Ferill 239. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1988–89. – 1058 ár frá stofnun Alþingis.
111. löggjafarþing. – 239 . mál.


Ed.

444. Frumvarp til laga



um breytingu á vaxtalögum, nr. 25 27. mars 1987.

(Lagt fyrir Alþingi á 111. löggjafarþingi 1988–89.)



1.gr.


    5. gr. laganna orðist svo:
    Þegar samið er um vexti af peningakröfu, en hundraðshluti þeirra ekki tiltekinn, skulu vextir frá því að til skuldar er stofnað vera á hverjum tíma jafnháir vegnu meðaltali ársávöxtunar á nýjum almennum útlánum hjá viðskiptabönkum og sparisjóðum.

2. gr.

    7. gr. laganna orðist svo:
    Kröfur um skaðabætur skulu bera vexti frá og með þeim degi er hið bótaskylda atvik átti sér stað og vera á hverjum tíma jafnháir vegnu meðaltali vaxta af almennum óbundnum sparisjóðsreikningum hjá viðskiptabönkum og sparisjóðum. Sé skaðabótakrafa miðuð við verðlag síðar en hið bótaskylda atvik varð ber krafan þó vexti frá þeim tíma.

3. gr.

    Við 1. mgr. 8. gr. bætist eftirfarandi málsliður: Verðbréfafyrirtæki skulu einnig tilkynna Seðlabankanum um breytingar á ávöxtunarkröfum, sem gerðar eru fyrir verðbréfasjóði í þeirra umsjá, og eignarleigufyrirtækjum skal skylt að upplýsa bankann um almennar breytingar á eignarleigukjörum sem þau bjóða.

4. gr.

    1. mgr. 9. gr. laganna orðist svo:
    Hafi gjalddagi verið fyrir fram ákveðinn skulu dráttarvextir reiknast af peningakröfu frá og með gjalddaga, ef eigi er greitt á gjalddaga, fram að greiðsludegi.
    Við 9. gr. bætist ný málsgrein er verði 2. mgr. og röð annarra málsgreina
breytist til samræmis við það. Málsgreinin orðist svo:
    Dráttarvextir skulu ætíð reiknast sem dagvextir, nema á annan veg sé sérstaklega mælt í lögum.

5. gr.

    Við 14. gr. laganna bætist ný málsgrein er verði 2. mgr. og orðist svo:
    Sé mál hins vegar höfðað til heimtu peningakröfu sem gjaldféll eftir gildistöku laga þessara og dráttarvaxta er krafist skv. 10. gr. má dæma dráttarvexti frá gjalddaga kröfunnar skv. 9. gr. fram að greiðsludegi enda þótt vaxtahæð sé ekki tilgreind í stefnu.

6. gr.

    1. mgr. 17. gr. laganna hljóði svo:
    Hver, sem af ásetningi eða stórfelldu gáleysi hagnýtir sér á óréttmætan hátt fjárþröng viðsemjenda síns eða aðstöðumun þeirra að öðru leyti til þess að áskilja sér vexti eða annað endurgjald fyrir lánveitingu eða umlíðun skuldar umfram gildandi vaxtamörk sambærilegra útlánsvaxta hjá viðskiptabönkum og sparisjóðum á þeim tíma er til skuldar er stofnað, sbr. 8. gr., skal sæta sektum, varðhaldi eða fangelsi allt að einu ári. Sé brot ítrekað eða sakir miklar varðar brotið varðhaldi eða fangelsi allt að tveimur árum.
    Hafi Seðlabanki Íslands hlutast til um vexti útlána hjá viðskiptabönkum og sparisjóðum á grundvelli 9. gr. laga nr. 36/1986, um Seðlabanka Íslands, með síðari breytingum, skulu gildandi vaxtamörk útlána þau sömu og Seðlabankinn ákveður.

7. gr.

    Á eftir III. kafla laganna bætist nýr kafli, sem verði IV. kafli, og breytist röð kafla í samræmi við það svo og greinaröð. Þannig verði 17. gr. laganna 20. gr. o.s.frv.
    IV. kafli beri fyrirsögnina: Vaxtakjör opinberra fjárfestingarlánasjóða.

8. gr.

    Í lögin komi ný 17. grein sem orðist svo:
    Ákvæði þessa kafla gilda um lánskjör opinberra fjárfestingarlánasjóða sem starfa samkvæmt sérstökum lögum.

9. gr.

