjölskylduráðgjöfin starfi til reynslu má vænta að grundvöllur skapist til að flytja hana út um land verði það niðurstaða við endurskoðun.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Samkvæmt greininni er gert ráð fyrir að hið opinbera veiti ráðgjöf í sambúðarslita- og skilnaðarmálum. Leggja ber áherslu á nauðsyn þess að þjóðfélagið taki á þessum málum m.a. vegna fyrirbyggjandi starfs með börn. Eðlilegt verður að teljast að þjónustan verði undir yfirstjórn félagsmálaráðuneytisins þar sem félagsleg aðstoð er veitt á vegum sveitarfélaganna sem félagsmálaráðuneytið hefur eftirlit með. Ekki þykir heppilegt að tengja þjónustuna dómsmálaráðuneyti þar sem það ráðuneyti úrskurðar í flestum tilvikum í forsjárdeilumálum. Einnig má benda á að barnaverndarnefndir, sem heyra undir menntamálaráðuneyti, eru umsagnaraðilar í forsjárdeilumálum. Gert er ráð fyrir að miðstöð ráðgjafarinnar verði fyrst um sinn á höfuðborgarsvæðinu, en hún þjóni öllu landinu.

Um 2. gr.


    Þarfnast ekki skýringa.

Um ákvæði til bráðabirgða.


    Hér er lagt til að þessi starfsemi verði fyrst um sinn tilraunastarfsemi, bundin við þrjú ár. Þá er gert ráð fyrir því að úttekt verði gerð á
starfseminni og á grundvelli hennar ákveðið hvert framhald málsins skuli vera og hvernig megi koma betur til móts við þarfir fólks á landinu öllu. Þá verði sérstaklega athugað hvort staðsetja beri starfsemina víðar.



Prentað upp.