Ferill 237. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1988–89. – 1058 ár frá stofnun Alþingis.
111. löggjafarþing. – 237 . mál.


Sþ.

442. Tillaga til þingsályktunar



um skipulag til verndunar vatnsbóla.

Flm.: Kristín Einarsdóttir, Valgerður Sverrisdóttir, Hjörleifur Guttormsson,


Árni Gunnarsson, Guðmundur Ágústsson, Salome Þorkelsdóttir.



    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að beita sér fyrir að umhverfi allra byggðakjarna á landinu verði rannsakað og skipulagt með tilliti til nýtingar og verndunar grunnvatns.
    Á skipulagsuppdráttum þéttbýlisstaða verði sýnd fyrirhuguð þróun byggðar, friðlýst svæði og önnur landnotkun.
    Jafnframt verði gerð kort af jarðfræði og grunnvatnskerfum á viðkomandi svæðum með tilliti til vatnsbóla.

Greinargerð.


    Íslendingar hafa löngum hælt sér af því að eiga besta vatn í heimi. Sagt er að hér sé hægt að drekka vatn úti í náttúrunni úr lækjum og vötnum og að vatnið í vatnskrönum heimahúsa sé alls staðar drykkjarhæft. Þótt þetta sé sannmæli um marga staði á það því miður ekki við um alla. Sums staðar er neysluvatn jafnvel svo mengað að talið hefur verið varhugavert að nota það óhreinsað.
    Mikil hætta getur stafað af mengun á vatnasviðum vatnsbóla. Gildir það jafnt um yfirborðsvatn sem grunnvatn. Þótt grugg síist oftast alveg frá í grunnvatni og mikill hluti bakteríugróðurs deyi út á löngum ferli grunnvatnsins neðan jarðar geta borist efni í grunnvatn sem ekki eyðast auðveldlega. Efni berast með vatni frá yfirborði niður í grunnvatn og geta flust með því langar leiðir eftir sprungum og glufum í berginu. Efni sem komist hafa í jarðveg geta eftir fjölda ára borist í vatnsból þéttbýlisstaða. Kalt grunnvatn hér á landi er talið vera nokkurra ára gamalt upp í nokkurra tuga ára gamalt.
    Yfirborðsvatn er opið fyrir mengun. Grugg og óhreinindi berast í það í flóðum og leysingum, auk þess sem það getur orðið fyrir áfoki. Vatnið er ekki verndað fyrir úrgangi, fugladriti og hræjum fugla og fénaðar.
    Meðal þess sem veldur mengun má telja ýmiss konar atvinnurekstur, mannvirkjagerð, efnistöku, ruslahauga og urðun sorps. Umferð vélknúinna farartækja, útivist og sumarbústaðir geta einnig valdið mengun, einkum þar sem ekki er gert ráð fyrir nauðsynlegri hreinlætisaðstöðu og eyðingu úrgangs og annarra mengandi efna.
    Frágangi vatnsbóla er víða ábótavant þótt breyting hafi orðið til hins betra á því sviði hin seinni ár, einkum hjá nýlegum vatnsveitum. Einkum eru brögð að því að ekki sé nógu vel komið í veg fyrir írennsli yfirborðsvatns og að skepnum sé ekki haldið nógu langt frá með girðingum.
    Eitt af vandamálunum sem fylgir þéttri byggð er losun sorps og eyðing þess. Eiturefnum og ýmsum hættulegum efnum hefur verið fleygt út í náttúruna án þess að hugsað væri um afleiðingarnar. Þar er ekki síst mikilvægt að taka tillit til vatnsbóla, bæði núverandi vatnsbóla og ekki síður til þeirra staða sem kunna að verða nýttir til vatnsöflunar síðar.
    Nú sjá heilbrigðisfulltrúar á hverjum stað um að fylgjast með gæðum neysluvatns. Oftast er þar eingöngu um mælingu á gerlamagni í vatninu að ræða. Minna er um reglulegar mælingar á annarri mengun af völdum ólífrænna eða lífrænna efna. Mengun af völdum slíkra efna getur haft mjög skaðlegar afleiðingar fyrir menn og skepnur ekki síður en gerlamengun. Nauðsynlegt er því að setja staðla um mengandi efni í neysluvatni og gera á því reglulegar mælingar. Til þess þarf að gera úttekt á vatnstökusvæðum og aðrennslissvæðum þeirra. Jafnframt þarf að endurskoða löggjöf um vatnsréttindi, vatnstöku og vatnsvernd og samræma hana kröfum tímans. Samhæfa verður eftirlit með vatnstöku, vatnsnýtingu og vatnsvernd á landinu, þar með talið mengunar- og hollustueftirlit.
    Mikilvægt er að gera sér grein fyrir hvernig æskilegt er að framtíðarskipulag þéttbýlisstaða þróist. Land er nýtt fyrir íbúðabyggð, atvinnuhúsnæði, til landbúnaðar eða útivistar. Þau svæði, sem eru ætluð til útivistar, eru nú vernduð eða friðlýst en slík friðun nær ekki til vatnsbóla.
    Til þess að hægt sé að gera skipulagsuppdrætti af því tagi sem hér er gert ráð fyrir þarf að kortleggja jarðlög undir yfirborði ekki síður en landið ofan jarðar. Gerð jarðlaga, halli, sprungur, gangar og fleira skipta verulegu máli þegar meta á landsvæði með tilliti til nýtingar. Jarðfræðikort af slíkum svæðum eru því mikilvæg til að geta skipulagt æskilega landnotkun og meta hvar mengunarhætta er mikil við vatnsból.
    Þessa kortlagningu þyrfti að tengja öllu skipulagi og því er rétt að það ráðuneyti sem fer með skipulagsmál, nú félagsmálaráðuneyti (Skipulagsstjórn ríkisins) hafi um það forustu. Eðlilegt er að við gerð kortanna verði samvinna
milli Skipulagsstjórnar ríkisins, Hollustuverndar ríkisins, Náttúruverndarráðs, Orkustofnunar og e.t.v. fleiri aðila.
    Tillaga þessi felur í sér að skipulega verði aflað þekkingar á náttúruauðlindinni ferskvatn og mótuð stefna um nýtingu hennar og vernd. Markmiðið er að tryggja verndun grunnvatnskerfa fyrir mengun svo að þau geti gefið af sér gott neysluvatn fyrir vaxandi byggð. Jafnframt því þarf að leiða í ljós hvert ástand vatnsbóla er um land allt og ráða bót á þar sem þess er talið þörf.
    Verkefni eins og það sem hér um ræðir fellur eðlilega undir starfssvið þess ráðuneytis sem mun fara með stjórn umhverfismála þegar loks kemur að því að sérstöku ráðuneyti verður falin yfirstjórn þeirra.