    Í lögin komi ný 18. gr. sem orðist svo:
    Fjárfestingarlánasjóðir endurlána það fé sem þeir fá til ráðstöfunar með sambærilegum lánskjörum og þeir sæta sjálfir að viðbættum hæfilegum vaxtamun. Jafnframt skulu þeir gæta þess að gengistryggðar, verðtryggðar og óverðtryggðar eignir og skuldbindingar standist í meginatriðum á.
    Viðskiptaráðherra lætur fara fram árlega og oftar, ef þurfa þykir, athugun á lánskjörum fjárfestingarlánasjóða, sbr. ákvæði 1. mgr., og skal þá bera þau saman við samsetningu þess fjármagns sem sjóðirnir hafa yfir að ráða og þeim lánskjörum sem almennt gilda á lánamarkaði á sambærilegum lánveitingum.

10. gr.

    Í lögin komi ný 19. gr. sem orðist svo:
    Viðskiptaráðherra er heimilt að undangenginni athugun skv. 2. mgr. 18. gr. og að fengnum tillögum Seðlabanka Íslands að setja meginreglur um lánskjör þeirra fjárfestingarlánasjóða sem ákvæði þessa kafla ná til. Stjórnir þeirra sjóða, sem hlut eiga að máli, skulu síðan gera tillögur til Seðlabanka Íslands um lánskjör þeirra innan ramma slíkra meginreglna.
    Seðlabanki Íslands staðfestir ákvörðun stjórnar fjárfestingarlánasjóðs um lánskjör enda leiði undanfarandi athugun í ljós að hún samræmist meginreglu skv. 1. mgr.

11. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er flutt til þess að koma í veg fyrir ósanngjarna vaxtatöku og misneytingu á aðstöðu í lánsviðskiptum. Þá er tekin af tvímæli um nokkur óljós atriði í lögunum. Loks er lagt til að í lögunum verði kveðið á um að vaxtakjör fjárfestingarlánasjóða verði háð staðfestingu viðskiptaráðuneytis, en slíkt vald var áður í höndum forsætisráðuneytis samkvæmt ákvæðum laga nr. 13/1975.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Í greininni er lagt til að breytt verði orðalagi á 5. gr. laganna, en ógreinilegt orðalag hennar, ásamt 7. gr. laganna, hefur valdið óvissu. Rétt þykir því að taka af allan vafa þar að lútandi og breyta orðalagi greinanna í
þá veru sem að var stefnt við setningu vaxtalaganna.
    Því er lögð til sú breyting á 5. gr. að þar standi að vextir skuli vera jafnháir vegnu meðaltali ársávöxtunar á nýjum almennum útlánum hjá viðskiptabönkum og sparisjóðum „á þeim tíma sem til skuldar er stofnað“ komi orðalagið „á hverjum tíma frá því er til skuldar var stofnað“.
    Tilgangurinn með lagabreytingunni er, sem fyrr segir, að taka af allan vafa varðandi tilætlun löggjafans með ákvæðinu. Af lagabreytingu þessari má því ljóst vera að ekki hafi verið ætlunin að festa þá vexti er hér um ræðir við hið vegna meðaltal á þeim tíma er til skuldar var stofnað, sbr. núgildandi ákvæði 5. gr. Án þeirrar lagabreytingar, sem hér er lögð til, yrði niðurstaðan hins vegar önnur.

Um 2. gr.


    Hér er með sama hætti og í 1. gr. frumvarpsins lagt til að gerð verði nauðsynleg lagfæring á texta greinarinnar til þess að ljóst verði að skaðabótakröfur beri vexti er miðast við vegið meðaltal af almennum óbundnum sparisjóðsreikningum hjá viðskiptabönkum og sparisjóðum. Að öðru leyti vísast til athugasemda við 1. gr. frumvarpsins.

Um 3. gr.


    Rétt þykir að sama skylda hvíli á verðbréfa- og eignarleigufyrirtækjum að breyttu breytanda og nú hvílir á viðskiptabönkum og sparisjóðum, hvað snertir tilkynningaskyldu um vaxtakjör.

Um 4. gr.


    Hér er lagt til að ákvæði um töku dráttarvaxta verði nákvæmar orðuð. Í núgildandi ákvæði segir að dráttarvextir skuli reiknast „frá og með“ gjalddaga sé hann fyrir fram ákveðinn og fram að greiðsludegi. Augljóst er að þetta mun aðeins eiga við, ef eigi er greitt á gjalddaga, þá er heimilt samkvæmt ákvæðinu að reikna dráttarvexti sem dagvexti, frá þeim degi til greiðsludags. Sé hins vegar greitt á gjalddaga ber eigi að krefjast dráttarvaxta fyrir þann dag. Orðalag greinarinnar í núgildandi lagatexta gefur þó tilefni til að álykta að slíkt sé heimilt, en breyting sú, sem hér er lögð til, mun taka af þau tvímæli.

Um 5. gr.


