Ferill 243. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1988–89. – 1058 ár frá stofnun Alþingis.
111. löggjafarþing. – 243 . mál.


Ed.

448. Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 56 16. maí 1978, um verðlag, samkeppnishömlur og óréttmæta viðskiptahætti.

(Lagt fyrir Alþingi á 111. löggjafarþingi 1988–89.)



1. gr.

    3. mgr. 3. gr. laganna orðist svo:
    Varamenn skulu skipaðir á sama hátt og um getur í 2. mgr. greinar þessarar. Heimilt er ráðherra að skipa 1. og 2. varamann í ráðið samkvæmt ósk þeirra aðila sem tilnefna menn í ráðið skv. 1. mgr. Taka varamenn þá sæti í ráðinu í þeirri röð. Ráðið er skipað til fjögurra ára í senn.

2. gr.

    1. mgr. 49. gr. laganna orðist svo:
    Hver sá, sem vanrækir að láta Verðlagsstofnun í té umbeðnar og nauðsynlegar skýrslur og gögn í sambandi við framkvæmd laga þessara, skal sæta viðurlögum skv. 52. gr.
    2. mgr. 49. gr. laganna falli niður.

3. gr.

    Við lögin bætist svohljóðandi ákvæði til bráðabirgða:
    Þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. 2. gr. skal verðlagning á orku frá orkuvinnslufyrirtækjum og dreifiveitum falla undir ákvæði laga þessara á tímabilinu frá 1. mars 1989 til 1. september 1989.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er í fyrsta lagi flutt í því skyni að bæta úr ágöllum núgildandi ákvæða laganna varðandi skipan varamanna í Verðlagsráði og skyldu til að gefa Verðlagsstofnun umbeðnar og nauðsynlegar upplýsingar vegna framkvæmdar laganna. Í öðru lagi er í því lagt til að verðlagning orku frá orkuvinnslufyrirtækjum og dreifiveitum falli undir lögin frá því að yfirstandandi verðstöðvun lýkur og til 1. september 1989.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Verðlagsráð kemur oft saman til mikilvægra ákvarðana með litlum fyrirvara. Reynslan hefur sýnt að þeir aðalmenn, sem skipaðir eru samkvæmt tilnefningu í ráðið, eiga oft erfitt með að mæta á fundum þess við slíkar aðstæður og sama hefur gilt um varamenn þeirra.
    Það er því eindregin ósk þessara aðila að varamönnum þeirra verði fjölgað. Er hér lagt til að skipaðir verði bæði 1. og 2. varamaður, sem taki sæti eftir röð, þannig að 2. varamaður sé kvaddur til fundar, ef bæði aðalmaður og 1. varamaður eru forfallaðir.

Um 2. gr.


    Eins og 49. gr. laganna er nú orðuð er gert ráð fyrir dagsektum við vanskil skýrslna og gagna, sem Verðlagsstofnun óskar eftir og sem henni eru nauðsynleg vegna starfa sinna, einkum hvað varðar verðgæslu og verðkannanir. Dagsektaákvæðið hefur reynst ónothæft til þess að knýja á um skil umbeðinna upplýsinga. Því er lagt til að það verði fellt úr gildi, en þess í stað komi tilvísun til 52. gr., þar sem er að finna almenn refsiákvæði vegna brota á lögunum.

Um 3. gr.


    Verðlagning orkuvinnslufyrirtækja og dreifiveitna fer eftir sérstökum lögum og er því undanþegin ákvæðum laganna. Þegar tímabundinni verðstöðvun lýkur hinn 1. mars 1989 þykir nauðsynlegt að beita um skeið sérstöku aðhaldi í verðlagsmálum þar á meðal varðandi verðlag á innlendri orku. Því er lagt til að Verðlagsráð fjalli um verðlagningu orkuvinnslufyrirtækja og dreifiveitna tímabundið um sex mánaða skeið. Á það er rétt að benda í þessu sambandi að orkuverð er yfirleitt ekki niðurgreitt og ræðst fyrst og fremst af framleiðslu- og dreifingarkostnaði líkt og gildir um almennt verðlag á vöru og þjónustu sem fellur undir verðlagslögin. Á þessu sviði er samkeppni takmörkuð, seljendur fáir en kaupendur margir og oftast bundnir einum orkusöluaðila.



Fylgiskjal.

Samþykkt ríkisstjórnarinnar 6. febrúar 1989 um umþóttun


í kjölfar verðstöðvunar.





REPRÓ Í GUT.