    Breyting sú, sem hér er lögð til, er samkvæmt ábendingu frá fulltrúum hjá Borgardómaraembættinu í Reykjavík. Jafnframt hefur stjórn Lögmannafélags Íslands mælt með henni.
    Fram til þessa hafa dómstólar talið að óheimilt sé að gera vaxtakröfu á þann veg sem hér er lagt til. Ástæða þess er m.a. sú að fyrir gildistöku vaxtalaganna fór það eftir tegund kröfu hvað krefjast mátti hárra dráttarvaxta, sbr. t.d. tilskipan frá 27. maí 1859, lög nr. 10/1980 og 38. gr. laga nr. 39/1922. Við þær aðstæður óhjákvæmilegt að telja kröfu vanreifaða, ef ekki var gerð grein fyrir vaxtahæð dráttarvaxtakröfunnar. Við tilkomu vaxtalaganna breyttist þetta hins vegar og bera nú allar peningakröfur í íslenskum gjaldmiðli sömu dráttarvexti, sbr. 10. gr. vaxtalaganna. Kröfugerð ætti því að vera nægilega skýr eftir breytinguna þó aðeins væri getið gjalddaga kröfunnar og krafist dráttarvaxta skv. 10. gr. vaxtalaga frá þeim degi að greiðsludegi. Til þess að svo megi verða þarf þó að koma lagabreyting sú, sem hér er gerð tillaga um í því skyni að slík kröfugerð fullnægi skilyrðum c-liðar 88. gr. laga nr. 85/1936, um meðferð einkamála í héraði, samkvæmt hefðbundinni túlkun.
    Málsgreinin mun eingöngu taka til peningakrafna sem gjaldféllu eftir gildistöku vaxtalaganna. Kröfur, sem gjaldféllu fyrir gildistöku laganna, bæri enn sem fyrr að tilgreina vaxtahæð dráttarvaxtakröfunnar, sbr. 1. mgr. 14. gr.
    Hagræði 2. mgr. 14. gr. á aðeins við um dráttarvexti skv. 10. gr., en ekki kröfur í erlendum gjaldmiðli skv. 11. gr. vaxtalaganna. Ástæða þess er m.a. sú að upplýsingar um vexti samkvæmt þeirri grein eru ekki eins aðgengilegar og um dráttarvexti skv. 10. gr. og þykir því eigi rétt að leggja til samsvarandi breytingu varðandi þá.
    Um upphafsdag dráttarvaxtakröfu í skaðabótamálum vísast til 15. gr. vaxtalaganna. Þess má þó geta að til þess að kröfugerð varðandi dráttarvexti í slíkum málum yrði nægjanlega skýr samkvæmt reglum réttarfars verður að telja nauðsynlegt að getið sé upphafsdags dráttarvaxta í vaxtakröfu.
    Sú breyting, sem hér er lögð til varðandi 2. mgr. 14. gr. vaxtalaga, felur aðeins í sér heimild en ekki skyldu til þess að gera vaxtakröfu með framangreindum hætti. Telja verður þó líklegt að hún verði almennt notuð til þess að losna við að sundurliða vaxtakröfuna í langri þulu.

Um 6. gr.


    Rétt þykir að það sé ljóst við túlkun 17. gr. að hafi Seðlabanki Íslands hlutast til um vexti útlána hjá bönkum og sparisjóðum á grundvelli 9. gr. laganna um Seðlabanka Íslands, þá gildi þau vaxtamörk, sem bankinn ákveður sem viðmiðun varðandi það, hvort um misneytingu hafi verið að ræða.

Um 7. gr.


    Hér er lagt til að bæta nýjum kafla við lögin sem fjallar um vaxtakjör opinberra fjárfestingarlánasjóða. Slík ákvæði voru áður í lögum nr. 13/1975, en þau voru felld niður í lok síðasta árs um leið og veðdeildir banka urðu skattskyldar. Rétt þykir að opinberir fjárfestingarlánasjóðir búi við samræmdar reglur um vaxtakjör.

Um 8. gr.


    Þarfnast ekki skýringa.

Um 9. gr.


    Hér eru settar meginreglur um lánskjör fjárfestingarlánasjóða og um að skuldbindingar þeirra skuli standast á varðandi eignir og skuldir bæði með hliðsjón af vöxtum og gengi svo dæmi sé tekið. Sjóðirnir geta varist áföllum með útlánastefnu sinni og með skuldaskiptum við aðrar fjármálastofnanir innan lands og erlendis (svokölluðum „swap“ viðskiptum).
    Í 2. mgr. er viðskiptaráðherra falið að hafa eftirlit með lánskjörum fjárfestingarlánasjóðanna.

Um 10. gr.


    Hér er viðskiptaráðherra heimilað að setja meginreglur um lánskjör opinberra fjárfestingarlánasjóða og settar eru verklagsreglur um nánari útfærslu þeirra.